Alban William Hugo Phillips fæddist árið 1914 í Te Rehunga-sýslu á Nýja Sjálandi. Hann gekk þó aldrei undir því nafni og þekktu allir hann sem Bill Phillips. Þegar Bill fæddist benti allt til þess að hann myndi lifa viðburðalitlu lífi. Tækifærin sem börn kúabænda á Nýja Sjálandi fengu á þessum tíma voru fá og var fast reiknað með því að einn daginn tæki Bill við fjölskyldubúinu. En svo varð ekki.
Foreldrar Bill voru bláfátæk og höfðu ekki efni á að senda hann í framhaldsnám. Eftir grunnskóla fluttist hann því til Ástralíu, og gerðist þar krókódílaveiðimaður. Árið 1937 sagði Bill skilið við krókódílaveiðar og sigldi til Kína, þá 23 ára gamall. Ekki leið þó á löngu þangað til Japanir réðust inn í Kína og flúði Bill þá til Bretlands, í gegnum Rússland.
Á ferð sinni með Síberíulestinni sótti Bill um vinnu í rússneskum námum. Ástæðan sem hann gaf var ekki sú að vinnan væri góð eða borgaði vel. Hann langaði einfaldlega að prófa að vinna í miðstýrðu sósíalísku landi. Það var þó enga vinnu fyrir hann að fá og árið 1938 mætti hann til Bretlands þar sem hann hóf nám í verkfræði.
Ári seinna, við upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari, hætti Bill í verkfræði og skráði sig í breska flugherinn. Herinn sendi Bill beint aftur til Asíu og var hann í Singapore þegar það vígi féll í hendur Japana. Bill flúði til Java, en fljótlega tóku Japanir völdin þar líka og eyddi hann næstu þremur árum í Japönskum stríðsfangabúðum. Það tók sinn toll.
Eftir að hann losnaði úr fangabúðunum flutti Bil svo aftur til London og var þar sæmdur MBE orðu Breska Konungsveldisins, fyrir störf hans í hernum. Bill, sem nú var orðinn 29 ára, fékk úthlutað pláss í London School of Economics, þar sem hann las hagfræði. Í fyrstu þótti Bill ekkert sérstakur nemandi. Eflaust spiluðu fyrri áföll þar sitt hlutverk, en einnig getur líka oft verið erfitt fyrir vísindamenn og verkfræðinga að eiga við mýkri vísindi, eins og hagfræði.
Svo leið og beið og einn daginn sá Bill teikningu af því hvernig hægt væri að búa til framboðs- og eftirspurnarmódel með vatni, leiðslum og tönkum. Þetta fannst verkfræðingnum sniðugt. Honum fannst þetta meira segja svo sniðugt að hann tók sig til og bjó til vatnsdrifanna-vél sem lýsti þá nýstárlegum kenningum J. M. Kaynes. Vélina kallaði hann Monetary National Income Analogue Computer (MONIAC).
MONIAC var hönnuð og smíðuð af mikill list. Bill var ekki bara góður verkfræðingur, heldur einnig þótti hann sérstaklega handlaginn. Megin tilgangur vélarinnar var þó ekki haggreining sérfræðinga, heldur var hún hönnuð til kennslu. Þar sem vélin var stór og dýr í framleiðslu, og þótti ekki hafa mikið fram yfir hefðbundnar kennsluaðferðir (algebru og gröf), þá fór hún aldrei í fjöldaframleiðslu.
Eftir MONIAC verkefnið komst Bill yfir nýtt gagnasett. Þetta gagnasett listaði verðbólgu (launa) og atvinnuleysi í Bretlandi langt aftur í tímann. Að skoða þessar tölur varð hans næsta verkefni. Bill hófst handa. Með blað og blýant að vopni teiknaði Bill punkta á hnit. Eftir mikla vinnu komst Bill að því að samband væri á milli launaverðbólgu og atvinnuleysis. Það er að segja, gögnin virtust sýna það að það væri hægt að skipta út smá verðbólgu fyrir atvinnuleysi, og svo öfugt.
Bill, sem bæði hógvær og nettur tappi, hélt því reyndar aldrei fram að verðbólga stjórnaði atvinnuleysi. Heldur benti hann bara á þetta samband og varaði fólk við að lesa of mikið í það. Það kom þó ekki í veg fyrir að kollegar Bill tækju kúrvuna, skelltu henni í kennslubækur og nefndu hana svo í höfuðið á hinum hógværa Bill Phillps: Phillips-kúrvan.
Milton Friedman heimsótti London stuttu eftir að rannsóknir Bill komu út. Sagan segir að þeir félagar hafi setið á bekk í garði í London þegar Bill hafi teiknað gríska stafi á blað sem lýstu því hvernig væntingar einstaklinga gætu afleitt þetta samband verðbólgu og atvinnuleysis. Milton, sem átti eftir að vinna Nóbels-verðlaun nokkrum árum síðar, og er einn áhrifamesti hagfræðingur sögunnar, nýtti sér þessa hugmynd Bill seinna til þess að sýna fram á að þetta samband héldi bara til skamms tíma. Síðan þá hefur Phillips-kúrvan hægt og smátt misst vægi sitt.
Phillips-kúrvan var lengi vel áhrifamikil. Seðlabankar reyndu að hafa áhrif á atvinnuleysi með tilraunum byggðum á rannsókn Bill. Sumir hagfræðingar héldu að loksins væri komið tól sem gæti komið í veg fyrir ömurlegheit á kreppuárum. Aðrir töldu þetta allt steypu. Sama hvað því líður, þá spilaði þessi uppfinning Bill stórt hlutverk og mótar enn hvernig hagfræðingar hugsa og deila um hvernig á að stjórna hagkerfum okkar.
Kúrvan skaut Bill upp á stjörnuhimin hagfræðinga. Bill var þó aldrei fyrir frægð og frama og flúði hann fljótlega London og settist að í Ástralíu, þar sem hann fékk frið frá húllumhæinu í kringum kúrvuna. Hann bjó þar þó ekki lengi þar sem hann dó aðeins 60 ára gamall. En þá var hann kominn aftur heim til Nýja Sjálands.
Bill var hógvært mikilmenni. Bæði í sínu einkalífi og sem hagfræðingur. Honum ber að muna eftir. Hann ber að heiðra. Rannsóknir hans breyttu því hvernig hagfræðingar hugsuðu um heiminn. Ef slegið er inn nafn hans á Google, „Bill Phillips“, þá skilar Google ekki stríðshetjunni, uppfinningamanninum og hagfræðingnum Bill Phillips frá Te Rehunga. Í staðinn skilar Google yfirliti yfir vaxtarræktarmógúlinn, og höfund bókarinnar Body for Life: 12 Weeks to Mental and Physical Strenght, sem einnig heitir Bill Phillips.