Sumir segja að sígandi lukka sé best. Þannig fólk er örugglega alltaf að lenda í einhverju vandræðalegu veseni og þarf að láta sér líða betur einhvern veginn.
Þessu alls óviðkomandi þá fór ég í bíó í um daginn og skreið heim eftir að heimilisfólk var sofnað (gott ef ég hafi ekki amk. einu sinni dottað í pínulitla stund á myndinni, enda hratt að nálgast miðjan aldur og fer almennt að sofa fyrir miðnætti til þess að vera ekki leiðinleg daginn eftir). Um það leyti sem ég loksins kem bílnum í stæði uppgötva ég mér til mikillar skelfingar að ég er lyklalaus. Fullkomlega og algjörlega húslyklalaus og mér flestar bjargir bannaðar.
Þegar hér er komið við sögu er mikilvægt að það komi fram að ég þjáist af alveg stórkostlegri meðvirkni. Ég er náttúrulega alin upp trúandi því að kurteisi sé hin mesta dyggð sem skyggir á allar aðrar (gerðist meira að segja svo fræg að borða á hinu fróma Claridges-hóteli í London þegar ég var barn og var svo svakalega þæg þar að ég fór hvorki meira né minna níu sinnum frá borði til þess að skoða „konuna sem vinnur á klósettinu” og gefa henni eitt pund í hvert skipti). Þessi æskuforritun (les: uppeldi) þróaðist þó óvart út í eitthvað annað svo miklu skrýtnara og það án allrar aðkomu foreldra minna, eins og sagan hér á eftir sýnir.
Hvar vorum við aftur? Já alveg rétt. Ég var læst úti um nótt á virku kvöldi í virðulegu íbúðarhverfi hér í borg og var að hugsa næstu skref. Eins og vinir mínir hafa ítrekað bent á síðan hefði allt eðlilegt fólk bara farið að útidyrunum og legið á bjöllunni þangað til einhver kæmi til dyra. En ekki ég.
Í meðvirkni minni sendi ég húsbandinu bara kumpánlegt sms – „vakandi?” – sem ég fylgdi svo eftir með plani þessarar rosalega þægilegu konu sem vildi alls ekki raska ró eins né neins út af eigin klaufaskap.
„OK líklega ekki. Lyklarnir mínir eru því miður í kápuvasa inni í skáp. Þannig að ég verð bara úti í bíl... Kannski hringir þegar þú vaknar í fyrramálið.”
Já dömur mínar og herrar, ég ætlaði mér að sofa úti í bíl. Við íbúðargötu. Fórnfýsi mín á sér engin takmörk.
Ég drap á bílnum og klöngraðist í aftursætið. Læsti mig inni og breiddi örþunna kápu yfir mig. Reyndi að koma mér fyrir þannig að sætisbelta... dótið þarna, hvað sem það heitir, myndi skerast bara lítið í bakið á mér. Breiddi húfu fyrir augun. Og var bara fúlasta alvara með að fara að sofa.
Klukkutíma seinna glömruðu í mér annars ágætar tennur, enda grenjandi rigning í íslensku vorloftinu og hiti nær núllinu en tveggja stafa tölunum. Kápugarmurinn gerði frekar lítið til þess að fanga líkamshitann, enn stakkst dótið í bakið á mér og ég bara gat ekki rétt úr fótunum (skrýtið...). Þá tók við andleg barátta á pari við frægustu orrustur fortíðarinnar. Hvort skyldi sigra, meðvirknin eða sjálfsbjargarhvötin?
Sem betur fer fyrir alla hlutaðeigandi játaði ég mig sigraða á þessum tímapunkti. Kyngdi stoltinu og hundsaði allar eðlishvatir sem sögðu mér að það sem ég væri um það bil að fara að gera væri svo óþægilegt fyrir alla aðra að ég myndi ekki á nokkurn hátt geta endurheimt stoltið.
Ég tók upp símann og kvaldist í nokkrar sekúndur áður en ég hringdi í húsbandið.
Ekkert svar.
Smá bugun þarna en ég lét svona tíu mínútur líða og hringdi svo aftur.
Í þetta skiptið var svarað. En hljóðin á hinni línunni báru þess skýrt merki um að viðmælandi minn væri steinsofandi og hélt örugglega að hann væri að slökkva á vekjaraklukkunni.
Bugunin jókst örlítið þarna, ég get ekki neitað því, en ég stóð að minnsta kosti upp úr bílnum og gekk heim. Ég skalf ég eins og hrísla fyrir utan húsið þegar ég lyfti krókloppinni höndinni til þess að þrýsta á dyrabjölluna. Mögulega skalf ég af kvíða, hver veit.
Og ekkert gerðist.
Reyndi aftur að hringja.
Ekkert svar.
Íhugaði í smá stund að hringja í dóttur mína en fannst kannski smá rangt að vekja níu ára barn um miðja nótt svo hún gæti hleypt klaufskri og gleyminni miðaldra móður sinni inn.
Þannig að ég hringdi dyrabjöllunni enn einu sinni og loksins heyrðist þrusk innan úr íbúðinni.
Bjargvættur minn, í formi svefndrukkins mans með úfið hár og koddafar á kinn, opnaði dyrnar og hleypti mér loks inn í hlýjuna, hvar skömm mín var opinberuð. Vitaskuld skildi húsbandið rosalega lítið í þessari fórnfýsi minni og fannst ég réttilega mjög biluð að hafa yfir höfuð dottið það í hug að ætla bara að hafast við í lítilli Mözdu um skítkalda íslenska gervisumarnótt.
Eftir hálftíma skjálfta undir sæng sofnaði þessi meðvirki hrakfallabálkur loksins.
Og vaknaði ansi hreint skömmustuleg, úfin og bjánaleg daginn eftir.
Boðskapur þessarar sögu: Hafa lyklana og bíllyklana á sömu kippunni. Allir glaðir.