Enn á ný stendur til að vísa börnum sem hafa komið til Íslands í leit að öryggi, tækifærum og betra lífi aftur í óboðlegar flóttamannabúðir vegna þess að þau lentu ekki fyrst á Íslandi þegar þau komu til Evrópu. Það á að senda Sawari-fjölskylduna (faðir með tvo syni) og Safari-fjölskylduna (móður með tvö börn) aftur í flóttamannabúðir í Grikklandi. Það sem af er árinu 2019 einu saman hafa íslensk stjórnvöld synjað 75 börnum um vernd hérlendis, af þeim fengu 15 synjun á grundvelli verndar í öðru landi.
Það liggur fyrir að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur verið leiddur í lög á Íslandi. Þannig hefur málum verið háttað frá 20. febrúar 2013, eða í rúm sex ár. Samkvæmt honum ber stjórnvöldum skylda að meta það sem barni er fyrir bestu í öllum ákvörðunum sem varða börn. Í þriðju grein hans segir orðrétt: „Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.“
Send í óöryggið
Árið 2010 hættu Íslendingar að senda flóttamenn sem hingað hafa komið til Grikklands vegna þess að aðstæður þeirra þar þóttu ófullnægjandi. Sú afstaða hefur ekki verið formlega endurskoðuð. Samt eru íslensk stjórnvöld að senda bæði börn og fullorðna þangað, sem hlotið hafa samþykkta vernd þar, þrátt fyrir að allar alþjóðastofnanir sem fylgjast með hafi ítrekað lýst því yfir að staða barna á flótta í Grikklandi er hörmuleg. Aðbúnaður er algjörlega óboðlegur, fjöldi barna er haldið í því sem er ekki hægt að kalla annað en búr og mörg þeirra hafa orðið fyrir miklu ofbeldi í þessum aðstæðum.
Samkvæmt tölum UNICEF voru um 28.500 börn á flótta staðsett í Grikklandi í lok apríl. Þeim fjölgaði um 7.500 frá því í desember 2017. Af þessum börnum voru 3.564 án forráðamanna og af þeim vantaði 2.443 en langtimahúsnæðislausn. Það þýðir á mannamáli að þau voru í hælisleitendakerfinu. Langflest börn sem koma til Grikklands koma frá Afganistan, Sýrlandi og Írak. Nú megið þið rifja upp hverjir bera ábyrgð á þeim stríðum sem geisað hafa í þessum þremur löndum.
En Ísland vill ekki taka við þessum tugum barna sem hingað komast til að sækjast eftir vernd. Stjórnvöld hér telja þessi börn vera vandamál annarra, og mun verr staddra ríkja. Grikkland, eða eftir atvikum Ítalía, geta fundið út úr þessu.
Fylgdarlausum börnum borgað fyrir að fara
Afstaðan gegn flóttafólki, og börnum á flótta, hefur verið hert til muna á undanförnum árum. Skilaboðið eru skýr: Við viljum ekki fá ykkur og þeim sem hingað komast þrátt fyrir það verður gert afar erfitt fyrir að fá hér vernd.
Dæmi um þessa afstöðu er til að mynda að finna i reglugerð sem þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, setti í fyrra og fól í sér að Útlendingastofnun fékk heimild til þess að greiða enduraðlögunar- og ferðastyrk til umsækjenda um alþjóðlega vernd í tilteknum tilvikum. Þau tilvik sem um ræðir eru þegar flóttamaður hefur annað hvort dregið umsókn sína um vernd hérlendis til baka eða hann hefur fengið synjun og ákvörðun hefur verið tekin um að veita aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar. Íslenska ríkið var að búa til fjárhagslegan hvata fyrir flóttamenn að fara annað.
