Í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 2015 sendu ungir sjálfstæðismenn frá sér lista yfir um 100 breytingartillögur á ályktunardrögum sem málefndanefndir flokksins höfðu útbúið í aðdraganda landsfundar.
Í tilkynningu frá þeim sagði að fjöldinn endurspeglaði umfang „þeirra breytinga sem ungir sjálfstæðismenn telja nauðsynlegar til þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði aftur að raunhæfum valkosti fyrir ungt fólk“.
Áhyggjur ungu sjálfstæðismannanna voru ekki byggðar á sandi. Í könnun sem MMR gerði í lok maí 2015 kom í ljósi að einungis 12,5 prósent fólks á aldrinum 18 til 29 ára studdi flokkinn.
Aðgerðin var skæruárás sem kom mörgum innan flokksins í opna skjöldu. Ungliðarnir fjölmenntu á fundinn til að tryggja tillögum sínum brautargengi. Um 200 ungir einstaklingar mættu á hann. Það var metþátttaka á meðal ungs fólks.
Flestar kröfurnar áttu það sameiginlegt að vilja færa þennan nú 90 ára gamla stjórnmálaflokk frekar í átt til frjálslyndis, mannréttindaáherslna og alþjóðasamvinnu, þótt sumar væru líka settar fram á forsendum nýfrjálshyggjunnar sem hafði verið allsráðandi á fyrirhrunsárunum. En þorri tillagnanna endurspegluðu þau gildi sem ungu fólki sem hræðist ekki hið óþekkta eða útlenda telja að skipti tilveru þeirra mestu máli.
Mannréttindaáherslur og frjálslyndi
Tillögur ungra fólu meðal annars í sér upptöku á nýjum gjaldmiðli, aðskilnað ríkis og kirkju, afnám refsistefnu í fíkniefnamálum og litið verði á fíkn sem heilbrigðismál ekki löggæsluvanda, að kosningaaldur yrði lækkaður í 16 ár, að komið yrði á bættu skattaumhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki, að staðgöngumæðrun yrði gert lögleg, að NPA þjónusta yrði lögfest, að netfrelsi yrði aukið, að mannréttindi handa trans- og intersexfólki yrðu stóraukin með lagasetningu, að landbúnaðurinn yrði losaður við fjárstuðning ríkisins og að kvótakerfi innan geirans yrði afnumið, að tekið yrði til gagngerrar endurskoðunar hvernig tekið er á kynferðisbrotamálum, að samkynhneigðir karlmenn mættu gefa blóð og að ekki ætti að leggja almannafé í stóriðju sem ekki skilar arðsemi fyrr en eftir langan tíma.
Þá náðu ungir sjálfstæðismenn þeim árangri að ná 17 af 40 sætum í málefnanefndum flokksins og leiðtogi þeirra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þá rétt tæplega 25 ára gömul, var kjörinn í embætti ritara flokksins og þar með í forystusveit hans.
Gömul saga og ný
Lítið af því sem ungu sjálfstæðismennirnir lögðu áherslu á, og komu meira að segja inn í stefnuskrá flokks síns, hefur orðið að raunverulegum áherslumálum hans á síðustu fjórum árum. Sumt af því sem ungliðarnir börðust gegn hefur Sjálfstæðisflokkurinn meira að segja stöðvað. Það gerðist til að mynda þegar til stóð að lækka kosningaaldur í 16 ár fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar.
Þar réð ískalt pólitískt hagsmunamat ferðinni. Ungt fólk er enn ólíklegra til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en eldra og því myndi það hafa neikvæð áhrif á útkomu hans. Öruggur meirihluti var fyrir því máli, en málþóf þingmanna úr Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins, þeirra þriggja flokka sem voru líklegastir til að tapa stöðu á samþykktinni, drap málið.
Þetta er gömul saga og ný í Sjálfstæðisflokknum. Ungt fólk fær að hlaupa af sér róttæknihornin í ungliðastarfinu en er svo gert að falla að íhaldssamari línu þegar þau útskrifast upp í fullorðinsdeildina.
