Getur Sjálfstæðisflokkur orðið raunhæfur kostur fyrir ungt fólk?

Auglýsing

Í aðdrag­anda lands­fundar Sjálf­stæð­is­flokks­ins árið 2015 sendu ungir sjálf­stæð­is­menn frá sér lista yfir um 100 breyt­ing­­ar­til­lögur á álykt­un­­ar­drögum sem mál­efnda­­nefndir flokks­ins höfðu útbú­ið í aðdrag­anda lands­fund­ar.

Í til­­kynn­ingu frá þeim sagð­i að fjöld­inn end­­ur­­spegl­aði umfang „þeirra breyt­inga sem ungir sjálf­­stæð­is­­menn telja ­nauð­­syn­­legar til þess að Sjálf­­stæð­is­­flokk­­ur­inn verði aftur að raun­hæf­um val­­kosti fyrir ungt fólk“.

Á­hyggjur ungu sjálf­stæð­is­mann­anna voru ekki byggðar á sandi. Í könnun sem MMR gerði í lok maí 2015 kom í ljósi að ein­ungis 12,5 pró­­sent fólks á aldr­inum 18 til 29 ára studdi flokk­inn. 

Aðgerðin var skæru­árás sem kom mörgum innan flokks­ins í opna skjöldu. Ung­lið­arnir fjöl­menntu á fund­inn til að tryggja til­lögum sínum braut­ar­gengi. Um 200 ungir ein­stak­lingar mættu á hann. Það var met­þátt­taka á meðal ungs fólks.

Flestar kröf­urnar áttu það sam­eig­in­legt að vilja færa þennan nú 90 ára gamla stjórn­mála­flokk frekar í átt til frjáls­lynd­is, mann­rétt­inda­á­herslna og alþjóða­sam­vinnu, þótt sumar væru líka settar fram á for­sendum nýfrjáls­hyggj­unnar sem hafði verið alls­ráð­andi á fyr­ir­hrunsár­un­um. En þorri til­lagn­anna end­ur­spegl­uðu þau gildi sem ungu fólki sem hræð­ist ekki hið óþekkta eða útlenda telja að skipti til­veru þeirra mestu máli. 

Mann­rétt­inda­á­herslur og frjáls­lyndi

Til­­lögur ungra fólu meðal ann­­ars í sér upp­töku á nýjum gjald­miðli,­ að­skilnað ríkis og kirkju, afnám refsi­­stefnu í fíkn­i­efna­­málum og litið verði á fíkn sem heil­brigð­is­­mál ekki lög­­­gæslu­­vanda, að kosn­­inga­ald­ur yrði lækk­aður í 16 ár, að komið yrði á bættu skattaum­hverfi fyrir nýsköp­un­­ar­­fyr­ir­tæki, að stað­göngu­mæðrun yrði gert lög­leg, að NPA þjón­usta yrði lög­­­fest­, ­að net­frelsi yrði auk­ið, að mann­rétt­indi handa trans- og inter­­sex­­fólki yrðu stór­aukin með laga­setn­ingu, að land­­bún­­að­ur­­inn yrði los­aður við fjár­­­stuðn­­ing rík­­is­ins og að kvóta­kerfi innan geirans yrði afnu­mið, að tekið yrði til gagn­gerrar end­­ur­­skoð­unar hvernig tekið er á kyn­­ferð­is­brota­­mál­u­m, að sam­kyn­hneigðir karl­menn mættu gefa blóð og að ekki ætti að leggja almannafé í stór­iðju sem ekki skilar arð­­semi fyrr en eftir langan tíma. 

Auglýsing
Alls hlutu 89 pró­­sent til­­lagna ungra sjálf­­stæð­is­­manna braut­­ar­­gengi í mál­efna­­nefndum á lands­fund­inum og hluti þeirra komust alla leið í gegn og urðu að stefnu flokks­ins. Að minnsta kosti í orði, þótt minna hafi orðið um fram­fylgd þeirra á borði.

Þá náðu ungir sjálf­stæð­is­menn þeim árangri að ná 17 af 40 sætum í mál­efna­nefndum flokks­ins og leið­togi þeirra, Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, þá rétt tæp­lega 25 ára göm­ul, var kjör­inn í emb­ætti rit­ara flokks­ins og þar með í for­ystu­sveit hans.