Einn þeirra hópa sem hvatakerfið nær til eru fylgdarlaus börn frá völdum ríkjum. Þau geta fengið allt að eitt þúsund evrur, tæplega 142 þúsund krónur, samþykki þau að draga verndarumsókn sína til baka eða að það sé þegar búið að synja þeim um alþjóðlega vernd. Það er því stefna íslenskra stjórnvalda, samkvæmt reglugerð sem var samþykkt og tók gildi í tíð sitjandi ríkisstjórnar, að borga fylgdarlausum börnum til að fara annað.
Til viðbótar var frumvarp núverandi dómsmálaráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, til breytinga á útlendingalögum, afgreitt sem stjórnarfrumvarp á ríkisstjórnarfundi í byrjun apríl síðastliðins. Samkvæmt greiningu Stundarinnar kemur fram í frumvarpinu, sem komst ekki til umræðu á ný yfirstöðnu þingi, að svipta ætti þá sem þegar höfðu hlotið alþjóðlega vernd í Evrópulöndum eins og Grikklandi réttinum til efnislegrar meðferðar á grundvelli undantekningarákvæðis útlendingalaga sem fjallar um sérstök tengsl og sérstakar ástæður, t.d. heilsufar.
Þetta er því skjalfest stefna íslenskra stjórnvalda í málefnum flóttamanna.
Skilvirkni og varúð í fyrirrúmi
Þrír flokkar skipa ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Sjálfstæðisflokkurinn er þeirra stærstur og er sá flokkur sem nær alltaf hefur mannað dómsmálaráðuneytið hérlendis, enda hefur hann meira og minna stýrt Íslandi frá því að Íslendingar fengu rétt til þess að gera það sjálfir.
Í stefnu flokksins í útlendingamálum er stuttlega fjallað um flóttafólk og sagt að móttaka þess sé sjálfsögð. Þar segir einnig að „mannúðarsjónarmið og skilvirkni“ skuli höfð að leiðarljósi í málaflokknum og að aðstoð við flóttamenn „leiði til tækifæra til sjálfsbjargar“.
Í stjórnmálaályktun flokksins frá síðasta landsfundi, sem fór fram í mars 2018, er nánast ekkert talað um flóttamenn. Eina málsgreinin sem er um málaflokkinn er eftirfarandi: „Taka þarf vel á móti þeim sem leita hælis á Íslandi. Ekki má láta átölulaust að hingað komi fólk frá öruggum ríkjum í þeim tilgangi að misnota réttindi fólks sem er á flótta frá raunverulegri neyð. Mikill árangur hefur náðst við styttingu málsmeðferðartíma umsókna um alþjóðlega vernd.“
Að öðru leyti virðist stefna Sjálfstæðisflokksins í útlendingamálum að mestu snúast um að tryggja erlendu vinnuafli jafnræði og finna leiðir til að laða hingað til lands erlendra sérfræðinga og/eða vinnuafl sem bæti samkeppnisstöðu Íslands.
Barnapólitík fyrir íslensk börn
Framsóknarflokkurinn hefur heldur ekki mjög skýra stefnu í málefnum flóttamanna. Í ályktunum Framsóknarflokksins, sem fram fór í fyrravor, er einungis fjallað um útlendinga almennt og að mestu snýr sá litli hluti skjalsins sem tileinkaður er þeim málaflokki að útlendingum almennt. Þ.e. innflytjendum sem geta komið hingað til að starfa og búa, flóttamönnum sem sækja hér um vernd og kvótaflóttamönnum sem hingað koma á grundvelli alþjóðasamvinnu. Í ályktunum Framsóknarflokksins segir: „Mikilvægt er að við móttöku útlendinga sé unnið með mannréttindi að leiðarljósi, að framkvæmd laga sé skilvirk og vel sé staðið að skipulagi hvort sem er vegna umsókna um dvöl, atvinnuréttindi eða þjónustu samfélagsins.“
Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar lagt sig fram við að setja málefni barna á oddinn. Þannig var titli Ásmundar Einars Daðasonar breytt í félags- og barnamálaráðherra og allflest lykilmál hans snúa að velferð barna. Í áðurnefndum ályktunum flokksþings Framsóknarflokksins frá því í fyrra segir: „Framsóknarflokkurinn leggur ríka áherslu á velferð barna.“
Framsóknarflokkurinn er einnig með eitthvað sem kallast grundvallarstefnuskrá flokksins. Samkvæmt heimasíðu hans er hún „kjarninn í stefnu flokksins – eða það leiðarljós sem önnur stefnumótun byggist á.“ Grundvallarstefnuskráin er því einskonar stjórnarskrá Framsóknarflokksins. Hún var síðast endurskoðuð 2001 og þar áður árið 1987.
