„Hér á landi tíðkast það ekki að spilling birtist í því að sterkir sérhagsmunaaðilar nái tangarhaldi á stjórnvöldum og hafi áhrif á þau með viðbrögðum sínum við einstökum ákvörðunum.“ Þetta sögðu Samtök atvinnulífsins í umsögn um frumvarp sem fjallaði meðal annars um skráningu hagsmunagæsluaðila þegar það lá frammi í samráðsgátt stjórnvalda.
Þessi framsetning samtakanna er svo fjarstæðukennd í ljósi opinberana Kveiks og Stundarinnar á athæfi Samherja að hún er nánast hlægileg.
Hér hafa sterkir sérhagsmunaaðilar þvert á móti fullt tangarhald á stjórnvöldum.
Það tak hefur margar birtingarmyndir. Sú tærasta er að litlum hópi fólks, örfáar fjölskyldur og fylgihnettir þeirra, hefur tekist að tryggja sér eiginlegt eignarhald á auðlind þjóðar. Það eignarhald hefur hópurinn svo nýtt sér til að veðsetja auðlindir þjóðar í þjóðarbönkum til þess að fá lán. Lán sem fyrst voru notuð til að komast yfir fleiri auðlindir í eigu þjóðar. Svo yfir ótengda starfsemi til að ná fleiri valdaþræðum í samfélaginu. Svo til þess þess að auka enn á ríkidæmið með því að sækja í erlendar auðlindir, nú síðast með því að taka þátt í arðráni á hinni fátæku þjóð Namibíu.
Tangarhaldið herðist
Með auknum umsvifum hefur tangarhaldið styrkst. Valdir stjórnmálamenn, þvert á flokka, eiga allt sitt undir þessum lénsherrum. Heilu byggðarlögin standa og falla með þeim og eru fyrir vikið föst í eilítið skiljanlegu meðvirkniskasti vegna óverjanlegra athafna vinnuveitenda sinna. Fjölmiðlar hafa verið keyptir og reknir í milljarða tapi til að ná skýrum og framsettum markmiðum á borð við það að stöðva að auðlindarákvæði verði sett í stjórnarskrá og koma í veg fyrir breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Skýrasta dæmi þess er ákvæði laga um kvótaþak. Það gerir ráð fyrir að engir tengdir aðilar megi halda á meira en 12 prósent af úthlutuðum fiskveiðikvóta hverju sinni. Samt blasir við að þessi lög eru þverbrotin, og hafa verið það árum saman, án þess að eftirlitsstofnunin Fiskistofa, eða ráðuneyti sjávarútvegsmála, hafi gert nokkuð í því.
Þess í stað var Fiskistofa flutt, án vitrænna röksemdarfærslna, heim til Samherja með þeim afleiðingum að sérfræðiþekkingin, og aðhaldið sem fólst í henni, varð eftir fyrir sunnan. Og fyrrverandi stjórnarformaður Samherja settur í stól sjávarútvegsráðherra.
Tjöldin dregin frá
Þessi mynd hefur teiknast upp fyrir flestum landsmönnum síðustu daga. Tjöldin hafa enn og aftur verið dregin frá. Það blasir við öllum sem kjósa að horfa beint á kjarna málsins að hér er um stöðu sem er afleiðing af kerfislægri spillingu sem hefur fengið að festa fastari rætur árum saman.
Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki, orðaði stöðuna vel í pistli sem hann birti fyrr í vikunni. Þar sagði hann: „Öllu réttsýnu fólki er misboðið og engum nema þeim sem eru blindaðir af eiginhagmunum eða pólitískri hugmyndafræði kemur í hug að verja þetta framferði eða tala af vandlætingu um „fjölmiðlastorm“. Greining Kveiks er sennilega eitt besta dæmið um hvað við kunnum að hafa lært af fjármálahruninu. Árvekni fjölmiðla er allt önnur en fyrir hrun og þótt það sé sárt að verða vitni að afhjúpun alvarlegra hneykslismála þá er það fagnaðarefni að öflugir fjölmiðlamenn skuli fylgja málum eftir og upplýsa þau af festu og einurð. Nú reynir á aðrar meginstoðir samfélagsins að bregðast við þessu máli af myndugleik.“
Nýr sáttmáli
Sú meginstoð sem þarf helst að bregðast við eru stjórnmálin. Þeir sem starfa innan þeirra þurfa að taka ákvörðun. Hvort ætla þeir að vera hluti af einhverskonar lausn eða vera áfram tól til að viðhalda vandamálinu.
