Orkupakki handa unglingum

Árni B. Helgason fjallar um margbreytileg áhrif skatta á umhverfi, náttúru og samfélag. Hann telur að ofuráhersla á skattlagningu launa og fjármagnstekna, en vansköttun orku og margþættra nota af náttúru, leiði til sóunar og slakrar nýtingar náttúrugæða.

Auglýsing

Rót orku­só­unar í heim­inum liggur í því hve opin­ber gjöld af hag­nýt­ingu auð­linda eru lág, and­stætt við skatt­lagn­ingu vinnu­afls. Því vél­rænni sem fram­leiðsla og þjón­usta er, þeim mun lægri eru gjöldin – enda hrá­efnin í vél­arnar jafnt sem vél­arnar sjálfar og vél­ar­aflið nær skatt­laust – en séu verkin á hinn bóg­inn mann­afls­frek, þeim mun meiri eru álög­urn­ar, sér­stak­lega í hinum þró­aðri lönd­um.

Flest verk í heim­in­um, sem krefj­ast mjög þró­aðrar vél­tækni og í senn mik­ils mann­afla og ódýrra hrá­efna, eru unnin af lágt laun­uðum og þar af leið­andi afar lágt skatt­lögðum Asíu­bú­um, svo sem marg­vís­legur fjölda­fram­leiddur tölvu­bún­að­ar, fatn­aður og alls kyns hlutir í vélar og tæki, og er þetta að veru­legu leyti varn­ingur handa okkur hálaun­uðu, að vísu nokkuð skatt­píndu, að því er sumum finn­st, Evr­ópu­mönnum og Norð­ur­-Am­er­íku­mönn­um.

Auglýsing
Sum hin suð­læg­ari Amer­íku­ríki þjóna Vest­ur­landa­búum á nokkuð líkan hátt og hin ýmsu Asíu­ríki, svo að kalla má þau til sam­ans okkar helstu skatt­lend­ur, svo hag­kvæm eru við­skipta­kjörin okk­ur. Reyndar eru nokkur þess­ara ríkja á góðri leið með að verða nýmark­aðs­ríki, með sístækk­andi innri mark­aði vel­hald­inna neyt­enda, og fáein nú þegar búin að ná því marki – auk þeirra örfáu ríkja, sér­stak­lega í Aust­ur-Asíu, sem náðu því fyrir all­löngu að skipa sér á bekk með okk­ur, neyslu­ríkj­un­um, þá ekki síst Jap­an. Sú heims­álfa sem nýlendu­veldin léku ver­st, Afr­íka, rekur síðan lest­ina í þessum efn­um, er hún okkur þó nokkuð gjöful að hinum ýmsu hrá­efn­um, þó ekki væri ann­að, hvort sem Kín­verjar vinna úr þeim handa okkur eða aðr­ir.

Við, herrar jarð­ar­inn­ar, Vest­ur­landa­menn, önn­umst vissu­lega að drýgstum hluta þá þætti sem mestum arði skila, svo sem hönnun hlut­anna, fram­leiðslu­stýr­ingu og mark­aðs­setn­ingu, að minnsta kosti enn, líkt og við stjórn­uðum nýlendu­vöru­verslun síns tíma og þræla­versl­un­inni um margra alda skeið, að ógleymdri ópíum­versl­un­inni, Kín­verjum til sællar minn­ing­ar. Rekum við jafn­framt æ hátækni­vædd­ari verk­smiðjur í hinum ýmsu og þó mis­jafn­lega þró­uðu heima­löndum þar sem sam­setn­ing hins fyr­ir­ferða­meiri hluta neyslu­varn­ings okkar fer gjarnan fram, svo sem bif­reiða, heim­il­is­tækja og háþró­aðri hluta tölvu­bún­að­ar, en íhlut­irnir streyma þá oft langan veg að í massa­vís frá þró­un­ar­lönd­un­um, kannski með sömu skipum og full­búni varn­ing­ur­inn, þ.e.a.s. það sem ekki kemur beint með flugi í pósti Ali­Ex­press.Sámur frændi stappaði niður fæti árið 1899 og krafðist þess að fá að vera með þegar Evrópuveldin hugðust skipta Kína upp á milli sín. Hálfri öld síðar höfðu Kínverjar fengið yfir sig nóg af yfirganginum, skelltu aftur dyrum, lok, lok og læs...

Iðn­bylt­ingin sem fyrir margt löngu hófst á Vest­ur­löndum hefur sann­ar­lega leitt af sér þróun sem engan hefði órað fyr­ir, hvað þá að nokkur hefði séð fyrir alla þá sam­göngu­bylt­ingu sem af henni leiddi, jafnt í lofti sem á láði og legi, hvað þá heldur raf­einda- og hug­bún­að­ar­bylt­ing­una, eða upp­lýs­inga­bylt­ing­una sem loks af öllu saman leiddi – ekki frekar en að nokkurn hefði heldur órað fyrir því fyrir rétt rúmri öld að tvær heims­styrj­aldir væru í nánd, stríð sem í grund­vall­ar­at­riðum sner­ust um skipt­ingu nýlendukök­unnar milli Vest­ur­landa fyrst og fremst, um skipt­ingu gróð­ans okkar á milli. Nýlend­unum hlotn­að­ist að vísu sigur að lokum í nafni frels­is­ins, en einu gilti, áfram höfðum við und­ir­tök­in.  

Og enn eru blikur á lofti, enda vita nú allir allt um alla í krafti upp­lýs­inga­bylt­ing­ar­inn­ar, ung­lingar í fjar­læg­ustu heims­hlutum fylgj­ast grannt með hverju fót­máli okkar og spyrja pabba og mömmu og afa og ömmu hvort hér drjúpi virki­lega smjör af hverju strái – hvort hér sé ann­ars annað hvert strá gull­stöng? Því er það að þró­un­ar­rík­in, sem flest eru fyrrum nýlendur eða hjá­lendur Vest­ur­landa í einni eða annarri mynd, krefj­ast síns skerfs, síns rétt­mæta hlut­ar, síns eigin neyslu­mark­að­ar. Flest mega þau kall­ast nýfrjáls ríki, svo skammt er um liðið síðan að tök okkar á þeim tóku að linast, og þó að nýmark­aðs­ríkin sæki nú heldur í sig veðrið þá eru þetta samt allt lággjalda­ríki, ríki með lágt verð­lag, lágt kaup­lag og lága skatta á flestum svið­um.

Við­skipta­jöfn­uður – við­skipta­ó­jöfn­uður

Við­skipta­jöfn­uður okkar og lággjalda­ríkj­anna helg­ast ekki síst af kaupum þeirra á afar dýrri og hátt skatt­lagðri verk­fræði- og hátækni­þjón­ustu af okk­ur. Hvert tonn af bux­um, vél­ar­hlutum eða raf­einda­bún­aði sem þau selja okkur skilar þeim lægstu mögu­legu sköttum af afar lágt verðlagri vinn­unni að baki, rétt svo að nægir þeim til rekst­urs lág­marks grunn­þjón­ustu. Við á hinn bóg­inn leggjum háa skatta á alla þá dýr­seldu tækni­þjón­ustu sem við látum þeim í té til mót­vægis lág­vöru­verðs­kaup­unum og nýtum skatt­ana til rekst­urs háþró­aðra vel­ferð­ar­kerfa okk­ar.

Auglýsing
Því skyldu lággjalda­ríkin ann­ars sætta sig við slíka skipt­ingu kök­unn­ar, slíkan við­skipta­ó­jöfn­uð? Því skyldum við fá heilt tonn af buxum fyrir ein­ungis einnar viku verk­fræð­ings­vinnu sem þau kaupa af okkur til end­ur­gjalds, t.d. í formi vinnu við hönnun hita­veitu­kerfa? Og samt fellur skatt­ur­inn af hvoru tveggja nær allur okkur í skaut – ann­ars vegar af drýgsta hluta útflutn­ings­verð­mætis verk­fræði­þjón­ust­unnar og hins vegar af stórum hluta álagn­ing­ar­innar á fram­leiðslu­virði buxn­anna, á útflutn­ings­verð­mæti buxna­fram­leiðslu­rík­is­ins, sem er þóknun okkar fyrir hönnun þeirra, fram­leiðslu­stýr­ingu og mark­aðs­setn­ingu. Heild­sölu­hluti þókn­un­ar­innar kann þá að renna til Levi's, Wrangler eða Lee, hver sem merkja­varan ann­ars er, og svo smá­sölu­á­lagn­ingin til buxna­sal­ans sem við skiptum við – sem sagt mark­aðsá­l­agið sem til sam­ans myndar skatt­lagn­ing­ar­stofn­inn, eina meg­in­rót vel­ferðar okkar – en hreinar útflutn­ings­tekjur fram­leiðslu­rík­is­ins nema þá ein­ungis brota­broti af smá­sölu­verð­inu, e.t.v. sem svarar til tíunda hluta.

Þætti okkur slík skatt­heimta rétt­mæt ef allt sneri á önd­verðan veg, að það værum við sem byggjum í slíku lággjalda­um­hverfi? Að við hefðum ekki tök á að reka nema lág­marks heil­brigð­is-, mennta- og almanna­trygg­inga­kerfi nema þá kannski helst lög­reglu og her til að halda óánægju okkar í skefj­um. Ekki ein­ungis ork­una og hrá­efnin létum við öðrum í té næstum því gef­ins heldur einnig drýgsta hluta vinnu okk­ar, virð­is­auka verð­mæt­anna. Fram­leiðsla okkar í þágu hágjalda­ríkj­anna væri á hinn bóg­inn hátt skatt­lögð af þeim jafnt sem rán­dýr her­gögnin og tækni­þjón­ustan sem þau létu okkur í té til end­ur­gjalds. Rekstur vel­ferða­kerfa þeirra væri sem sagt ekki síst bor­inn uppi af af okkur sem byggðum skatt­lend­urn­ar.

Rót vand­ans sem við er að glíma liggur þó ekki í sköttum sem slíkum heldur því hvernig skatt­lagn­ingu er almennt hátt­að. Því vél­rænni sem fram­leiðsla og þjón­usta er, þeim mun lægri eru skatt­arn­ir, en séu verkin á hinn bóg­inn vinnu­afls­frek, þeim mun meiri eru þeir þá, svo fremi að af ein­hverju sé að taka. Vél­ar­aflið sem knýr fram­leiðn­ina er sem næst skatt­laust en mann­aflið á hinn bóg­inn því dýr­seld­ara sem laun eru hærri og þar af leið­andi skatt­arn­ir.

Afleið­ingin er víta­hringur sem hvetur til sóunar á orku og landi, ójöfn­uður sem ógnar líf­rík­inu, bein­línis svo að stuðlað er að spill­ingu hrá­efn­anna, að málm­úr­gangi, plast­úr­gangi, steypu­úr­gangi, gúmmí­úr­gangi, timb­ur­úr­gangi, gler­úr­gangi – og þó ekki síst að mat­væla­úr­gangi og leifum af illa nýttum fatn­aði og skóm. En því ódýr­ari sem orkan er og allur aðgangur að land­inu og líf­rík­inu – jarð­ar­gróð­anum – and­stætt við dýr­selda og hátt skatt­lagða vinnu okkar vel­meg­andi Vest­ur­landa­búa, þeim mun verr er farið með hlut­ina, þeir illa nýttir og þeim sóað.

Skatt­arnir og jarð­ar­gróð­inn

Hér á landi eru heild­ar­tekjur hins opin­bera nú um 42% af vergri lands­fram­leiðslu, þar af er hlutur rík­is­ins um 30% og hlutur sveit­ar­fé­laga um 12%, gróft á lit­ið. Að með­töldu lög­bundnu líf­eyr­is­ið­gjaldi þá liggur nærri að um helm­ingi allra tekna sé með einum eða öðrum hætti stýrt af opin­berum og hálf­op­in­berum almanna­sjóð­um. Það er mjög svipað hlut­fall og í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við og breytir þá litlu hvernig líf­eyr­is­sjóða­kerfum hinna ýmsu landa er hátt­að.

Meðal­jón­inn og Með­al­g­unnan átta sig lík­lega sjaldn­ast á því að greidd, útborgðuð laun þeirra eru yfir­leitt innan við 60% af heild­ar­launa­kostn­aði, sem auk umsamdra launa felur í sér trygg­ing­ar­gjald og hlut atvinnu­rek­anda í lög­bundnu líf­eyr­is­ið­gjaldi og stétt­ar­fé­lags­gjaldi, er það raunar sá lág­marks­launa­kostn­aður sem almennt er lagður til grund­vallar útseldri vinnu (auk hátt skatt­lagðrar stjórn­un­ar­þókn­un­ar). Það sem upp á heild­ar­launin vant­ar, yfir 40%, rennur nær allt í opin­bera sjóði ríkis og sveit­ar­fé­laga og til líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins, auk þess sem þau Jón og Gunna kunna að greiða í sér­eign­ar­sparn­að. Ekki er þó allt upp­talið, því þau eiga þá eftir að greiða af ráð­stöf­un­ar­tekjum sínum hina ýmsu neyslu­skatta þar sem virð­is­auka­skattur vegur yfir­leitt þyngst ásamt því sem hin ýmsu vöru­gjöld telja.

