Þórólfur Matthíasson skrifaði um íslenska smjörið og Mjólkursamsöluna en gætti ekki að því að grunnforsendur sínar væru réttar, nánar tiltekið lög landsins. Mjólkursamsalan vinnur eftir íslenskum lögum og getur því ekki ákveðið að lækka verð á smjöri ekki frekar en Þórólfur getur ráðið starfsmann og ákveðið að borga undir lágmarkslaunum á Íslandi.
Mjólkursamsölunni er skylt samkvæmt ákvörðun og samþykktum eigenda sinna, Auðhumlu samvinnufélagi bænda taka á móti allri mjólk sem bændur framleiða, innan og utan greiðslumarks. Árlega er greiðslumark(framleiðslukvóti) ákvarðað af ríkinu samkvæmt búvörulögum til þess að fullnægja innanlandsneyslu. Greiðslumark er nánar skilgreint í búvörulögum og hægt að kynna sér með auðveldum hætti.
Samkvæmt þeim lögum er Mjólkursamsölunni skylt að flytja út mjólkurafurðir sem eru framleiddar úr mjólk utan greiðslumarks. Mjólk utan greiðslumarks er keypt á töluvert lægra verði enda ekki tekjutryggð af samningum ríkis og bænda.
Útflutningur á smjöri síðustu mánuði er úr mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks og ræðst verð á þeim af heimsmarkaðsverði í heildsölu. Ísland hefur nú um 426 tonna tollkvóta fyrir smjör inn til ESB. Það er því rangt hjá Þórólfi að útflutningur 300 tonna leiði það af sér að útflutningurinn verði tollaður.
Greiðslumarkið hefur í raun verið ákvarðað skynsamlega af íslenska ríkinu sl. ár. Það fylgir innanlandsneyslu en fylgir ekki spá alþjóðastofnana eins og Þórólfur Matthíasson vildi meina að ætti að skoða. Sannleikurinn er sá að söluaukning í magni á mjólk er 20% milli áranna 2013-2018 og aukning í neyslu á smjöri 43% á sama tíma www.sam.is sem skýrist meðal annars af fjölgun Íslendinga og aukningu ferðamanna. Aðstæður sem ekki er hægt að meta út frá spá OECD/FAO á heiminum almennt.
Það er nú þegar flutt inn töluvert af fitu sem landsmenn hafa val um. Nægir að nefna ótal smjörlíkstegundir í verslunum sem dæmi um samkeppni en samt eykst sala á íslensku smjöri. Íslendingar vilja íslenska framleiðslu. Það er líka til tollkvóti fyrir erlent smjör til Íslands án tolla, en þessi heimild hefur lítið verið notuð.
Að lokum er verðlag á Íslandi almennt annað en annars staðar og lífskjör eru með því besta í heiminum. EFTA ríkin Sviss, Liechtenstein, Noregur og Ísland greiða hæst laun meðal ESB/EFTA ríkjanna. Að greiða bændum og starfsmönnum laun á íslensku verðlagi fyrir vinnu sína er hagur okkar allra.
Höfundur er samskiptastjóri Mjólkursamsölunnar.