Það er komið að því að taka afstöðu. Að velja hvað þið viljið verða þegar þið eru orðin stór. Til að laga þá óværu sem er til staðar í íslensku samfélagi, þar sem strokuspilling valdakjarna ræður öllu aðgengi að tækifærum, upplýsingum og fjármagni, þarf að ráðast í stórtækar kerfisbreytingar. Hér þarf að taka völdin af þeim sem tóku þau af almenningi. Tryggja að stærsti hluti arðsemi af nýtingu þjóðarauðlinda fari til samfélagslegrar uppbyggingar. Að traust verði endurreist með því að hagsmunir heildar verði alltaf teknir fram yfir sérhagsmuni. Að ákvarðanir hafi afleiðingar og að þeir sem kjósa að brjóta reglurnar verði látnir sæta ábyrgð.
Að uppræta það tveggja þjóða kerfi sem er við lýði í samfélaginu þar sem meginþorri Íslendinga eru launamenn í krónuhagkerfi á meðan að sérvalin yfirstétt fjármagnseigenda geymir stóra sjóði, sem urðu að uppistöðu til vegna nýtingu á þjóðarauðlindum, einokunar á fákeppnismarkaði eða með því að mergsjúga peninga út úr íslensku bankakerfi sem var svo látið falla á restina af þjóðinni, í aflandsfélögum og erlendum myntum vegna þess að hún vill ekki borga skatta í samneysluna.
Það þarf að lofta verulega út. Það þarf að myndast samstaða um nýjan samfélagssáttmála. Það þarf að berjast á móti því að þeir sem eru núna að bíða eftir tækifærinu til að draga aftur fyrir komist enn og aftur upp með það.
Alvöru gagn eða kerfistæring
Þeir sem eru í stjórnmálum þurfa að ákveða sig, núna, hvort þeir ætli að gera gagn eða halda bara áfram að vera til tilgangsins vegna. Stjórnarandstöðuflokkarnir þurfa að ákveða sig hvort þeir ætli að halda áfram að vera viðbragðsflokkar, sem elta umræðuna hverju sinni en bjóða upp á lítið annað, og fá fyrir vikið allir á sig popúlískan blæ. Ætla þeir að búa til almennilegan grundvöll til að bjóða upp á breytingar? Ætla þeir að vinna heimavinnuna, finna réttu áherslurnar og réttu leiðirnar til að setja á oddinn þannig að þeir nái til sín fylgi til að fá slíkt umboð, í stað þess að sitja pikkfastir í meðalmennskufylgi sem stuðlar að pólitískri kreppu og í órafjarlægð frá völdum?
Eða ætla þeir, líkt og Vinstri græn hafa gert, að verða næsti valkosturinn sem býðst til þess að kerfistærast. Þar geta þeir séð flokk sem var stofnaður utan um umhverfismál, andstöðu gegn þátttöku í hernaðarbandalögum, kvenréttindi og -frelsi og aukin jöfnuð. Flokk sem á fyrstu 18 árum tilveru sinnar talaði fast gegn kerfislægri spillingu og fyrir umbótum, eða þangað til að hann ákvað að taka þátt í ríkisstjórn með flokkunum tveimur sem bjuggu til kerfin sem við búum við, og hafa þann megin tilgang í pólitík að verja áframhaldandi tilvist þeirra.
Mörkin færð til fyrir stöðugleikann
Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að þessi ummæli féllu hafa ráðamenn Vinstri grænna, með forsætisráðherrann í fararbroddi, leitt ríkisstjórn í landi þar sem losun á gróðurhúsalofttegundum er að aukast, sjókvíaeldi er nýjasta atvinnulífsbragðið sem fær umhverfisafslátt og verið er að byggja nýjar virkjanir með tilheyrandi fórnum á ósnortinni náttúru. Ríkisstjórn sem er að heimila aukin hernaðarumsvif hérlendis. Ríkisstjórn og þing sem mistókst hrapalega með einhverjum almennilegum hætti að nýta Metoo-byltinguna til að innleiða merkjanlegar breytingar og tókst síðan að láta einu afleiðingar Klausturmálsins, þar sem nokkrir orðljótir og drukknir þingmenn úthúðuðu konum og ýmsum öðrum minnihlutahópum, vera þá að Miðflokkurinn er nú með meira fylgi en nokkru sinni fyrr.
