Framundan er gríðarlega harður kjarabaráttuslagur. Ein birtingarmynd hans er að þeir sem stilla sér upp með valdi og peningum kalla hugmyndir þeirra sem vilja kjarabætur sturlaðar og smætta verkalýðsforystuna niður niður í ómarktæka kommúnista sem hafi ekkert lýðræðislegt umboð, þótt hún hafi verið lýðræðislega kjörin eftir gildandi reglum. Á móti fá þessir talsmenn stimpilinn húsþrælar hjá verkalýðsforkólfum og helstu fylgitunglum þeirra.
Þetta er ekki sérstaklega gæfulegt samtal sem á sér stað.
Í þessu samtali takast á annars vegar þeir sem vilja viðhalda stöðugleika sem þeir hagnast á og hins vegar þeir sem telja sig greiða fyrir þann stöðugleika með viðvarandi lífskjaraskerðingu.
En stöðugleiki þýðir ekkert annað en óbreytt ástand og fyrir þann sem upplifir sífellt skert lífsgæði þá er slíkt eðlilega ekki eftirsóknarvert.
Pólitískt tómarúm á lausu
Annað sem er einkennilegt við samtalið er að verkalýðshreyfingin liggur undir ámæli fyrir verða sífellt pólitískari. Fyrir að setja sífellt fram skýrari kröfur um breytingar á öðrum sviðum en sem snúa beint að aðstæðum á vinnumarkaði. Góðborgarar skrifa hneykslaðir á samfélagsmiðla að þetta fólk eigi þá bara að bjóða sig fram til þings, ef það ætlar að hafa breiðari skoðun og stefnu á samfélaginu en að taka þátt í viðræðum um krónur í launaumslagi.
Hin hliðin, verkalýðshreyfingin, átti sér lengi stjórnmálaarm hérlendis en Alþýðuflokkurinn ákvað að slíta á þau tengsl til að skapa borgarlegri ímynd. Frá því að Samfylkingin var stofnuð hafa kratar landsins virst of fínir borgarar til að púkka upp á verkalýðinn, og fjarlægst hann markvisst. Því skapaðist stjórnmálalegt tómarúm fyrir þá sem voru tilbúnir að vera málsvarar litla mannsins í samfélaginu. Inn í það tómarúm hefur hin nýja verkalýðsforysta, og óopinber stjórnmálaarmur hennar Sósíalistaflokkurinn, stigið.
Ástæðurnar
Þessi róttæka og herskáa verkalýðsforysta nýtir samfélagsmiðla skipulega til að ná til fólks, er ónæm fyrir harmakveinum um að orðræða þeirra sé óviðeigandi og því að þau hafi ekki umboð til að gera það sem þau gera. Því meira sem er barið á henni, því sterkari og samheldnari verður hún.
Hún telur sig enda vera að há raunverulega stéttabaráttu. Hún sækir ekki rökstuðning fyrir því í marxíska orðræðu. Hún sækir hann i íslenskar aðstæður sem eru studdar rauntölum.
Ein slík ástæða er að skattbyrði tekjulægstu hópa íslensks samfélags hefur aukist mest allra hópa frá 1998. Munurinn á skattbyrði tekjulægstu hópanna og þeirra tekjuhærri hefur minnkað og dregið hefur úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Kaupmáttaraukning síðustu ára hefur þannig síður skilað sér til launafólks með lægri tekjur en þeirra tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði. Þetta er einfaldlega staðreynd.
Önnur ástæða er sú að fjölskyldum sem fengu barnabætur fækkaði um tæplega tólf þúsund milli áranna 2013 og 2016. Þetta er einfaldlega staðreynd.
Og það er skýr ástæða að laun þingmanna hækkuðu um 44,3 prósent í einu skrefi en launahækkanir sem eru brot af þeirri hækkun þykja samt ógn við stöðugleika. Að forstjórar ríkisfyrirtækja voru hækkuð um allt 61 prósent á tveimur árum án þess að sú hækkun væri kölluð sturlun. Að meðallaun forstjóra í Kauphöll þar sem hlutabréf hafa verið að tapa virði á miklum hraða eru með 17-18föld lágmarkslaun á mánuði. Þetta eru einfaldlega staðreyndir.
Húsnæði er grunnforsenda lífsgæða
En stærstu ástæðuna má líkast til finna í stöðunni á húsnæðismarkaði. Frá 2013 hefur fólksfjölgun á Íslandi verið langt umfram nýjar íbúðir sem byggðar eru á hverja þúsund íbúa. Síðustu ár hefur fólksfjölgunin farið langt fram úr byggingu íbúða. Það er í fyrsta sinn í áratugi sem það gerist. Til viðbótar við aukningu íbúa hefur ferðamönnum fjölgað með fordæmalausum hætti og þeir taka líka til sín hluta íbúðamarkaðar.
Afleiðing er sú að eftirspurn eftir húsnæði er miklu meiri en framboð. Og íbúðaverð hefur hækkað meira en tekjur. Nánar tiltekið 28 prósent umfram tekjur frá árinu 2012.
Það gerir það að verkum að tekjulágir hafa setið eftir á íbúðamarkaði og þeir eru mun ólíklegri til að eiga fasteign í dag en árið 2012. Tekjuháir eru hins vegar jafn líklegir til þess og áður. Samhliða hefur tekjulágum á leigumarkaði fjölgað, húsnæðisöryggi þeirra hefur minnkað og hækkandi húsnæðiskostnaður hefur étið upp kaupmáttaraukningu þessara hópa.
