Allt frá árdaga fiskveiðistjórnunarkerfisins, við upphaf níunda áratugar síðustu aldar, má finna ýmis konar hugmyndir manna um gjaldtöku vegna nýtingar á auðlindum. Með réttu má efast um að umræðan hafi verið tímabær á þessum árum þegar afkoma í sjávarútvegi var léleg. En hvað um það, hugmyndaauðgi okkar Íslendinga í gjaldtöku hefur svo sem sjaldnast verið fátækleg. Kannski er þetta ekki alslæmt – hugmyndir sem virðast róttækar í fyrstu, slípast til, breytast og venjast með tíð og tíma. Síðar kann svo að fara að hugmynd verði að veruleika. Auðlindagjaldi í sjávarútvegi var formlega komið á árið 2004, en það hafði hins vegar verið lagt á með óbeinum hætti í gegnum gengið og ýmis konar sjóðum sem útgerðir greiddu í um árabil. Aðdragandi auðlindagjalds, eins og við þekkjum það í dag, var því um tveir áratugir.
Fleiri auðlindir en sjávarauðlind
Um leið og fyrstu hugmyndir um auðlindagjald í sjávarútvegi litu dagsins ljós komu samhliða fram hugmyndir um gjaldtöku af öðrum auðlindum. Gjald fyrir nýtingu vatns- og hitaorku og náttúrunnar vegna ferðamennsku var einnig nefnt. Síðar hafa fjarskiptatíðnisvið einnig verið nefnd þegar hugað er að mögulegum tekjum ríkisins af auðlindum. En þessar hugmyndir hafa einhverra hluta vegna aldrei orðið að veruleika. Meðganga hugmyndarinnar um gjaldtöku af nýtingu fleiri náttúruauðlinda en sjávarauðlindar er því orðin æði löng.
Nú er sú sem þetta ritar enginn talsmaður aukinnar skattheimtu, nema síður sé. Þó varð ekki hjá því komist að leiða hugann að mismunandi afstöðu til atvinnugreina sem birtist í umræðum á vor- og haustþingi í ár. Þingmenn settu á ræður í marga klukkutíma og á köflum virtist áhugi sumra helst beinast að því skrúfa sem næst fyrir súrefni til sjávarútvegsins, án þess þó að ganga af honum dauðum. Það er sérkennileg vegferð, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Sú vegferð verður raunar enn sérkennilegri þegar haft er í huga að íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð í heiminum.
Áherslan öll á gjaldtöku
Hlutur sjávarútvegs í útflutningstekjum Íslendinga hefur farið minnkandi á umliðnum árum. Ferðaþjónusta og orkufrekur iðnaður hafa þar stækkað sinn hlut. Það er vel, enda nauðsynlegt að fleiri en færri öflugar atvinnugreinar standi undir útflutningstekjum þjóðarinnar. Það vekur hins vegar furðu að áhugi margra alþingismanna á auðlindagjaldi einskorðast við sjávarútveg. Ekki nóg með að það eigi að kreista úr honum hverja krónu, heldur fá fyrirtæki í ferðaþjónustu og orkufrekum iðnaði beinlínis skattaafslátt. Þessu til viðbótar má nefna að engin atvinnugrein á Íslandi hefur náð eins miklum árangri í að draga úr olíunotkun og sjávarútvegurinn. Á tímum þegar stjórnvöld leggja sérstaka áherslu á umhverfismál, þá hefði mátt halda að greinin fengi notið þessa í einhverju, svo gera mætti enn betur með fjárfestingum í nýrri tækni til sjós og lands. Því er ekki að heilsa.
Aðrir þættir skila meiru
Umræður um nánast allt annað í sjávarútvegi en veiðigjald liggja óbættar hjá garði og er það miður. En um hvað á að ræða, kann einhver að spyrja? Íslenskur sjávarútvegur er einn sá framsæknasti í heimi. Íslenskur sjávarútvegur er ekki ríkisstyrktur, eins og í mörgum ríkjum, heldur greiðir hann verulegar fjárhæðir ár hvert í formi skatta og gjalda til ríkisins. Samvinna íslensks sjávarútvegs og iðn- og tæknifyrirtækja hefur skilað sér í stórkostlegum árangri og hafinn er útflutningur á þekkingu og hugviti fyrir milljarða króna á ári. Íslenskur sjávarútvegur hefur algera sérstöðu þegar kemur að því að draga úr olíunotkun, en á sama tíma og olíunotkun á Íslandi frá árinu 1990 hefur aukist um 57% hefur hún dregist saman í sjávarútvegi um 46%. Eins og sést af þessari stuttu upptalningu er margt að gerast í íslenskum sjávarútvegi. Flest af því skiptir miklu meira máli en veiðigjald – og skilar samfélaginu raunar mun meiri ábata en veiðigjaldið getur nokkurn tíma gert. Áhersla á komandi árum verður því vonandi á þessi málefni, en ekki eingöngu gjaldtökuna.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi