Ég get ekki séð að það sé ómálefnalegt, eins og sumir halda nú fram, að velta því fyrir sér hvort það að innleiða orkulöggjöf Evrópusambandsins sé í þágu okkar sem þjóðar.
Undanfarin ár hafa ótal einkaaðilar sótt um leyfi til að virkja um allt land - með svonefndum smávirkjunum, sem eru undanþegnar umhverfismati. Samanlagt gæti orkuframleiðsla þessara aðila numið einhverjum hundruðum megawöttum. Margar þessara smávirkjana eru í eigu fjárfestingarsjóða.
Annað sem er að gerast í orkumálum eru vindmyllur. Eftir því sem prófanir Landsvirkjunar sýna, eru vindmyllur afar hagkvæmar hérlendis þar sem vindmagn á Íslandi er mun meira en almennt gerist í Evrópu. Nú þegar liggja fyrir áætlanir um að byggja stóra vindmyllugarða hérlendis fjármagnaða af atvinnufjárfestum.
Þess vegna mun það gerast, í náinni framtíð, að einkaaðilar eigi orkuframleiðslufyrirtæki hér á landi sem fullnægi orkuþörf sæstrengs.
Ég spyr mig hins vegar að þessu:
– Getum við staðið gegn einkaaðilum ef þeir gera kröfu um að leggja hér sæstreng fyrir þeirra eigin orkuframleiðslu og á þeirra eigin kostnað?
– Erum við í þeirri stöðu í framtíðinni, eftir að hafa innleitt hér löggjöf um að markaðsvæða orkuframleiðslu (þriðja orkupakkann), að neita einkaaðilum um lagningu sæstrengs?
Þessu finnst mér ég bara ekki hafa fengið nein svör við frá þeim sem vilja nú innleiða löggjöfina.
Ég kynntist því í gegnum störf mín fyrir InDefence hópinn að það getur verið erfitt að eiga við stóra hagsmunaaðila þegar þeir róa öllum árum að því að sannfæra alþingismenn, stofnanir ríkisins og almenning um sjónarmið sín. Það kom skýrt fram þegar vogunarsjóðirnir sem höfðu keypt eignir upp á meira en eina þjóðarframleiðslu á brunaútsölu í hruninu! Þeir réðu til sín alla okkar bestu lögfræðinga og áróðursmeistara til að hafa áhrif á löggjafann og stofnanir ríkisins. Þannig tókst þeim að spara sér hundruð milljarða á kostnað Íslendinga með afslætti á útgönguskatti (svokölluðum stöðuleikaframlögum) sem náðist fram með hræðsluáróðri um lögsóknir - þrátt fyrir að hafa engan siðferðilegan eða lagalegan rétt á slíkum afslætti.
Það getur verið erfitt að standa gegn slíku.
Önnur spurning sem mér finnst ósvöruð í þessu samhengi er að ef þessi staða kemur upp, þ.e. að einkaaðilar leggi hér sæstreng, þá er stutt í það að samkeppnislöggjöf Evrópusambandsins komi í veg fyrir það að ríkið geti átt Landsvirkjun áfram þar sem hún yrði „markaðsráðandi” á orkumarkaðinum með yfirgnæfandi markaðshlutdeild. Þetta er alla vega að gerast í Frakklandi, að því er mér skilst.
Ég er ekki sérfræðingur á sviði orkumála og ég vona að áhyggjur mínar séu óþarfar. Ég verð þó að segja að þau rök sem hafa verið sett fram til að styðja þriðja orkupakkann eru ekki til þess fallinn að minnka þessar áhyggjur mínar.