Gömul saga og ný

Lítið af því sem ungu sjálf­stæð­is­menn­irnir lögðu áherslu á, og komu meira að segja inn í stefnu­skrá flokks síns, hefur orðið að raun­veru­legum áherslu­málum hans á síð­ustu fjórum árum. Sumt af því sem ung­lið­arnir börð­ust gegn hefur Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn meira að segja stöðv­að. Það gerð­ist til að mynda þegar til stóð að lækka kosn­inga­aldur í 16 ár fyrir síð­ustu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar. 

Þar réð ískalt póli­tískt hags­muna­mat ferð­inni. Ungt fólk er enn ólík­legra til að kjósa Sjálf­stæð­is­flokk­inn en eldra og því myndi það hafa nei­kvæð áhrif á útkomu hans. Öruggur meiri­hluti var fyrir því máli, en mál­þóf þing­­manna úr Sjálf­­stæð­is­­flokki, Mið­­flokki og Flokki fólks­ins, þeirra þriggja flokka sem voru lík­leg­astir til að tapa stöðu á sam­þykkt­inni, drap mál­ið. 

Þetta er gömul saga og ný í Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Ungt fólk fær að hlaupa af sér rót­tækni­hornin í ung­liða­starf­inu en er svo gert að falla að íhalds­sam­ari línu þegar þau útskrif­ast upp í full­orð­ins­deild­ina. 

Bar­áttan um sál Sjálf­stæð­is­flokks­ins

Und­an­farið hefur þó dregið til tíð­inda innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Hann er auð­vitað fjarri því að vera það allt um lykj­andi mót­un­ar- og valda­afl sem hann var þegar flokk­ur­inn gekk að um 40 pró­sent fylgi á lands­vísu og leið­toga­sæti í sterkri tveggja flokka rík­is­stjórn. Nú eru mark­mið flokks­ins þau að ná 25 pró­sent fylgi, og kann­anir sýna að hann sé 4-6 pró­sentum frá því eins og stend­ur. Ef kosið yrði í dag, og nið­ur­stöður kann­ana yrðu ofan á, myndi Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn fá sína verstu kosn­ingu í 90 ára sögu sinn­i. 

Þótt Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hafi ítrekað sýnt mikil klók­indi við að halda sér við völd und­an­farið er ljóst að mögu­leikar hans til að mynda starf­hæfa meiri­hluta­rík­is­stjórn eftir næstu kosn­ingar fara hverf­andi. Mið­flokk­ur­inn verður áfram geisla­virkur í augum nær allra ann­arra flokka sem úti­lokar rík­is­stjórn með honum að óbreyttu. Sam­fylk­ing, Við­reisn og Píratar virð­ast vera að stefna á að mynda grund­völl fyrir rík­is­stjórn vorið 2021 með annað hvort Vinstri grænum eða Fram­sókn­ar­flokknum og kann­anir benda til þess að það sé ger­leg smíð. 

Auglýsing
Mikill stöð­ug­leiki er í fylgi þess­ara þriggja frjáls­lyndu stjórn­ar­and­stöðu­flokka og fylg­is­breyt­ingar eiga sér aðal­lega stað innan blokk­ar. Von Sjálf­stæð­is­manna felst því í að annað hvort leggja allt undir að hækka hratt í könn­unum næsta eina og hálfa árið, eða velja sér áferð sem gæti virkað til að gera hann að álit­legri kosti í sam­starfi fyrir fleiri. 

Á flokk­ur­inn að leggja allt undir á að mark­aður sé fyrir því að keppa um Mið­flokks­fylgið með auknum aft­ur­halds-, og jafn­vel popúl­ískum, áhersl­um, eða á hann að stíga skref í frjáls­lynd­ari átt? 

Rof milli blaðs og flokks

Bar­áttan milli frjáls­lynda hluta flokks­ins og þess íhalds­sama, jafn­vel þjóð­ern­isaft­ur­halds­sama, hefur opin­ber­ast meir og meir síð­ustu miss­eri. Margt af fólk­inu sem var með í skæru­árás ungu Sjálf­stæð­is­mann­anna árið 2015 er farið í Við­reisn vegna Evr­ópu­mála og skorts á frjáls­lyndi í Sjálf­stæð­is­flokkn­um. 

Þeir sem eru eftir hafa þurft að takast á við sífellt harðn­andi bar­áttu um sál flokks­ins. Íhalds­megin hefur hún verið leidd af mönnum eins og Davíð Odds­syni, fyrr­ver­andi for­manns flokks­ins, sem hefur nýtt sér Morg­un­blaðið sem bar­áttu­vett­vang. 