Þegar upp er staðið er því einmitt lík­leg­ast að um helm­ingur af heild­ar­launa­kostn­aði þeirra – um 50% – renni á einn eða annan veg til hinna ýmsu sam­fé­lags­mála og sam­neyslu á hendi hins opin­bera og til trygg­ingar líf­eyr­is­rétt­ind­um. Skyldi þá ekki heldur gleym­ast að kaupi þau útselda vinnu hvort af öðru þá þurfa þau að lág­marki tvenn dag­laun – hvort um sig – til að geta greitt hvort öðru ein dag­laun.

Málið snýst þó ekki um það hvort hlut­deild hins opin­bera, sem birt­ist í sköttum og hinum ýmsu gjöld­um, skyldi vera meiri eða minni, enda er það póli­tísk spurn­ing sem snertir ekki grund­vall­ar­at­riði þessa máls.

Stóra spurn­ingin er tals­vert ann­ars eðlis og er hún þó ekki síður rammpóli­tísk. Hve rétt­mætt væri það ann­ars að skatt­leggja frekar notin af jarð­ar­gróð­anum – ork­una, land­ið, haf­ið, loft­ið, líf­rík­ið, hrá­efnin – þannig að allur gróð­inn, sem af nátt­úr­unni er tek­inn og nýtt­ur, væri skatt­lagður beint? – Eða er það endi­lega mun rök­rétt­ara og þar af leið­andi mun rétt­mæt­ara að skatt­leggja fyrst og fremst mann­fólkið sem vinnur að nýt­ing­unni og virð­is­eykur gróð­ann, allt frá hinu fyrsta hand­taki til hins síð­asta, hvort sem unnið er við vél­verk, hug­verk eða hand­verk, þar til að lokum að leifar gróð­ans eru urð­að­ar, end­ur­unnar eða þeim hent á haug­ana?

Svarið hlýtur að velta á því hve dýr­mætur jarð­ar­gróð­inn er sam­an­borið við virð­is­auk­ann sem hlýst af vinn­unni. Því ódýr­ari sem jarð­ar­gróð­inn er og minna skatt­lagður í hlut­falli við vinn­una þeim mun frekar er hvatt til kaupa á dýru, skatt­lögðu vinnu­afli – í eitt skipti fyrir öll – til smíði á fjöl­hæfri vél úr lítt skatt­lögðum efnum sem fjölda­fram­leiðir enn fleiri fram­leiðslu­vél­ar, helst án þess að nokkur manns­hönd komi þar síðan að, hvað þá frá skatt­in­um, varla einu sinni til að taka toll af orkunni sem þarf til fram­leiðsl­unn­ar, hvað þá af hrá­efn­un­um. Og því dýr­ara sem vinnu­aflið er og meira skatt­lagt, þeim mun síður borgar sig að kosta menn til við­halds á vél­un­um, enda virð­is­auk­inn af við­hald­inu þeim mun minni sem verð á nýjum og lítt skatt­lögðum vélum er lægra. Vél­arnar end­ast þá þeim mun skemur og er æ fleiri glata færni til að halda vélum við þá skap­ast þeim mun meiri þörf fyrir enn fleiri nýj­ar..

Aftur á móti hlýtur jarð­ar­gróði að freista þeim mun færri til vél­rænnar hag­nýt­ingar eftir því sem gróð­inn er dýr­keypt­ari og meira skatt­lagð­ur, hvað þá ef vinnu­aflið er svo ódýrt og lítt skatt­lagt að helst borgi það sig bara að vinna allt baki brotnu í hönd­un­um. Allt öðru máli gegnir ef allt er ódýrt og lítt sem ekk­ert skatt­lagt, jafnt orkan sem hrá­efn­in, land­ið, haf­ið, loftið og líf­rík­ið, ekk­ert síður en vinnu­aflið. Og skilj­an­lega hafa fram­leið­endur ævin­lega lað­ast að löndum og ríkjum sem bjóða upp á slík kosta­kjör, og þeim mun frekar sem jarð­ar­gróð­inn er aðgengi­legri og fólkið fær­ara í sinni lág­launa­iðn – færi­banda- og tölvu­smiðir jafnt sem hand­verks­fólkið við böndin – að því gefnu að ein­hvers staðar sé tryggan neyt­enda­markað að finna með vel­höldnu fólki sem þyrstir í afurð­irn­ar.

Íslenska skatta­laga­reglu­verkið er á margan hátt nokkuð dæmi­gert fyrir hið ein­stak­lings­mið­aða skatt­kerfi vest­rænna neyslu­ríkja þó að vissu­lega fremur frum­stætt sé ríkið í ýmsu til­liti, sér­stak­lega þegar litið er til fremur bág­bor­innar iðn- og verk­menn­ingar okk­ar, enda lítt í hávegum höfð, og því að vonum að skil­virkni sé slök í ýmsum greinum – and­stætt við mörg hinna gam­al­grónu iðn­ríkja sem búa þó flest enn að margra alda langri hefð og þróun á ýmsum svið­um. Það á reyndar einnig við um ýmis hinna sterk­ari lággjalda­ríkja, hvert á sinn hátt, sem gera nú allt hvað þau geta til að skapa sér sinn eigin innri neyt­enda­markað og vel­ferð­ar­kerfi á svip­uðum for­sendum og við, með tekju­sköttum fyrst og fremst en þeim mun lægri gjöldum fyrir not af nátt­úr­unni, stuðlandi að enn frek­ari spill­ingu jarð­ar­gróð­ans.

Það er á hinn bóg­inn úti­lokað að lággjalda­ríkin nái við­líka neyslu- og vel­ferð­ar­stigi og við – að óbreyttum for­sendum – nema að eitt­hvað láti veru­lega und­an. Hve fús erum við ann­ars til að láta þeim eftir rétt­mætan hlut í hag­nýt­ingu nátt­úr­unn­ar, nýt­ingu orku og hrá­efna, nýt­ingu hinna marg­vís­legu auð­linda jarð­ar? Ættum við ávallt að hóta við­skipta­stríð­um, láta vopnin tala, líkt og jarð­ar­gróð­inn sé okkar einna, eða er mögu­leiki á rétt­látri skipt­ingu án þess þó að nokkur beri skarðan hlut frá borði?

Auglýsing
Lítum á hvaða áhrif það hefði að breyta öllum áherslum skatta þannig að þeir tækju mið af nátt­úr­u­notum fyrst og fremst en þeim mun síður mið af tekj­um. Er mögu­leiki á að gróð­inn verði þá svo miklu betur nýttur að nátt­úru­gæðin nægi öllum – án frek­ari spill­ingar hrá­efn­anna, enda­lausrar sóunar mat­væla og orku?

Tökum örríkið Ísland sem dæmi og hug­leiðum áhrifin af slíkum breyt­ingum á allt vél­verk, hug­verk og hand­verk. Lítum svo á hvaða áhrif það hefði að yfir­færa bók­haldið á allan heim­inn. Alls ekki þó í þeim skiln­ingi að við tækjum öll heims­yf­ir­ráð heldur ein­ungis að við opn­uðum bók­hald­ið, enda hefðum við þá ekk­ert að fela, ekk­ert að bera kinn­roða fyr­ir. Mætti þá öllum ljóst vera að grænt bók­hald er ekki punt til skreytni og aug­lýs­inga­upp­hefðar heldur lýtur það að öllum notum af nátt­ur­inni – án und­an­tekn­inga. Og þegar allt kemur til alls, eru nátt­úr­u­notin svo vel sund­ur­grein­an­leg, að vel má ná utan um þau öll með örfáum bók­halds­lykl­um. Bók­haldið leiðir þá í ljós, sjálfu sér sam­kvæmt, hvaða búskap­ar­hættir eru vænir umhverf­inu – og þar með mann­lífi jafnt sem hverju öðru lífi sem bær­ist á jörð, að ógleymdum ríkjum álfa og steina, enda er þá ekk­ert und­an­skilið þrátt fyrir fæð lyklanna. Bók­hald sem á hinn bóg­inn tekur ekki allt með í reikn­ing­inn er ekki grænt heldur er það þvert á móti því svart­ara sem eru und­an­skotin eru meiri.

Gjöld fyrir not af nátt­úr­unni

Búist má við að verg lands­fram­leiðsla á Íslandi verði nálægt 3.000 millj­örðum króna árið 2020. Hlut­deild hins opin­bera, ríkis og sveit­ar­fé­laga, sem er nú um eða yfir 42%, mun þá að óbreyttu nema um 1.250 millj­örðum króna. Gerum ráð fyrir að á um tíu ára aðlög­un­ar­tíma munum við inn­leiða hin ýmsu nátt­úr­u­nýt­ing­ar­gjöld sam­hliða því að við afnemum trygg­ing­ar­gjald og tekju­skatt ásamt útsvari í núver­andi mynd og fellum per­sónu­af­slátt nið­ur. Við afnemum jafn­framt tveggja þrepa virð­is­auka­skatt og látum nægja eitt lágt þrep sem nær þó til alls virð­is­auka, þ.á.m. til arðs, vaxta og leigu, og afnemum því fjár­magnstekju­skatt sem slík­an. Útsvar­inu yrði fundið ákveðið hlut­fall af hinum ýmsu tekju­stofnum þannig að sveit­ar­fé­lög sætu áfram við sama borð og áður en tökum ekki afstöðu til þess hér hvernig skipt­ing­unni yrði nákvæm­lega hátt­að.

Á 10 ára aðlög­un­ar­tíma fram til árs­ins 2030 væri núver­andi skatta­lögum breytt, stig af stigi, í þessa mynd. Með nýj­um, almennum kjara­samn­ing­um, einnig stig af stigi á tíma­bil­inu, væru laun aðlöguð að gjör­breyttum for­sendum opin­berra gjalda og væri öllum fyr­ir­tækjum og rekstr­ar­að­ilum jafn­framt gert skylt að birta árs­reikn­inga sam­kvæmt lög­bundnum bók­halds­lyklum svo að ekki léki vafi á afkomu neinna. Að óbreyttum samn­ingum myndu útborguð laun ann­ars hækka sem næmi afnámi tekju­skatts og trygg­ing­ar­gjalds, lægstu grunn­laun um 10 til 20%, miðl­ungs­laun um 30 til 50% og hálaun þaðan af meira, banka­stjóra­laun reyndar um 80% og hæstu for­stjóra­laun um 100% og óða­verð­bólga geisa sem aldrei fyrr...

Gerum því ráð fyrir að bein­línis væri samið um lækkun heild­ar­launa, stig af stigi, u.þ.b. sem næmi afnámi tekju­tengdra skatta og gjalda á aðlög­un­ar­tím­an­um, þar til að samn­ings­bundin laun væru orðin sem næst útborg­uðum launum að við­bættum líf­eyr­is­ið­gjöldum og stétt­ar­fé­lags­gjöld­um. Lægstu laun myndu þá lækka lít­il­lega eða nán­ast standa í stað en miðl­ungs­laun lækka um 20 til 30%, miðl­ungs hálaun um 30 til 40% og hæstu for­stjóra­laun um 50% – án þess þó að kaup­máttur ráð­stöf­un­ar­tekna myndi skerðast, enda myndi flest vara og þjón­usta lækka veru­lega í verði en fyrst og fremst orku­frek kaup stíga í verði, sem væri bein afleið­ing af upp­töku nátt­úr­u­nýt­ing­ar­gjalda.

Launa­liðir alls rekstrar myndu aug­ljós­lega lækka og rekstr­ar­tekju­skattar jafn­framt heyra sög­unni til. Á hinn bóg­inn, þeim mun meiri sem notin væru af nátt­úr­unni, kæmu fremur við sögu hin ýmsu orku- og nýt­ing­ar­gjöld, umhverf­is- og kolefn­is­gjöld, sem upp væru tekin stig af stigi, sam­hliða afnámi tekju­skatts og lækkun heild­ar­launa. Þeim mun minni sem nátt­úr­u­notin væru því lægri væru sem sagt gjöldin og þá eðli máls sam­kvæmt verð vöru og þjón­ustu jafn­framt, en allur orku­frekur rekstur og lítt vænn nátt­úr­unni myndi þá gjalda því meira.

Og í ljósi þess hve laun vega þungt í útgjöldum hins opin­bera en orku­frekur rekstur lítið þá gefur auga­leið að opin­ber útgjöld myndu drag­ast veru­lega saman – þó alls án þess að sam­dráttar gætti í umsvifum hins opin­bera eða að hallað væri á kaup­mátt þeirra er hið opin­bera greiðir laun og líf­eyri og það á almennt í við­skiptum við. Að liðnum 10 ára aðlög­un­ar­tíma árið 2030 myndu útgjöld hins opin­bera því hafa skroppið svo saman að um 850 millj­arða króna tekjur myndu standa undir sam­svar­andi umsvifum og rekstri og 1.250 millj­arða þarf til nú, og væri þó ekki litið fram hjá hag­vexti á tíma­bil­inu, svo sem nánar mun verða vikið að. Tekju­stofnar hins opin­bera, ríkis og sveit­ar­fé­laga, myndu þá lækka ár frá ári frá því að vera nú um 42% þar til að þeir næmu um 28% af 3.000 millj­arða króna vergri lands­fram­leiðslu, þar af féllu um 20% í hlut rík­is­ins og um 8% rynnu til sveit­ar­fé­laga, alls um 850 millj­arðar (ma) króna, sem þannig myndu skipt­ast árið 2030:

Bók­halds­lykl­arnir tíu

270 ma – 10% VSK af öllum virð­is­auka, án und­an­tekn­inga, þ.m.t. af arði, vöxt­um, leigu o.fl.

