Það var áfall að sjá að loðnuvertíðin verður engin þetta árið. Það er mikið högg fyrir þjóðarbúið og ekki síst þau sveitarfélög sem eiga mikið undir.
Fjarðabyggð er þar á meðal og hefur sveitarfélagið nú þegar komið frá sér áhyggjuröddum, vegna fyrirsjáanlegra neikvæðra afleiðinga fyrir íbúa sveitarfélagsins, fyrirtæki og sameiginlega sjóði.
Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands skilaði útflutningur á loðnu á erlenda markaði rúmlega 18 milljörðum í verðmæti árið 2017. Upphæðin var 18,3 miljarðar 2016 og tæplega 30 milljarðar 2015.
Það er mikið undir fyrir fjölmörg fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn með margvíslegum hætti. Vonandi mun ganga vel að takast á við þetta.
Aflabrestur mikið högg
Aflabrestur hefur í gegnum hagsögu Íslands oft verið mikið högg fyrir íslenska hagkerfið. Mörg dæmi má nefna, og líklega er eitt besta dæmið þegar síldin hefur komið og farið í gegnum tíðina, með tilheyrandi uppgripi og áföllum. Árið 1968 var gríðarlega erfitt fyrir marga þegar síldin hvarf, eins og ítarlega hefur verið skrásett.
Á Íslandi er þessi áhætta - sem flokka má sem vistkerfisáhættu - stór og mikil fyrir þjóðarbúið og hluti af sveiflukenndu efnahagslífi.
Frá því að kvótakerfið var tekið upp fyrir um 35 árum, og síðan lögfestingin á möguleika á framsali fyrir 29 árum, þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikil auðæfi byggst upp. Farið var að hluta yfir þessa þróun í ítarlegri fréttaskýringu á vef Kjarnans, sem sýndi að útgerðarfyrirtækin í landinu eru í annarri deild heldur en flestir aðrir geirar þegar kemur að fjárhagslegum styrk.
Mikil auðsöfnun
Grundvallaratriðið að baki velgengni sjávarútvegsins er að lögsagan íslenska hefur haldið áfram að gefa mikil verðmæti, meðal annars með sífelldri þróun og hagræðingu. Tekist hefur að snúa vörn í sókn, þegar á heildina er horft.
Aflaheimildir eru nú með verðmætustu eigna sem hægt er að komast yfir á Íslandi og nemur virði þeirra um 1.200 milljörðum króna, sé horft til algengs upplausnarvirðis. Langt er síðan að rökræðunni um hvort aflaheimildir væru í reynd eignir eða ekki lauk, því íslenska ríkið hefur samþykkt eignfærslu á aflaheimildum í ársreikningum um margra ára skeið og í sjálfu sér óþarfi að eyða miklum tíma í það mál.
Í takt við það sem nú er að gerast víða um heim ættu íslensk stjórnvöld - í samvinnu við útgerðarfyrirtækin með Hafrannsóknarstofnun sem miðpunkt samstarfsins - að fara að rannsaka vel hvað sé að gerast í lögsögunni og hvernig sviðsmyndir gætu litið út, vegna hlýnunar í hafi og vistkerfisbreytinga.
Stóreflum hafrannsóknir
Aflaheimildir verða einskis virði ef stofnar hrynja eða hverfa úr lögsögunni. Það er vitað. Það eitt ætti að setja stjórnvöld upp á tærnar og teikna upp nákvæmlega hvernig aflaheimildir séu veðsettar í bankakerfinu og hvernig bankakerfið hefur yfir höfuð nálgast slík viðskipti.
Hvernig er virði aflaheimilda í ólíkum tegundum metið í efnahagsreikningum, osvfrv.? Þetta eru mikilvægar spurningar fyrir íslenska hagkerfið.
Víða um heim er í gangi mikil vinna við greiningar á áhættu, bæði efnahagslegum og félagslegum, sem rekja má til vistkerfisbreytinga vegna hlýnunar jarðar eða mengunar.
Fyrir Ísland er afar mikið í húfi og hlutfallslega - ekki síst vegna framsals og veðsetningar á aflaheimildum í bankakerfinu, þar sem ríkið er stór eigandi - líklega meira en hjá mörgum öðrum ríkjum.
Af þessum sökum ættu stjórnvöld að stórefla starfsemi Hafrannsóknarstofnunnar og hlusta vel á raddir sem þaðan koma. Að auki ættu stjórnvöld að kanna hvernig megi auka samstarf sérfræðinga sem eru að greina ólíka kerfisáhættuþætti, þegar kemur að íslensku lögsögunni. Virði aflaheimilda er nú á við næstum tvöfalt eigið fé íslenska bankakerfisins, sem er rúmlega 600 milljarðar, sem sýnir hvað er mikið í húfi fyrir hagkerfið. Engin dæmi eru um svona stöðu í heiminum. Höfum vaðið fyrir neðan okkur og gefum þessum gaum.