Það var mikið fjaðrafok þegar Grensásvegur, sunnan Miklubrautar, var þrengdur. Í augum varðmanna einkabílsins var þessi aðgerð enn annað heróp hjólavina í áframhaldandi ofbeldi þeirra gagnvart einkabílnum.
Varðmenn einkabílsins dúndruðu á Dag og spurðu hann: Hvers vegna að eyða 170 miljónum í þetta rugl? Og af hverju ekki að halda báðum akreinum og byggja líka hjólastíg? En mörgum þótti þó verra en bruðlið að það gæti hægst á umferð á þessari götu. Sumir töluðu meira að segja um það að mannslíf væru í hætta vegna þess að nú gætu sjúkrabílar ekki lengur brunað Grensásveg upp á Landspítala.
Hjólavinir og vandamenn voru ekki eins háværir í þessari umræðu, þeir voru vissir um það að þetta hefði svo gott sem engin áhrif á umferð, og treystu því að borgin héldi sínu striki og bæta aðgengi hjólafólks í bænum.
Í dag hefur vígið fært sig um set: Varðmenn einkabílsins reyna nú að koma í veg fyrir að efnaminna fólk Stór-Reykjavíkur svæðisins (sem ekki hefur efni á einkabílum) fái ekki bættar almenningssamgöngur í formi Borgarlínu.
En umræðan um Grensásveg er þó ekki dauð. Hún poppar reglulega upp þegar ég er í Reykjavík og rifrildið hefur ekki breyst: Sumir segja að umferðin sé nú hægari á meðan aðrir vilja meina að svo sé ekki.
En nú er komið nóg. Í þágu þjóðarsáttar ákvað ég að svara þessari spurningu á eins vísindalegan máta og ég mögulega gat. Og vonandi, eftir að allir landsmenn með skoðun á þessu máli hafa lesi þessa grein, getum við öll lagt Grensásveg á hilluna og farið að rífast um eitthvað annað.
Ég byrjaði á því að safna saman gögnum. Ég bjó til forrit sem sendi Google Maps fyrirspurn á 10 mínútna fresti frá Mánudeginum 11. júní til Föstudagsins 15. júní. Í hvert skipti spurði forritið mitt Google: Ef ég legg af stað núna hversu langan tíma tekur það mig að keyra 700 metra spotta á Grensásvegi.
Með því að njósna um farsímaeigendur getur Google spáð nokkuð nákvæmlega fyrir um það hversu lengi það tekur, á hverjum tímapunkti, að keyra slíkan spotta. Þessi eiginleiki gerir Google Maps upplagt í að meta hvort hægst hafi á umferð eða ekki.
Þar sem þrengingunni var lokið þegar ég byrjaði þessa rannsókn var að sjálfsögðu ómögulegt fyrir mig að segja til um það hvort það hafi raunverulega hægst á umferð í kjölfar breytinganna. Eða var það? 500 metrum vestur af Grensásvegi liggur Háaleitisbraut – nánast nákvæmlega eins gata og Grensásvegur, nema hún var og er að mestu leyti tvíbreið.
Ef við gefum okkur það að umferðin á Háaleitisbraut hafi verið álíka hröð og umferðin á Grensásvegi fyrir þrengingu, þá getum við borið þessar tvær götur saman. Og ef umferðin á Grensásvegi er mikið hægari en á Háaleitisbraut þá er ekki ólíklegt að þessi þrenging hafi haft þau áhrif að hægja á umferð um Grensásveg.
Því sagði ég forritinu mínu líka að sækja sömu upplýsingar á 700 metra kafla á Háaleitisbrautinni. Göturnar sem ég bar saman.
Þegar ég skoðaði gögnin komu niðurstöðurnar svo sem ekkert sérstaklega á óvart. Að meðaltali tekur um 94 sekúndur að keyra Grensásvegi frá a til b. Á mesta háanna tíma, milli fimm og sjö á daginn, tekur sama leið um 102 sekúndur.