120 ma – Orku­nýt­ing­ar­gjöld (vind­ur, fall­vötn, jarð­hiti = 30 millj­arðar kWst / 4 kr. pr. kWst til jafn­að­ar)

70 ma – Kolefn­is­gjöld (af 5 millj. tonna CO2-í­gilda / 14 þús. kr. pr. tonn til jafn­að­ar)

60 ma – Veggjöld (af 4 millj­örðum km – til jafn­aðar 15 kr/km, eða 10 kr/tonn-km eigin þyngdar ökut.)

60 ma – Veiði­rétt­ar­gjöld (af fisk­veið­um)

30 ma – Umhverf­is­gjöld (af ýmissi nátt­úr­u­nýt­ingu og sjón­mengun til lands og sjáv­ar)

70 ma – Fast­eigna- og erfða­fjár­skattar (fast­eigna­tengd gjöld sveit­ar­fé­laga, erfða­fjár­skattur til rík­is)

70 ma – Ýmis vöru­gjöld (m.a. til höml­unar óæski­legum áhrifum varn­ings á fólk, umhverfi og nátt­úru)

70 ma – Ýmis leyf­is­gjöld, sér­tekj­ur, sala á vöru og þjón­ustu o.fl.

30 ma – Beinn arður af opin­berum eignum (Lands­virkj­un, Orku­veit­an, Lands­banki o.fl.)

Það er eðli virð­is­auka­skatts að hann er lagður ofan á reiknað and­virði þó að í reynd sé skatt­ur­inn hluti af heild. 2.730 millj­arða króna verg lands­fram­leiðsla bæri því 10% vsk-skatt til við­bót­ar, alls um 270 millj­arða króna, alls án und­an­tekn­inga. Þar af leiðir að lands­fram­leiðsla í heild sinni (allur virð­is­auki sam­an­lagð­ur) nemur þá um 3.000 millj­örðum króna, þar af næmi virð­is­auka­skattur í reynd um 9%, reiknað sem hluti af allri heild.

Að öllum tekju­sköttum afnumdum myndi skóla­hald, heil­brigð­is­þjón­usta, lög­gæsla, stjórnun og yfir höfuð flest almanna­þjón­usta lækka veru­lega í verði og flest vinna við við­hald – bygg­inga, bif­reiða, skipa, flug­véla og ann­arra hluta og tækja – og end­ing hlut­anna myndi því batna til muna. Líkt myndi eiga við um marg­vís­lega nýsmíði, fram­leiðslu og þjón­ustu sem ekki væri háð miklum orku­kaupum eða slíkum hrá­efnum sem væru leidd af mjög orku­frekri vinnslu – að kostn­aður myndi lækka, þar á meðal t.d. flest vinna við nýbygg­ing­ar, fram­leiðslu mat­væla og allra handa vinna við afgreiðslu, sölu og þjón­ustu, þ.á.m. við all­flesta sér­fræði­þjón­ustu. Kaup­máttur myndi því aukast gagn­vart flestum þess­ara greina sem hér um ræð­ir, á sumum sviðum veru­lega, en á hinn bóg­inn myndi m.a. heitt vatn og raf­magn hækka í verði og hin ýmsu verk sem leidd eru af mjög orku­frekri vinnslu.

Nánar um nátt­úr­u­nýt­ing­ar­gjöldin

Sam­setn­ing útgjalda ein­stak­linga jafnt sem stofn­ana og fyr­ir­tækja tæki miklum breyt­ingum og á öllum orku­frekum sviðum myndi gæta veru­legs hvata til sparn­að­ar. Raf­orku­verð til almenn­ings og almenns atvinnu­rekstrar myndi tvö­faldast, að minnsta kosti, og slíkt hið sama verð á heitu vatni. Myndi vægi jöfn­un­ar­sjóða þó jafn­framt vera aukið á köldum hús­hit­un­ar­svæðum svo að allir sætu við sama borð.

Orku­verð til stór­iðju myndi hækka að lág­marki sem svar­aði til lækk­unar launa­kostn­aðar og tekju­skatta iðju­ver­anna og veru­lega hag­kvæm­ari kaupa þeirra á hinum ýmsu inn­lendu aðföngum og þjón­ustu – og þó mun meira er tímar liðu fram, með end­ur­nýjun lang­tíma­samn­inga um orku­kaup, að gjör­breyttum við­horfum til orku­mála.

Stór­iðja sem greiðir nú 3 til 4 kr. fyrir orku­ein­ingu myndi að lág­marki greiða 5 kr. og þó allt eftir samn­ings­stöðu á hverjum tíma – mun heims­mark­aðs­verð á orku þó ein­ungis fara hækk­andi á kom­andi árum og því vel raun­hæft að gera fremur ráð fyrir 6 krónum að lág­marki að liðum aðlög­un­ar­tím­an­um.

Orku­nýt­ing­ar­gjaldið tæki til allra inn­lendra orku­linda, alls óháð því hvort orkan væri nýtt inn­an­lands eða hún t.d. flutt út um sæstreng. Gjaldið væri því álag, lagt á alla fram­leiðslu á heitu vatni og raf­magni, óháð eign­ar­haldi orku­lind­ar, og myndi það á heild­ina litið nema til jafn­aðar um 4 kr/kWst og skila hinu opin­bera um 120 millj­örðum króna á ári. Gjaldið væri þó aldrei svo hátt á neinum notk­un­ar­sviðum að hamla myndi orku­skiptum frá meng­andi orku til hreinni orku. .

Líkt og á við um orku­nýt­ing­ar­gjaldið þá myndi afnám hinna marg­vís­legu skatta á laun og fjár­magnstekj­ur, og þá ekki síst lækkun umsam­ins launa­kostn­að­ar, ekki síður vega veru­lega á móti hinum ýmsu öðrum nátt­úr­u­nýt­ing­ar- og umhverf­is­gjöldum og raunar gjör­breyta öllum áherslum rekstr­ar, þá alveg sér í lagi vægi flestra útgjalda, sem nær öll myndu lækka til mik­illa muna. Og hvað t.d. veiði­rétt­ar­gjald varðar þá væri það eðli­lega nátengt afla­brögð­um, árferði og mörk­uðum í hinum ýmsu greinum sjáv­ar­út­vegs og væri gjaldið því á ýmsa lund svo hátt eða lágt sem afkoma í hverri grein útvegs­ins leyfði á hverjum tíma. Væri gjald­inu þó ekki síst beitt til sókn­ar­stýr­ing­ar, eftir teg­undum og stærð­ar­flokkum veið­innar.

Þó að kolefn­is­gjald sé sett hér fram sem verð pr. tonn los­unar CO2-í­gilda þá væri það í reynd útfært á ýmsan veg, allt eftir því sem skil­virkast væri, með gjaldi pr. lítra fljót­andi elds­neyt­is, allt eftir því hve útblástur hinna ýmsu elds­neytis­teg­unda er ríkur af koltví­ildi og öðrum sam­svar­andi óum­hverf­is­vænum efn­um, eða á hinn bóg­inn með gjaldttöku út frá beinum mæl­ingum á los­un, líkt og myndi gilda um losun af landi og ekki síst um hin ýmsu iðju- og orku­ver. Gjaldið væri í sjálfu sér óháð sam­göngum eða hvers kyns beinum notum af nátt­úr­unni sem slíkri, þar kæmu til önnur gjöld, enda því fyrst og fremst ætlað að hamla beint og milli­liða­laust gegn loft­mengun og gróð­ur­húsa­á­hrif­um. Það væri án allra und­an­þága en þó að vissu marki mis­hátt með hlið­sjón af eðli og vægi los­un­ar­á­hrifa. Hvers kyns loft­meng­andi land­notk­un, ofn­ar, vélar og tæki, meng­andi öku­tæki jafnt sem meng­andi vinnu­vél­ar, skip, bátar og loft­för, væru því háð gjald­inu án sér­staks grein­ar­munar út frá nota­gildi eða eðli starf­semi sem slíkrar, þá eðli máls sam­kvæmt öll meng­andi iðju- og orku­ver sem hver önnur slík starf­semi er loft­mengun staf­aði af. Kolefn­is­gjald væri því inn­heimt alls óháð öðrum gjöld­um, svo sem orku­nýt­ing­ar­gjaldi, umhverf­is­gjaldi, veiði­rétt­ar­gjaldi, fast­eigna­gjöldum eða veggjaldi, sem gjald­andi kynni jafn­framt að greiða, og myndi sam­svar­andi regla raunar gilda um öll gjöld.

Veggjöld – gjöld af fast­eignum á hjólum – myndu vera lögð á allan akst­ur, alls óháð gerð hreyf­ils öku­tæk­is, mengun af völdum þess, orku­flokki eða nýt­ing­ar­flokki. Gjaldið tæki m.a. mið af stærð og þyngd öku­tæk­is, ekinni vega­lengd og veg­flokki, þ.e.a.s. þeim vegi, veg­hluta eða vega­svæði sem ekið væri um eða öku­tæki væri lagt á. Öll öku­tæki, að með­töldum akan­legum vinnu­vél­um, væru búin tæki til stað­setn­ingar (GPS) – öku­rita – er sendi ávallt upp­lýs­ingar um stað og stefnu (líkt gildir um skip og loft­för) sem umferð­ar­stjórn og greiðslu­stofa hefðu að vissu marki aðgang að. Upp­lýs­ing­arnar væru dulkóð­að­ar, líkt og upp­lýs­ingar síma­fyr­ir­tækja um ferla far­síma, en eig­andi fengi sund­ur­lið­aðan reikn­ing með yfir­liti yfir akst­urs- og stöðu­gjöld, ekki ólíkt og gildir um far­síma á sinn hátt. Stjórn­stöðvar umferðar hefðu ein­ungis upp­lýs­ingar um feril hvers öku­tækis en án frek­ari grein­an­legra upp­lýs­inga, ekki frekar en að lög­regla hefur aðgang að per­sónu­grein­an­legum fer­il­upp­lýs­ingum um ein­staka far­síma nema með sér­stakri rann­sókn­ar­heim­ild. Auk ekinnar vega­lengdar og þyngdar öku­tækis þá væri það ekki síst umferð­ar­á­lag, álags­stýr­ing, sem hefði áhrif á gjaldið á hverjum stað og tíma. Gjald fyrir hverja ekna lengd­ar­ein­ingu eða gjald fyrir stæði, hvort sem væri í þétt­býli eða strjál­býli, gæti því verið mjög mis­jafnt, mjög lágt eða ekk­ert eða þeim mun hærra sem stað­setn­ing, öku­tækja­flokk­ur, veg­flokk­ur, álag, tími dags og árs­tíð gæfi til­efni til, á sinn hátt líkt og veiði­rétt­ar­gjaldi væri beitt til sókn­ar­stýr­ing­ar.

Afnám tekju­skatta leiðir til sam­dráttar gervi­fjár

Að öllu þessu athug­uðu má ljóst vera að útgjöld hins opin­bera hljóta að drag­ast veru­lega saman – í krónum talið – enda eru útgjöldin að lang­mestu leyti fólgin í greiðslu launa og líf­eyr­is, beint og óbeint, í einni og annarri mynd. Í núver­andi skatt­kerfi gildir einu hvort um ræðir opin­beran starfs­mann, líf­eyr­is­þega, verk­taka í vinnu fyrir hið opin­bera eða hvern þann sem selur hinu opin­bera vöru eða þjón­ustu, að um leið og hið opin­bera geldur launin eða líf­eyr­inn eða leggur fram greiðslu fyrir vinn­una, vör­una eða þjón­ust­una þá tekur það væna sneið strax aftur til sín. Með öðrum orð­um, þá eru greiðsl­urnar að drjúgum hluta skattar sem hið opin­bera er í sífellu að leggja á sjálft sig, bein­línis á eigin greiðsl­ur, eigin útgjöld. Þetta gervifé myndi að veru­legu leyti heyra sög­unni til, enda þjónar það fyrst og fremst þeim til­gangi að auka pen­ing­magn í umferð og skrúfa upp verð­lag, heild­ar­laun jafnt sem annan kostn­að, útgjöld jafnt sem skatt­tekj­ur.

Hið sama hlýtur þá að gilda um hinn almenna markað og þann opin­bera, að umsam­dri lækkun launa u.þ.b. sem næmi afnámi tekju­skatts og útsvars, að launa­kostn­aður myndi skreppa saman – í krónum talið – og þá jafn­framt útselt verð vinn­unn­ar, þá einnig að hafðri hlið­sjón af lækkun fjár­magnstekju­skatta. Reyndar myndi stærsti hluti alls hag­kerf­is­ins skreppa saman – í krónum talið – en verð­lag nálg­ast æ meira raun­veru­legan kostnað að baki hlut­anna (hið eig­in­lega verð vinn­unn­ar) er lengra liði á aðlög­un­ar­tím­ann.

