Gdansk í Póllandi er orðin suðupottur mannlífs og vinsæll heimsóknarstaður fyrir ferðamenn. Íslendingar hafa í vaxandi mæli sótt borgina heim undanfarin ár, enda er hún ægifögur og mannlíf þar heillandi.
Þekktasta hlutverk borgarinnar í mannkynssögunni var að vera vettvangur innrásar nasista sem ýtti seinni heimstyrjöldinni af stað. Hinn 1. september 1939 réðust nasistar til atlögu og innlimuðu svo borgina í Þýskaland nasismans skömmu síðar.
Áróðurssvið
Skelfing stríðsins lék borgina illa, svo ekki sé meira sagt. Ekki nóg með að ofbeldi og hryllingur hafi verið daglegt brauð heldur var sérstök áhersla lögð á að breiða af mikilli ákefð út erindi nasista á þessum slóðum, og nota það síðan sem fyrirmynd fyrir aðra vígvelli.
Skipulagðar aftökur á gyðingum og niðurlæging mannsandans þar sem þeir komu var eins og áróðursleikrit á sviði í Gdansk. Aðrar borgir í Póllandi fylgdu í kjölfarið og samhliða.
Gdansk hefur mikilvægt hernaðarlegt gildi, þegar því er velt upp hvernig landlega borgarinnar er á ófriðartímum. Hafnarborg við Eystrasalt - sem er tengipunktur viðskipta og mannlífs - einkennin sem geisla af henni í dag.
Borgin var svo gott sem jöfnuð við jörðu, undir lok stríðsins, og var það gert skipulega þegar farið var að halla undan fæti hjá nasistum.
Leitin að lífskraftinum
Til að bæta gráu ofan á svart var borgin undir kúgun yfirvalda kommúnista á eftirstríðsárunum. Hún náði varla að finna lífskraftinn sem borg fyrr en á níunda áratugnum.
Miðborg Gdansk var endurbyggð eftir stríðs- og kúgunartímann. Það sem er merkilegt við endurreisnina - fyrir utan augljóst verkfræðilegt afrek - er að endurbygging borgarinnar var þaulhugsuð ofan í minnstu smáatriði sögunnar.
Helstu fyrirmyndir voru ekki sóttar í stöðuna eins og hún var, fyrir 1. september 1939. Heldur var horft lengra aftur, eða aftur til 1789. Þá var borgin upp á sitt best, á margan hátt, og einkenndist ytra útlit af alþjóðlegum straumum sem alþjóðaviðskipti og mannlíf báru með sér.
Fyrir fimmtán árum heimsótti ég borgina og þá var búið að breyta marmaraklæddu neðanjarðarbyrgi Hitlers í lúxusveitingastað. Það var í senn hrikalegt og þægilegt að setjast þar inn og borða góðan mat, þar sem ítalskur þjónn sýndi metnað og eftirminnilega mikla þekkingu. Allt eins og það á að vera á veitingastað með alþjóðlegt yfirbragð.
Ómögulegt að skilja
Ég er af þeirri kynslóð sem aldrei mun skilja stríðstímann til fulls, enda hefur tíminn frá lokum seinni heimstyrjaldar náð 80 árum. Þó átök hafi víða verið frá því stríðinu lauk, þá er seinni heimstyrjöldin minnisvarði um hvað getur gerst þegar alþjóðleg samvinna er ekki fyrir hendi og þjóðernispopúlismi verður að stjórn- og kúgunartæki í mannlegum samskiptum.
Leiðin fram á við, í alþjóðavæddum heimi, ætti að vera alþjóðleg samvinna um öll stærstu mál samtímans. Hönd í hönd, hafa þjóðir heims sýnt að alþjóðasamvinna í gegnum alþjóðastofnanir og alþjóðaviðskipti, er líklegust til að tryggja frið og farsæld.
Ekkert er einfalt, þrátt fyrir það, og úrlausnarefnin eru fjölmörg. Uppbrot alþjóðasamvinnu, eins og sést á tollastríðum Bandaríkjanna og Kína og Brexit-stefnunni í Bretlandi, er ögrun sem þjóðir heimsins munu vonandi takast á við með nánara samstarfi og samvinnu.
Ísland á allt undir
Ísland á mannlífið undir þessari samvinnu og það er hollt að hugsa til þess - í okkar velmegunarsamfélagi, í samanburði við flest svæði heimsins - að ekkert gerist af sjálfu sér, þegar alþjóðleg samvinna er annars vegar. Við verðum að taka þátt til að búast við opnum mörkuðum fyrir okkar vörur og þjónustu. Við verðum að taka þátt til að byggja upp traust og trúnað við aðrar þjóðir. Við verðum að taka þátt til að miðla góðri reynslu og þekkingu, þegar það er hægt.
Ísland getur lagt sitt af mörkum og verið hluti af sterkri heild, hvort sem það er í alþjóðastofnunum eins og NATO eða SÞ, eða á öðrum vettvangi alþjóðlegrar samvinnu. Með henni er best tryggt að heimóttaskapurinn brjóti ekki niður gangverk daglegs lífs.
„Sú saga er gömul og ný að stríðsæsingamenn ala á ótta og illsku, tortryggni og andúð. Þeir misnota ættjarðarást, afflytja þjóðrækni svo að úr verður þjóðremba og hatur í garð annarra. Mörg dæmi eru um þetta, víti til að varast. Þann lærdóm þarf að hafa í huga, nú og endranær.“
Þetta segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í yfirlýsingu vegna heimsóknar hans til Póllands, þar sem upphafs seinni heimstyrjaldarinnar var og er minnst.
Þetta eru góð og gild orð, þegar þess er minnst að flóðgáttir illsku og haturs opnuðust í hinni mögnuðu og alþjóðlegu borg Gdansk.