Ein lausn á loftslagsvandanum er að giftast grænmetisætum. Fyrir stuttu heimsóttum við konan mín hagfræðinginn, mannvininn, og góðvin okkar Ólaf Margeirsson í Sviss. Óli er einstaklega góður gestgjafi og lagði til að við grilluðum á svölunum hans. Hann sá um pylsurnar og kartöflurnar á meðan við hjónin græjuðum salat.
Ég útbjó dýrindis Grískt salat, löðrað í fyrsta flokks spænskri ólífuolíu. Þegar ég bar þetta á borð hámuðu við hjónin í okkur salatið (ég smakkaði líka á pylsunum sem voru ljómandi vel grillaðar). Óli hins vegar lét salatið að mestu eiga sig en át kjötið og kartöflurnar af bestu list.
Að borða aðallega kjöt og kartöflur er alls ekki óalgengt meðal okkar Íslendinga. Og þegar við Óli bjuggum saman í Lundúnaborg árið 2013 þá man ég ekki eftir því að við höfum einu sinni haft bara salat og brauð í kvöldmat.
En eftir að ég kynntist breyttist konunni minni breyttist það. Hún er nefnilega grænmetisæta. Þegar við byrjuðum að búa saman setti hún sig aldrei á móti kjötáti mínu. En þar sem hún er grænmetisæta þurfti ég að sætta mig við að borða það sem hún eldaði (og þegar ég eldaði þurfti ég að elda eitthvað sem hún vildi líka borða).
En fljótlega áttaði ég mig á því að kjöt og kartöflur eru ekki einu hitaeiningarnar sem bragðast vel. Til dæmis er hægt að nota spínat í nánast allt, aspas með smjöri og salti er himneskt og grískt salat sem og baunasalöt eru herramannsmatur. Og súrkál, fyrir utan það að vera fingur-sleikjandi-gott meðlæti, fer vel í súpu og ofnrétti.
„Jákvæð ytri áhrif“ er hagfræðihugtak sem lýsir því þegar hegðun eins aðila hefur jákvæð áhrif á líf annars. Þannig með því að ákveða að vera kærastan mín, og seinna konan mín, hefur Hanna, án nokkurrar fórnar, gert mig að heilbrigðari manni með ríkari bragðlauka.
En jákvæðu ytri áhrifin enda ekki þar. Því eins og allir vita þá spilar þetta mikla kjötát mannkyns stóran þátt í hnattrænni hlýnun. Ef ég gef mér að áður hafi verið meðal kjötæta og kjötneysla mín hafi síðan dregist saman um 80%, þá má reikna það út að hjónaband okkar hafi dregið úr CO2e fótspori mínu um um það bil 800kg á ári. Það er kannski ekki mikið, en molar eru líka brauð. Ef ég næ 90 ára aldri þá er þessi pörun sambærileg því að ég legði bílnum mínum í um það bil 10 ár (ef ég ætti bíl, það er að segja).
En af hverju að hætta þar. Ég er bara einn Íslendingur. Ímyndið ykkur ef við myndum hvetja alla Íslendinga sem borða kjöt til þess að giftast grænmetisætum. Samkvæmt könnun Landlæknis frá árinu 2012 borðuðu um það bil 0.8% karla og 1.5% kvenna á Íslandi borði aldrei kjöt. Síðan þá hafa grænmetisætum eflaust fjölgað talsvert, og því óhætt að námunda þessar tölur upp í 1% og 2%. Þýðir þetta það að á Íslandi í dag séu um 1.750 karlkyns og 3.500 kvenkyns grænmetisætur (sem er eflaust færri en raunin er). Ef allar þessar grænmetisætukonur myndu giftast kjötætu af hinu kyninu (eða af sama kyni), þá myndi hlutfall grænmetisætna á Íslandi tvöfaldast: úr 5.250 upp í 10.500!
Nútíma karlar (sem ekki eru í erfiðisvinnu) þurfa um það bil 2.700 hitaeiningar á dag og konur um það bil 2.200. Þar sem við Íslendingar erum ansi duglegir í ræktinni og sumir í erfiðisvinnu þá er ekki ólíklegt þessar tölur séu í lægri kantinum, en samt sem áður hægt að notast við.
Talsverð óvissa er í útreikningum sem tengjast losun gróðurhúslofttegunda, en í rannsókn frá árinu 2014 kemur það fram að fyrir hvert hitaeiningargramm sem grænmetisæta neytir framleiðir hún um það bil 1.9 jafngildisgrömm af koltvísýring (CO2e). Hin meðal kjötæta framleiðir aftur á móti um það bil 2.9 grömm. Sem sagt, kjötætur menga um það bil 50% meira en grænmetisætur!
Þetta þýðir það að ef þessar 5.250 grænmetisætur finna sér maka sem er kjötæta og ná að koma þeim í koll að bakað súrkál með kartöflum, með kannski bara smá kjötbita til að bragðbæta, sé ekkert verra en kótelettur með rabbabarasultu og kartöflum, þá myndi það þýða að Íslendingar kæmu til með draga úr CO2e losun sem nemur tæplega 5 þúsund tonnum, á ári. Það er á pari við það að taka rúmlega þúsund bíla úr umferð. Sem er ekki slæmt.
Vonandi halda vinsældir grænmetismataræðis áfram að vaxa. Því þegar grænmetisætum fjölgar þá aukast líkurnar á því að þær finni sér lífsförunaut sem borðar kjöt. Og vonandi einn daginn verður sú kjötæta að semi-grænmetisætu. Ég held að þetta sé það sem maður kallar að slá tvær flugur í einu höggi.
Samkvæmt rannsókn Swisveg eru um það bil 14% Svisslendinga grænmetisætur. Því er ekki ólíklegt að næst þegar ég kem í heimsókn til Óla að hann verði komin í samband við grænmetisætu. Þá þegar við grillum næst fær gríska salatið mitt kannski meira pláss á disknum hans.