Starf­semi sem fæli litla orku­notkun í sér myndi lækka mest í verði, svo sem marg­vís­leg við­halds­vinna, verslun og við­skipti, ferða- og veit­inga­þjón­usta og flest sér­fræði­þjón­usta, en ann­ars þeim mun minna sem bein eða óbein orku­notkun væri meiri. Frum­vinnsla, úrvinnsla, dreif­ing og sala t.d. land­bún­að­ar­vara myndi vissu­lega bera hin ýmsu gjöld á hinum ýmsu stig­um, þá ekki síst gjöld leidd af notkun lands og notkun vinnu­véla­ol­íu, raf­magns og hita, auk þess sem fast­eigna­gjöld, veggjöld og fleira telja, en algjört afnám tekju­skatta á öllum stigum myndi á hinn bóg­inn leiða til slíkrar lækk­unar á móti að smá­sölu­verð flestra land­bún­að­ar­vara, eðli­lega að með­töldum 10% virð­is­auka­skatti, myndi standa í stað eða lækka og það þó að nið­ur­greiðslur væru afnumdar. Mögu­lega myndu þó tíma­bundin sér­á­kvæði í lögum heim­ila óbeinar nið­ur­greiðslur í formi frest­unar álagn­ingar kolefn­is­gjalda vegna beinna gróð­húsa­á­hrifa af land­bún­að­ar­landi á meðan atvinnu­greinin væri að laga sig að gjör­breyttum við­horfum til nota af landi og nátt­úru.

Orku­frek­ustu hlutar hag­kerf­is­ins og þeir sem mestan gróða hafa af hag­nýt­ingu umhverfis og auð­linda myndu á hinn bóg­inn greiða mestu gjöld­in, en jafn­framt, líkt og aðr­ir, upp­skera veru­lega lækkun launa­kostn­aðar sem og lækkun skatta af fjár­magnstekj­um, auk þess sem flest kaup á inn­lendum aðföngum og þjón­ustu myndu verða mun hag­kvæm­ari. Vægi þess­ara orku­freku greina í lands­fram­leiðslu færi því hækk­andi fremur en lækk­andi á aðlög­un­ar­tím­anum – í krónum talið – eða myndi sem næst standa í stað, allt eftir þeim áherslum sem almennt væru lagðar á hag­nýt­ingu umhverfis og orku­linda.

Mik­il­vægt er að hafa í huga að hér ræðir ekki um mæli­kvarð­ann, krón­una sem slíka (sem gæti allt eins verið kýr­verð, álnir vað­máls, fisk­verð, evra, dollar eða álverð), heldur það sem liggur að baki mæl­ing­unni, jafn­vel hvort eitt­hvað hafi löngum verið tví­mælt, marg­mælt, teygt eða togað eða alls ekki mælt.

Auglýsing
Því skyldi ann­ars fyrst og fremst vinnu­aflið að baki fram­leiðslu og þjón­ustu vera metið til skatt­virðis en ekki allt það sem fram­leitt er eða þjón­u­stað? Fram­leiðni sjó­manns­ins og áliðju­manns­ins er sann­ar­lega marg­föld á við leik­skóla­kennar­ann – í krónum talið – en þá er engu að síður um fram­leiðni að ræða sem er til orðin vegna allra en ekki vegna fáeinna sér­út­val­inna. Störf þeirra allra eru því mik­il­væg, enda ekki síður þýð­ing­ar­mikið að ala upp börn og kenna þeim en að afla matar eða vinna málma og önnur smíða­efni. Myndu reyndar öll hag­kerfi hrynja ef ein­hverjum þess­ara starfs­greina væri ekki sinnt, hvað þá engum þeirra. Samt gjalda leik­skól­inn og starfs­menn hans mun hærra hlut­fall skatta en nokkurn tím­ann þær atvinnu­greinar sem byggja fyrst og fremst á vél­ar­afli og orku – og horfum þá alls ekki fram hjá afar mis­jafn­lega dul­inni skatt­byrð­inni sem svo ójafn­að­ar­lega er jafn­framt fólgin í útgjöldun­um.

Því meiri sem áhersla skatt­lagn­ingar verður á fram­leiðslu og þjón­ustu sem er háð orku- og auð­linda­nýt­ingu, en þeim mun minni á hrein laun og líf­eyri, þá mun gervi­fjár hins opin­bera minna gæta, enda er hið opin­bera ekki ein­ungis langstærsti greið­andi launa og líf­eyr­is, ýmist beint eða óbeint, og þó allra síst á sviði eig­in­legrar fram­leiðslu eða vinnslu, heldur jafn­framt sá aðili sem nýtur allra skatt­anna, reyndar fyrir okkar allra hönd. Gróft á litið – sam­kvæmt ríkj­andi hag­fræði, í krónum talið – má ljóst vera að um helm­ingur hag­kerf­is­ins er knú­inn áfram af hinu opin­bera, beint og óbeint á einn eða annan veg, að hinum hálf­op­in­bera hluta þess, líf­eyr­is­sjóða­kerf­inu, með­töld­um.

Með nýjum kjara­samn­ing­um, með afnámi drýgsta hluta skatt­byrðar launa og alls per­sónu­af­slátt­ar, er því ekki frá­leitt að ætla að vægi þessa vinnu­afls­frekasta helm­ings hag­kerf­is­ins muni minnka um allt að þriðj­ung – sem sagt í krónum talið – en að helm­ingur þess sem þá er eftir muni á sam­svar­andi máta drag­ast saman um 15 til 20%. Fjórð­ung­ur­inn sem þá er eft­ir, sem snýr að orku­frek­ustu sviðum og auð­linda­nýt­ingu, en þeim mun minna að hag­nýt­ingu vinnu­afls, mun svo gróft á litið sem næst standa í stað – í krónum talið. Þetta myndu jafn­vel blindustu hag­fræð­ingar fall­ast á, ein­ungis að þeir yrðu þeirrar gæfu aðnjót­andi að fá virt fyrir sér allan fíl­inn.Mynd: Wikipedia

Í heild­ina tek­ið, gróft á lit­ið, má því gera ráð fyrir um það bil fimmt­ungs sam­drætti lands­fram­leiðslu – í krónum talið – sem svarar til um 2,5% á ári miðað við 10 ára aðlög­un­ar­tíma. Ef við gerum jafn­framt ráð fyrir 2,5% raun­hag­vexti á sama tíma – ekki síst af völdum mun betri nýt­ingar verð­mæt­anna af völdum hvatans til orku­sparn­aðar – þá myndi lands­fram­leiðslan raunar standa í stað, sem sagt í krónum talið. Krónan myndi þá með öðrum orðum hafa styrkst sem svarar til afnáms gervi­fjár­ins, enda stæðum við og hag­kerfi okkar – fíll­inn – ekki lengur á brauð­fót­um.

Ljóst má vera sam­kvæmt þessu að tekjur og gjöld hins opin­bera munu lækka sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu án þess þó að í nokkru sé hróflað við raun­virði þess hluta hag­kerf­is­ins frekar en ann­arra hluta. Mæli­kvarð­inn – krónan – er áfram hinn sami en það sem er mælt er nú hvorki tví­mælt né marg­mælt, teygt eða togað eða alls ekki mælt, líkt og venjan hefur löngum verið í þró­uðum hag­kerfum með þeim afleið­ingum að vísi­tölur flestar eru marklaus­ar, hvað þá geng­is­vísi­tölur gjald­miðla.

Við gerum því ráð fyrir að hinn opin­beri hluti muni minnka um þriðj­ung – í krónum talið – frá því að vera um 42% af vergri lands­fram­leiðslu í um 28%. Þar af næmi hlutur rík­is­ins um 20%, miðað við sömu hlut­falls­legu skipt­ingu og nú, og hlutur sveit­ar­fé­laga þá um 8%, og myndi þátt­taka hins opin­bera engu að síður vera söm og jöfn og nú. Mæl­ingin væri ein­ungis orðin orðin rétt­ari, einmitt með afnámi mest alls gervi­fjár­ins, og væri þá jafn­framt sýnt fram á að raun­veru­legur hlutur hins opin­bera í hag­kerf­inu er alls ekki svo stór sem af er lát­ið.

Aðrar greinar hag­kerf­is­ins hljóta þá að vega mun meira en menn hafa hingað til viljað vera láta, hvað þá hinar afl­frek­ustu og auð­linda­háð­ustu greinar – orku­bú­skap­ur, stór­iðja, sjáv­ar­út­vegur – sem eru einmitt þær greinar þar sem mestrar fram­leiðni gæt­ir, auk þess sem sívax­andi hlutur gagna­vera mun telja á kom­andi árum. Þessar greinar munu því eðli máls sam­kvæmt leggja mun stærri hlut­falls­legan skerf til þjóð­ar­bús­ins en hingað til hefur verið reiknað með að þær gerðu, alls burt­séð frá gjald­eyr­is­tekj­unum sem slík­um. Krón­urnar – allar í heild sinni, sem slíkar – væru þó ekki fleiri heldur þvert á móti færri, en á hinn bóg­inn væri hver króna því verð­mæt­ari sem næmi brott­falli alls gervi­fjár­ins.

Í hnot­skurn

Að áður gefnum for­sendum um 2,5% árlegan sam­drátt lands­fram­leiðslu á 10 ára aðlög­un­ar­tíma til árs­ins 2030 – í krónum talið – og 2,5% árlegan raun­hag­vöxt af völdum mun betri nýt­ingar verð­mæt­anna á sama tíma, þá mun u.þ.b. 3.000 millj­arða króna verg lands­fram­leiðsla standa í stað allt tíma­bilið – sem sagt í krónum talið – en núver­andi u.þ.b. 42% hlut­deild, um 1.250 millj­arðar króna, mun þá með ári hverju lækka þar til að hlut­deildin nemur um 28% eða um 850 millj­örðum króna árið 2030 – sam­an­ber bók­halds­lyklana tíu hér framar – og munu þá um 610 millj­arðar falla rík­inu í skaut og um 240 millj­arðar renna til sveit­ar­fé­lag­anna, að með­töldum fast­eigna­tengdum gjöld­um.

10% virð­is­auka­skattur – tíund af öllum inn­lendum við­skiptum á öllum stigum fjár­muna­mynd­un­ar, einka­neyslu og sam­neyslu og af öllum inn­flutn­ingi vöru og þjón­ustu – væri án und­an­tekn­inga. Skatt­ur­inn væri því sem næst algjör mæli­kvarði á allar hreyf­ingar nær alls fjár í umferð og sökum þess hve lágur hann væri þeim mun minni hvati væri til skattsvika. Skatt­skil myndu því batna til muna – sem og ekki síður myndu nátt­úr­u­nýt­ing­ar­gjöldin bjóða upp á miklum mun minni mögu­leika á svikum en nokkurn tím­ann það skatt­kerfi sem við nú búum við, sem meira og minna býður bók­staf­lega upp á svart hag­kerfi, neð­an­jarð­ar­hag­kerfi, í flestum greinum þjóð­ar­bú­skap­ar­ins. Sykur­út­lát eru þá ýmist eftir sam­komu­lagi eða alls eng­in, til að mynda þegar um ræðir hrein svik – hrein vöru- eða þjón­ustu­skipti, alls án fjár­út­láta.

Hvorki var­an­leg fjár­mun­mynd­un, svo sem í mynd fast­eigna, né neins­konar lausa­fjár­mynd­un, svo sem kaup bif­reiða eða gerð lista­verka og hús­bún­að­ar, væri und­an­skilin virð­is­auka­skatti, né heldur nokkur þjón­usta, hvorki almenn­ings­sam­göngur né góð­gerð­ar­starf­semi, fjár­mála­þjón­usta, félags­leg þjón­usta, heil­brigð­is­þjón­usta, happ­drætti, vátrygg­inga­starf­semi eða rekstur skóla og mennta­stofn­ana.

Allur raun­veru­legur virð­is­auki, hverju nafni sem nefn­ist, væri skatt­skyld­ur, hvort sem er hagn­aður af útseldri vöru eða útseldri vinnu, hvort sem er í formi arðs, vaxta, leigu eða ann­ars, en ávallt skyldi reglan um inn­skatt og útskatt í heiðri höfð, jafnt í við­skiptum með notað sem nýtt.

Eðli máls sam­kvæmt bæri notuð vara ein­ungis virð­is­auka­skatt að því marki skatt­stofns sem næmi jákvæðum mis­mun á sölu­verði og bók­færðu verði fyrir sölu. Flest sala á not­uðu væri því í raun skatt­laus, og þá því fremur sem verð héld­ist í hendur við eðli­legar afskriftir – raunaf­skrift­ir, að teknu til­liti til reglu­legs end­ur­mats, end­ur­bóta og nota­gild­is. Eðli­lega bæri þó öll þjón­usta við sölu, jafnt á nýju sem not­uðu, virð­is­auka­skatt, regl­unni sam­kvæmt. Hvað fast­eignir ein­stak­linga varðar myndi þó vera litið til fast­eigna­mats fremur en afskrifta og heim­ilt væri að upp­færa bók­fært verð og trygg­inga­mat bif­reiða, og hugs­an­lega fleiri áþekkra lausa­fjár­muna, með hlið­sjón af sann­an­legum end­ur­bót­um, við­haldi og nota­gildi, líkt og gildir um fast­eigna­mat. 

