Fyrir sléttu ári síðan var ég borgaralegur heimavinnandi rithöfundur í gömlu Vestur-Berlín, ýmist að vaska upp eða skrifa á milli þess sem ég fór með og sótti son minn í leikskólann. Mesta fúttið í deginum var að lesa blöðin á kaffihúsi eða hjóla og labba um borgina og fara síðan snemma í háttinn. Helstu hugðarefnin flókin leikskóla- og skólamál í Berlín og ekki mikið umfram það. Ég þreifst ágætlega í mið-evrópskri stillu og ef einhver hefði spurt: Heldurðu að lífið sé svona – kona? hefði ég hiklaust sagt já.
Síðan brast á með hjónaskilnaði í sumarfríi á Íslandi eftir átján ára hjónaband og allt í einu var þessi heimavinnandi rólegheitakona orðin fráskilin í Reykjavík–City, komin í hið klassíska eftir-skilnaðar-djamm og á trúnó við hina og þessa. Og síðustu mánuðina hef ég komist að því að hjónabandið, sem stofnun, er verndaður vinnustaður í þeim skilningi að maður er svo græskulaus um líflegar ástarfarir og tilvistarrót samborgara sinna að það að stíga út úr hjónabandi inn í nýjan veruleika er álíka mikið menningarsjokk og að flytja frá Akureyri til Bangkok.
Mannlega stöffið
Kannski af því að þegar maður rankar við sér í þessum framandi veruleika opnar fólk sig á nýjan hátt fyrir manni og segir frá því sem það veigraði sér við að segja fulltrúa stofnunarinnar hjónabands. Þessi nýi veruleiki er vissulega menningarsjokk fyrir konu en að sama skapi kærkomin næring fyrir rithöfundinn í þessari sömu konu. Lífið sjálft! Ástir og angist, ráðvilla, flóknar tilvistarpælingar ...
Allt í einu fer ólíklegasta fólk á djúpið með manni og ræðir sín innstu hjartans mál. Og ég fæ innsýn í ævintýralegan – en flókinn – hvunndag fólksins í kringum mig. Allt þetta mannlega djúsí stöff!
Nenni ekki maka
Um daginn fór ég að borða á matarmarkaðnum á Hlemmi með tveimur vinkonum. Önnur þeirra var í öngum sínum því hún var nýkomin frá spákonu og spákonan hafði boðað að hún myndi brátt hitta dásamlegan maka. Vinkonan fussaði pirruð yfir beikonvafinni bleikju: Og hvað á ég að gera við þennan dásamlega maka?! Mig langar ekkert í hann.
Af hverju ekki? spurði hin vinkonan og glotti sínu fallega ísmeygilega glotti.
Af hverju? hváði hin með munnfylli af bleikju. Þá þarf ég að fara að gera alla þessa makalegu hluti með honum. Keyra hringinn og lesa upp úr kortabók meðan hann keyrir og mæta með honum í endalaus fjölskylduboð með þessari dásamlegu fjölskyldu – sem hann á víst líka. Og hvað! Allar helgar verða dæmigerðir maka-laugardagar og maka-sunnudagar með þessari fjölskyldu hans eða að rölta um miðbæinn og fara á fjölskyldusamkomur. Ég bara nenni því ekki!
Tinder betra en kvíðastillandi
Mér finnst að þið ættuð báðar að fara á Tinder og bara tjilla! sagði þá hin vinkonan og potaði áhugalaus í bleikjuskammtinn sinn.
Af hverju? spurði ég þá.
Af því að Tinder er betra en kvíðastillandi, svaraði hún kúl að vanda.
Nokkru áður höfðum við tvær rölt með börnin í rigningu í Hljómskálagarðinn og meðan þau róluðu sér og ég reyndi að ná úr mér streitu með því að fara í trjásturtu að hætti Japana, setjast inn í trjágróðurinn og anda, hafði hún tekið upp símann sinn og glott þessu fallega glotti sínu. Sjáðu! sagði hún þegar ég steig endurnýjuð út úr kjarrinu og beindi skjánum að mér. Á skjánum var svartur punktur sem mjakaðist hægar en snigill áfram.
Hvað er þetta? spurði ég.
Írska Tinderdeitið, sagði hún kærulaus. Nú vill hann ólmur að ég fylgist með sér í fjallgöngum. Þetta er hann.
Þessi punktur! spurði ég, gáttuð á skyndilegri útvíkkun veruleikans.
Já, sagði hún um leið og hún hljóp að rólunni til að bjarga börnunum sínum úr ógöngum. Ég er að hugsa um að eyða honum!
Er það ekki svolítið harkalegt? spurði ég.
Jú, en hann heldur að hann elski mig og það er ekki gott fyrir hann, sagði hin ábyrga móðir meðan hún skorðaði barn aftur í róluna.
Uppreisn gegn ástinni
Nokkrum vikum síðar fór ég í sund í Vesturbæjarlaugina. Þá sá ég hina makafælnu vinkonu mína spígspora á bakkanum. Í doppóttum sundbol bundnum upp um hálsinn og með hárauðan varalit.
Af hverju ertu svona fín í sundi? spurði ég.
