Arion banki á félagið Stakksberg ehf. sem heldur á eftistöðvum kísiverksmiðjunnar í Helguvík, eftir að United Silicon fór á hausinn.
Aðstandendur kísilverksmiðjunnar í Helguvík undir merkjum United Silicon reyndust ekki traustsins verðir, og höfðu hvorki reynslu, þekkingu eða nægilega fjármuni til að ráðast í verkefnið. Þetta kom í ljós þegar raunveruleikinn skall á, nokkrum mánuðum eftir að verksmiðjan átti að hefja starfsemi í fullum afköstum.
Landsvirkjun hefur svarað spurningum Kjarnans um þessi mál, og hvernig það kom til að United Silicon og aðstandendur verkefnisins, náðu að komast í gegnum nálaraugað hjá orkufyrirtækinu og gera samning um kaup á orku.
Aðeins traustir viðskiptavinir eiga að koma til greina, eins og Landsvirkjun hefur sjálf sagt, og því verður að teljast verulegt áfall að þetta hafi getað gerst. Almannahagsmunir eru alltaf í húfi þegar orkuviðskipti stóriðjunnar eru annars vegar, enda er Landsvirkjun í almannaeigu og gerir langtímasamninga um sölu á orku. Undir er síðan það, hvernig orkuauðlindir landsins eru nýttar.
Ekki eru öll kurl komin til grafar hvað varðar fall United Silicon, þar sem málum hefur nú verið komið til rannsakenda og inn á borð dómstóla, vegna gruns um stórfelld lögbrot.
Svo til engar forsendur fyrir verkefninu stóðust, og tjónið mikið - einkum og sér í lagi fyrir samfélagið á suðurnesjum, sem tók aðstandendum United Silicon vel og bar traust til þeirra.
Mitt í þessari stöðu, þar sem mál hafa ekki verið til lykta leidd fyrir dómstólum vegna mögulegra stórfelldra lögbrota í verkefninu, þá virðist félagið Stakksberg, sem nú vinnur að því að gera sér mat úr eftirstöðvum þrotsins í Helguvík, vera að reyna að koma í veg fyrir að íbúar í Reykjanesbæ hafi eitthvað um það að segja, hvort kísilverksmiðja verður reist í Helguvík eða ekki.
Í bréfi frá Stakksberg til Skipulagsstofnunar, segir félagið að það gæti leitt til skaðabótaskyldu ef íbúar fá að hafa lokaorðið um hvort farið verður í uppbygginguna upp úr rústum þrotsins eða ekki.
Í bréfinu segir að verði látin fara fram kosning „og leiði hún til þess að ekki verði hægt að starfrækja þá verksmiðju sem þegar hefur verið byggð á lóðinni mun það að mati Stakksberg ehf. leiða af sér skaðabótaskyldu gagnvart eiganda lóðarinnar[...]Sökin væri nokkuð augljós enda um að ræða ásetning til þess að koma í veg fyrir tiltekna starfsemi/uppbyggingu sem þegar hafði verið fallist á og hefði þegar leitt til verulegrar fjárfestingar.“
Í þessum orðum Stakksbergs hangir ekki saman orsök og afleiðing, sem er grundvallaratriði í lögfræði og rökfræði. Sérstaklega á þetta við um setninguna þar sem segir að íbúakosning um stóriðjuna geti verið „ásetningur“ um að koma „í veg fyrir“ frekari uppbyggingu.
Íbúakosningin er ekki leið til að koma í veg fyrir neitt, heldur leið til að færa íbúunum ákvörðunarrétt um stór verkefni eins og það í Helguvík. Fordæmi eru fyrir íbúakosningunum og rétturinn er hjá sveitarfélögum. Íbúar taka ákvörðunina, og ákvörðunarferlið felur ekki í sér neinn ásetning um að hindra verkefni.
Stórum spurningum er varða stöðuna í Helguvík er enn ósvarað en þær snúast um traust þeirra sem eru aðstandendur verkefnisins, og þar er Arion banki núna eini bakhjarlinn og eigandi, eftir að hafa verið það í samvinnu við aðra þegar allt var keyrt í þrot á skömmum tíma, þvert á yfirlýsingar aðstandenda United Silicon. Af umhverfisástæðum þarf einnig að gæta varúðar, ekki síst í ljósi forsögunnar, þar sem mengun var mikil og íbúar kvörtuðu undan slæmum áhrifum.
Af þessum sökum, mætti vera meiri yfirvegun og auðmýkt í orðlagi bréfsins. Svo ekki sé talað um virðingu.
Íbúar Reykjanesbæjar mega hafa síðasta orðið um uppbygginguna í Helguvík og rétturinn til að setja áframhald verkefnisins í hendur þeirra með íbúakosningu er fyrir hendi. Í ljósi forsögunnar væri það rökrétt skref að láta fara fram íbúakosningu.