Auglýsing
Undanþágur frá skatt­inum væru óheim­il­ar, sama hvort almenn­ings­sam­göngur eða góð­gerð­ar­starf­semi ætti í hlut, félags­leg þjón­usta, listir eða hvers kyns menn­ing­ar- og íþrótta­starf­semi, enda greiddu heldur engir laun­þegar þess­ara greina tekju­skatt, ekki frekar en nokkrir aðrir laun­þegar í land­inu, né heldur nokkur rekstur af neinu tagi. Eðli máls sam­kvæmt væri það á verk­sviði Alþingis og eftir atvikum sveita­stjórna að veita þeim greinum stuðn­ing sem sam­komu­lag væri um og þá með þeim hætti að fram­lög kæmu skýrt fram í fjár­lögum eða sveit­ar­stjórna­sam­þykkt­um, en ekki sem skatta- eða gjalda­af­sláttur í hinum ýmsu óljósu mynd­um, og væri vissu­lega hvers kyns stuðn­ingur eðli­lega öllum frjáls og heim­ill, ein­stak­lingum jafnt sem fyr­ir­tækjum og félaga­sam­tök­um.

Í stað tekju­skatts kæmu hin marg­vís­legu gjöld fyrir not af nátt­úr­unni. Því háð­ari sem atvinnu­rekstur væri jarð­ar­gróð­anum og hinum ýmsu tak­mörk­uðu nátt­úru­hlunn­indum og gæð­um, því hærri gjöld bæri rekst­ur­inn – kolefn­is­gjald, orku­nýt­ing­ar­gjald, umhverf­is­gjald, veiði­rétt­ar­gjald, veggjald, fast­eigna­gjöld – allt eftir eðli og áherslum rekstr­ar­ins. Sam­svar­andi gilti í raun um neyt­end­ur, ein­stak­ling­ana, að því háð­ari sem þeir væru vöru og þjón­ustu sem beint og óbeint væri leidd af hinum ýmsu hlunn­indum eða orku­frekri eða meng­andi nátt­úr­u­nýt­ingu, allt eftir þeim lífsmáta sem hver og einn kysi sér, því hærri gjöld bæri hver og einn – beint og óbeint með kaupum sínum og við­skipt­um.

Hagn­aður af rekstri lög­að­ila sem ann­arra rekstr­ar­að­ila, að öllum útgjöldum og sköttum hvers árs greidd­um, myndi engu að síður skila virð­is­auka­skatti af greiddum arði eða á hinn bóg­inn virð­is­auka­skatti og nátt­úr­u­nýt­ing­ar­gjöldum af nýrri fjár­muna­mynd­un. En því arð­bær­ari sem rekstur væri, þá því fremur myndi hagn­að­ur­inn vekja laun­þega og laun­þega­hreyf­ingu til vit­undar um mögu­leik­ana á stærri hlut­deild í ágóð­an­um, mögu­leik­ana á betri kjörum, hærri laun­um.

Það skyldi því vera eitt af grund­vall­ar­at­riðum kjara­bar­áttu, að öllum fyr­ir­tækjum og rekstr­ar­að­ilum væri skylt að birta skýra árs­reikn­inga sam­kvæmt lög­bundnum bók­halds­lyklum svo að ekki léki vafi á afkomu neinna, auk þess sem nið­ur­stöðu­tölur skatt­fram­tala ein­stak­linga væru opin­ber­ar.

Rekstur sem skil­aði ekki neinum hagn­aði – enda rynnu þá allar tekjur í launa­greiðslur og í hin ýmsu önnur útgjöld – skil­aði engu að síður og ávallt skatti af virð­is­auka, af mis­mun sölu­and­virðis og aðfanga­virð­is. Hreinn tap­rekstur nyti þá heldur engra frá­drátt­ar­liða, líkt og löngum hefur verið heim­ilt sam­kvæmt gild­andi skatta­lögum að draga má upp­safnað tap af rekstri margra ára frá hagn­aði ár eftir ár. Ábyrgð á tapi yrði því ekki lengur borin af hinu opin­bera heldur ein­ungis af rekstr­ar­að­il­unum sjálf­um, enda væri hverskyns rekstur á for­sendum slíks opin­bers stuðn­ings sem fólg­inn er í skattaí­viln­unum úr sög­unni.

Ofur­hagn­aður og ofsa­gróði sem hvorki skil­aði sér í lægra verði vöru eða þjón­ustu né í bættum kjörum laun­þega, hvað þá heldur í eðli­legri fjár­muna­mynd­un, væri skýrt merki um ein­hvers konar fákeppni og ein­okun rekstr­ar, sam­ráð rekstr­ar­að­ila eða yfir höfuð merki um skort á allri heil­brigðri sam­keppni, og væri þó lík­ast til merki um allt þetta í senn. Hátekju­skattar myndu þá ein­ungis leiða til hærra verðs á vöru eða þjón­ustu, lak­ari kjara laun­þega eða enn minni eðli­legrar fjár­muna­mynd­un­ar, enda býður fákeppni og ein­okun ein­fald­lega upp á það að slíkum tekju­skatti sé smurt á flest annað en einmitt ofur­laun­in, ofur­tekj­urn­ar, svo að í engu er þá hróflað við eig­in­legu ráð­stöf­un­arfé hinna skatt­lögðu.

Svarið liggur því þvert á móti og ekki síst í ein­földun skatt­kerf­is­ins og ein­földun greiðslu- og launa­kerfa – ein­földun bók­halds – svo að mögu­leikar á mis­notkun kerf­anna séu sem minnst­ir. Að svo komnu máli reyn­ist aðhald neyt­enda, laun­þega­hreyf­ingar og opin­berra eft­ir­lits­að­ila mun skil­virkara en ella, sem og ekki síður aðhald sam­keppn­is­að­ila á mark­aði. Reyn­ist það á hinn bóg­inn ekki duga til þá er það skýr vís­bend­ing um laga­lega galla eða lélega eft­ir­fylgni hegn­ing­ar­laga, laga um félög og firmu, laga um sam­keppni og sam­keppn­is­eft­ir­lit, fjár­mál og fjár­mála­eft­ir­lit, en ekki merki um vanskött­un, enda ber ein­fald­lega að upp­ræta illa fengið fé, gera það upp­tækt að réttum lög­um, en ekki að verð­launa ofur­laun með gervi­skött­um.

Bók­hald­ar­inn

Luca Paci­oli, sem fyrstur lýsti tví­hliða bók­haldi í rök­legu sam­hengi – og þá ekki síður hinni sið­ferði­legu hlið þess jafn­framt – hlýtur að vera búinn að snúa sér marg­sinnis í gröf sinni, ekki síst þennan tíma sem launa- og tekju­skatta­skrímslið hefur verið að hreiðra um sig í vel­ferð­ar­þjóð­fé­lögum okk­ar, þessi risa­eðla sem drottnar nú yfir jörð­inni, ekki síst merg­sjúg­andi hin van­þró­aðri riki á for­sendum þeirrar alröngu geng­is­skrán­ingar gjald­miðla sem bein­línis er afleið­ing af gervifé skrímsla­fræð­anna, gull­inu sem risa­eðlan er einmitt svo gráðug í. Hefur Luca Paci­oli þó að lík­indum legið nokkuð rólegur í gröf sinni þessar aldir sem menn voru enn að móta og liðka hans ágætu reikni­vél til fulln­ustu, áður en þeir fóru að mis­nota vél­ina svo herfi­lega.Mynd: Wikipedia

Brask­arar og fjár­glæfra­menn nær­ast á háu flækju­stigi engu síður en risa­eðlan sem elskar að éta sömu krón­urnar aftur og aft­ur, sleikj­andi út um yfir marg­þvegnum doll­urum á hlað­borði allsnægt­anna, sléttum og strauuðum jen­um, pund­um, evr­um, sjúg­andi svo merg­inn úr júön­um, rúp­íum, lírum, pes­um, ríöl­um, rúblum og slot­um, slít­andi sinar frá beinum í græðgi sinni fær eðlan samt aldrei yfir sig nóg. Þvotta­vélin mallar lát­laust og krefst sífellt fleiri þvotta­vél­ar­við­gerð­ar­manna til að halda sér við – við­skipta­fræð­inga, mark­aðs­fræð­inga, pen­inga­hag­fræð­inga, MBA í við­gerð­um, Machine Business Administrators.

Því skyldi hið opin­bera ann­ars vera að kosta dýrt, margra ára háskóla­nám í fræðum sem eru þó svo ein­föld í sínu innsta eðli að hvaða góður gagn­fræð­ingur sem væri af bók­hald­braut myndi ein­fald­lega loka bók­inni – en ella neita að skrifa und­ir? Því skyldi það ann­ars hafa verið ein helsta málsvörn lög­giltra end­ur­skoð­enda í hrun­málum að klækirnir hefðu verið þeim kenndir í háskól­an­um? Hvaða þörf höfum við fyrir her manna sem gegna því hlut­verki fyrst og fremst að finna smugur í frum­skógi skatta­laga og launa­kerfa og búa til frá­drætti og til­færsl­ur, velt­andi krónum frá einu fyr­ir­tæki til ann­ars, laum­andi arði úr einni skúff­unni í aðra, búandi til papp­íra hér og papp­íra þar, papp­írs­fyr­ir­tæki, og svo gjarnan látið heita að allt sé undir hatti og regn­hlíf móð­ur­fyr­ir­tækis sem þó er lík­leg­ast að eng­inn viti nein almenni­leg deili á, ekki frekar en það væri skugg­inn af sjálfu sér, líkt og það sé megintil­gangur rekstrar að verpa fyr­ir­tækjum líkt og hænur gul­leggj­um, sem öllum ætti þó að vera ljóst að þær geta alls ekki?

Það tók aldir að vinda ofan af ægi flóknum ferlum him­in­tungl­anna sem reynd­ust þó ein­ungis vera manna­setn­ing­ar, hvað þá heldur að nokkrum tæk­ist að sanna að væru ferlar að vilja Guðs. Fáfræði leitar ávallt upp­hafn­ingar og tor­ræð­asta til­bún­ings – þ.e.a.s. fái hún undir sig vængi. Sé henni blásið nóg  í brjóst þá bólgnar hún svaka­lega út líkt og einmitt risa­eðlan sem er þó svo sak­laus í sínu innsta eðli, eig­in­lega bara gælu­dýr sem við elskum að fá að kljást við á skján­um, jafn­vel að fara í sjó­mann við í draumum okkar og hug­ar­heim­um, líkt og þegar Don Kíkóti barð­ist við sínar vind­myll­ur.

Og það er það sem hún einmitt er, risa­eðlan, okkar hug­ar­burð­ur, og þó svo algjör til­bún­ingur að hún lifir raun­veru­lega á meðal vor, engu lík­ara en væri hún hluti af lög­mál­inu. Við fáum hvergi hönd á henni fest, frekar en rönd við reist, en samt er hún hér, gín­andi yfir okk­ur, segj­andi okkur fyrir verk­um, skip­andi, gerðu þetta, gerðu hitt, hlýddu mér – og við hlýð­um. Nákvæm­lega eins og þegar jörðin var í miðju alheims og allt skyldi hlýta vilja lög­giltra end­ur­skoð­enda Guðs.

Græna bók­haldið

Sam­kvæmt tvö­földu bók­haldi skal hver reikn­ings­færsla ávallt eiga sér sam­svörun í gagn­stæðri færslu ann­ars reikn­ings. Rekstr­ar­tekjur eins eru leiddar af rekstr­ar­gjöldum ann­ars, efna­hags­reikn­ingur er leiddur af rekstr­ar­reikn­ingi. Það er því svo, að hagn­aður eins eða tap er ávallt afleið­ing af tapi eða hagn­aði ann­ars.

Gjöld nátt­úr­unnar sem við heimtum af henni eru því tekjur okkar en það sem við látum henni í té til end­ur­gjalds fær­ist á hinn bóg­inn henni til tekna, vonum við, enda skyldu þær tekjur hennar svo mynda aftur nýjan arð, jarð­ar­gróða, okkur til handa – og þannig koll af kolli. Svo lengi sem ekki er ójafn­vægi í þessum við­skiptum þeim mun liðugar skyldu þau ganga.

Þegar allt kemur til alls þá felur nátt­úran í sér sitt eigið innra bók­hald – tekjur og gjöld, eign og skuld – í stuttu máli sagt, afskriftir og vexti. Hún er sífellu að afskrifa hluta af sjálfri sér, sem m.a. kemur fram í marg­vís­legri hrörnun og dauða, en jafn­framt myndar hún vöxt á móti, sem birt­ist í nýrri jarð­myndun og nýju lífi, sem ann­ars vegar fær­ist til gjalda í iðrum jarðar og hins veg­ar, þegar á allt er litið og flest er rakið til enda, í orku­búi sól­ar­inn­ar, enda er það vissu­lega sólin sem af forða sínum greiðir mest alla vext­ina.

