Á bolludaginn mætti Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í viðtal í þáttinn Sprengisand. Þar spurði Kristján Kristjánsson, þáttarstjórnandi, Hörð út í ýmiskonar bögg sem Landsvirkjun lenti í þessa dagana, aðallega af hendi Samtaka iðnaðarins og Rio Tinto á Íslandi. Hörður var vel undirbúinn og sýndi Samtökum iðnaðarins að hann ætlaði ekki að láta þau keyra yfir sig, allavega ekki án þess að sprengja dekk.
Eitt af því sem Hörður ræddi voru svokallaðar upprunaábyrgðir [1]. Það má margt segja um kosti og galla upprunapappíra sem Landsvirkjun selur til erlendra fyrirtækja og ætla ég ekki að rekja það að fullu hér. Í grunninn er þó mikið til í málflutningi Harðar: Ef Rio Tinto ætlar að skreyta heimasíðuna sína með grænum barmmerkjum og segja öllum í Davos að þeir og Gréta Thunberg sé bestu mátar, þá ber þeim að borga fullt grænt verð fyrir grænu orkuna sem þeir nota.
Það er þó ekki ástæðan fyrir því að ég ákvað skrifa um þetta viðtal, heldur var það lýsing Harðar á framkomu Rio Tinto í núverandi samningaviðræðum við Landsvirkjun sem vakti áhuga minn. Hörður sagði við Kristján að Rio Tinto hafi í hótunum við samfélagið og: bætti við orðrétt að „ef [Rio Tinto] fá ekki það sem þau vilja þá munu þeir skoða að loka. Þetta er í eðli sínu samningatækni. Menn geta velt því fyrir sér hversu siðleg hún er og hvort hún sé boðleg á Íslandi en þetta er sú leið sem fyrirtækið velur að fara. Þetta er fordæmalaust.“
Rio Tinto, Landsvirkjun og Ísland
Þegar Danir færðu Íslendingum heimastjórn, árið 1874, var Rio Tinto þegar orðið eins árs. Fyrirtækið starfar í 35 löndum og er með 47.500 starfsmenn á launaskrá, þar af 390 á Íslandi. Tekjur Rio Tinto árið 2018 námu rúmlega 40 milljörðum Bandaríkjadala [2]. Það er tala sem fæstir skilja, en er rúmlega ein og hálf íslensk landsframleiðsla (mæld í Bandaríkjadal á gengi þess árs).
Landsvirkjun er mögulega á leið í bardaga við græna vöðvaskrímslið Hulk, með hundasúru að vopni.
Ef hvatinn er til staðar þá tekur Rio Tinto slaginn
Fyrirtæki eru ekki stofnuð til góðgerðar. Þau eru ekki stofnuð til þess að vera samfélagslega ábyrg eða stöðva loftslagsbreytingar. Fyrirtæki eru samkomulag einstaklinga um samstarf, sem stofnuð eru til þess að spara og græða peninga. Það er ekkert að því, allavega svo lengi sem þau gera það innan laganna ramma og svo lengi sem ríkisvaldið setur þeim skorður.
Þetta er hugafar sem Landsvirkjun hefur klárlega tekið upp, sem lýsir sér vel í þeirri staðreynd að þeir eru hættir að gefa stórframleiðendum græn upprunaskírteini og fara nú fram á að ef Rio Tinto langar að monta sig af grænu áli að þeir borgi grænt rafmagnsverð. Sem Landsvirkjun gerir með það í huga að hámarka hagnað hluthafa sinna, Íslendinga.
Það er ekki alveg ljóst hvað Rio Tinto borgar fyrir rafmagn í dag. Ársreikningur Landsvirkjunar frá 2018 sýnir þó að meðalverð fyrir hverja megavattstund, að flutningsgjaldi inniföldu, til iðnaðar (sem er að mestu leiti stóriðja, a la Rio Tinto) var um 28 Bandaríkjadalir (3.600 krónur).
Sama árið keypti Rio Tinto 3.359.000 megavatt stundir af Landsvirkjun. Sem er um 27% af allri seldri orku Landsvirkjunar til stórnotenda. Sem þýðir að um 95 miljónir Bandaríkjadala runnu frá Rio Tinto inn á reikninga Landsvirkjunar.
Auðvitað má vel vera að Rio Tinto hafi á sínum tíma gert elskhugasamning við Landsvirkjun, sem þýðir að þeir hafi greitt aðeins minna, eða mögulega ekki og mögulega hefur Rio Tinto greitt aðeins meira. Þær upplýsingar eru ekki opinberar.