Baráttan um sál Sjálfstæðisflokksins
Undanfarið hefur þó dregið til tíðinda innan Sjálfstæðisflokksins. Hann er auðvitað fjarri því að vera það allt um lykjandi mótunar- og valdaafl sem hann var þegar flokkurinn gekk að um 40 prósent fylgi á landsvísu og leiðtogasæti í sterkri tveggja flokka ríkisstjórn. Nú eru markmið flokksins þau að ná 25 prósent fylgi, og kannanir sýna að hann sé 4-6 prósentum frá því eins og stendur. Ef kosið yrði í dag, og niðurstöður kannana yrðu ofan á, myndi Sjálfstæðisflokkurinn fá sína verstu kosningu í 90 ára sögu sinni.
Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi ítrekað sýnt mikil klókindi við að halda sér við völd undanfarið er ljóst að möguleikar hans til að mynda starfhæfa meirihlutaríkisstjórn eftir næstu kosningar fara hverfandi. Miðflokkurinn verður áfram geislavirkur í augum nær allra annarra flokka sem útilokar ríkisstjórn með honum að óbreyttu. Samfylking, Viðreisn og Píratar virðast vera að stefna á að mynda grundvöll fyrir ríkisstjórn vorið 2021 með annað hvort Vinstri grænum eða Framsóknarflokknum og kannanir benda til þess að það sé gerleg smíð.
Á flokkurinn að leggja allt undir á að markaður sé fyrir því að keppa um Miðflokksfylgið með auknum afturhalds-, og jafnvel popúlískum, áherslum, eða á hann að stíga skref í frjálslyndari átt?
Rof milli blaðs og flokks
Baráttan milli frjálslynda hluta flokksins og þess íhaldssama, jafnvel þjóðernisafturhaldssama, hefur opinberast meir og meir síðustu misseri. Margt af fólkinu sem var með í skæruárás ungu Sjálfstæðismannanna árið 2015 er farið í Viðreisn vegna Evrópumála og skorts á frjálslyndi í Sjálfstæðisflokknum.
Þeir sem eru eftir hafa þurft að takast á við sífellt harðnandi baráttu um sál flokksins. Íhaldsmegin hefur hún verið leidd af mönnum eins og Davíð Oddssyni, fyrrverandi formanns flokksins, sem hefur nýtt sér Morgunblaðið sem baráttuvettvang.
Undanfarna mánuði hefur verulega bætt í hörkuna í gagnrýni Davíðs og þeirra sem deila með honum skoðunum. Aðallega hefur hún hverfst um tvö mál, ný lög um þungunarrof sem heimila slíkt fram á 22 viku þungunar og svo þriðja orkupakkann.
Og gagnrýninni hefur aðallega verið beint að tveimur ungum konum í forystu Sjálfstæðisflokksins, sem eldri herramennirnir í afturhaldsliðinu virðast telja ógn að innan við þá tilveru sem þeir vilja skapa og þrífast í.
Uppfinningamenn að reyna að finna upp eilífðarvél
Í fyrrahaust, áður en að Klausturmálið frestaði þriðja orkupakkastríðinu um nokkra mánuði, skrifaði Davíð tvo leiðara þar sem hann gagnrýndi Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, varaformann flokksins, harkalega.
Gagnrýni hans hefur haldið skýrt áfram á þessu ári og orðið breiðari. En svo fór forystusveit Sjálfstæðisflokksins að svara honum fullum hálsi.
Í lok maí skrifaði Áslaug Arna til að mynda grein í Morgunblaðið. Þar sagði hún meðal annars: „Rétt er það sem áður hefur verið haldið fram í þessu blaði að uppfinningamenn hafa lengi reynt að finna upp eilífðarvélina og ekki tekist. Því er mikilvægt að festast ekki í fortíðinni, heldur þróast í takt við nýja tíma og leiða þær óumflýjanlegu breytingar sem framtíðin mun hafa með sér fremur en að óttast þær[...]Það er ekki hlutverk Sjálfstæðisflokksins að standa vörð um úreltar hugmyndir sem þóttu einu sinni góðar. Við gerum greinarmun á grunngildum og einstaka stefnumálum eða úrræðum sem einu sinni virkuðu. Um leið og við berum virðingu fyrir sögunni er mikilvægt að við mótum framtíðina.“
Skýr dæmi um rofið var þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ákvað að birta grein í tilefni af 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðinu, ekki Morgunblaðinu. Þá vakti athygli að Davíð var ekki viðstaddur 90 ára afmælisveisluna og var ekki einu sinni boðið í Valhöll nýverið þegar málverk af Geir H. Haarde var opinberað.