Í 2. grein hennar segir að flokkurinn berjist fyrir „mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.“ Í 3. grein hennar segir: „Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.“ Í fjórðu grein hennar segir: „„Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi. Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.“
Það er spurning hvort að þessi grundvallarmál nái einungis til skilgreindra Íslendinga – og barna með íslenskan ríkisborgararétt – vegna þess að ekkert í útlendingastefnu stjórnvalda bendir til þess að unnið sé eftir þessari grundvallarstefnu.
Flokkur sem skilgreinir sig út frá flóttamannapólitík
Einn flokkur sem situr í núverandi ríkisstjórn skilgreinir sig sérstaklega sem stjórnmálaafl út frá stefnu sinni í flóttamálum. Málaflokkurinn er mjög umfangsmikill í öllum stefnuplöggum flokksins. Það eru Vinstri græn, flokkur forsætisráðherra. Í stefnu flokksins segir t.d.: „Ísland þarf að axla ábyrgð og koma fólki í neyð til hjálpar eins og mögulegt er, bæði með því að taka á móti fleira flóttafólki og styðja fólk í því að geta lifað með reisn annars staðar í heiminum. Nauðsynlegt er að Ísland axli ábyrgð á forréttindastöðu sinni í alþjóðasamfélaginu og geri það sem í valdi þess stendur til að deila auðlegð sinni með þeim sem mest þurfa á að halda. Við megum ekki líta undan.”
Á síðasta landsfundi Vinstri grænna, sem fór fram í október 2017, var eftirfarandi hluti af ályktunum fundarins: „Stríðsátök, sem oftar en ekki er stofnað til eða mögnuð upp af NATO-ríkjum, geta af sér neyð og eyðileggingu. Sömu ríki styðja við bakið á einræðisstjórnum sem brjóta á mannréttindum borgara sinna og NATO-ríki eru sömuleiðis í fararbroddi þeirra samfélaga sem viðhalda þeirri efnahagslegu misskiptingu sem veldur því að fjöldi fólks um heim allan sér ekki fram á að geta skapað sér sómasamlegt líf á heimaslóðum. Allir framangreindir þættir ýta undir flutninga fólks, oft við hörmulegar og háskalegar aðstæður, í leit að friði, öryggi og betra lífi.“
Enginn flóttamannavandi á Íslandi
Ísland rekur mjög harða flóttamannastefnu. Tilgangur hennar er að sem fæstir fái hér alþjóðlega vernd. Nær allar breytingar sem gerðar eru fela í sér að þrengja nálaraugað. Það er einfaldlega staðreynd. Í því felst „skilvirknin“ sem stefnt er að pólitískt í þessum málum. Framkvæmd þeirra útlendingalaga sem samþykkt voru í þverpólitískri sátt árið 2016 hefur öll verið á þessum nótum. Að sýna sem mesta hörku til að sem fæstir komi.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er fjallað um flóttafólk. Þar segir: „Aldrei hafa fleiri verið á flótta vegna stríðsátaka, ofsókna og umhverfisvár. Ísland mun leggja sitt af mörkum til lausnar á flóttamannavandanum og taka á móti fleiri flóttamönnum. Mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar verða lögð til grundvallar og áhersla á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd. Auk þess verður tryggð samfella í þjónustu og aðstoð við þá sem fá slíka vernd. Þverpólitískri þingmannanefnd verður falið að meta framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoða þau.“
Ekkert bólar á niðurstöðu þeirrar endurskoðunar. Þvert á móti hefur kjörtímabilið verið notað til að herða enn framkvæmd og auka „skilvirkni“ í flóttamannamálum.