Háaleitisbrautina getur maður á hinn bóginn brunað niður á um það bil 89 sekúndum. Á háannastundum, milli fimm og sjö, tekur sama ferð mann 99 sekúndur. Sem sagt, án þrengingar hefðu Reykvíkingar, mögulega, getað brunað niður Grensásveg fimm sekúndum hraðar, að meðaltali, og þremur sekúndum hraðar á mesta háannatíma dagsins.
Sem sagt, við fyrstu skoðun (og af gefnum forsendum), virðist svo vera að sá tími sem tekur að bruna upp Grensásveg hafi lengst um allt að 5 sekúndur við þessa breytingu. Og kemur það svo sem ekkert á óvart – tvær akreinar eru fleiri en ein.
Til öryggis þegar ég hannað rannsóknina tók ég líka tímann sem það tekur að keyra í hina áttina (frá Miklubraut í átt að Bústaðavegi). Helsti kosturinn við það er að þegar kemur að gögnum er meira betra. Einnig þar sem þrengingin átti sér stað í báðar áttir ættu áhrifin að sjást í báðar áttir.
Á þeirri leið er munurinn aftur á móti minni. Að keyra Grensásveg í þá átt tekur 103 sekúndur á meðan það tekur 104 sekúndur að keyra Háaleitisbrautina. Sem augljóslega er ekki marktækur munur.
En það þýðir ekki endilega að umferðin á einbreiðum Grensásveg sé hægari en á tvíbreiðri háaleitisbrautinni. Það er nefnilega eitt, frekar mikilvægt atriði, sem taka þarf inn í: Umferðarljós.
Bæði Grensásvegur og Háaleitisbraut hafa ein umferðarljós. Þar sem ekki öll umferðarljós loga græn jafn lengi þá var möguleiki að þessi litli munur á milli gatnanna tveggja hefði lítið með þrenginguna að gera og meira með stillingar á ljósum. Ég hefði farið sjálfur til að mæla lengd ljósa, en þar sem ég er búsettur í Þýskalandi þá brá ég á það ráð að hringja í háaldraða móður mína, biðja hana um að hoppa upp á rauða hjólið sitt, út í suddann, og mæla lengd ljósanna.
Lafmóð móðir mín hringdi í mig, það var erfitt að heyra í henni þar sem vindurinn blés í míkrófóninn. Hún las upp fyrir mig tölurnar. Ég sat í bjórgarði í góða veðrinu og skrifaði niður tölurnar á bjórmottuna. Og viti menn: Græna ljósið logar lengur á Háaleitisbraut heldur en á Grensásvegi. Útreikningar mínir, eftir að hafa tekið bið inn í þá, gaf mér allt aðra mynd. Þrátt fyrir þrenginguna, þegar ökumenn eru ekki á rauðu ljósi, keyra þeir allt að fimm kílómetrum hraðar á klukkustund á Grensásvegi, í samanburði við Háaleitisbraut.
Það virðist því vera að þessi þrenging hafi í versta falli haft engin áhrif á umferðarflæði á Grensásvegi. Það skal þó tekið fram að það má vel vera þrengingin hafi haft þau áhrif að einhverjir ökumenn – sem ekki þoldu ekki að hanga nokkrar viðbótar sekúndur í bíl – hafi valið að fara aðrar leiðir, til dæmis niður Háaleitisbraut. Þá hefði það þau áhrif að ekki hefði hægst eins mikið á umferð á Grensásvegi og umferð á Háaleitisbrautin hefði hægst aðeins.
En þar sem það tekur tíma að taka af stað, fyrir og eftir ljós og þegar maður kemur inn á þessa vegi, og meðalhraði ökutækja (á ferð) er í kringum 34km á klukkustund á þessum leiðum þá virðist vera sem svo að svo gott sem alltaf, þegar ökumenn hafa náð upp ferð, að þeir keyri mjög nálægt hámarkshraða Grensásvegar (sem er 50km/klst.).
Því kveð ég dóm minn: Þrenging Grensásvegar hafði eflaust engin áhrif á umferðarhraða, sjúkrabílar og ökumenn, bruna þarna í gegn eins hratt og áður. En núna getur hjólreiðafólk á öllum aldri notið þess að þjóta upp götuna á splunkunýjum hjólavegi án þess að eiga á því hættu að vera straujað niður af einkabíl á 50 kílómetra hraða.