Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og fjármála- og efnahagsráðherra, ávarpaði kirkjuþing síðastliðinn sunnudag. Þar sagði hann ýmislegt. Meðal annars að lítil sanngirni væri í málflutningi sumra þeirra sem hæst tala um aðskilnað ríkis og kirkju. „Oft virðist manni sem málflutningur af þessu tagi stafi einkum frá mjög ungu fólki, sem ekki hefur lent í neinum áföllum og hefur ekki séð það starf sem kirkjan vinnur við sálusorgun og ýmis konar félagsþjónustu.“
Sá sem þetta ritar er yngri en Bjarni Benediktsson og hefur tekist á við erfið áföll. Hann hefur einnig upplifað frá fyrstu hendi hvers konar sálusorgun kirkjan getur boðið upp á við slíkar aðstæður, hvernig slíkri þjónustu er stundum haldið stíft að gjörsamlega niðurbrotnu og viðkvæmu fólki og hvernig hún getur ýkt afleiðingar frekar en að hjálpa til.
Auðvitað liggur fyrir að slík upplifun af starfi áfallateyma sem innihalda presta er ekki algild. En það þýðir ekki að vera þjóna kirkjunnar í slíku teymi sé hafin yfir gagnrýni og að mögulega væri fjármagni sem fer í slíkt betur varið til að ráða fleira fagfólk án trúartenginga í teymin. Það er nefnilega hægt að sérhæfa sig í áfallahjálp án þess að vera starfsmaður hinnar evangelísku lútersku kirkju.
Ungt fólk lendir líka í áföllum. Það missir foreldra sína, systkin eða aðra nána ættingja. Það missir maka og vini. Það missir börnin sín. Það getur lent í alvarlegum slysum sem breyta lífi þeirra algjörlega og á svipstundu. Eða lífum nánustu ættingja. Og svo framvegis.
Það að gefa í skyn að aldur fólks útiloki það frá því að lenda í áföllum, og að hópur landsmanna sé þar af leiðandi ekki til þess bær að hafa skoðun á hvort nýta eigi skattfé til að greiða fyrir rekstur trúfélags, er ofsalegt virðingarleysi gagnvart öllu ungu fólki. Bæði því sem hefur sannarlega tekist á við áföll og hinum sem hafa það ekki, en eiga samt sem áður fullan rétt á því að hafa skoðun á hlutverki ríkisins og útdeilingu skattfjár.
Orð Bjarna bera þess merki að hann sé að einhverju leyti ófær um að setja sig í spor annarra. Og eru ekki boðleg úr hendi áhrifamikils stjórnmálamanns sem vill láta taka sig alvarlega.
Milljarðar á ári
Í stjórnarskrá Íslands segir að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið eigi bæði að styðja hana og vernda. Auk þess er í gildi hið svokallaða kirkjujarðarsamkomulag frá árinu 1997, sem í felst að þjóðkirkjan afhenti ríkinu um 600 jarðir til eignar en á móti átti ríkið að greiða laun presta og starfsmanna Biskupsstofu.
Af fjárlögum er greitt framlag til Biskups Íslands, í Kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna.
Samtals er áætlað að þessi upphæð verði 2.830 milljónir króna í ár. Til viðbótar fær þjóðkirkjan greidd sóknargjöld í samræmi við þann fjölda sem í henni er. Ætla má að sú upphæð verði yfir 1,7 milljarðar króna í ár. Samtals mun rekstur þjóðkirkjunnar því kosta tæplega 4,6 milljarða króna í ár. Þá er ekki meðtalið rúmlega 1,1 milljarðs króna framlag til kirkjugarða.
Bað um og fékk
Ýmislegt hefur gerst á undanförnum árum sem hefur haft áhrif á skoðun þjóðarinnar á sambandi ríkis og kirkju.
Þar ber til að mynda að nefna meðferð hennar á kynferðisbrotum sem uppgötvast hafa innan hennar, sem náði hámarki þegar ásakanir um þöggun þjóðkirkjunnar yfir meintum kynferðisglæpum Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, voru settar fram árið 2010.
Kirkjan hefur, meðal annars vegna þessara mála, sett sér skýrar starfsreglur og stofnað sérstakt fagráð til að fjalla um meðferð kynferðisbrota. Slíkt fyrirkomulag, að stofnun á fjárlögum ætli sér að leysa sjálf úr slíkum málum innanhúss og oft með leynd, er sannarlega ekki hafið yfir gagnrýni.
Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur einnig blandað sér í önnur mál og lét meðal annars hafa eftir sér í viðtali við Morgunblaðið haustið 2017 að það væri ekki siðferðilega rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að afhjúpa mál og leiða sannleikann í ljós. Ummæli Agnesar féllu nokkrum dögum fyrir kosningarnar 2017, og nokkrum dögum eftir að lögbann var sett á umfjöllun Stundarinnar upp úr gögnum frá Glitni, sem voru tekin ófrjálsri hendi.
