Hugmyndin um lagningu sæstrengs frá Íslandi til annarra Evrópuríkja hefur fengið endurnýjun lífdaga á síðustu vikum.
Skiptar skoðanir eru um ágæti slíkrar framkvæmdar, en fylgjendur hennar benda á aukinn arð af auðlindum og minni losun gróðurhúsalofttegunda á meðan andstæðingar óttast að hún leiði til hærra raforkuverðs. Til viðbótar við verðhækkun til neytenda gæti strengurinn sömuleiðis haft neikvæð áhrif á stóriðju og starfsemi gagnavera fyrir rafmyntir. En hvort vegur ábatinn eða kostnaðurinn af lagningu sæstrengs þyngra?
Gömul saga og ný
Fyrstu hugmyndir um flutning á raforku frá Íslandi voru settar fram fyrir meira en 60 árum þegar möguleikinn á rafstreng til Skotlands var skoðaður.
Á undanförnum áratugum hefur Landsvirkjun svo kannað hagkvæmni slíkrar tengingar með reglulegu millibili, en frá árinu 2009 hafa komið upp vísbendingar um að sæstrengur milli Íslands og Bretlands gæti falið í sér mikil verðmæti.
Á árunum 2013-2016 unnu svo bresk og íslensk yfirvöld náið saman til að kanna fýsileika sæstrengs á milli landanna tveggja, auk þess sem breskir fjárfestar stofnuðu félag sem leitaði að frekari fjármögnun fyrir verkefnið. Á því tímabili lét hið opinbera á Íslandi gera þrjár skýrslur; tvær að beiðni atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytisins og ein að beiðni Landsnets. Niðurstaða þeirra allra var sú að bygging sæstrengsins yrði líklega hagkvæm og arðsöm, að því gefnu að íslensk yfirvöld bæru ekki alla hættuna af fjárfestingunni og að Bretar myndu halda áfram að niðurgreiða endurnýjanlega orku líkt og þeir gera nú.
Lítið heyrst
Frá síðustu skýrsluskilunum árið 2016 hefur lítið heyrst frá Íslandi og Bretlandi vegna verkefnisins og enn er hvorki komið á hreint hvernig fjármögnunin yrði né hverjir bæru ábyrgð á stærstu áhættuþáttunum.
Áhuginn á verkefninu virðist þó enn vera til staðar, en Hörður Árnason forstjóri Landsvirkjunar studdi verkefnið í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 fyrr á árinu og félagið Atlantic Superconnection leitar enn að fjárfestum fyrir það. Verkefnið er einnig enn á lista Evrópusambandsins yfir mikilvæg innviðaverkefni í orkumálum.
Að öllum líkindum er fjármögnun aðgerðarinnar sjálfrar stærsta hindrunin, en talið er að hún muni kosta á bilinu 800-1100 milljarða íslenskra króna í dag. Þar að auki þyrfti líklega að bæta við orkuframleiðslu hér á landi til að annast aukinni eftirspurn, annað hvort með vatns-eða vindvirkjunum.
Á síðustu vikum hefur svo mögulegur sæstrengur borist aftur í tal í sambandi við innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Með innleiðingu pakkans yrði samevrópskri stofnun gefið eftirlitsvald á orkuviðskiptum milli ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, en ýmsir stjórnmálamenn hafa lýst yfir áhyggjum vegna mögulegs fullveldisframsals sem því fylgir. Þessu svaraði Guðni Jóhannesson orkumálastjóri í Kastljósi í síðustu viku, en samkvæmt honum hefði samþykkt pakkans engin áhrif svo lengi sem enginn sæstrengur lægi til Evrópu.
Á hinn bóginn er líklegt að sæstrengur verði lagður fyrr eða síðar frá landinu, þar sem hagkvæmni þess eykst með vaxandi þörf fyrir endurnýjanlega orkugjafa í heiminum. Samhliða hækkandi heimsmarkaðsverði á raforku verður sérstaða Íslands einungis verðmætari á komandi árum þar sem hér er nægt framboð af umhverfisvænni orku.
Trú erlendra fjárfesta á verkefnið virðist heldur ekki hafa horfið, en Fréttablaðið greindi fyrr í vikunni frá kaupum eins þeirra sem unnið hefur að lagningu strengsins á hlut í HS orku.
„Einhverskonar álstrengur“
Þrátt fyrir að enginn raforkustrengur tengi Ísland við önnur lönd enn sem komið er flytjum við meginþorra orkunnar okkar út með óbeinum hætti. Um 80 prósent af raforkunni sem framleidd er hér á landi eru seld til erlendra stórfyrirtækja, þá helst til álvinnslu. Þetta benti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á í viðtali við Kjarnann í síðasta mánuði, en samkvæmt henni mætti segja að „einhverskonar álstrengur“ liggi frá landinu nú þegar. Til viðbótar við stóriðjuframleiðslu hafa ýmis önnur fyrirtæki hér á landi byggt starfsemi sína á þeirri forsendu að raforkuverð sé lægra en annars staðar, líkt og gagnaver fyrir rafmyntir. Slík starfsemi er gríðarlega orkufrek, en samkvæmt Stundinni notar gagnaver Advania í Reykjanesbæ eitt prósent af allri orkuframleiðslu landsins.