Algjör sjálfs­þurft­ar­sam­fé­lög jurta, dýra eða manna, sem taka litlum sem engum breyt­ingum til langs tíma lit­ið, nema að því leyti að líf tekur við af dauða og dauði af lífi, þau lifa þá í jafn­vægi við nátt­úr­una, og má þá raunar segja að þau séu sam­gróin nátt­úr­unnar græna bók­haldi þar sem vissu­lega skipt­ast þó á skin og skúrir og sumt kann á köflum að lit­ast svart eða hvítt.

En ef gjöld eins skulu ávallt eiga sér sam­svörun í tekjum ann­ars, hver hagn­ast þá á afskrift­um? Hvað nátt­úr­una varðar má segja að hvert nýtt líf hafi hagnað af erfðum sínum frá hinu dauða, hinu afskrif­aða – að því hlotn­ist vöxtur sinn að líf­fræði­legum og umhverf­is­legum erfð­um, sem rót sína eiga sér sem sagt ekki síst í sól­ar­ljós­inu. Hvaða tekjur vega þá á móti afskriftum fast­eign­ar, bif­reið­ar, hús­gagns eða mat­væla? Þær birt­ast í raun­inni í hagn­aði, hag þeirra sem hafa not af eign­unum eða fæð­unni. Fyrir notin gjalda þeir því vexti, leigur eða hverjar þær greiðslur sem nægja til við­halds, end­ur­nýj­unar eða bóta á því sem afskrif­ast af völdum notk­un­ar­inn­ar. Beri eign á hinn bóg­inn engan arð, enga vexti, þá ein­fald­lega afskrif­ast hún og eyð­ist þar til að lokum að hún er að fullu töp­uð. Afnotin end­ur­spegla þá ein­ungis hagnað þess sem neytir – svo lengi sem á nef­inu stendur – vexti sem í raun falla þá í skaut neyt­and­anum án end­ur­gjalds, en á hinn bóg­inn blasir þá vaxta­tap við eig­and­an­um, sem gæti þó allt eins verið neyt­and­inn sjálfur sem hver ann­ar. Aug­ljós­lega hljóta slíkar afskriftir án nokk­urs vaxtar á móti leiða af sér tor­tím­ingu.

Þegar öllu er á botn­inn hvolft þá snýst allur rekst­ur, hvort sem er ein­stak­linga, fyr­ir­tækja eða þjóð­fé­laga, um afskriftir og vexti. Því meiri sem afskrift­irnar eru, afföll­in, sóun­in, töp­in, þeim mun hærri vaxta hljótum við að krefj­ast og í marg­breyti­legri myndum – að öðrum kosti stæðum við uppi að lokum slypp og snauð. Á hinn bóg­inn, þá því frekar sem við miðum að var­an­leika og þar með að sem hægustum afskrift­um, m.ö.o. að bættri með­ferð og nýt­ingu orku og hrá­efna, ekki síður en mann­afls og allrar hugs­un­ar, þekk­ing­ar, þeim mun lægri verður vaxtakrafan – hagn­að­ar­krafan, arð­sem­is­krafan, launa­krafan, leigu­krafan, banka­krafan – án þess þó að við höfum nokk­urs misst í raun­veru­legum laun­um, tekj­um, arði, leigum eða hvaða öðrum eðli­legum vöxtum sem er, heldur nýtum við ein­ungis jarð­ar­gróðan mun bet­ur, upp­skerum þeim mun minni græðgi og falska gróða­von, skyldi mega ætla.

Auglýsing
Í raun­inni lýtur allt að afskriftum í einni eða annarri mynd, sumt reyndar svo að það afskrif­ast varla nema á millj­ónum eða millj­örðum ára. Mann­anna verk eru þó fæst afskrifuð á lengri tíma en á um 10 til 100 árum, allt eftir því hve vel er vandað til þeirra, og eru þó dæmi um þús­unda ára gömul verk sem enn stand­ast fylli­lega tím­ans tönn. Öll þekk­ing okkar væri reyndar til einskis ef hún væri ekki í sífellu end­ur­nýj­uð, ávöxtuð, með upp­eldi, þjálfun og kennslu, að öðrum kosti myndi hún með öllu afskrif­ast, glatast, á einum manns­aldri. Afskrift­ar­tími mat­væla er þó almennt miklum mun skemmri og eru þó fáar vörur háðar jafn marg­breyti­legu geymslu­þoli – allt eftir því hvaða aðferð er við­höfð við til­bún­ing mat­væl­anna, með­höndlun þeirra, vinnslu, dreif­ingu og geymslu, og þó ekki síður eftir því með hvaða hætti við nýtum mat­vælin og njótum þeirra, sem hvers ann­ars jarð­ar­gróða, hvort sem eitt­hvað áþreif­an­legt á í hlut eða það sem ekki verður í aska lát­ið.

Því er það, hvort sem mat­væli eiga í hlut, hús­eign, bíll, þekk­ing, mat­ur, gam­all róm­verskur vegur eða hin ýmsu súm­er­isku verk og bús­hlutir enn forn­ari, að afgjald­ið, vext­irn­ir, sem við greiðum til mót­vægis afskrift­un­um, helg­ast ekki síst af end­ingu, nýtni og nota­gildi verð­mæt­anna.

Öll okkar vinna, allt okkar starf og strit, snýst um það eitt að skapa vöxt til mót­vægis afskrift­um. Væru afskriftir engar þá væri himna­ríki á jörð – alla­vega eins og lög­giltir end­ur­skoð­endur Guðs hafa skýrt það ríki fyrir okkur um ald­ir, þús­öldum sam­an. Allt sem eyð­ist, allt sem af er tek­ið, krefst end­ur­nýj­unar og bóta, að öðrum kosti blasir örbyrgð ein við og skyldum við þó varla afskrifa leið­ina til himna­rík­is. En þeim mun minna sem eyðir mölur og ryð, þeim mun létt­ari verður starf­inn.

Heims­bók­haldið

Munum við þá bara fá hálft tonn af buxum fyrir einnar viku vinnu verk­fræð­ings ef öll þessi nátt­úr­u­nýt­ing­ar­gjöld verða lögð á og tekju­skattar afnumd­ir?

Já, reynd­ar, nokkurn veg­inn, afar gróft á lit­ið, kannski þó því minna þegar frá líð­ur. En höfum þá í huga að hinn helm­ing­inn, hitt hálfa tonn­ið, munu fram­leiðslu­ríkin einmitt geta nýtt sjálfum sér í hag. Þeim mun færri þurfa þá að ganga um í gat­slitnum buxum og fengju ríkin þó engu að síður verk­fræði­vinn­una óskerta í sinn hlut, sem sagt sem næst óskatt­lagða af okk­ur.

Höfum þá jafn­framt í huga, að ekki ein­ungis mun verk­fræð­ings­vinnan lækka í verði gagn­vart útflutn­ingi heldur ekki síður á okkar eigin innri mark­aði, sem og einnig vinna lög­ræð­inga, lækna og presta ekki síður en hag­fræð­inga, end­ur­skoð­enda, mark­aðs­fræð­inga, versl­un­ar­manna, fata­hönn­uða og þeirra sem vinna að sauma­skap jafnt sem við smíðar og við­gerð­ir, t.d. við smíði, sam­setn­ingar eða við­gerðir á sauma­vél­um. Inn­lend buxna­fram­leiðsla ætti þá vissu­lega meiri mögu­leika en ekki síður við­gerðir á buxum sem öðrum fatn­aði. Buxna­sala í heild, sem og sala ann­ars fatn­að­ar, myndi því drag­ast saman sökum betri nýt­ingar – við myndum sem sagt afskrifa fatnað á lengri tíma og upp­skera vext­ina í bættri nýt­ingu launa, enda mun þá flest það sem ekki felur í sér drjúgan efn­is­kostnað lækka þeim mun meira í verði.

Að því gefnu að gjöld fyrir not af nátt­úr­unni yrðu hin almenna regla víð­ast hvar á jörð en tekju­skattar und­an­tekn­ing, þá gefur auga­leið að launa­kostn­aður myndi drag­ast saman sem hlut­fall af virði heims­fram­leiðslu, og þá því frekar þar sem tekju­skattar hafa vegið drjúgt – að alls óhögg­uðum kaup­mætti, jafn­að­ar­virði ráð­stöf­un­ar­tekna laun­þega jafnt sem fjár­magns­eig­enda. And­virði orku og hrá­efna myndi á sam­svar­andi máta vaxa sem gagn­stætt hlut­fall af heild, enda kemur manns­höndin þeim mun minna að vinnslu hrá­efna og hrá­vöru á okkar dögum sem hún er orðin vél­rænni á flestum sviðum og orku háð ekki síður en umhverf­inu..

Verð á flestri hrá­vöru er háð heims­mark­aðs­verði – and­stætt við flest almenn vinnu­laun í heim­inum – en þrátt fyrir mun minni eft­ir­spurn af okkar hálfu, vegna bættrar nýt­ingar á flestum sviðum og þar af leið­andi lengri afskrifta flestra hluta, þá mun orku­frek frum­fram­leiðsla ekki lækka í verði, enda myndu nátt­úr­u­nýt­ing­ar­gjöldin einmitt vega á móti lækkun launa og fjár­magnstekna í þeim geira af völdum afnáms tekju­skatta, sér­stak­lega í hágjalda­ríkj­um. Engu að síð­ur, og af nákvæm­lega sömu völd­um, vegna afnáms tekju­skatt­anna, mun öll spar­neytin úrvinnsla hrá­efn­anna lækka í verði sem og lítt orku­frek dreif­ing unn­innar vöru og þá ekki síst öll mark­aðsum­sjón og smá­sölu­þjón­usta.

Þrátt fyrir minni eft­ir­spurn af hálfu okkar Vest­ur­landa­manna þá myndi heims­fram­leiðsla síður en svo drag­ast sam­an, enda myndi þörf lág­launa­ríkj­anna aukast að sama skapi. Útflutn­ingur þeirra á fram­leiðslu­vörum til okkar myndi sann­ar­lega drag­ast veru­lega saman en fram­leiðsla þeirra í heild alls ekki. And­virði hvers árs­verks verk­fræð­ings sem þau keyptu af okkur væri á hinn bóg­inn orðið þeim miklu verð­mæt­ara og þeim mun meiri mögu­leikar væru þá á að laga alla fram­leiðslu­tækni, orku- og hrá­efna­nýt­ingu, að grænu bók­haldi – einmitt af völdum hvatans til sparn­aðar sem nátt­úr­u­nýt­ing­ar­gjöld, að þeim inn­leidd­um, myndu leiða til. Tekj­urnar af gjöld­unum myndu þá ekki síst nýt­ast þeim til vel­ferð­ar­sköp­unar – og þá þar á með­al, svo sem gefur að skilja, til kennslu í verk­fræði.

Sam­dráttur í útflutn­ingi fram­leiðslu­varn­ings mun þá falla lággjalda­ríkj­unum sjálfum í skaut, án þess þó að þau missi nokk­urs í útflutn­ings­tekjum (sama verk­fræð­ings­vinnan óbreytt til end­ur­gjalds hverju útfluttu hálfu tonni, söm og jöfn sem áður af heilu tonn­i), og einmitt koma vinnu­afl­inu – sem jafn­framt eru neyt­endur – til góða í bættum kjör­um. Hafi laun í lággjalda­ríki numið and­virði einnar buxna­skálmar fyrir ein­hverja til­tekna vinnu- eða tíma­ein­ingu, þá myndu þau að minnsta kosti hækka sem næmi virði hinnar skálm­ar­innar – launin næmu þá sem sé heilum buxum en ekki bara hálf­um.

Greiðslu­geta neyt­enda í lággjalda­rík­unum myndi með öðrum orðum aukast – eft­ir­spurn eftir vöru og þjón­ustu héld­ist því í hendur við aukið fram­boð allra hálfu tonn­ana sem þá nýtt­ust á inn­an­lands­mark­aði þeirra, en ekki líkt og nú, að heilu tonn­unum er nær ein­vörð­ungu skipt á milli okk­ar, á okkar innri mark­aði. Verð­lag í lággjalda­ríkj­unum myndi vissu­lega frekar stíga á mjög orku­frekum sviðum í kjöl­far álagn­ingar nátt­úr­u­nýt­ing­ar­gjalda, enda væri á þeim sviðum minni afléttum tekju­sköttum til að dreifa til mòt­vægis líkt og hjá okk­ur, og vega fyr­ir­tækja­skattar þó vafa­laust drjúgt á köfl­um. Kaup­mátt­ur, raun­virði ráð­stöf­un­ar­tekna launa, myndi á hinn bóg­inn aukast á flestum öðrum svið­um, og þá ekki ein­vörð­ungu í hlufall­inu heilar buxur mót hálfum eða þaðan af meira, heldur einnig vegna auk­ins kaup­máttar gagn­vart seldri vinnu og marg­vís­legri vöru og þjón­ustu, af völdum afnáms tekju­skatta og þess gervifjár sem þó er fyrir hendi, þó að minna vægi hafi en í ríkjum okk­ar. Þar mun þá vega þyngst afnám skatta af létt­iðn­aði, af allri opin­berri þjón­ustu, af almennri sölu á vöru og þjón­ustu og af vax­andi milli­stétt og hástétt, þá ekki síst í nýmark­aðs­ríkj­um.

