Á BUGL, Barna- og unglingageðdeild, dvelst nú sautján ára drengur í bráðainnlögn, svo viðkvæmur, og ef að líkum lætur, í djúpu áfalli, að læknar segja útskrift ekki fyrirsjáanlega í bráð. Þessi drengur er einn af öllum þeim óteljandi manneskjum sem hrekjast um heiminn í leit að alþjóðlegri vernd. Hann hefur dvalið á Íslandi í u.þ.b. ár, ásamt fjölskyldu sinni, en á Íslandi treysti hann sér til að kom út sem trans, að koma út sem sitt rétta sjálf. Að vera trans unglingur er í sjálfu sér sérstaklega viðkvæm staða, þó að ekki bætist við að vera án heimilis, öryggis og framtíðarsýnar.
Það eina sem fjölskylda hans veit nú um framtíð sína er að á meðan drengurinn er í meðferð á BUGL verður þeim ekki vísað úr landi. Ef þeim verður vísað úr landi verða þau send til Portúgal, og ef móttökuskilyrði þar verða ekki góð, þá er hætta á að þeim verið vísað aftur til Íran. Annað er óvissa.
Samtökin 78 benda á að Maní hafi ekki hlotið rétta málsmeðferð. Sem einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu þykir varhugavert að senda hann úr landi sem nú þegar býður honum upp á stuðning; tengslanet, umhverfi og tækifæri til að vera hann sjálfur. Viðsjárvert væri að bjóða Maní upp á þær ótryggu aðstæður sem bjóðast transfólki í heimalandi hans, í landi sem þvingar ungt fólk í hans stöðu í aðgerðir gegn eigin vilja. Samkvæmt erlendum miðlum, hvort heldur BBC eða Sun, geta dauðarefsingar blasað við þeim sem hafna þvingaðri kynleiðréttingaaðgerð – af því að yfirvöld hafna öðru en hefðbundnum hugmyndum um kynhneigð.
En þar er ekki öll sagan sögð. Fjölskyldan er með gögn sem sýna að varðsveitir íranskra stjórnvalda, Sepah, leita þeirra í Portúgal, þangað sem á að senda þau. Hvað eru varðsveitir íranskra stjórnvalda, hvaða þýðingu hefur það ef slíkar sveitir leita fólks?
Á fréttavef BBC má lesa eftirfarandi útlistingu sem birtist 20. janúar síðastliðinn: Varðsveitir íranskra stjórnvalda, the Army of Guardians of the Islamic Revolution, voru stofnaðar í kjölfar byltingarinnar 1979 til að standa vörð um íslömsk gildi í kerfinu og verja þau fyrir alþjóðlegum áhrifum. Talið er að sveitirnar hafi yfir 190.000 starfandi starfsmenn, og búi yfir landgönguliði, sjó- og flugher, jafnframt því að hafa umsjón með vopnabúri Írans. Þau gegna einnig lykilhlutverki í því að bæla niður hvers konar andstöðu við ríkjandi öfl.
Vart þarf að taka það fram hversu mikið álag það hlýtur að vera að hafa annað eins afl á eftir sér. Við hér á Íslandi, í okkar verndaða umhverfi, getum seint, ef nokkur tímann, sett okkur í þau spor.
Spor Maní og fjölskyldu hans.
Í yfirlýsingu sem Biskup Íslands og vígslubiskuparnir á Hólum og í Skálholti sendu frá sér til að biðja fjölskyldunni griða kom fram að fjölskyldan sé kristinnar trúar. Það eitt getur stefnt þeim í hættu, en bara með smá gúggli má sjá, samkvæmt Wikipedíu, að það að aðhyllast kristni í Íran getur leitt til dauðarefsingar. Þrátt fyrir að lög kveði beinlínis ekki á um dauðarefsingu, þá geta dómarar beitt dauðarefsingu ef þeim sýnist svo. Í öllu falli er hætta á sekt eða fangelsisdómi, að ógleymdri samfélagslegri fordæmingu.
Við skilyrði sem þessi kemur ekki á óvart að óhefðbundnar lækningar mæti fordæmingu. Samkvæmt foreldrum Maní, eins og kom fram í viðtali við þau í Stundinni, eru þau ofsótt í heimalandinu þar sem faðir Maní er reikimeistari og heilari, en það er ólöglegt þar. Þar má lesa að hann veiti fólki heilandi meðferð og kenni því aðferðir til að slaka á, en að yfirvöld í Íran túlki það þannig að hann og aðrir, eins og hann, séu á móti íslam. Lærifaðir hans hefur verið í fangelsi í sex ár, dauðadómur vomir yfir honum og allir nemendur hans eru í hættu.
Eins og staðan er núna bendir ýmislegt til að Maní og fjölskyldu hans verði vísað úr landi þegar hann útskrifast af Barna- og unglingageðdeild. Nema þá að málið verði endurupptekið og fallist á að þau fái efnislega meðferð á Íslandi. Yfirvöld fóru fram á að fólkið yfirgæfi landið áður en heildstæð skoðun á málinu hafði farið fram, samkvæmt lögmanni þeirra.
Þau lögðu fram beiðni til kærunefndar útlendingamála innan frests, og báðu annars vegar um að fá frestun réttaráhrifa, en hins vegar að málið þeirra yrði endurskoðað. Stjórnvöld afgreiddu fyrri hluta beiðninnar um frestun réttaráhrifa og höfnuðu því, en síðari hluti um endurupptekningu málsins er ennþá til meðferðar. Þarna þykir gæta ósamræmis við langvarandi stjórnsýsluframkvæmd. Heildstæð skoðun á málinu átti sér ekki stað í samræmi við framkomna beiðni. Nú hefur fjölskyldan fengið viðbótarfrest til 24. febrúar til að koma gögnum að og verður þeim ekki vísað úr landi á meðan þessi frestur varir. Lögum samkvæmt eigi þau rétt á að dvelja áfram þangað til lokaniðurstaða liggur fyrir í málinu. Við blasa himinhrópandi mistök í þessu máli: Einstaklingur eins og Maní hefði réttilega átt að vera skilgreindur sem einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu og það fólk fær auka vernd, skv. lögum um útlendinga; vernd gegn endursendingu til annars ríkis. En hann var ekki skilgreindur sem slíkur. Bæði af því það var aldrei talað við hann og ekki heldur gerð nægileg skoðun á heilsufarsaðstæðum hans, en hérlendum stjórnvöldum ber skylda til að upplýsa börn um rétt sinn til að tjá sig, óháð afstöðu foreldra. Málið var því ekki nægilega upplýst þegar ákvörðun var tekin. Samkvæmt tveimur málum sem komust fyrir dómstóla héraðsdóms í fyrra, þá hafa kærunefnd útlendingamála og Útlendingastofnun talist brotlegar gegn rannsóknarskyldu í meðferð á umsóknum um alþjóðlega vernd. Eins og áður sagði kom Maní út sem trans á Íslandi og, samkvæmt flóttamannarétti, breyttust aðstæður hans því eftir að hann yfirgaf heimalandið. Hann opnaði sig um það við fyrsta tækifæri sem hann fékk til að tjá sig; hefði verið rætt fyrr við hann, þá hefði hann án efa upplýst um það. Það var fyrst þegar hann fékk aðgengi að sálfræðingi sem hann sagði að hann væri hann.
Þetta gerðist í haust og stjórnvöld voru upplýst um það um leið. Jafnframt var óskað eftir því að fjölskyldan fengi framhaldsviðtal hjá kærunefnd útlendingamála og gæfist kostur á að tjá sig. Því var hafnað. Nefndin taldi ekki ástæðu til að gefa kærendum kost á að koma fyrir nefndina, samanber sjöundu málsgrein áttundu greinar laga um útlendinga.
Mótsagna gætir vissulega í málinu, en íslensk stjórnvöld hafa staðfest í samningi sínum að samkvæmt rannsóknarvinnu, sem gerð var í Portúgal, sé hætta á að erfitt verði fyrir fjölskylduna að fá aðgengi að heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna tungumálaerfiðleika. Á sama tíma halda íslensk stjórnvöld því fram að fjölskyldan hafi aðgengi að heilbrigðisþjónustu í Portúgal.
Ofangreindar staðreyndir æpa á okkur að mikilvæg atriði í þessu alvarlega máli hafi skolast til. Þegar mannslíf og framtíð heillar fjölskyldu er í húfi verðum við að gera þá lágmarkskröfu til stjórnvalda að vandað sé til verka. Ef ekki er hægt að treysta á að mannúðarsjónarmið séu höfð að leiðarleiðarljósi, verður í hið minnsta að geta reitt sig á að kerfið bregðist ekki manneskjunum. Er réttlætanlegt að taka þá áhættu að hafa mannslíf á samviskunni vegna brotalama í kerfinu?
Auður Jónsdóttir rithöfundur og Ísold Uggadóttir kvikmyndaleikstjóri.