Í desember 2017 hækkaði kjararáð laun biskups um tugi prósenta. Laun biskups eftir hækkunina eru alls 1.553.359 krónur á mánuði. Hækkunin var afturvirk til 1. janúar 2017.
Kjararáð tók kjör biskups til skoðunar eftir að biskup sendi bréf til ráðsins þess efnis, en biskup krafðist betri launa í bréfinu.
Flótti úr kirkjunni
Áratugum saman var skipulag mála hérlendis þannig að nýfædd börn voru ætið skráð í trúfélag móður. Það þurfti því sérstaklega að skrá sig úr trúfélagi í stað þess að skrá sig inn í það. Þessu var breytt árið 2013 og nú þurfa báðir foreldrar að tilheyra sama trú- og lífsskoðunarfélagi til að barnið sé skráð í félag, annars skráist barnið utan trúfélaga.
Stór hluti þjóðarinnar var því skráður í þjóðkirkjuna án þess að vera spurður að því. Og þess vegna var lengi vel yfir 90 prósent þjóðarinnar skráður í þjóðkirkjuna. Á árunum fyrir hrun fjölgaði alltaf lítillega í hópi þeirra sem skráðir voru í þjóðkirkjuna á milli ára þótt þeim Íslendingum sem fylgdu ríkistrúnni fækkaði alltaf hlutfallslega.
Frá árinu 2009 hefur meðlimum þjóðkirkjunnar hins vegar fækkað á hverju ári. Alls hefur þeim fækkað um 20.164 frá þeim tíma og ekkert af þeirri hröðu fjölgun íbúa sem verið hefur á landinu síðan þá – landsmenn eru nú 36.252 fleiri en í byrjun árs 2009 – hefur skilað sér til þjóðkirkjunnar.
Nú er svo komið að 65,6 prósent landsmanna voru skráðir í þjóðkirkjuna 1. nóvember síðastliðinn. Rúmur þriðjungur okkar er ekki í henni. Aldrei áður hefur lægra hlutfall landsmanna verið skráð í hana. Alls standa 122.133 landsmenn utan þjóðkirkjunnar. Sú tala hefur tvöfaldast á tæpum áratug.
Traustið horfið og meirihluti vill aðskilnað
Í þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var 23. október síðastliðinn, kom fram að meirihluti Íslendinga, eða 54 prósent, er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Það hefur verið meirihluti fyrir því í hverri einustu könnun fyrirtækisins frá árinu 2009.
Þar kom fram að einungis 33 prósent þjóðarinnar ber mikið traust til þjóðkirkjunnar. Það er tíu prósentustigum færri en sögðust bera mikið traust til hennar í fyrra. Þeir sem treysta þjóðkirkjunni eru nú tæplega helmingi færri en gerðu það árið 1999.
Alls sögðust 39 prósent landsmanna bera lítið traust til þjóðkirkjunnar. Mjög skýr munur var á afstöðu til hennar eftir aldri. Þannig sögðust einungis 17 prósent Íslendinga á aldrinum 18-30 ára að þeir beri mikið traust til þjóðkirkjunnar en 55 prósent þess aldurshóps treystir henni ekki. Traustið fer svo vaxandi upp alla aldurshópa og nær hámarki hjá 60 ára og eldri þar sem 47 prósent segjast treysta kirkjunni en 26 prósent treysta henni ekki.
Í könnuninni kom líka fram að mikill munur er á afstöðu til kirkjunnar eftir því hvaða stjórnmálaflokk viðkomandi kýs. Kjósendur Sjálfstæðisflokks (52 prósent segjast treysta þjóðkirkjunni) og kjósendur Miðflokksins (48 prósent segjast treysta þjóðkirkjunni) skáru sig úr hvað varðar traust á meðan að kjósendur Pírata (71 prósent vantraust), Viðreisnar (52 prósent vantraust) og Samfylkingar (50 prósent vantraust) voru algjörlega á hinum pólnum hvað varðar afstöðu til þjóðkirkjunnar.
Á síðustu árum hefur samsetning íslensks samfélags verið að breytast hratt. Erlendum ríkisborgurum sem búa hér hefur fjölgað um 22.500 frá lokum árs 2011 og eru nú 43.430 talsins, eða 12,2 prósent landsmanna. Og þeir eru sannarlega ekki að uppistöðu í þjóðkirkjunni. Svo situr, í fyrsta sinn, maður á forsetastóli, Guðni Th. Jóhannesson, sem er ekki í þjóðkirkjunni.
Tímarnir eru því breyttir og þeir hafa breyst hratt.
