Nauðsynlegt er að halda áfram spjalli um mjólkuriðnaðinn til þess að halda hlutum til haga. Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði hélt ákveðnum atriðum fram í grein sinni sem er svarað í sex stuttum punktum.
- Það er staðreynd að Mjólkursamsalan fær ekki greidda neina styrki úr ríkissjóði. Samningar eru í gildi milli bænda og ríkissjóðs. Mjólkursamsalan kaupir mjólk af Auðhumlu, samvinnufélagi bænda og vinnur hana í vörur sem eru seldar í heildsölu.
- Ef prófessorinn hefði lesið 29. grein búvörulaga hefði hann séð að framkvæmdanefnd búvörusamninga getur heimilað sölu innanlands á mjólk umfram greiðslumark, ef gengið hefur á birgðir og skortur er fyrirsjáanlegur. Ekki er skortur á smjöri á Íslandi þar sem framleiðsla úr mjólk innan greiðslumarks annar eftirspurn. Kannski hann hafi verið að hugsa um Evrópu árið 2017? Þar hækkaði verðlag á smjöri í Evrópu en á Íslandi hélst verð stöðugt, neytendur á Íslandi fundu ekki fyrir þessum hækkunum.
- Smjör er það lágt verðlagt á Íslandi að heildsöluverð á smjöri frá Mjólkursamsölunni er lægra en kostnaðurinn við að kaupa hráefnið (mjólkina) sem þarf í smjörið. Einfalt er að googla smjörgerð til að sjá að til að búa til 1 kg af smjöri þarf fitu úr 22-27 lítrum af mjólk (eftir fituinnihaldi mjólkur). Lágmarksverð til bænda (fyrir greiðslumark/kvóta) er 90,48 kr per lítra. Innan greiðslumarks er miðað við að helmingurinn af verðinu sé fyrir fituhluta mjólkurinnar. Verð mjólkurhráefnis er því á milli 995 - 1222 kr. til þess að búa til 1 kg af smjöri. Verð á 1 kg af smjöri í heildsölu frá Mjólkursamsölunni sem ákvarðað er af verðlagsnefnd er 834 kr.
Auglýsing
- Ef tekin væri sú ólíklega ákvörðun að selja ætti margumrætt smjör úr „umframmjólk“ á innanlandsmarkaði þyrfti að byrja á því að greiða bóndanum mismuninn á því verði sem hann hefur fengið greitt fyrir „umframmjólk“ og lögbundnu lágmarksverði fyrir mjólk sem fer á innanlandsmarkað (mismunurinn er 60,48 kr./líter. Eða: 90,48 kr. – 30 kr.) Bara þessi viðbótargreiðsla fyrir mjólkurhráefnið væri ríflega 400 milljónir króna fyrir 300 tonn af smjöri, eða meira en 1300 kr. per kg af smjöri.
- Það blasir við að Mjólkursamsalan hefur ekki fjárhagslegar forsendur til þess að tapa mörg hundruð milljónum á því að setja meira smjör á markað en eftirspurn er eftir. Sjá má af útreikningnum að framan að tillaga prófessorsins um að lækka verð á smjöri er til þess fallin að valda enn frekara tapi en þegar er af framleiðslu og sölu smjörs. Prófessorinn getur ekki leyft sér að líta fram hjá þeirri staðreynd, að ef að selja á mjólkurvörur á innanlandsmarkaði, þá verður afurðastöð, hver sem hún er, að virða það lágmarksverð á mjólk til bónda sem stjórnvöld hafa ákveðið.
- Að lokum er rétt að upplýsa að Mjólkursamsalan hefur ítrekað gert grein fyrir kostnaði við smjörvinnslu og annarri starfsemi fyrir Atvinnuvegaráðuneytinu og nefndum sem hafa verið að störfum. Hægt er að lesa í fundargerð verðlagsnefndarinnar að Mjólkursamsalan fór t.d ítarlega yfir starfsemi sína í nóvember árið 2017.
Höfundur er samskiptastjóri Mjólkursamsölunnar.