Það voru raðir á öllum sjúkrahúsum. Fólk safnaðist saman þar. Það var hrætt.
Fáir voru á ferli, aðrir en fjölmennt lið varðsveita Washington ríkis. Það gekk skipulega eftir götunum með hvítar grímur fyrir munni og nefi.
Dr. J. S. McBride, yfirmaður heilbrigðisþjónustu í Washington ríki, var eins og hershöfðingi í þessum aðstæðum, ásamt Dr. J. R. Gillendal, yfirmanni heilbrigðismála í Seattle borg. Stórtækustu aðgerðum í sögu Washington ríkis, til að hindra útbreiðslu spánsku veikinnar, inflúensunnar, var hrint í framkvæmd.
Ríkið bjó að því að vera með landfræðilegar varnir. Fjallgarðar, skógar, sjór og vötn, umlykja Seattle-borgarsvæðið.
Með samgöngumannvirkjunum í ríkinu var hægt að búa til útbreiðsluvarnir, sem skiptu sköpum í baráttunni við inflúensuna.
Trúin á vísindin
Það sem var áhrifamest var sú stefna McBride að hefja undirbúning snemma, vanmeta ekki smithættuna og útbreiðsluhraðann. Mörg borgarsvæði Bandaríkjanna höfðu farið afar illa út úr veikinni, sem drap um 800 þúsund íbúa Bandaríkjanna.
McBride lagði sérstaka áherslu á að í röðunum á sjúkrahúsunum væri smithætta lágmörkuð. Því inflúensan barst hratt milli fólks og þá alveg sérstaklega þar sem margt fólk kom saman í daglegu amstri.
Á lestarstöðum, miðtorgum, skólum, verslunum, vinnustöðum, almenningsrýmum. Til að koma í veg fyrir algjöra lömun hagkerfisins, þá var reynt að endurskipuleggja vinnustaði til að koma í veg fyrir smit.
Það tókst ekki nægilega vel, að mati McBride, og í skýrslu sinni til yfirvalda í Seattle, í lok árs 1918, sagði hann að þrátt fyrir að Seattle hafi farið mun betur út úr inflúensufaraldrinum en flest önnur borgarsvæði Bandaríkjanna, þá væri kæruleysi yfirvalda alvarlegt mál, og í því fælust kaldar kveðjur til fjölskyldna fórnarlambanna. McBride hafði deilt við yfirvöld, þar sem þau töldu ekki vera hægt að ganga jafn langt og hann vildi, í aðgerðum til að hefta smit.
Það sem McBride trúði á öðrum fremur, í undirbúningnum, voru bólusetningar og vísindin að baki þeim. Hann lagði traust sitt á vísindin og reyndi eftir oft veikum mætti að skýra hvað þyrfti til þess að hefta útbreiðslu. Það eitt að skýra og sannfæra ráðamenn um hvað væri best að gera, var hindrun oft og tíðum.
Dauðinn
Í heildina létust 1.440 íbúar Seattle frá september 1918 og fram í febrúar 1919. Hrikalegt áfall fyrir fjölskyldur, vítt og breitt. Hlutfallslega voru dauðsföllin mun færri en víðast hvar í borgum Bandaríkjanna og var hlutfallið um þrefalt hærra í Pittsburgh, svo dæmi sé tekið.
Í heiminum öllum er talið að um 25 til 40 milljónir manna hafi látist úr inflúensufaraldrinum og á Indlandi einu dóu 12,5 milljónir manna, samkvæmt nýjustu rannsóknum.
Hin alþjóðalega þekkingarhugmynd
Í Reykjavík létust 500 manns á sex vikum, frá því að fyrstu smitin bárust til landsins með skipverjum á Botníu og Willemoes sem komu að bryggju 19. október 1918. Þessi hrikalega átakanlega kafli í sögu þjóðarinnar er enn til rannsóknar, og var meðal annars farið ítarlega yfir útbreiðslu veikinnar í fróðlegri grein í Læknablaðinu sem birtist í október 2008.
Hvers vegna er þessi saga frá Seattle - sem skrásett er meðal annars í frábærri bókaröð Clarence B. Bagley, um sögu Seattle - rifjuð upp núna, á 100 ára fullveldisafmæli Íslands?
Það er til að minna á það, að framfarir í vísindum og heimspeki hafa fært okkur öruggari heim, og að ástríðufullt starf vísindamanna og rannsakenda um allan heim hefur skapað okkur öruggari heim.
Kjarninn í því starfi er sú sýn, að þekking og fjárfesting, flæði milli fólks og samfélaga, þvert á landamæri. Ef nýtt púsl verður til langt í burtu þá kemur sú þekking til bjargar annars staðar.
Ísland á þessari hugsun að þakka velmegun sína í dag, sem landfræðilega einangruð eyja á milli Ameríku og Evrópu. Virðingin fyrir vísindum og framfaraskrefum sem byggja á þeim, er það sem færir okkur einu skrefi framar, alveg eins og McBride trúði á forðum.