Fimm flokkar fylgjandi aðskilnaði
Það blasir við að tímabært er að eiga alvöru samtal um hvert framtíðarsamband ríkis og kirkju eigi að vera, og hvort slíkt samband eigi raunverulega að vera til staðar eða ekki.
Í hversu mörg ár þurfa kannanir að sýna að stöðugur meirihluti vill slíkan aðskilnað til að hann verði ræddur? Hversu lágt þarf hlutfall þeirra sem eru skráðir í þjóðkirkjuna, vitandi vits eða óvart, að verða til að málið verði rætt af alvöru? Hversu margir í viðbót þurfa að standa utan hennar?
Þingmenn Vinstri grænna, Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata hafa það fyrir framan sig að mun fleiri kjósendur þeirra vantreysta þjóðkirkjunni en treysta henni. Allir þessir fjórir flokkar hafa opinberlega sagst styðja aðskilnað ríkis og kirkju. Það gerir Sjálfstæðisflokkurinn líka samkvæmt samþykktri stefnu á landsfundi og ungliðahreyfing flokksins sá ástæðu til að hirta formann sinn í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér vegna orða hans á kirkjuþingi um liðna helgi. Þar sagði að Bjarni hefði talað af „gríðarlegum vanskilningi“ um málstað þeirra sem styðja aðskilnað og að málstaður þeirra byggi „í langflestum tilvikum á því að það sé ekki hlutverk ríkisins að skattleggja almenning til að fjármagna trúfélög, hvað þá eitt trúfélag framar öðrum.“
Af hinum þremur flokkunum sem eiga fulltrúa á Alþingi hefur Framsóknarflokkurinn helst verið á móti aðskilnaði, í landsfundarsamþykktum Flokks fólksins segir að hann styðji þjóðkirkjuna „til að standa vörð um gildi kristinnar trúar og íslenska menningu,“ en ekkert er minnst á málið í birtri stefnu Miðflokksins þótt lesa megi andstöðu úr orðræðu formanns flokksins, sem hann var stofnaður utan um. Það virðist því augljós meirihluti fyrir aðskilnaði á meðal stjórnmálaflokka og á meðal þjóðarinnar.
Það þarf vilja og þor
Það er hægt að segja kirkjujarðarsamkomulaginu frá 1997 upp einhliða og kljúfa þjóðkirkjuna fjárhagslega frá ríkinu. Vonandi verður ofangreind skýrslubeiðni upphafið af þeirri vegferð. Ríkisstjórnarsamstarfið hindrar það ekki þótt Framsókn sé á móti aðskilnaði. Ekkert er minnst á málið í stjórnarsáttmála og því hlýtur að vera í lagi að leggja það fram sem sameiginlegt þingmannamál þeirra flokka sem styðja það.
Ef aðskilnaður yrði staðfestur í slíkri myndi þjóðkirkjan líkast til stefna ríkinu og dómstólar myndu útkljá það hvað það myndi kosta íslenska skattgreiðendur að slíta þessu hjónabandi. Þetta ferli gæti tekið nokkur ár og mögulega myndi það enda með því að þjóðkirkjan fengi umtalsverða upphæð greidda úr ríkissjóði, tækist ekki að semja um málið. En sú upphæð yrði alltaf brotabrot af því að borga þjóðkirkjunni marga milljarða króna á ári bókstaflega óendanlega.
Fyrir liggur, á tölum um traust til kirkjunnar, á þeirri staðreynd að meirihluti er fylgjandi aðskilnaði ár eftir ár, á því að landsmönnum sem eru í þjóðkirkjunni fækkar gríðarlega hratt ársfjórðungi til ársfjórðungs, að það er samfélagslegur vilji til að endurskoða það fyrirkomulag að ein kirkja sé hluti af ríkinu.
Þótt við stígum þetta skref þá munum við auðvitað áfram vera að uppistöðu kærleiksríkt, gott og siðlegt samfélag fullt af samkennd. Slíkt kemur að innan og þeir sem móta líf sitt eftir nokkur þúsund ára samansafni ritninga, sem margar hverjar er hægt að túlka eftir hentugleika, eiga einkarétt á hvorugu.
Við munum áfram geta haldið páska og jól hátíðleg eða gift okkur í kirkjunum sem eru ekkert að fara neitt, á sama hátt og önnur samfélög sem eru ekki með þjóðkirkjur gera slíkt. Trúfrelsi verður enn algjört og varið. Kirkjan mun starfa áfram og þjóna þeim sem hún gagnast. Fyrirkomulag á greiðslu launa presta, og á öðrum rekstrarkostnaði þjóðkirkjunnar, breytist bara.
Eina sem þarf er vilji og þor þingmanna til að setja málið fyrir alvöru á dagskrá.