Und­an­farna mán­uði hefur veru­lega bætt í hörk­una í gagn­rýni Dav­íðs og þeirra sem deila með honum skoð­un­um. Aðal­lega hefur hún hverfst um tvö mál, ný lög um þung­un­ar­rof sem heim­ila slíkt fram á 22 viku þung­unar og svo þriðja orku­pakk­ann.

Og gagn­rýn­inni hefur aðal­lega verið beint að tveimur ungum konum í for­ystu Sjálf­stæð­is­flokks­ins, sem eldri herra­menn­irnir í aft­ur­halds­lið­inu virð­ast telja ógn að innan við þá til­veru sem þeir vilja skapa og þríf­ast í.

Upp­finn­inga­menn að reyna að finna upp eilífð­ar­vél

Í fyrra­haust, áður en að Klaust­ur­málið frestaði þriðja orku­pakka­stríð­inu um nokkra mán­uði, skrif­aði Davíð tvo leið­ara þar sem hann gagn­rýndi Þór­dísi Kol­brúnu Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur, vara­for­mann flokks­ins, harka­lega.

Gagn­rýni hans hefur haldið skýrt áfram á þessu ári og orðið breið­ari. En svo fór for­ystu­sveit Sjálf­stæð­is­flokks­ins að svara honum fullum hálsi.

Í lok maí skrif­aði Áslaug Arna til að mynda grein í Morg­un­blað­ið. Þar sagði hún meðal ann­­ars: „Rétt er það sem áður hefur verið haldið fram í þessu blaði að upp­­f­inn­inga­­menn hafa lengi reynt að finna upp eilífð­­ar­­vél­ina og ekki tek­ist. Því er mik­il­vægt að fest­­ast ekki í for­­tíð­inni, heldur þró­­ast í takt við nýja tíma og leiða þær óum­flýj­an­­legu breyt­ingar sem fram­­tíðin mun hafa með sér fremur en að ótt­­ast þær[...]Það er ekki hlut­verk Sjálf­­stæð­is­­flokks­ins að standa vörð um úreltar hug­­myndir sem þóttu einu sinni góð­­ar. Við gerum grein­­ar­mun á grunn­­gildum og ein­staka stefn­u­­málum eða úrræðum sem einu sinni virk­uðu. Um leið og við berum virð­ingu fyrir sög­unni er mik­il­vægt að við mótum fram­­tíð­ina.“

Auglýsing
Auk þess að vera í for­yst­u­­sveit Sjálf­­stæð­is­­flokks­ins þá hefur Áslaug Arna teng­ingu inn í rekstur Morg­un­­blaðs­ins. Faðir hennar Sig­­ur­­björn Magn­ús­­son, er stjórn­­­ar­­for­­maður útgáfu­­fé­lags blaðs­ins. Aðrir lyki­l­eig­end­ur, til að mynda innan Ísfé­lags­fjöl­skyld­unn­ar, eru virkir og gall­harðir sjálf­stæð­is­menn. Þá er Eyþór Arn­alds, odd­viti flokks­ins í Reykja­vík, vit­an­lega í eig­enda­hópn­um. Aug­ljós­lega er ekki ánægja með þá stöðu sem er komin upp þar. Tengsl Morg­un­blaðs­ins við Sjálf­stæð­is­flokk­inn á lands­vísu hafa verið að rofna. Og eru í huga margra nú þegar rof­in. 

Skýr dæmi um rofið var þegar Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins, ákvað að birta grein í til­efni af 90 ára afmæli Sjálf­stæð­is­flokks­ins í Frétta­blað­inu, ekki Morg­un­blað­inu. Þá vakti athygli að Davíð var ekki við­staddur 90 ára afmæl­is­veisl­una og var ekki einu sinni boðið í Val­höll nýverið þegar mál­verk af Geir H. Haarde var opin­ber­að. 

Við blasir að þessi tengsl verða ekki end­ur­nýjuð nema með því að Davíð víki úr rit­stjóra­stóli. Eða verði vikið úr hon­um.

Hefur þorað að stíga fram

Áslaug Arna tók í gær við sem dóms­mála­ráð­herra. Hún er yngsti kven­ráð­herra Íslands­sög­unnar og næst yngsti ein­stak­ling­ur­inn til að setj­ast í ráð­herra­stól. Með vali sínu á henni í emb­ættið sendi Bjarni Bene­dikts­son skýr skila­boð um hvert hann ætlar með Sjálf­stæð­is­flokk­inn, í átt að auknu frjáls­lyndi og mýkri ásýnd, en burtu frá þeirri hörku og oft mann­fyr­ir­litn­ingu sem fylgir aft­ur­halds­kreðsum flokks­ins. 

