Sigurþráin er ekki tilfinning, hún er lífsstíl.
Eitthvað þessu líkt hlýtur Heimir Hallgrímsson að hafa skrifað í bókina sína á hliðarlínunni í Moskvu þegar Alfreð Finnbogason framkallaði augnablik úr draumum. Alfreð orðaði það þannig sjálfur: augnablik úr draumum. Þetta var lítil bók sem Heimir krotaði í, en mig grunar að samt rúmi hún sannleikann á bak við kraftaverk sem er ekki kraftaverk.
Spurning:
Hvað eiga Birkir Már Sævarsson og Lionel Messi sameiginlegt?
Báðir hafa þeir knattspyrnu að aukastarfi. Þeir gera eitthvað annað með.
Birkir pakkar salti.
Messi gerir grín að náttúrulögmálum – það er hans aðalstarf. Að gantast á mörkum hins mögulega. Nafn hans er skrifað í sögubækurnar, aftur og aftur, en það er líka skrifað í litlu bókina hans Heimis Hallgrímssonar. Og í línunni fyrir neðan nafnið sem minnir okkur á endurkomu frelsarans, þar stendur: Kraftaverk eru ekki kraftaverk.
*
Víti.
Hannes Þór Halldórsson leikstýrði nýlega auglýsingu þar sem hljóðin úr tónverki daganna mynda einhvers konar heróp. Nú stendur hann andspænis Messi og leikstýrir augnabliki úr draumum.
Lífið er einhvern veginn.
Á sumrin rignir og rignir.
Á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu ver Hannes Þór Halldórsson vítaspyrnu frá Lionel Messi.
Ellefu karlmenn, fullkomnir eitt andartak, syngja um smáblómið eilífa og tveimur klukkutímum seinna eru allir búnir að gleyma hvort það dó eða hló.
Einhvern veginn svo miklu líklegra að það hafi allan tímann hlegið.
*
Og þarna efst í stúkunni sat hann, Maradona, með hendur guðanna krosslagðar utan um vonbrigði heillar þjóðar – litli drengurinn sem var svo fullur af lífi að hann féll á lyfjaprófi. Svo fullur af lyfjum að hann féll á lífsins prófi.
Sjálfur Maradona.
Lífið er einhvern veginn, og það er einhvern veginn svona. Stundum eru menn ekki menn heldur eldingar. Stundum líður tíminn ótrúlega hægt. Rigningin fyllir upp í heiminn. Ég sit fyrir framan fjörutíu tommu sjónvarp. Dóttir mín hjalar á teppinu. Hún skilur jafnlítið í því sem var að gerast og ég. Stundum rignir og rignir. Kannski hættir aldrei að rigna. Kannski eru augnablik úr draumum einfaldlega draumar. Kannski er Maradona bara áminning um að kraftaverk eru ekki kraftaverk.