Fyrir rúmum fimm árum síðan tók fimm manna hópur sig saman, setti fimm milljónir króna af sparifé sínu inn í félag, réð einn yfirburðarstarfsmann og stofnaði fjölmiðlafyrirtækið Kjarninn miðlar ehf. Hugmyndin var að nýta sér þær nýjungar sem fylgdu tækni- og upplýsingabyltingunni og búa til nýja tegund af fréttamiðli. Eftir hugmyndavinnu var ákveðið að ráðast í gerð stafræns tímarits sem átti að koma út vikulega fyrir spjaldtölvur, snjallsíma og í skertri útgáfu á vef. Og það yrði frítt en rekið á auglýsingatekjum.
Áherslur yrðu á gæði og dýpt. Segja færri fréttir en segja þær betur. Í ljósi þess að við áttum ekkert fé til að setja í markaðssetningu fórum við hróðug í öll viðtöl sem buðust til að kynna nýja miðilinn og sögðumst, af miklum en skipulögðum hroka, ætla að verða sælkeraverslun í kringum stórmarkaði. Þetta, eðlilega, stuðaði marga.
Hark og hamingja
Síðastliðinn miðvikudag voru liðin fimm ár frá því að fyrsta útgáfa Kjarnans kom út. Hægt er að viðurkenna þá staðreynd í dag að það lá ansi fljótt fyrir að viðskiptaáætlunin sem við höfðum gert myndi ekki ganga upp. Eftirspurnin eftir stafrænu tímariti sem gat boðið upp á samspil af margmiðlun, texta, myndum, myndböndum og hljóði á spjaldtölvum hafði verið stórlega ofmetin. Það virtust aðallega vera börn sem notuðu spjaldtölvur. Langflestir sem lásu Kjarnann gerðu það í gegnum pdf-útgáfu sem við birtum á heimasíðunni okkar, ekki á þeim tækjum sem við eyddum feikilegum tíma og orku í að búa til einstakt efni fyrir. Samandregið þá voru auglýsingatekjur langt undir væntingum.
Að sama skapi var augljóst frá fyrsta degi að það var eftirspurn eftir efninu og efnistökunum. Almenningur vildi fjölmiðla sem væru óháðir sérhagsmunaöflum og frjálsir í starfsemi sinni. Það var þörf fyrir gagnrýna, heiðarlega og framsýna fréttamennsku. Fréttir, fréttaskýringar og opinberanir Kjarnans voru enda teknar upp í meira mæli af öðrum miðlum en fréttir nokkurs annars. Við urðum einhverskonar uppspretta efnis fyrir aðra til að skapa netumferð og afla tekna. En þessi staða hafði líka þau jákvæðu áhrif að hróður Kjarnans barst víðar. Trúverðugleiki miðilsins mældist ótrúlega mikill og lesendur hans virtust mjög ánægðir með það sem þeir fengu.
En stofnendurnir þurftu að vinna launalítið eða launalaust við þessar aðstæður. Og það gerðum við í rúmt ár. Á þeim tíma komu út 60 eintök af stafræna tímaritinu okkar. Eftir á að hyggja er slíkt galið.
Skipt um kúrs
Ljóst var að þetta ástand gat ekki varað endalaust. Það þurfti að taka ákvörðun. Annað hvort að hætta eða að finna annan farveg til að miðla efninu sem sannarlega hafði reynst mikil og djúp eftirspurn eftir, sem gat skapað rekstrartekjur.
Samhliða fór líka í loftið morgunpóstur Kjarnans, sem í dag er með tæplega sex þúsund áskrifendur. Og nýir hluthafar, sem flestir voru úr tækni- og nýsköpunargeiranum, komu að útgáfufélaginu. Þeir komu með ómetanlega þekkingu á því hvernig byggja eigi upp fyrirtæki við krefjandi aðstæður og hafa reynst óaðfinnanlegir meðeigendur að fjölmiðli í þeim skilningi að þeir hafa aldrei einu sinni gert tilraun til að skipta sér að efnistökum eða ritstjórnarstefnu Kjarnans. Við það tækifæri sagði Hjálmar Gíslason, stjórnarformaður Kjarnans sem leiddi hópinn, að „á rétt rúmu ári hefur þessum hópi tekist að byggja upp öflugan, gagnrýninn og greinandi fjölmiðil og vörumerki sem fólk treystir. Við sjáum fjölmörg tækifæri til að byggja á þessum grunni, ekki síst í þeim breytingum sem bæði fjölmiðla- og auglýsingamarkaðurinn eru nú að ganga í gegnum.“
Að skipta máli
Síðan þá hefur Kjarninn vaxið og dafnað. Hann hefur hlotið tilnefningu til blaðamannaverðlauna á hverju ári sem hann hefur starfað. Árið 2015 hlaut Magnús Halldórsson verðlaunin fyrir fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins, vegna umfjöllunar um sölu Landsbankans á eignarhlutum sínum í Borgun.