Almennt verð­lag og kaup­lag í hágjalda­ríkj­unum myndi á hinn bóg­inn hníga veru­lega með afnámi ofur­skatt­anna og gervi­fjár­víxl­verk­un­ar­inn­ar, án þess þó að kaup­mætti ráð­stöfn­un­ar­tekna launa í heild væri haggað – yrði kaup­mátt­ur­inn raunar hærri á flestum sviðum þjón­ustu og lágorku­fram­leiðslu en minni fyrst og fremst á orku­frek­ustu svið­um, sem og alls stað­ar. Verð­lag jafnt sem kaup­lag í heim­inum myndi með öðrum orðum leita jafn­vægis og virði vöru og þjón­ustu jafn­ast til muna eftir löndum og geng­is­vísi­tölur gjald­miðla þá sýna æ rétt­ari vog.

Heims­við­skipti myndu mót­ast æ meira af skiptum á þekk­ingu og þjón­ustu enda er flutn­ings­kostn­að­ur­inn þeim mun minni sem kostn­að­ur­inn er meiri af hinum þung­lama­legri og meira meng­andi flutn­ingi. Marg­vís­leg mengun væri vissu­lega heim­il, í lofti, láði sem á legi, enda væru boð og bönn sjaldn­ast nauð­syn­leg, en því meiri mengun sem staf­aði af flutn­ingum jafnt sem öðru, innan sem utan efna­hags­lög­sögu ríkja, þeim mun hærri gjöld rynnu til hins opin­bera, enda kæmu ríki sér saman um skipt­ingu meng­un­ar­gjalda af utan­lög­sögu­starf­semi. Ríki sem neit­uðu slíku sam­starfi myndu vænt­an­lega vera úti­lokuð frá mörk­uð­um.

Auglýsing
Flutningsaðilar jafnt sem aðrir sem ekki gættu að ýtr­ustu meng­un­ar­vörn­um, myndu raunar að sjálf­gefnu úti­loka sig frá sam­keppni og þar með frá öllum mörk­uð­um, enda myndu þá meng­un­ar­gjöld sem önnur nátt­úr­u­nýt­ing­ar­gjöld bera starf­semi þeirra ofur­liði. Fram­leiðni, hvort sem er á sviði flutn­inga eða hvers sem er ann­ars, sem ekki veldur því að gjalda til baka notin af nátt­úr­unni – er ein­fald­lega óarð­bær. Gildir þá einu hve vand­lega bók­haldið er þveg­ið, fægt og fag­ur­bón­að.

Bók­halds­lykl­arnir tíu eru verk­færi sem hvert ein­asta ríki getur nýtt sér sem vog­ar­skálar raun­veru­legrar fram­leiðni, ein­ungis myndi inn­byrðis vægi skál­anna vera breyti­legt eftir lönd­um. Ríki sem eru fátæk að grænni orku hlytu þá að afla þeim mun meiri tekna af kolefn­is­gjöldum en eftir því minni tekna af hreinum orku­nýt­ing­ar­gjöldum – eða á hinn bóg­inn öfugt, líkt og hér. Á sam­svar­andi máta myndi vægi hinna ýmsu umhverf­is- og auð­linda­gjalda vera mis­mun­andi eftir lönd­um, allt eftir því hve rík eða fátæk þau eru að nátt­úru­auði og allt eftir því hvers eðlis auð­ur­inn er. Er varla nokk­urt ríki þó svo ósnortið af nátt­úr­u­nýt­ingu að ekki kæmu til hin ýmsu umhverf­is­gjöld til mót­vægis not­un­um. Gjöld af fast­eignum á hjólum – veggjöld - væru alla­vega nota­drjúg tekju­lind víð­ast hvar, auk hinna sígildu fast­eigna­gjalda.

Þrátt fyrir vax­andi fram­leiðslu í heim­in­um, þrátt fyrir sam­drátt neyslu Vest­ur­landa­búa en þeim mun meiri neyslu íbúa þró­un­ar­ríkj­anna, þá myndu nátt­úr­u­nýt­ing­ar­gjöld samt leiða til slíkrar hag­kvæmni rekstrar sam­kvæmt grænu bók­haldi, að mengun í heild myndi minnka. Fram­leiðslu- og þjón­ustu­stig þró­un­ar­ríkj­anna færi vissu­lega vax­andi um hríð en betri nýt­ing á flestum stig­um, vax­andi virð­ing fyrir jarð­ar­gróð­an­um, myndi á hinn bóg­inn leiða til hæg­ari afskrifta á flestum svið­um, hvar sem væri. Vextir til mót­vægis víxl­verkun skatta og sýnd­ar­við­skiptum gervi­fjár myndu því lækka og nálg­ast æ meira virði eig­in­legra raun­vaxta, sem væru þá þeim mun lægri sem hag­nýt­ing gróð­ans væri betri, afskriftir hæg­ari.

Hvert er þá mál­ið? Eru ekki vextir einmitt lágir í flestum vel­ferð­ar­ríkj­um, jafn­vel svo að liggja sem næst núlli nú um stundir í hinum best meg­andi ríkj­um? Sann­ar­lega, en þá ræðir ein­ungis um við­ur­kennda vexti í við­ur­kenndum við­skipt­um, einmitt þar sem MBA-við­gerðir koma mest við sögu, en ekki um vext­ina sem við greiðum til mót­vægis marg­föld­un­ar­á­hrifum skatt­anna, afföll­unum af völdum atvinnu­leysis og afleiddri örorku, af völdum æ ein­hæf­ari vinnu og vél­rænni sam­skipta, af völdum æ vél­rænni til­veru æ fleiri. Í stuttu máli sagt, af völdum æ hrað­ari afskrifta mann­afls jafnt sem raunar flestra hluta, reyndar alveg í öfugu hlut­falli við ævi­lík­ur. Það þarf þó ekki að koma neinum á óvart, enda er heil­brigð­is­þjón­usta nán­ast eina gilda atvinnu­greinin þar sem flest mark­mið og meg­in­á­herslur hafa miðað að sem lengstum afskriftum – sem sé að sem lengstri ævi – en þó þegar allt kemur til alls á kostnað æ hraðri afskrifta, lélegrar end­ing­ar, lélegrar nýtni mest alls hins jarð­ar­gróð­ans.

Heim­il­is­bók­haldið

Glíma van­þró­uðu ríkj­anna er nokkuð ann­ars eðlis en okkar þó að sumt sé vissu­lega nokkuð kunn­ug­legt í þeim hágjalda­ríkjum sem ekki hafa náð fullum tökum á mark­aðs- og vel­ferð­ar­við­gerðum – t.d. tveggja stafa stýri­vaxta­tölur og efna­hags­legar dýfur sem einatt má reikna með að fái þriðj­ung eða fjórð­ung lands­manna til að súpa hveljur um hríð.

Drjúgur hluti rík­is­borg­ara lifir gjarnan utan hins form­lega hag­kerf­is, ýmist baslar í bæjum og þorpum í hinum afskekkt­ari hér­uðum og sveitum eða hokrar við sjálfs­þurft­ar­bú­skap, eða á hinn bóg­inn við alls kyns brask og basl í fátækra­hverfum stór­borg­anna, og kunna þó ýmsir að vera rót­lausir með sinn fót­inn í hvorum heimi. Fjöld­inn allur kemur varla við sögu í hag­skýrslum verst stöddu ríkj­anna, skýrslum um vinnu­mark­að, um vinn­andi og atvinnu­lausa, né þá í örorku­skýrsl­um, frekar en að mjög margir íþyngi þá þeim sem halda skóla­skrár og sjúkra­skrár. Engu að síður vegur fjöld­inn allur drjúgt í mann­tals­skýrslum þó að vissu­lega þeim mun skemur ýmsir séu þar með á blaði, sem leiðir beint af dán­ar­líkum kvörð­uðum á vel­ferð­ar­skala. Heim­il­is­bók­hald flestra þess­ara hálf­gerðu utan­rík­is­borg­ara myndi vera kallað svart á vest­ræna vísu þó að helgist ein­ungis af sjálfs­bjarg­ar­við­leytni hvers og eins og er það þó sjaldn­ast svart­ara en svo að undan nokkrum sköttum sé yfir­leitt að svíkjast, að telja megi, hvort eð er.

Samt er komið raf­magn næstum því alls staðar og fáar sveitir eru svo afskekktar eða svo illa fyrir komið fátækra­hverfi að ekki sé sjón­varp og net í ein­hverri mynd. Það er því ekki ólík­legt að börn drekki í sig líf Kar­dashi­an‎-­fjöl­skyld­unnar með móð­ur­mjólk­inni og hangi svo frekar inni á spjall­rás um sprengju­tækni á ung­lings­árum en að fram­halds­skóli eða vinna sé í boði, eða á hinn bóg­inn að þeir taki frekar þann slag að skjót­ast sem hæst upp á fót­bolta­stjörnu­him­in­inn. Enski bolt­inn hefur þá kannski kryddað barn­dóms­árin og fyr­ir­mynd­ar­líf Beck­ham-­fjöl­skyld­unnar heillað ung­ling­inn meira en allt baslið og barasta draumar um brota­járns­brask.

Lík­urnar á að sprengj­urnar bæti til­veru þeirra eru þó harla minni en eng­ar, og varla heldur meiri lík­urnar í fót­bolt­anum en einn á móti hund­rað þús­und, að verði atvinnu­knatt­spyrnu­menn, eða milljón að þeir verði það á heims­vísu, þó kannski einn á móti hund­rað eða þús­und, að geti brauð­fætt sig í fram­tíð­inni sem ung­linga­þjálf­ar­ar. Her­inn mun þó yfir­leitt taka flestum opnum örmum sem nýta vilja þjálfun sína sem fót­göngu­lið­ar, jafn­vel að ung­liðum sé þá gefin von um lið­þjálfa­tign er fram líði stund­ir. Laun lang­flestra eru afar víða mjög lág en hástétt­ar­innar þeim mun miklu hærri og stétta­skipt­ing og verka­skipt­ing reyndar sums staðar slík að jafna má til léns­skipu­lags – eru óðulin þá lík­ast til þó fremur löguð að ein­hvers slags iðn­skipu­lagi, ein­hvers konar mjólk­urkú okk­ar, en að eig­in­legum land­bún­aði sem höf­uð­léni.

Auglýsing
Það er á hinn bóg­inn ein­kenni nýmark­aðs­ríkja að til verður mið­stétt sem jafnar nokkuð met­in. Þriðj­ungur lands­manna kann þá að búa á svæðum þar sem flétt­ast saman stór­borgir og stór­bú­skapur við þróuð iðn­að­ar­svæði og líta má til sam­ans á sem ríki í rík­inu er jafn­vel bjóði kjör er líkja megi við sumt það sem sæmi­legt vel­ferð­ar­ríki kann að bjóða, enda skástu laun þá einmitt orðin skatt­ber­andi og breiðu bökin all­fleiri. Þriðj­ungur þjóðar kann þá að búa enn við baslið og sjálfs­þurft­ar­bú­skap­inn í hinum fjar­læg­ari eða afskekkt­ari hér­uðum og sveit­um, og er hann þó í beinum tengslum við borg­ar­lífs­menn­ing­una – einmitt fyrir til­stuðlan sjón­varps og nets, og þó ekki síð­ur, þegar allt kemur til alls, vegna náinna tengsla, oft­ast sterkra sveit­ar- eða fjöl­skyldu­tengsla, við far­and­verka­fólkið sem myndar þá einmitt hinn síð­asta þriðj­ung þjóð­ar, afar gróft á lit­ið. Með hálfan hug­ann heima í sveit­inni, litla bænum eða þorp­inu, leitar far­and­verka­fólkið að fót­festu í borg­inni, rót­laust eins og þang­ið, þó alandi örlitla von í brjósti um að fá ein­hvern tím­ann snúið aftur heim en ekki bara í stop­ulum fríum eða í lif­andi skjá­mynd í far­sím­an­um.

Tengsla­netin eru marg­slungin og gegna þó í sínu innsta eðli líku hlut­verki og marg­miðl­unin sem tengdi saman sveit­ir, þorp, bæi og borgir iðn­bylt­ing­ar­innar á Vest­ur­lönd­um. Og nú sem fyrr eru far­and­verka­menn­irnir fót­göngu­liðar bylt­ing­ar­inn­ar. Sjón­varp, far­símar, tölvur og net hafa vissu­lega leyst að mestu af hólmi tíma­rit, dag­blöð, sendi­bréf og dreifi­bréf, sem voru helstu miðl­arnir í árdaga bylt­ing­ar­inn­ar, áður en land­sími var svo loks lagð­ur, inter­net síns tíma, rit­sím­inn sem svo umbreytt­ist í tal­síma um það bil sem reglu­legt útvarp hófst og kvik­mynda­gerð, sem krist­all­að­ist síðan saman í sjón­varpi. Með hug­bún­að­ar- og net­bylt­ing­unni hafn­aði svo allt saman að lokum í einni sæng – og til varð marg­miðlun nútím­ans.