Ekki hægt að velja úr norræna módelinu
Atvinnurekendur vilja að launahækkanir haldist í hendur við vöxt hagkerfisins. Að við byggjum upp hér vinnumarkaðsmódel sem sé meira í átt við það sem er til staðar á hinum Norðurlöndunum.
Það er samt sem áður stór munur á heildarumhverfinu á hinum Norðurlöndunum annars vegar og á Íslandi hins vegar. Ef við tökum Noreg sem dæmi þá skattkerfið þar mjög þrepaskipt í þeim tilgangi að jafna stöðu íbúa. Allir launamenn greiða 23 prósent almennan skatt af nettótekjum, og þar er ekki gert neitt upp á milli fjármagnstekna eða launatekna líkt og hérlendis. Þar eru fyrirtækjaskattar heldur ekki skilgreindir sem sérstakir persónulegir skattar á eigendur fjármagns, líkt og ýmsir kjósa að gera í orðræðunni hér heima.
Áður en skattur er lagður á tekjur er búið að gera ráð fyrir allskyns frádrætti. Þar er t.d. um sérstakan persónufrádrátt að ræða sem getur aukist ef tekjur eru sérstaklega lágar. Auk þess má draga frá allan kostnað sem fólk verður fyrir vegna vinnu, frádrætti vegna greiðslu í stéttarfélag, frádrátt vegna barnagæslu, frádrátt vegna einstæðra foreldra, frádrátt vegna vaxtakostnaðar (af húsnæðis-, bíla og eða neyslulánum),
Þeir sem búa á jaðarsvæðum, t.d. í Finnmörku, greiða svo lægri almenna skatta, eða 19,5 prósent. Skattgreiðslur hækka svo hægt og rólega upp stigann. Þar eru um að ræða fjögur þrep af hátekjuskatti.
Já, og til viðbótar eru greiddar fastar skattfrjálsar barnabætur fyrir hvert barn upp að 18 ára aldri.
Með öðrum orðum þá eru lífskjör lægri tekjuhópa mun betur tryggð í gegnum skatt- og bótakerfið í Noregi. Hérlendis hefur hins vegar, líkt og áður sagði, skattbyrði lægst settu verið þyngd og bótakerfið skorið verulega niður. Eina sýnilega leiðin að lífskjarabótum í slíku kerfi er því að fjölga krónunum í launaumslaginu.
Það gagnast engum að pissa í skóinn
Það er hins vegar rétt hjá talsmönnum atvinnurekenda að kröfur um tugprósenta launahækkanir þvert yfir línuna eru líklegar til að verða piss í skóinn og skila okkur litlu öðru en aukinni verðbólgu sem étur upp ávinning af kaupmáttaraukningu.
En launahækkunarkröfur verkalýðshreyfingarinnar – m.a. að hækka lágmarkslaun úr 300 í 425 þúsund krónur — er hins vegar ekki sett fram til að setja þjóðfélagið á hliðina í einhverri sturlaðri marxískri bræði, heldur á forsendum þess kerfis sem er við lýði hérlendis. Ef hægt er að bjóða upp á aðrar leiðir til að bæta lífskjör félagsmanna verkalýðshreyfingarinnar þá mun hún vera móttækileg fyrir þeim. Um það er enginn vafi.
Það er nefnilega þannig að ef við ætlum að taka upp norrænt vinnumarkaðsmódel hérlendis, þar sem laun fylgja vexti hagkerfisins, þá þurfum við líka að innleiða hina þættina sem láta það módel virka.
Samtal til að afstýra stórslysi
Þess vegna er staðan sú sem við erum með í dag. Samtök atvinnulífsins virðast meira að segja vera farin að átta sig á þessu. Að minnsta kosti sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri þeirra, við RÚV í gær sjá marga snertifleti við kröfugerð verkalýðsfélaganna og að margt skipti meira máli en launahækkanir. Þetta er jákvæður tónn og um margt skynsamlegri en margir úr hans baklandi hafa kosið að beita, þar sem talað er um verkalýðsforystuna af fyrirlitningu og hroka.
Með þessum orðum er boltanum líka kastað kyrfilega yfir til stjórnvalda. Þótt Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sé eins og biluð plata að endurtaka að ríkisvaldið sé ekki beinn aðili að kjarasamningum þá er ríkisvaldið það eina sem getur bjargað okkur frá kjarnorkuvetri á vinnumarkaði.
Það þarf að gerast með skattkerfisbreytingum sem færa til byrði af lágtekjum á aðra. Það þarf að gerast með endurreisn bótakerfisins. Það þarf að gerast með því að þora að ræða og vinda ofan af ákvörðunum kjararáðs. Það þarf að gera með því að þora að ræða og vinda ofan af glórulausum hækkunum á launum forstjóra ríkisfyrirtækja.
Það þarf að gera með því að tala við fólk, ekki á það, og komast að niðurstöðu um nýjan sáttmála.
Það verður ekki gert með því að fela sig, gera ekkert og varpa ábyrgðinni á stöðunni yfir á aðra.
Það þarf þjóðarsátt til að afstýra stórslysi. Og hún fæst ekki nema með samstilltu átaki allra hlutaðeigandi, hæfilegum skammti af auðmýkt og risastórum kerfisbreytingum.