Af því að ég er í ástarmelankólíu, dæsti hún örg. Ég bara nenni ekki ástarvafstri! Ég er bara hér, að fíla mig, í uppreisn gegn ástinni. Viltu koma í gufuna?
Hittirðu dásamlega makann? spurði ég ringluð.
Nei – og það kemur ekki til mála, sagði hún. Ég lenti í ástarflækjum nýverið og þetta er ekki fyrir nokkra manneskju að standa í.
Nei, nei, muldraði ég og hengslaðist á eftir henni í gufuna þar sem við hreinsuðum okkar innra af íþyngjandi flækjum ásamt öldruðum karlmanni sem leit út fyrir að hafa fengið hjartastopp þarna – æsispennandi alveg.
Kláði undan giftingarhringnum
Síðan fórum við á Kaffi Vest og ég virti latte-lepjandi góðborgarana forvitin fyrir mér. Góðborgara sem ég hefði ári fyrr séð sem hversdagsleikann uppmálaðan en eftir allt sem ég hef orðið vitni að á síðustu mánuðum, ástarþrá og kynusla hinna dagfarsprúðu borgara, er ég hætt að vera eins naív og ég var fyrstu fjörutíu og fjögur ár lífs míns.
Hversu marga þarna klæjar undan giftingarhringnum á leiðinni í Krónuna að kaupa vegan-borgara og möndlumjólk ofan í familíuna?
Stuttu áður hafði ég setið þarna með annarri vinkonu, konu á sextugsaldri, sem hafði í bríaríi prófað að kíkja inn á Tinder og svæpað vonlaus yfir því sem hún sá. Það er ekkert að gerast hérna, dæsti hún og beindi símanum að mér. Svona verður þetta þegar þú krossar fimmtugt!
Nei, nei, sagði ég bjartsýn yfir avókadósalati. Flettum áfram!
Hún gegndi en hefði betur sleppt því. Ég get ekki meira, andvarpaði hún. Er þetta ekki eiginmaður frænku þinnar?
Og jú, þetta var hann.
Rafræn ástarfíkn
Nýlega sat ég á heilsufæðismatsölustað ásamt fjórðu vinkonunni, lítið eitt yngri en ég og því með ferskari nálgun á allt saman. Þetta er fíkn! sagði hún tætt eftir Tindermann nokkurn sem hún hefur þróað athyglisbrest út af, stöðugt að kíkja eftir skilaboðum í símanum. Þjáningin í augum hennar virtist tær eins og óblandað vodka. En síðan brosti hún meinfýsilega og sagði: Ég veit samt ekki hvort þetta er ástarfíkn eða rafræn fíkn.
Hvað áttu við? spurði ég áhugasöm um þessa óvæntu vendingu.
Kannski er ég bara fíkin í að fá skilaboð frá honum. Þegar mér leiðst eða hef um allt of mikið að hugsa, skilurðu.
Já – og nei, sagði ég.
Ég held ég sé bara hrifin af honum þegar hann svarar mér ekki strax. Ég er ekki viss um hitt, útskýrði vinkonan eins og hún hefði orðið fyrir uppljómun. Hann er í rauninni ekkert mjög spennandi, þannig lagað, bætti hún við og trúði sjálfri sér eitt augnablik þó að öðru máli gilti um mig. En hún fékk allavega matarlyst aftur, eitt augnablik, nógu mikla til að klára hálfan skammt af kús-kúsi með sojabitum í nokkuð exótískri sósu.
Fólk breytist með breyttum tímum
Það góða við að vera miðaldra í ástarbrölti er að fólk er meðvitaðra um hvatirnar en á unglingsárum þegar engum datt í hug að greina eða finna heiti yfir ólgandi líðan sína. Nú er hægt að flokka þrá eftir allskonar kategoríum: Áráttu, króníska melankólíu, höfnunarfíkn, kynlífsfíkn, rafræna fíkn, eftir-skilnaðar-óráð ... bara nefnið það!
Og svo margt fólk, marínerað af sárri lífsreynslu, virðist vera smeykara en unglingarnir. Smeykara við ást en tollstjóra, ofurbakteríur og risageitunga. Það er niðurstaða mín eftir nokkurra mánaða rannsóknir á tilfinningalífi samborgara minna.
Eins virðast æ fleiri kjósa að fara ekki aftur í sambúð. Meðvitaðir um óþægilega miklar tölfræðilegar líkur á að slíkt endi enn og aftur í að þurfa að leysa upp heimili – við lifum jú lengur en áður og nútímalífi fylgir ný tegund af eirðarleysi, eðlilega því fólk breytist svo hratt með breyttum tímum.
Svo eru margir meðvitaðir um ágæti sjálfstæðisins, eins og jógakennarinn sem ég hitti á barnum og sagði mér að lykillinn væri að njóta þess að anda einn með sjálfum sér, fá sér vínsopa og gera jóga – og sörfa í Goa. Nokkuð sem mig langar að prófa. Og um að gera að prófa Tinder eftir þessa æsilegu innsýn. Því hvað er lífið án þjáningar? Fúttum og gerum jóga. Elskum og þjáumst. Bara enga fanatík!