Með tengingu Íslands við raforkumarkað í Evrópu í gegnum sæstreng yrði verðhækkun á rafmagni óhjákvæmileg, annars yrði aldrei arðbært að ráðast í framkvæmd hans. Áðurnefndar skýrslur búast við 8-10 prósenta verðhækkun til fyrirtækja og heimila á Íslandi vegna sæstrengsins, en með því þyngist greiðslubyrði neytenda auk þess sem rekstrarskilyrði álstrengsins svokallaða versna töluvert.
Auðlindaarður
Hvers vegna er sæstrengnum þá hampað þrátt fyrir að lagning hans komi niður á íslenskum neytendum og setji fyrirtækjum þrengri skorður? Svar við þeirri spurningu liggur meðal annars í auknum arði þjóðarinnar af náttúruauðlindum landsins.
Þessa stundina er orkan sem við framleiðum mun verðmætari en hún kostar. Með tengingu við alþjóðlega markaði fengist réttara verð fyrir hana sem myndi betur endurspegla raunverulegt virði framleiðslu okkar á henni en nú er gert. Þar sem orkuframleiðsla er í höndum hins opinbera hér á landi hagnast því öll þjóðin á hærra raforkuverði, að því gefnu að hægt sé að selja orkuna erlendis.
Verðhækkunin yrði þó á kostnað erlendra stóriðjufyrirtækja sem reiða sig á lágt raforkuverðlag til þess að geta hagnast meir á framleiðslu sinni. Raunar má segja að með lagningu sæstrengs færist arðurinn af einni helstu náttúruauðlind landsins frá stóriðjunni til íslensku þjóðarinnar. Samkvæmt öllum skýrslunum sem gerðar voru um sæstrenginn yrði slíkur arður mun meiri en samanlagt tap íslenskra heimila vegna hærra raforkuverðs.
Losun og neyslu stillt í hóf
Önnur og mikilvægari rök fyrir lagningu sæstrengsins tengjast þó loftslagsmálum.
Með sölu á íslenskri raforku erlendis stæði fleiri Evrópubúum til boða að kaupa mun hreinni orku en áður og gætu því dregið úr kolefnislosun sem um munar. Samkvæmt mati Evrópusamtaka rekstraraðila flutningskerfa (ENTSO-E) myndi fyrirhugaður sæstrengur milli Íslands og Bretlands leiða til þess að losun kolefnis drægist saman um tæp milljón tonn á ári, en það jafngildir fimmtungi af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda landsins.
Til viðbótar við minni losun erlendis hefði sæstrengurinn líka jákvæð áhrif á orkusparnað Íslendinga. Hækkun orkuverðs sem skilar sér í auknum arði til hins opinbera mætti líta á sem aukna skattlagningu á orkuneyslu hérlendis.
Orkuneysla Íslendinga er næstmest allra þjóða í heimi ef tekið er tillit til mannfjölda og er á pari við olíuríkið Katar. Megnið af neyslunni fer til mengandi stóriðju, en þökk sé henni eigum við líka Evrópumet í kolefnisútblæstri á mann. Með svokölluðum orkuskatti myndi slík framleiðsla ekki lengur njóta þess afsláttar sem hann hefur fengið í formi óeðlilega lágs orkuverðs hér á landi. Þannig yrði henni stillt í hóf og útblæstri kolefnis sömuleiðis. Þar að auki myndi skattlagningin leiða til þess að fyrirtæki fari síður í áhættusama framleiðslu líkt og gagnavinnslu fyrir rafmyntir, sem er gífurlega orkufrek og keyrð áfram af spákaupmennsku.
Eftir margra áratuga umræðu um hugsanlegan sæstreng frá Íslandi til Evrópu er ekki enn komið á hreint hvernig eða hvenær hann yrði að veruleika, þótt líklegt sé að hann verði lagður á næstu árum. Lagning strengsins og hærra raforkuverð yrði til hagsbóta fyrir íslensku þjóðina, bæði vegna aukinnar arðsemi af auðlindum okkar og mikilvægrar minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda. Ábatinn yrði töluverður þrátt fyrir, eða öllu heldur vegna þrengri stöðu stóriðju og rafmyntarframleiðslu á landinu og gæti hjálpað til við að svipta okkur þeim vafasama titli að tilheyra hópi mestu orkusóða heimsins.