Bylt­ingin er síkvik og hefur fyrir löngu breiðst út um allar jarð­ir. Her fót­göngu­lið­anna, sem lagði af stað úr sveitum Eng­lands, Skotlands og Wales undir lok 18. ald­ar, tekur sífellt á sig nýjar og marg­breyti­legri mynd­ir, í hverju land­inu eftir ann­að, frá einum tíma til ann­ars. Ávallt á her­inn það þó sam­merkt, hver sem hann er, hvar sem hann er á hverjum tíma, hvar sem hann skýtur rót­um, að hann krefst að lokum mála síns – sömu vel­ferðar og allir hinir – alls þess sem marg­miðl­unin á öllum tímum hefur einmitt upp­lýst hann um.

Ella er ekki von á góðu, vofa þá yfir borg­ara­styrj­ald­ir, átök milli ríkja eða ein­hvers slags heims­stríð. Er þó sjaldn­ast neitt minna í gangi en harð­vít­ugar deilur – og næstum alltaf með ein­hvers konar yfir­bragði trú­ar­bragða­deilna, sem á öllum tímum eru þó ekk­ert annað í sínu innsta eðli en við­skipta­stríð, heilög bar­áttan um brauð­ið.

Og nú sem jarð­ar­búar eru óðum að verða 8 millj­arðar tals­ins – nú þegar miðl­unin er orðin svo miklu fjöl­þætt­ari, öfl­ugri, hrað­virk­ari og útbreidd­ari en nokkru sinni fyrr – gæti mis­skipt­ingin verið aug­ljós­ari? Eru þá reyndar ótaldir nær 2 millj­arðar sem munu bæt­ast í hóp okkar á allra næsta ald­ar­fjórð­ungi – sem fyrst og fremst munu þó upp vaxa í óróa­sömum þró­un­ar­lönd­un­um. Og hvers mun þá verða að vænta?Jarðarbúar árið 2018 – World Population in 2018. Hér hefur stærð hvers ríkis verið mótuð í hlutfalli við íbúafjölda. Ísland verður þá svo smátt að þess gætir vart. Jafnvel rússneski björninn verður eins og smá húnn nýskriðinn úr móðurkviði.

Vandi okkar er því ærinn, enda er bein­línis veru­legur skortur á vel­ferð yfir­vof­andi – að öllu óbreyttu – sem harð­ast mun þá lenda á hverj­um? Það hefur bein­línis verið gefið út – og er dag­skipun beint frá Par­ís, stimpluð í flestum höf­uð­borgum heims – að við skulum herða orku­ól­ina. Vand­inn krist­all­ast svo í því að við Vest­ur­landa­bú­ar, sem til jafn­aðar sitjum að lang­mestri vel­ferð allra jarð­ar­búa, gerum ekki grein­ar­mun á vel­ferð og orku. Að herða orku­ól­ina hljóti því að vera sama og að herða sjálfa sultar­ól­ina, sama og alls eng­inn hag­vöxtur – bara ávísun á enda­laust strit og jafn­vel vel­ferð­ar­missi! Að hugur okkar og heili hafi jafn­vel verið svo ræki­lega þveg­inn, að skol­ast hafi út allur auð­særri skiln­ing­ur?

Herra­garð­ur­inn

Downton Abbey lýsir því af mik­illi fágun hve and­stæð­urnar voru enn býsna miklar fyrir öld – hér um slóðir – þó þær væru þá engu lengur líkar him­in­hróp­andi mót­sögn­unum er Jeppi á Fjalli upp­lifði á sinni löngu liðnu tíð í leik­riti sínu sem var skrifað á tíma upp­lýs­ing­ar­innar á Vest­ur­lönd­um, á tíma hins upp­lýsta ein­veld­is, áður en róm­an­tíkin tók völdin og iðn­bylt­ing­in. Leiðin milli aðals og und­ir­sáta gat þá samt sem áður verið svo skömm að draumur gat orðið að veru­leika eina dag­stund þó að engin væri marg­miðl­un­in, hokrandi leigu­lið­inn á herra­garð­inum segj­andi fyrir verkum sem væri hann þá bar­ón­inn sjálf­ur, skip­andi fyrir á óðals­setr­inu, gerðu þetta, gerðu hitt, hlýddu mér – en bar­ón­inn naut þess ósegj­an­lega að lát­ast sem hann í geggj­uðum draumi honum hlýddi. Þegar allt kom til alls var þetta ein­ungis sjón­ar­spil, þess tíma dægradvöl aðals­ins, þess tíma Downton Abbey, sem bar­ón­inn dró þó afar stóran lær­dóm af:

Af litlu ævin­týri má oft lær­dóm stóran draga:

látum aldrei stjórn og völd í hendur múga­manns.

Honum er það ekki í blóð borið í háu að sitja sæti

að sinna kvik­fén­aði og draga plóg er eðli hans.

(Úr Loka­söng Bar­óns – Hol­berg, Meg­as)

Ef við á hinn bóg­inn, fyrir seiglu okkar og harð­fylgi, erum einmitt sá gamli Jeppi sem þrátt fyrir allt fékk loks stjórn­ina og völdin í sínar hendur – fyrir alda­langa bar­áttu, blóð, svita og strit – erum við þá ekki einmitt sá barón sem nú í háu sæti situr á herra­garð­inum Jörð? Og hver er þá sá múga­maður sem nú dregur plóg­inn? Bónd­inn að plægja fyrir bómull­arplöntum í Bangla­des­h? Nilla þá að sauma herr­anum baðmull­ar­buxur í borg­inni? Nema að Jeppi gamli fyrir seiglu sína leiki nú kvik­fjár­hirði í Downton Abbey? Jafn­vel að fyrir harð­fylgi sitt sé orð­inn herr­ans stofu­þjónn – eða bryti? Nilla þá Joanne Froggatt eða Phyllis Logan? Eða jafn­vel sjálf Eliza­beth McGovern holdi klædd?

Óðalið sjálft telur ein­ungis um fimmt­ung eða sjött­ung allra íbúa herra­garðs­ins en ræður beint og óbeint yfir öfugu hlut­falli flestra auð­linda víð­áttu­mik­illa skatt­lend­anna. Það stýrir hönnun og gerð flestra hluta á jörð, fer með fram­leiðslu­stjórn í flestum greinum og setur mark­aðs­setn­ingu afurð­anna skýr vel­ferð­ar­mark­mið svo að óðals­búar geti vel við unað. Bar­ón­inn stýrir lofts­lags­ráð­stefnum í frí­stundum sínum frá klúbbn­um, skil­greinir þá höf­uð­mark­mið­in, sem snú­ast nú um að bægja frá lofts­lagsvá sem steðjar að herra­garð­inum af völdum fram­leiðslu­meng­un­ar.

Meng­un­ina á mark­að! hljómar um sali – kjör­orð sem auð­fræð­ingar bar­óns hafa hannað handa ridd­urum hring­borðs­ins. Fram­leiðslu­af­urðir okkar eru tvenns kon­ar, útskýra hinir frómu fræð­ingar fyrir ráð­stefnu­gestum – ann­ars vegar sú afurð sem við viljum kaupa og hins vegar meng­unin sem fæstir vilja en gleypa samt við, enda stæði þeim ella engin afurð til boða. Hvort tveggja er því mark­aðs­af­urð sem ber þar af leið­andi að meta til fjár!

Því skyldum við þá hefta frelsi þess til athafna er vill og get­ur? spyr bar­ón­inn hring­borðið fagn­andi. Hér fengum við dæmið sem hrópar skýr­ast til vor. Fyrst almúg­inn vill ekki kaupa meng­un­ina því skyldu athafna­menn­irnir þá ekki fá að versla með hana sín á milli á sínum einka­mark­aði?

Eftir dynj­andi lófa­klapp dettur allt í dúna­logn þegar Nilla sprettur upp eins og fjöður og þrumar yfir borðið með vönd sinn á lofti:

Því skyldi þeim hlotn­ast meng­unin á silf­ur­fati til að manga með og hirða af henni gróða? En allur almúgi gjaldi þá skuld­ar­innar og heim­ur­inn skað­ans af athöfnum þess­ara umhverf­is­sóða!

Bar­ón­inn er stokk­inn af stað að gagn­stæðum hluta borðs­ins og hljóðar á móti yfir öxl sér, hop­andi undan á hlaupum með­fram borð­inu:

Vér sem með­fædda höfum siði og fágun megum hafa fyrir lýðnum vit og jafn­vel tugta hann ofur­lítið og aga. Því skyldi ekki lýð­ur­inn gjalda þeim sem gjalda ber fyrir allan sinn vel­ferð­ar­gróða? Varla skyldum vér fara að greiða skatta og gjöld, kona?

Nilla dregur sífellt á hann en nokkrir auð­fræð­ingar hafa sprottið á fætur og hlaupa með skjald­borg slegna um bar­ón­inn hring eftir hring honum til varnar kringum borð­ið, svellandi móður undan vendi Nillu og snuprandi rómi:

Ef rúm er fyrir verslun með mengun á mark­aði, Jeppi bar­ón, þá er það ekki ein­ungis merki um að opin­ber meng­un­ar­gjöld séu alltof lág og öll litlu gjöldin fyrir notin af nátt­úr­unni, heldur ekki síst merki um óheil­brigða sam­keppni, Jepp­inn þinn – ein­okun og fákeppni sér­út­val­inna mark­aðs­sóða sem hlotn­ast að gjöf fyrir subbu­skap sinn eign­ar­réttur og einka­réttur á meng­un. Því skyldi ann­ars þeim öðl­ast réttur til meng­un­ar­gróða, þeim sem einmitt verst hafa gengið um auð­lind­irn­ar?

Auglýsing
Þú vilt skatt­heimtu! hrópar auð­fræð­ingur upp yfir sig. Rústa öllu sem við höfum byggt upp! hrópar annar ákaf­lega. Brjóta niður sjáv­ar­út­veg­inn, land­bún­að­inn, iðju­ver­in, gagna­ver­in! hljóðar mark­aðsvið­gerð­ar­maður upp yfir sig sem hann stekkur inn í skjald­borg­ina miðja og reynir árang­urs­laust að ná vend­inum af Nillu. Brjóta okkur öll nið­ur, svipta okkur hag­sæld­inni og allri vel­megan! æpir vel­ferð­ar­við­gerð­ar­maður og hoppar á eftir félaga sínum inn í skjöldum prýdda hring­iðuna. Svipta okkur sann­leik­an­um, öllu rétt­mæti okk­ar, nornin þín, það er það sem þú vilt! hvæsir aðal­auð­fræð­ing­ur­inn örvænt­ing­ar­fullur að Nillu. Ná heims­yf­ir­ráðum – brjóta niður Goog­le, brenna Amazon, rústa Microsoft, mauka App­le, kippa öllum fótum undan Face­book og Twitt­er, lama öll gagna­verin okk­ar, skrúfa alveg fyrir Net­fl­ix, það er það sem þú hefur í hyggju, skað­ræð­is­skepnan þín! botnar aðstoð­ar­auð­fræð­ingur hans him­inhrópandi röddu.

Hring­borðið er að leys­ast upp í sam­felld­an, stríð­an, iðandi straum þar sem hver eltir skottið á öðrum hring eftir hring kringum ráð­stefnu­borðið í inni­legri við­leytni sinni til að reyna að skilja af hverju sal­ur­inn logar nú allt í einu í auð­fræði­legum deil­um. Var ekki ann­ars hug­myndin að ræða loft­lags­vá­na? Hvað eru þessir sér­fræð­ingar þá eig­in­lega að fara? Rétt­mæti hvað? Rétt­mæti skatt­heimtu? Sann­leikur hvað? Sann­leikur um sjáv­ar­út­veg, land­bún­að­inn, iðju­ver­in, gagna­ver­in? Allt í fári hjá Goog­le? Jesús minn almátt­ug­ur! Og Amazon, App­le, Microsoft og líka Face­book? Og Twitt­er! Net­fl­ix!

Gagna­ver hvað? Var bar­ón­inn að dreyma? Sofn­aði hann undir ræð­um? Hví­lík martröð! En að bjóða upp á alla græna orku ókeypis? Gætu þá ekki allir hætt að menga og allir sætu sáttir á sárs­höfði? Væri það ekki þarft inn­legg í umræð­una?

Þau ganga snöggvast út í kvöld­verð­ar­hléinu og teyga að sér rökk­ur­sval­ann, Akra­fjall og Skarðs­heiði eins og djúp­bláir draumar í haust­húm­inu. Yfir Esj­unni grúfir þung­búið ský eins og risa eðla að búa sig undir mið­næt­ur­lúr­inn sinn. Væri það ekki ann­ars gott efni í erindið eftir hlé? Blað­laust og inn­lif­að, svona fag­ur­græn upp­ljóm­un, alveg iðja­grænn draumur í skýj­um?

Það er víst verið að sýna Downton Abbey í bíó, segir Nilla þegar þau ganga inn til að setj­ast að borð­um. Fram­hald af ser­í­un­um, Georg og María spila núna stóra rullu. Gætum við ekki farið á morg­un, elskan? Gætum tekið ung­linga­skinnin með, höfum ekki séð þau svo lengi. Hefðir gott af því, væni, að taka smá stund­ar­hlé. Þú varst sífellt að dotta undir spjall­borð­inu áðan.

Höf­undur hefur áhuga á auð­fræði.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar