Eigið fé landsmanna í fasteignum var 1.146 milljarðar króna í lok árs 2010. Í lok árs 2017 var það orðið 3.174 milljarðar króna og hafði þá tæplega þrefaldast. Á mannamáli þýðir það að á þessu tímabili hafa þeir sem átt hafa fasteign getað aukið eign sína í þeim að frádregnum skuldum umtalsvert.
Þar skiptir vitanlega miklu máli fordæmalaus hækkun á verði íbúðarhúsnæðis. Það hefur rúmlega tvöfaldast á höfuðborgarsvæðinu í krónum talið frá lokum árs 2010. Íbúð sem þá kostaði um 30 milljónir króna færi í dag á yfir 60 milljónir króna.
En hitt sem hefur ekki síður skipt máli er skuldahlutinn. Aðstæður til að greiða niður skuldir hefur nefnilega aldrei verið skaplegri hérlendis en á síðustu árum.
Geta kosið með fótunum
Þar spilar líka inn í að réttur neytenda til að velja sér lánaform hefur verið styrktur verulega. Það hefur gerst með því að lántökugjöldum er nú stillt verulega í hóf og uppgreiðslugjöld eru orðin undantekning, ekki regla hjá nær öllum öðrum lánveitendum en viðskiptabönkunum. Þessar breytingar hafa gert það að verkum að mikið vald hefur verið fært til margra lántaka, sem geta valið með fótunum ef þau kjör sem þeim bjóðast þykja ekki lengur samkeppnishæf.
Þetta hefur líka breyst hratt, þótt enn sé nokkuð í land með að ná stöðunni hjá eðlilegum viðmiðunarlöndum sem styðjast ekki við örmynt.
Betri kjör fyrir suma
Það varð eiginlega eðlisbreyting á lánamarkaði þegar stærstu lífeyrissjóðir landsins ákváðu að hækka lánshlutfall og lækka vexti umtalsvert haustið 2015. Þá bauð Lífeyrissjóður verzlunarmanna til að mynda upp á verðtryggða vexti sem voru 3,6 prósent, sem var miklu lægra en áður hafði þekkst fyrir slík lán. Auk þess buðu lífeyrissjóðirnir upp á óverðtryggð lán á mun betri kjörum en viðskiptabankarnir.
Það skipti líka máli að verðbólga var undir 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands frá febrúar 2014 og fram á haust 2018. Síðan þá hefur hún verið um og rétt yfir þremur prósentum. Í dag mælist hún 3,1 prósent og allar væntingar standa til þess að hún dragist saman frekar en aukist. Þessar aðstæður gerðu það að verkum að hægt var að vinna vel á höfuðstól húsnæðislána.
Í dag bjóða fjórir lífeyrissjóðir upp á verðtryggð lán sem bera vexti undir tveimur prósentum. Lægstir eru vextir Almenna lífeyrissjóðsins, 1,84 prósent. Þá eru lægstu óverðtryggðu vextir nú komnir undir fimm prósent, en Birta býður sínum sjóðsfélögum upp á 4,85 prósent óverðtryggða breytilega vexti.
Samandregið þá hafa lánskjör sem íslenskum íbúðarkaupendum bjóðast aldrei verið betri.
Þessi kjör standa þó bara þeim til boða sem eiga umtalsvert eigið fé. Flestir lífeyrissjóðir lána nefnilega einungis fyrir 70 prósent af kaupverði, sem þýðir að viðkomandi lántaki þarf að geta lagt fram 30 prósent. Við kaup á áðurnefndri 60 milljóna króna íbúð þýðir það að lántakandinn þarf að eiga 18 milljónir króna. Ljóst er að það útilokar ansi marga þátttakendur á íslenska húsnæðismarkaðinum, sérstaklega ýmsa fyrstu kaupendur, láglaunafólk og þá sem hafa verið á leigumarkaði, með tilheyrandi háum húsnæðiskostnaði. Með öðrum orðum þá sem þurfa mest á hjálp að halda. Þeir þurfa að taka mun dýrari lán vilji þeir eignast húsnæði, til dæmis hjá viðskiptabönkunum sem bjóða upp á hærra lánshlutfall.
Tilfærsla á peningum úr ríkissjóði
Ofan á þetta allt saman hefur ríkið gefið hluta af landsmönnum umtalsverða fjármuni í formi beingreiðslna ( Leiðréttingin) eða skattaafsláttar (skattfrjáls nýting séreignarsparnaðar).
Þessar aðgerðir, sem munu hafa kostað ríkissjóð um 90 milljarða króna um mitt ár 2021, hafa fyrst og síðast gagnast efnameiri hluta þjóðarinnar.
Leiðréttingin miðaði ekki við tekju- eða eignastöðu fólks heldur skuldastöðu. Þ.e. það skipti engu máli hvað fólk átti í eignum né hvað það þénaði á mánuði þegar kom að því að ákveða hvað það ætti að fá í niðurfelldum skuldum, heldur bara hvað það skuldaði.
Frægt er einungis 35 prósent framteljenda áttu rétt á að fá niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána sinna í Leiðréttingunni. Í henni fólst að 72,2 milljarðar króna voru greiddir úr ríkissjóði inn á höfuðstól lána hluta þeirra sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009 eða í formi reiðufjár til þeirra sem áttu rétt á leiðréttingu en voru ekki lengur með húsnæðislán til að láta greiða inn á. Af upphæðinni allri fór 72 prósent, eða 52 milljarðar króna, til þess helmings þjóðarinnar sem á mestar eignir. Þar af fór tæplega þriðjungur (22,7 milljarðar króna) til þess fimmtungs framteljenda sem áttu mestar hreinar eignir. Alls fengu 1.250 manns sem höfðu greitt auðlegðarskatt, en til að borga slíkan þurfti að eiga hreina eign upp á 75 til 100 milljónir króna, leiðréttingu. Í ljósi þess að sá helmingur landsmanna sem á mest eigið fé í húsnæði sínu á 99,3 prósent af öllu eigin fé í húsnæði og hefur aukið eigið fé sit í fasteignum um tæpa tvö þúsund milljarða króna milli áranna 2010 og 2017, þá hlýtur að vera öllum ljóst að röngum helming landsmanna var hjálpað í Leiðréttingunni. Hækkun á fasteignaverði skilaði enda húsnæðiseigendum margfaldri eiginfjáraukningu.
Tekjuhæstu hópar fá skatttekjur framtíðarkynslóða
Hin hliðin á Leiðréttingunni var að heimila fólki að nota séreignarsparnaðinn sinn til að greiða niður húsnæðislán. Þeir sem þetta gera fá ríflegan skattaafslátt frá ríkissjóði enda niðurgreiðslunotkunin skattfrjáls notkun á séreignarsparnaði. Þessar skatttekjur eru teknar frá framtíðarkynslóðum, enda séreignarsparnaður skattlagður við útgreiðslu.
Úrræðið var nýverið framlengt til ársins 2021. Í greinargerð sem fylgdi með því lagafrumvarpi kom fram að alls hefðu Íslendingar notað 56 milljarða króna af séreignarsparnaði sínum til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána sinna frá árinu 2014. Inni í þeirri tölu eru bæði framlög einstaklinganna sjálfra og mótframlög launagreiðenda. Allt í allt má ætla að skattgreiðslur sem ríkissjóður muni gefa eftir til þess hóps sem nýtir sér úrræðið verði á bilinu 18 til 19 milljarðar króna frá miðju ári 2014 og fram til júníloka 2021.
Samandregið þá blasir við að það er nokkuð afmarkaður hópur Íslendinga sem að mestu er með háar tekjur sem nýtur þeirra 18 til 19 milljarða króna tekna sem ríkið gefur eftir af framtíðartekjum vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar.
Að hjálpa röngum hópum
Það ætti að vera rannsóknarefni hvernig það hefur atvikast að þeir hópar sem aðgerðir hins opinbera og lánveitenda, sem ráðist hefur verið í til aðstoðar þeim sem þurfa þak yfir höfuðið, gagnast að lang best eignarmestu- og/eða tekjuhæstu hópum íslensks samfélags.
Því betur sem viðkomandi er staddur, því betri er staða hans til að taka hagstæðustu lánin sem veita honum bestu mögulegu vextina og skjól frá uppgreiðslugjaldi.
Því meira sem hann átti, því líklegri var hann að fá skaðabætur úr ríkissjóði undir hatti Leiðréttingarinnar. Því tekjuhærri sem viðkomandi er, því líklegri er hann til að njóta skattaafsláttar vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar. Ofan á allt þetta hefur þorri þeirrar aukningar á eigin fé í fasteignum sem fallið hefur til á undanförnum árum vegna verðhækkana á íbúðarhúsnæði fallið þessum hópum í té.
Allt þetta ýtir undir ruðningsáhrif á markaðnum sem leiðir til hærra fasteignaverðs og hærra leiguverðs. Það bitnar á hinum verst settu sem þurfa fyrir vikið að greiða hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum í leigukostnað og eiga enn erfiðara um vik með að komast inn á eignarmarkað.
Kerfisbundið hefur verið ráðist í aðgerðir sem bæta hag þeirra sem best hafa það, en ná ekki til þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda og gera auk þess aðstæður þeirra erfiðari.
Það er eitthvað skakkt við það.