Staðan sem komin er upp á vinnumarkaði er ógnvekjandi. Stöðumatið á milli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda hefur aldrei - sé horft yfir síðustu áratugi - verið jafn ólíkt.
Í stuttu máli telja atvinnurekendur, og hagsmunasamtök þeirra, að svigrúmið til launahækkana sé á bilinu 1 til 4 prósent - jafnvel ekkert - á meðan stærstu stéttarfélög landsins hafa þegar kynnt tillögur um hækkun lægstu launa upp á 30 prósent hið minnsta, auk margvíslegra annarra atriða sem heyra upp á stjórnvöld, þar sem útgangspunkturinn er að jafna kjörin þeim lægst launuðu í hag.
Sé horft alveg framhjá þessari deilu - sem mun fyrirsjáanlega leiða til víðtækra verkfalla sem munu standa mánuðum saman - þá er ekki hjá því komist að velta fyrir sér hvernig stjórnvöld geti hjálpað til.
Eitt af því sem atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin eru alveg sammála um er að túlkun kjararáðs - sem heyrir nú sögunnni til - á lagaákvæði um starfsemi þess, sem snýr að mati á almennri launaþróun, hafi verið röng.
Eins og áður hefur verið fjallað um á þessum vettvangi, þá leiddi ákvörðun kjararáðs frá kjördegi haustið 2016, um að hækka laun elítunnar hjá hinu opinbera, þingmanna og ráðamanna í landinu, um tugi prósent í einu stökki, til þess að gjá myndaðist milli stjórnvalda og almennings.
Stjórnvöld hafa síðan reynt að útþynna gagnrýni á þessa ákvörðun með því að benda á að launaþróun elítunnar hjá ríkinu, hafi í reynd - yfir margra ára tímabil - verið sambærileg launaþróun annarra stétta í landinu. Hefur í þessu samhengi verið vitnað til gagna frá Hagstofu Íslands.
Taka ekki mark á gagnrýni
Það hefur vakið athygli mína, að stjórnvöld hafa ekki tekið mark á gagnrýninni frá atvinnurekendum og verkalýðshreyfingunni í raun. Heldur einfaldlega svarað því til, og vitnað í skýrslur sem unnar hafa verið fyrir stjórnvöld, að ekkert hafi verið óeðlilegt við þessa ákvörðun kjararáðs.
Með því að taka ekki mark á þessari gagnrýni, er teningunum kastað upp í loftið, og deilurnar magnaðar upp. Það er ekki óeðlilegt að stéttarfélögin séu nú með hnefann á lofti og heimti tugprósenta hækkanir fyrir þá lægst launuðu. Rótin að þessum anda í kjaraviðræðunum liggur í ákvörðun kjararáðs annars vegar og síðan í túlkun ráðamanna á ákvörðuninni hins vegar.
Hæglega hefðu stjórnvöld geta skoðað þetta lagaákvæði með annað í huga, t.d. það sem lagt var upp með þegar lögin voru samin. Þetta ákvæði var hugsað sem varnagli fyrir þá sem sæti eiga í kjararáði, til að meta tímasetningar launaákvarðana, í samhengi við gang efnahagsmála. Þetta er matskennt ákvæði, opið í báða enda og án beinnar skírskotunar til gagna Hagstofu Íslands.
Ástæðan er augljós. Tímasetningar launaákvarðana þeirra stétta sem heyrðu undir kjararáð eru áhrifamikið hagstjórnarmál, og geta - í versta falli - grafið undan efnahagslegum stöðugleika landsins. Jafnvel þó „leiðrétta“ megi laun afturvirkt, miðað við launavísitölu Hagstofu Íslands, með einstökum ákvörðunum, þá getur það verið hættulegur leikur fyrir heildina þegar upp er staðið. Einmitt af þessum ástæðum var þetta ákvæði svo mikilvægt í lögunum um kjararáð. Höfrungahlaupið, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur gagnrýnt réttilega, er og var nefnilega ekki lagaskylda. Allra síst þegar kemur að elítunni hjá hinu opinbera.
Það má benda á það, að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, las stöðuna strax þannig, að þessi ákvörðun kjararáðs væri hættuleg efnahagslegri þróun á landinu, og afsalaði sér hækkuninni.
Geta horfst í augu við mistökin
Alþingi og stjórnvöld voru með sömu skilaboð í höndunum, en ákváðu að afsala sér ekki hækkuninni heldur að nota gögn Hagstofunnar til þess að rökstyðja það að ákvörðunin um tugprósentalaunahækkun til þeirra, í einu höfrungahlaupi, væri rétt. Með því var ákvæðið um að kjararáðsmenn ættu að horfa til almennrar launaþróunar rangtúlkað og sáttamöguleikinn fyrir vinnumarkaðinn gerður mun ólíklegri.
Stjórnvöld geta lagt til lausnir á þeirri stöðu sem upp er komin, nú þegar augljóst virðist að hagkerfið sé að fara í lága drifið eftir mikið uppgangstímabil, þar sem almenningur naut góðs af ægiþunga neyðarlaga og fjármagnshafta yfir margra ára tímabil.
Stjórnvöld geta einfaldlega afsalað sér hækkuninni og viðurkennt mistökin og rangtúlkunina á viðmiðuninni um almenna launþróun. Það myndi skapa nýjan upphafspunkt í viðræðum á vinnumarkaði og auka líkurnar á skynsamlegri niðurstöðu fyrir almenning. Margvíslegur meiningarmunur væri enn fyrir hendi, en stjórnvöld hefðu í það minnsta sýnt vilja til að leysa málin og horfst í augu við fólkið á gólfinu í verkalýðshreyfingunni.