Við blasir að þessi tengsl verða ekki endurnýjuð nema með því að Davíð víki úr ritstjórastóli. Eða verði vikið úr honum.
Hefur þorað að stíga fram
Áslaug Arna tók í gær við sem dómsmálaráðherra. Hún er yngsti kvenráðherra Íslandssögunnar og næst yngsti einstaklingurinn til að setjast í ráðherrastól. Með vali sínu á henni í embættið sendi Bjarni Benediktsson skýr skilaboð um hvert hann ætlar með Sjálfstæðisflokkinn, í átt að auknu frjálslyndi og mýkri ásýnd, en burtu frá þeirri hörku og oft mannfyrirlitningu sem fylgir afturhaldskreðsum flokksins.
Það er ekki hægt að segja að Áslaug Arna hafi verið vafin í bómul á þeim tíma sem hún hefur verið í pólitík.
Snemma árs 2015, í kjölfar árásanna á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París, spurði Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, til að mynda að því á Facebook-síðu sinni hvort bakgrunnur múslima á Íslandi hafi verið kannaður, og hvort einhverjir þeirra hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í löndum þar sem „óöld ríkir meðal múslima.“
Áslaug Arna steig þá fram og sagði á Facebook-síðu sinni að það væri „vægast sagt átakanlegt“ að vera í sama flokki og Ásmundur. „Fordómar og fáfræði einkenna ummæli hans og passa engan veginn við þær frelsis og frjálslyndishugmyndir sem ég trúi að meirihluti Sjálfstæðismanna standa fyrir. Velti fyrir mér hvort hann eigi ekki betur heima í öðrum flokki sem hefur gælt við þessar skoðanir áður með mjög ósmekklegum hætti."
Alla þessa slagi hefur hún tekið og staðið af sér. Samhliða hefur Áslaugu Örnu tekið að öðlast virðingu margra andstæðinga hennar innan stjórnmála. Hún þykir til að mynda hafa sinnt hlutverki sínu sem formaður utanríkismálanefndar með mikilli prýði á krefjandi tímum. Andstæðingar hennar, sem deila ekki með henni nálgunum né skoðunum, segja samt sem áður að hún sé staðföst, vel undirbúin en kurteis og málefnaleg í samskiptum. Himinn og haf sé milli þess að vinna með henni og hinu svokallaða „fýlupokafélagi“ eldri þingmanna Sjálfstæðisflokksins.
Konur taka réttmætt pláss
Það mun reyna mjög á Áslaugu Örnu sem dómsmálaráðherra. Hún þarf að hreinsa upp þann ótrúlega skaða sem Landsréttarmálið hefur valdið á íslensku dómskerfi. Hún þarf að marka nýja, skýrari og vonandi mannlegri stefnu í útlendingamálum. Eitt hennar fyrsta verkefni verður að skipa nýjan dómara við Hæstarétt, og vonandi verður sú skipun þannig hún geti talist hafin yfir allan vafa.
Það er gott að konur séu loksins að taka sér það pláss í íslensku valdakerfi sem þær eiga auðvitað að hafa. Og vonandi ber Áslaugu Örnu gæfa til að fara yfir þær tillögur sem hún hafði forystu um að leggja fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir fjórum árum síðan, og þeirra skilaboða sem hún hefur sent til útlendingafjandsamlegra afla innan síns flokks, þegar hún mótar sér stefnu í lykilmálum síns mikilvæga ráðuneytis. Að sú stefna setji mannréttindi, mannvirðingu og fagleg vinnubrögð í forgrunn í stað þess fúsks og mannfjandsamlegheit sem einkennt hafa vinnubrögð dómsmálaráðuneytisins of lengi undir nokkrum af fyrri ráðherrum. Þá kannski rætist sú ósk hennar og annarra ungra sjálfstæðismanna frá árinu 2015 að Sjálfstæðisflokkurinn verði aftur valkostur fyrir ungt fólk.
Áslaugu Örnu er óskað velfarnaðar í nýju starfi.