Ríkisstjórn sem hefur staðið fyrir lagabreytingum sem hafa leitt af sér lækkun þegar allt og lágra veiðigjalda og stefnir nú á að afnema stimpilgjald af fiskiskipum vegna þess að útgerðin bað um það. Ríkisstjórn sem stendur að samfélagi þar sem helmingur alls uppgefins auðs fer til ríkustu Íslendinganna og þar sem ríkasta 0,1 prósent landsmanna hefur eignast 59 milljarða nýja milljarða króna á tveimur árum, fyrir utan peninganna sem sá hópur felur í aflandsfélögum.
Ríkisstjórn sem í stað þess að endurheimta traust almennings ákvað að auka, í samstarfi við flesta hinna flokkanna á þingi, framlög til stjórnmálaflokka um 127 prósent svo þeir hægt sé að stofnanavæða þá fullkomlega.
Þetta er réttlæt með nauðsyn þess að stuðla að pólitískum stöðugleika, sem er ekkert annað en kyrrstaða, og skreytt með sjálfshóli um árangur í breytingum sem eru allar þess eðlis að þær eru fyrst og síðast friðþæging fyrir því að ráðast ekki að rót vandans. Varalitur á svínið.
Til að viðhalda stöðugleikanum hafa Vinstri græn síðan eytt þorra kjörtímabilsins að verja verk samstarfsflokka sinna. Í að færa til mörkin. Í það sem, Drífa Snædal kallaði að „éta skít“. Afleiðingin er sú að flokkurinn er nú haldinn einhverskonar persónuleikaröskun. Hann vinnur gegn nánast öllu sem hann segist standa fyrir. Og ver það sem honum í orði hugnast ekki. Aftur og aftur og aftur. Skiptir engu hvort þar sé um að ræða ólögmætt athæfi ráðherra við skipun dómara, breytingar á veiðigjöldum sem leiða til lækkunar þeirra eða hæfi ráðherra til að sitja áfram í ráðuneyti þar sem nær allar ákvarðanir hans hafa beinar fjárhagslegar afleiðingar fyrir einn nánasta vin hans og fyrrverandi vinnuveitanda. Manns sem nú er til alþjóðlegrar rannsóknar vegna mútugreiðslna, skattsvika og peningaþvættis.
Eina sem heldur Vinstri grænum á einhvers konar floti er hinn oft á tíðum hæfileikaríki og persónutöfrandi forsætisráðherra. En dýrðarljómi hennar er eðlilega farinn að dofna. Og við flokknum virðist ekkert blasa, að óbreyttu, en áframhaldandi hnignun. Áframhaldandi tilfærsla á mörkum. Jafnvel endalok.
Hvað ætlið þið að gera?
Það er dapurlegt að fylgjast með taktinum í íslensku samfélagi í dag. Í kjölfar síðustu stóru spillingamála sem upp hafa komið hefur alltaf von um breytingar fylgt reiðinni og áfallinu sem fylgt hefur opinberuninni. Í þetta skiptið virðist hins vegar viðmót flestra vera að þau búist ekki við því að Samherjamálið hafi einhverjar afleiðingar. Fólk er bara að gefast upp. Sætta sig við þetta.
Það virðist vera sem vantrú sé til staðar á getu íslenskra rannsóknaryfirvalda til að takast á við ríkustu og valdamestu menn landsins. Það virðist, með réttu, vera algjör vantrú á að stjórnmálin ráði við það verkefni að taka á málinu með festu.
Og það virðist, líka með réttu, vantrú vera til staðar að þetta Samherjamál, frekar en bankahrunið, Lekamálið, Panama-skjölin, Landsréttarmálið, Uppreist æru-málið eða Klausturmálið, og mörg önnur minni en ekki síður alvarleg mál, sem eiga það öll sameiginlegt ofboðið hafa stórum hluta þjóðarinnar, muni leiða til þess að hér verði grundvallarbreyting á leikreglunum. Að á Íslandi verði ráðist í kerfisbreytingar til að leiða af sér breytta menningu sem líður ekki að hér geti lítill hópur valdspilltra og forríkra aðila, með tilveru á mörkum mörkum viðskipta og stjórnmála, hagað sér eins og þeir setji sínar eigin reglur sem gildi ofar þeim almennu.
Boltinn er hjá stjórnmálamönnum. Þvert á flokka. Það er komið að ögurstundu. Hvers konar samfélag viljum við vera? Fyrir hvað ætlið þið að standa? Hvað ætlið þið að gera?
Eða eigum við bara að kyngja þessu líka, í nafni stöðugleikans?