Það er ekki hægt að segja að Áslaug Arna hafi verið vafin í bómul á þeim tíma sem hún hefur verið í póli­tík. 

Snemma árs 2015, í kjöl­far árásanna á rit­stjórn­ar­skrif­stofu Charlie Hebdo í Par­ís, spurði Ásmundur Frið­­riks­­son þing­­maður Sjálf­­stæð­is­­flokks­ins, til að mynda að því á Face­book-­­síðu sinni hvort bak­grunnur múslima á Íslandi hafi verið kann­að­­ur, og hvort ein­hverjir þeirra hafi farið í þjálf­un­­ar­­búðir hryðju­verka­­manna eða barist í löndum þar sem „óöld ríkir meðal múslima.“

Áslaug Arna steig þá fram og sagði á Face­book-­­síðu sinni að það væri „væg­­ast sagt átak­an­­legt“ að vera í sama flokki og Ásmund­­ur. „For­­dómar og fáfræði ein­­kenna ummæli hans og passa engan veg­inn við þær frelsis og frjáls­­lynd­is­hug­­myndir sem ég trúi að meiri­hluti Sjálf­­stæð­is­­manna standa fyr­­ir. Velti fyrir mér hvort hann eigi ekki betur heima í öðrum flokki sem hefur gælt við þessar skoð­­anir áður með mjög ósmekk­­legum hætt­i."

Auglýsing
Hún hefur nán­ast stans­laust verið gagn­rýnd, bæði af hluta flokks­manna og þeim sem deila ekki með henni skoð­un­um, fyrir að vera ung. Fyrir að vera yfir­borðs­kennd. Fyrir að vera með blautt hár á myndum sem hún birtir á Face­book. Hún hefur verið kölluð „sætur krakki“. Og síð­ast í morgun var birt teiknuð mynd af henni í Morg­un­blað­inu sem sig­ur­veg­ara í feg­urð­ar­sam­keppn­i. 

Alla þessa slagi hefur hún tekið og staðið af sér. Sam­hliða hefur Áslaugu Örnu tekið að öðl­ast virð­ingu margra and­stæð­inga hennar innan stjórn­mála. Hún þykir til að mynda hafa sinnt hlut­verki sínu sem for­maður utan­rík­is­mála­nefndar með mik­illi prýði á krefj­andi tím­um. And­stæð­ingar henn­ar, sem deila ekki með henni nálg­unum né skoð­un­um, segja samt sem áður að hún sé stað­föst, vel und­ir­búin en kurt­eis og mál­efna­leg í sam­skipt­um. Him­inn og haf sé milli þess að vinna með henni og hinu svo­kall­aða „fýlu­poka­fé­lagi“ eldri þing­manna Sjálf­stæð­is­flokks­ins.

Konur taka rétt­mætt pláss

Það mun reyna mjög á Áslaugu Örnu sem dóms­mála­ráð­herra. Hún þarf að hreinsa upp þann ótrú­lega skaða sem Lands­rétt­ar­málið hefur valdið á íslensku dóms­kerfi. Hún þarf að marka nýja, skýr­ari og von­andi mann­legri stefnu í útlend­inga­mál­um. Eitt hennar fyrsta verk­efni verður að skipa nýjan dóm­ara við Hæsta­rétt, og von­andi verður sú skipun þannig hún geti talist hafin yfir allan vafa. 

Það er gott að konur séu loks­ins að taka sér það pláss í íslensku valda­kerfi sem þær eiga auð­vitað að hafa. Og von­andi ber Áslaugu Örnu gæfa til að fara yfir þær til­lögur sem hún hafði for­ystu um að leggja fram á lands­fundi Sjálf­stæð­is­flokks­ins fyrir fjórum árum síð­an, og þeirra skila­boða sem hún hefur sent til útlend­inga­fjand­sam­legra afla innan síns flokks, þegar hún mótar sér stefnu í lyk­il­málum síns mik­il­væga ráðu­neyt­is. Að sú stefna setji mann­rétt­indi, mann­virð­ingu og fag­leg vinnu­brögð í for­grunn í stað þess fúsks og mann­fjand­sam­leg­heit sem ein­kennt hafa vinnu­brögð dóms­mála­ráðu­neyt­is­ins of lengi undir nokkrum af fyrri ráð­herr­um. Þá kannski ræt­ist sú ósk hennar og ann­arra ungra sjálf­stæð­is­manna frá árinu 2015 að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn verði aftur val­kostur fyrir ungt fólk. 

Áslaugu Örnu er óskað vel­farn­aðar í nýju starfi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari