Í nýafstöðunum miðkjörtímabilskosningum í Bandaríkjunum kom margt mikilvægt og jákvætt upp úr kössunuim í þessum ótrúlega suðupotti sem Bandaríkin eru.
Eitt af því sem ekki hefur stolið fyrirsögnunum - enda samkeppnin hörð við Donald Trump forseta - eru miklar breytingar sem náðust fram á regluverkinu sem snýr að byssum.
Mesta skömm samfélagsins í Bandaríkjunum - eins og Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, komst að orði - eru tíð dauðsföll vegna byssuglæpa og skotárása á opinberum vettvangi, eins í skólum, verslunarrýmum og veitingahúsum. Engin þjóð í heiminum er neitt nálægt Bandaríkjunum hvað þetta varðar, og er þjóðarskömm rétt orð til að lýsa þeim tölum sem sýna hvernig staðan er.
Byssulöggjöfin - og reglur innan ríkja - eru mikilvægt tól þegar kemur að byssum, en erfiðlega hefur gengið að breyta lögunum nægilega mikið, til að hafa áhrif til góðs. Ástæðan er sú að stjórnmálamenn hafa ekki haft nægilegan vilja til breytinga, og það á einkum við Repúblikana og þá sem styðja málstaða Samtaka byssueigenda (NRA).
Barátta samtakanna snýr meðal annars að því að berjast gegn öllum breytingum, þar sem takmarkanir eru settar upp á því hverjir megi eignast byssur, og þá ekki síst hernaðarvopn eins og sjálfvirka riffla sem hannaðir eru til að drepa menn í einu skoti.
Glæpurinn hryllilegi 14. febrúar á þessu ári, markaði þáttaskil í baráttunni gegn byssutengdnum glæpum. Í skotárás þar sem 17 létust, þar af stór hluti ungt fólk sem var meðal nemenda í Marjory Stoneman Douglas High School í Parkland í Flórída.
Í framhaldinu reis ungt fólk upp - með bekkjarsystkini þeirra sem létust í broddi fylkingar - og krafðist úrbóta. Mótmæli vítt og breitt um Bandaríkin. Fundir með ráðamönnum. Þrýstingur á fyrirtæki. Og fleira til.
Breytingar voru allt í einu sjáanlegar, sem ekki höfðu verið það áður. Og margt af því sem ungmennin börðust fyrir var staðfest vítt og breitt í Bandaríkjunum í kosningum. Ungt fólk kaus mun frekar Demókrata en Repúblikana - eins og kannanir hafa gefið til kynna, undanfarna mánuði - en þegar kom að byssulöggjöfinni og strangari reglum fyrir byssueigendur - þá birtist þverpólitískur vilji fólks. „Stórsigur fyrir þá sem vilja strangara regluverk fyrir byssueigendur,“ segði í umfjöllun Vox.
A group of kids on a living room floor organized the largest protest in American history... a 63 day bus tour... over 200 chapters... registered hundreds of thousands of people... AND DEFEATED 27 (!!!) NRA BACKED CANDIDATES.
— Matt Deitsch (@MattxRed) November 7, 2018
I’m so proud of all of us. This is the beginning.
Í kjölfar árásanna í Parkland þá ákváðu fyrirtæki - loksins - að bregðast við og hækka lágmarksaldur þeirra sem máttu kaupa hernaðarvopn eins og AR15 riffla og fleiri drápstól. Walmart gerði þetta meðal annars, og fleiri fyrirtæki einnig. Bylgja fór af stað.
Í kosningunum sem nú eru nýafstaðnar var kosið um strangari byssuregluverk í mörgum ríkjum. Hækkun á lágmarksaldri byssukaupenda úr 18 í 21 ár var samþykkt víða, en einnig mun strangari reglur um skoðun á bakgrunni þeirra sem kaupa byssur, sérstaklega þau vopn sem eru sérstaklega hættuleg og hafa oft verið þau sem morðingjar nota til að drepa fólk í skotárásum.
Það merkilega er, að þetta gerðist nokkuð hljóðlega, eftir að ungmennin frá Parkland náðu að koma málinu upp á yfirborðið og ná eyrum valdafólksins í stærstu fyrirtækjum landsins. Þá var eins og stjórnarskráin - og innihaldslaus della NRA og fylgismanna samtakanna á þingi - hætti að skipta verulega miklu máli.
Þetta gerðist ekki átakalaust þar sem margt af því fólki sem barðist hvað mest fyrir breytingum, fékk yfir sig morðhótanir og árásir á fjölskyldur sínar, misserum saman. Samt héldu þau áfram og breyttu heiminum.
Parkland-áhrifin eru mögnuð og sýna hvað það getur verið jákvæður aflvaki fyrir samfélagið, að leyfa ungu fólki að tala skýrt og skorinort, breyta eftir vilja þess. Það er næmt á það sem skiptir máli og leggur gott til mikilvægra mála.
Langan tíma tekur að breyta byssumenninguna í Bandaríkjunum, sem á sér víða djúpstæðar rætur og eflaust tengsl við hernaðarhugsunarháttinn í þessu flókna samfélagi ólíkra ríkja, en breytingar í rétta átt eru stórsigur.