Á tiltölulega skömmum tíma hefur náðst mikil eining um það á alþjóðavísu, að líta á baráttuna gegn mengun og hlýnun jarðar sem stærstu áskorun samtímans.
Þó ennþá finnist margir sem afneita skaðlegum áhrifum mengunar og hlýnunar jarðar - meðal annars í Hvíta húsinu og nú síðast hjá nýjum forseta Brasilíu - þá fækkar þeim stöðugt.
Efasemdamennirnir hrópa en fáir hlusta. Til dæmis má nefna að þó Bandaríkin hafi dregið sig út úr samstarfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þá hafa flest borgarsamfélög Bandaríkjanna - og ríkin sjálf - skuldbundið sig til þess að grípa til aðgerða á grundvelli samkomulagsins.
Samkomulagið í gildi, þrátt fyrir allt
Sumt af því sem nú þegar hefur verið gert er stórt og mikið í sniðum. Til dæmis hefur Kalifornía, fjölmennasta ríki Bandaríkjanna með 38 milljónir íbúa, ákveðið formlega með lagasetningu að ríkið skuli knúið endurnýjanlegri orku innan nokkurra ára. Öll ný hús þurfa að vera með sólarselluþök.
Parísarsamkomulagið hefur verið lögfest vítt og breitt um heiminn. Því fylgja skuldbindingar um að bregðast við og vinna gegn mengun og hlýnun jarðar.
Þessu fylgja miklar áskoranir og fyrir lítið eyríki eins og Ísland eru þær svo sannarlega fyrir hendi.
Órafjarri því að vera ásættanlegt
Þvert á það sem margir vilja stundum halda, þá stendur Ísland afar illa þegar kemur að markmiðinu um að draga úr mengun um 40 prósent, miðað stöðuna árið 1990, fyrir árið 2030. Þetta er stóra skuldbindingin samkvæmt Parísarsamkomulaginu.
Raunar hefur þróunin verið þveröfug og losun gróðurhúsalofttegunda hefur færst í aukana, eins og fjallað hefur verið um á vef Kjarnans.
Eitt af því sem er mest krefjandi fyrir þjóðir heimsins, er að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem í senn draga úr mengun og auka skilvirkni og verðmætasköpun í samfélaginu.
Ísland hefur sögu að segja umheiminum, hvað þetta varðar. Hún kemur úr sjávarútvegi. Tölur Hagstofu Íslands sýna þetta glögglega.
Fram til ársins 2003 var losun CO2 frá sjávarútvegi mest allra geira, en aukin hagkvæmni, fjárfesting í tækni og framfarir í skipaiðnaði hafa leitt til mun minni mengunar. Þetta hefur leitt til þess að heildarlosun CO2 frá sjávarútvegi og matvælaiðnaði var ríflega 48% minni árið 2016 en árið 1995.
Líklega þurfa margir aðrir geirar að fara í gegnum viðlíka breytingar og sjávarútvegurinn hefur farið í gegnum, til að styðja við kröfuna um sjálfbærni og minni mengun.
Stóru sigrarnir
Þó stjórnvöld og sveitarfélög vilji vel, og hafi kynnt metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum, þá þarf miklu meira að koma til. Stóru sigrarnir verða unnir í rannsóknar- og frumkvöðlastarfi hjá fyrirtækjum. Þau þurfa að þora að fjárfesta í lausnum sem ýta undir vistvænni lifnaðar- og starfshætti. Þetta á við um allar tegundir fyrirtækja, hvort sem það er í ferðaþjónustu, orkugeira, iðnaði, fjármálaþjónustu, hugbúnaðargeira eða öðru.
En það er gott að geta horft til sjávarútvegsins og séð, að það er hægt að draga verulega úr mengun og auka verðmætasköpun á sama tíma. Lykillinn að þessu er að fjárfesta í nýrri tækni og rannsóknum, sem leiða til hagkvæmari og betri lausna. Verkefninu lýkur aldrei en það er þessi stefna sem er áhrifamikil: Tæknin og hagkvæmar og umhverfisvænni lausnir.
Ávinningurinn er verulegur og samfélagslegur á endanum.