Það er oft látið þannig í umræðunni að Ísland eigi við einhvern flóttamannavanda að stríða. Það er ekki þannig. Hingað koma mjög fáir í öllu samhengi og enn færri fá að vera. Helstu vandamál sem skapast eru þau að einungis þrjú sveitarfélög hér á suðvesturhorninu eru tilbúin að þjónusta flóttamenn í biðstöðu: Reykjavík, Hafnarfjörður og Reykjanesbær. Hin stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu svara ekki erindum um þátttöku eða telja sig ekki í stakk búið til að leggja hönd á plóg. Það kemur ekki á óvart að á meðal þeirra eru þau sveitarfélög sem sinna síst félagslegri þjónustu, bjóða vart upp á félagslegar íbúðir og hafa hlutfallslega langfæsta erlenda ríkisborgara búandi hjá sér.
Val að vísa börnum frá
Við tökum á móti fáum flóttamönnum. Í fyrra fengu hér 289 einstaklingar alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Umsóknum um vernd hefur fækkað mikið frá árunum 2016 og 2017.
Fyrir utan þá flóttamenn sem koma að sjálfsdáðum til landsins þá tekur Ísland líka við svokölluðum kvótaflóttamönnum. Stefnt er að því að taka við allt að 75 slíkum á þessu ári, að mestu Sýrlendingum sem eru staddir í Líbanon og hinsegin flóttamönnum og fjölskyldum þeirra frá Kenýa. Áður hafði Ísland tekið við samtals 695 kvótaflóttamönnum á 62 árum. Það þýðir að við höfum tekið við 12,2 að meðaltali á ári.
Það er alveg hægt að skilja flóttamannapólitík Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Innan þeirra flokka eru vissulega skiptar skoðanir á þessum málum en stórir hópar þar eru mjög fylgjandi hörku í bæði flóttamanna- og innflytjendamálum almennt.
Vinstri græn hafa hins vegar þá yfirlýstu stefnu að það megi ekki líta undan í málefnum flóttamanna. Að nauðsynlegt sé að Ísland axli ábyrgð og komi fólki í neyð til hjálpar. Að forréttindalandið axli ábyrgð á stöðu sinni og taki við fleirum.
Í áðurnefndri landsfundarályktun Vinstri grænna frá haustinu 2017, segir að í stað þess að horfast í augu við ástæður og ástæður flóttamannastraums „kjósa ýmsir á Vesturlöndum að skjóta sér undan ábyrgð, afmennska fólkið sem hér um ræðir og breyta þeim í vandamál – flóttamannavandann.“
Það er full ástæða til að spyrja þingmenn, ráðherra og aðra Vinstri græna sem standa að ofangreindri stefnu og ályktunum hvernig þær samræmast raunveruleikanum sem flokkurinn tekur þátt í að móta við ríkisstjórnarborðið. Hvort það felist ekki afmennskun í því að heimila sífellt hertari framkvæmd útlendingalaga. Hvort það sé mennska að vísa börnum frá öryggi á Íslandi og í grískar flóttamannabúðir.
Eða er eina spurningin sem vert sé að spyrja sú hvort það sé ekki alveg örugglega þannig að þegar það þurfi að mynda óvenjulega ríkisstjórn flokka sem eru ósammála um flest þá sé í lagi að kyngja flestu sem skilgreinir þig, til að tryggja sæti við borðið.
Íslensk stjórnvöld, undir forsæti Vinstri grænna, þurfa nefnilega ekki að vísa frá börnum sem sækja hér um hæli. Þau kjósa að gera það.