Strax eftir Hrun var þjóðinni sagt að í gangi væri alheimssamsæri gegn henni með alþjóða kröfuhafa í fararbroddi, samsæri bæði þjóða og vogunarsjóða. Af sumum nefnt „umsátrið“ en af öðrum „landráða-samsærið með hrægömmum“. Á sama tíma var alveg eins samsæri í gangi gegn Ungverjalandi og annað algjörlega eins gegn Grikklandi. Öll nákvæmlega eins og flest þau samsæri sem brugguð voru gegn svo að segja öllum einræðisherrum 20. aldarinnar. Helst þó gegn Hitler og Stalín.
Af því að alheimssamsærið gegn þjóðinni er ekki samsæri heldur áhrifaríkasta áróðursvopn sem þekkt er, uppáhaldsvopn einræðisherrans. Áhrifamáttur þessa vopns er óhugnanlegur og engu öðru líkur í vopnabúri áróðursvaldsins. Alheimssamsærið setur á svið magnþrunginn og spennandi heim góðs og ills sem er tælandi í einfaldleika sínum og takmarkalaus í skýringarmætti.
Samsærið hefst eins og spennusaga og endar … aldrei. Líkt Stjörnustríði, einfeldningslega Disney-legt úr fjarlægð en um leið og fólkið sest inn í myrkur undir wagnerískri tónlist, dettur það ósjálfrátt inn í seiðandi og dularfullan heim, með skrautlegustu persónum og hugmyndaríkum hliðarsögum, sem erfitt getur verið að kveðja. Flestar sögurnar eru landráða-samsærissögur sem fólk samþykkir af skyldurækni, ótta eða vegna hagsmuna.
Takist áróðursvaldi að sannfæra þjóð eða stóran hluta hennar um viðvarandi og víðfemt samsæri voldugra aðila gegn þjóðinni þá er næsta auðvelt að fá hana til að trúa nokkurn veginn hverju sem er.
Alheimssamsærið er prótótýpan að velheppnaðri pólitískri áróðursherferð. Sögð er saga, spennu- og baráttusaga, með þremur stöðluðum persónum: Erkibófanum, hetjunni og óumdeilanlega fórnarlambinu - hverjir léku þessi hlutverk í pólitíska hringleikahúsinu á Íslandi verður afhjúpað síðar - mikilvægast nú er að átta sig aðalatriðinu í ótrúlegum og óhugnanlegum áhrifum alheimssamsærisins á almenning:
Kjarninn í lyga og blekkingaráróðri liggur í rangtúlkun ásetnings (Ellul).
Rangtúlkun ásetnings er magnað töfrabragð sem hægt er að framkvæma huglægt og tilfinningalega án vitsmunalegs rökstuðnings. Alheimssamsærið býr til illan ásetning úr öllum gjörðum pólitískra andstæðinga hvernig sem þær eru meintar eða framkvæmdar. Hver einasti lykilatburður samtímans á sér skyndilega aðeins eina orsök, eina yfirkeyrandi og yfirþyrmandi skýringu. Engin önnur skýring nýtur virðingar eða fær hlustun. Jafnvel góð verk í þágu óumdeilanlega fórnarlambsins eru forsmáð sem illvirki og felld inn í stórsöguna um alheimssamsærið.
Það er því líkast að inn á svið opinberrar rökræðu sigli helstirni með gífurlegt segulsvið sem sogar til sín orð, röksemdir og sögur samtímans – likt og vitsmunalegt svarthol. Á móti skýtur þetta helstirni stanslaus frá sér, svörtum, eitruðum áróðri. Samsærinu fylgja ævinlega og undantekningarlaust fjöldi djöfullegra áróðursbragða, eins konar smærri helstirni hlaðin snjöllum vopnum sem erfitt er að sjá við.
Í þessu heljarrökkri á lýðræðið, réttlætið og rökræðan enga von. Staðreyndir lognast út af eins og kyndillogar af súrefnisleysi, ekkert lifir nema samsæris-æsingarhróp fylgismannanna, dásamaðir leiðtogarnir, peppið og sérhagsmunirnir.
Alheimssamsærið er gereyðingarvopn stjórnmálanna. Þeir sem ákváðu að beita því á Íslandi brutu meðvitað niður pólitískt siðferði í landinu, þannig að jafnvel hlutlægustu staðreyndir voru fótum troðnar, á nákvæmlega sama hátt og Donald Trump gerir nú í Bandaríkjunum – en ávinningurinn liggur ekki í augum uppi. Hann er þessi: Þegar sannleikurinn er sviptur afli sínu, ræður hreinn áróðursmáttur úrslitum.
Alheimssamsærið ruddi leiðina fyrir stórlygaherferðina eftir Hrun. Sú herferð var ógn við lýðræðið og gæti orðið að stórhættulegu pólitísku fordæmi verði áróðurinn ekki fortakslaust fordæmdur af sögunni.
Þess vegna ætla ég í næstu greinum að kafa ofan í alheimssamsærið og fletta ofan af landráðunum með erlendum kröfuhöfum, helst afhjúpa, ef svigrúm leyfir, hvernig íslenskir áróðursmenn sóttu í sjálfa rýtingsstungugoðsögn nasistanna, Dolchstosslegende.
Þangað til næst mega lesendur gjarnan velta fyrir sér áhrifum alheimssamsærisins á pólitíska umræðu á Íslandi eftir Hrun.