Það eru ansi margar aðrar umfjallanir sem telja má til þar sem Kjarninn hefur verið leiðandi. Má þar nefna birtingu á leynigögnum sem áttu mikið erindi við almenning, umfjöllun Kjarnans um Leiðréttinguna, þátttaka okkar í úrvinnslu Panamaskjalanna og umfjöllun okkar og lykilgagnabirtingar í Landsréttarmálinu. Umfangsmikil umfjöllun um stöðu kvenna í íslensku samfélagi (sérstaklega þegar kemur að stýringu á fjármunum), umfjöllun um þær gríðarlega miklu samfélagsbreytingar sem eru að eiga sér stað hérlendis vegna fjölgunar á erlendum ríkisborgurum og umfjöllun okkar um ójöfnuð í íslensku samfélagi. Allt eru þetta umfjallanir sem byggja á staðreyndum og hagtölum og hafa þannig getað myndað vitrænt gólf fyrir umræðu um þessa mikilvægu samfélagsþætti.
Kjarninn hefur líka markað sér sérstöðu hvað varðar umfjallanir og greiningar um íslensk stjórnmál og efnahagsmál á tíma þar sem ríkt hefur fordæmalaus pólitískur óstöðugleiki og eðlisbreyting hefur orðið á stjórnmálum.
Erfitt umhverfi, nánd og spekileki
Það er margtuggin klisja að rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur líkast til aldrei verið jafn erfitt og það hefur verið á þeim tíma sem Kjarninn hefur starfað. Fjármunir frá sérhagsmunaöflum hafa verið ráðandi í því að greiða tap stærstu einkareknu miðlanna og aðrir á markaði hafa fengið að taka ólögleg lán hjá hinu opinbera og almenning með því að skila ekki lífeyrissjóðs-, stéttarfélags-, meðlags- eða skattgreiðslum til þartilbærra aðila árum saman með gífurlega neikvæðum áhrifum á getu heiðarlegra fyrirtækja til að reka sig.
Nándin í íslensku samfélagi á umbrotatímum, þar sem fordæmalaus dómsmál eru rekin gagnvart ríku fólki, efnahagsleg upprisa eftir hrun og endurútdeiling gæða stendur yfir, traust milli almennings og helstu stofnana er horfið og fjöldi hneykslismála í stjórnmálum hefur verið meiri en nokkru sinni áður í Íslandssögunni gerir það líka krefjandi að reka fjölmiðil.
Okkur hefur verið hótað málsóknum, framfærslu- og ærumissi og orðræðan í stjórnmálum hefur breyst þannig, hérlendis sem erlendis, á síðustu árum að fjöldi áhrifamanna vílar ekki fyrir sér að tala um fjölmiðla sem óvini fólksins, óheiðarlega flugumenn óskilgreindra afla eða bara sem afskaplega lélega.
Og það er auðvitað staðreynd að spekilekinn úr greininni er gríðarlegur. Lítill sérhæfing byggist upp og mjög hæft fólk ákveður að yfirgefa þennan vettvang til að fá hærri laun og betri starfsaðstæður. Það sést best á þeim fjölda hæfra blaða- og fréttamanna sem sækja um nær öll upplýsingafulltrúastörf sem í boði eru. Á síðastliðnum áratug hafa verið skapaðar aðstæður sem krefjast þess að fjölmiðlafólk geti unnið mikið, ekki sem gera því kleift að vinna vel. Kjarninn hefur ekki farið varhluta af þessu ástandi.
Vonandi verða boðaðar tillögur stjórnvalda til að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla til þess að þetta breytist.
Það þarf þorp til að ala upp barn
Þrátt fyrir allt er Kjarninn í dag rekstrarlega sjálfbært fjölmiðlafyrirtæki sem býður upp á margskonar vörur. Við rekum daglega fréttaþjónustu, birtum gríðarlegt magn fréttaskýringa og skoðanagreina og tökum virkan þátt í því að stuðla að vitrænni samfélagsumræðu sem byggir á staðreyndum. Við gefum út morgunpóst sex sinnum í viku, ritið Vísbendingu vikulega, ensk fréttabréf, erum frumkvöðlar í frjálsri hlaðvarpsþjónustu, höfum framleitt sjónvarpsþætti, tekið þátt í samstarfsverkefnum með öðrum miðlum og erum sífellt að leita nýrra leiða til að þjónusta lesendur okkar betur.
Lykilatriði í þessum viðsnúningi, og bættum rekstri Kjarnans, er tilkoma Kjarnasamfélagsins sem hóf göngu sína snemma árs 2015. Með því buðum við lesendum okkar að styrkja miðilinn með mánaðarlegum framlögum. Kjarnasamfélagið telur nú hátt í þrjú þúsund manns og er mikilvægasta stoðin í rekstri okkar. Í gegnum það er búið til eðlilegt samband milli lesenda annars vegar og fjölmiðils hins vegar þar sem skýr krafa er um að við vöndum til verka og höldum tryggð við það sem við segjumst standa fyrir. Það borgar alltaf einhver fyrir fréttir á endanum og í tilviki Kjarnans eru það lesendur hans.
Við þessi miklu tímamót er við hæfi að segja takk við ykkur öll sem hafa lagt hönd á plóg. Stofnendur, núverandi og fyrrverandi starfsmenn, hluthafa, ráðgjafa, sérfræðinga, skríbenta, pistlahöfunda, hlaðvarpsframleiðendur, ljósmyndara, listamenn og alla hina. En fyrst og síðast vil ég, fyrir hönd okkar sem standa að Kjarnanum, þakka lesendum fyrir samfylgdina og stuðninginn síðastliðin fimm ár. Án ykkar væri þetta auðvitað tilgangslaust.
Við ætlum að styrkjast og bæta okkur enn frekar á næstu árum. Kjarninn er búinn að slíta barnsskónum og hann er ekki að fara neitt.
Takk fyrir ykkar framlag.