Það er eflaust óhætt að gefa sér að árið 2018 hafi Rio Tinto borgað Landsvirkjun á bilinu 80 – 100 milljón Bandaríkjadali fyrir orkuna. Til samanburðar, þá var hagnaður Landsvirkjunar það árið 184 miljón Bandaríkjadalir (fyrir óinnleysta fjármagnsliði).
Rekstrarkostnaður Rio Tinto það árið nam 27,1 milljörðum Bandaríkjadala. Þ.e.a.s. um 0,4% af rekstrarkostnaði samstæðunnar fer í að borga Landsvirkjun fyrir rafmagn.
Þar sem Rio Tinto kaupir brjálæðislega mikið af rafmagni, þá þýðir það að ef Landsvirkjun fær aðeins einn viðbótar Bandaríkjadal (129 krónur) fyrir hverja Megavatt stund sem Rio Tinto notar, þá þýðir það að tekjur Landsvirkjunar koma til með að aukast um 3,5 miljón Bandaríkjadali [3]. Ef verðið hækkar um 8 Bandaríkjadali, upp í 35,3 Bandaríkjadali fyrir hverja megavattstund, þá þýðir það auka 23,5 miljónir Bandaríkjadali fyrir Landsvirkjun, á ári.
Sem er ekki neitt smotterí.
Flýtum okkur hægt
Það eru hreinar línur að það er mikið í húfi. Hærra verð þýðir bein hækkun á hagnaði Landsvirkjunar. Ef Landsvirkjun tekst að fá, þó ekki nema bara smávegis, hærra verð þá er augljóslega þess virði fyrir þá að taka slaginn. Eða það hefði maður haldið.
Þó er það aðeins flóknara.
Þó íslenska útgerð Rio Tinto séu aukastafir í bókhaldi risans, þá eru upphæðirnar slíkar að Rio Tinto á eftir að gera allt – ég endurtek allt – sem í þeirra valdi stendur til þess að borga sem minnst. Svo lengi sem þeir halda að með botnlausum bankareikningum sé smá séns að þeir geti fengið sínu fram, þá er það þess virði fyrir Rio Tinto að taka slaginn.
Líklega á Rio Tinto á eftir að láta peningum rigna yfir teymi lögfræðinga – lögfræðinga sem láta lögfræðingateymi Mr. Burns úr Simpson líta út eins og Barry, lögfræðing Bluth fjölskyldunnar í Arrested Development.
Þessir lögfræðingar munu svo líklega ráða til sín verkfræðinga, orkuhagfræðinga og aðra sérfræðinga sem eiga eftir að gera allt sem þeir mögulega geta, til þess eins að Rio Tinto komist hjá því að þurfa að borga krónu meira en þeir telja sig komast upp með. Rio Tinto er nefnilega ekki á Íslandi til að eignast vini. Ekki frekar en Össur hf. í Ástralíu. Rio Tinto reka álver á Íslandi til að græða pening.
Sjáum hvað setur
Íslenskt samfélag er stórfenglegt. Allir þekkja alla og eigum við það til að gefa eftir í harðri samningabarráttu, af því að við viljum samlöndum okkar vel. Þetta tel ég að geri Íslandi gott, bæði þar sem þetta ýtir undir traust, sem einfaldar viðskipti og eykur velsæld, en einnig af því að þetta ýtir undir samkennd og samvinnu.
Alþjóðleg stórfyrirtæki hafa þó engan áhuga á að taka þátt í slíkum kærleiksbjarna krúttlegheitum. Þau sinna sínum stjórnendum og hluthöfum [4]. Það er allavega forsenda sem ég gef mér og Landsnet gefur sér eflaust líka. Landsnet á ekki að láta það koma sér í opna skjöldu að Rio Tinto hóti öllu illu. Líklega hefur Rio Tinto ekki þurft að standast í miklu stappi við Landsvirkjun í gegnum tíðina. Þeir hafa eflaust boðist til að kaupa orkuna á lágu verði, sem hefur þó verið nóg til að skila temmilegum gróða til Landsvirkjunar. Þegar öllu er á botninn hvolft hefur samningstaða Landsvirkjunar aldrei verið neitt sérstaklega sterk.
Eftir að Landsvirkjun hristi hundakofann yfir hausamótunum á Rio Tinto byrjuðu þeir að gelta. Það var fyrirsjáanlegt. Rio Tinto veit einnig að Landsvirkjun hefur lítið svigrúm til að ybba gogg. Þeir vita það einnig að þó stjórnendur Landsvirkjunar vilji gjarnan sýna fram á að þeir geti fengið sanngjarnara verð fyrir orkuna okkar, þá væri það mikill skellur fyrir þá ef Rio Tinto stæðu við hótanir sínar.
Hver veit hvar þetta allt endar. Þetta er flókið ferli. En ef Landsvirkjun ætlar í hart, þá ættu þeir að finna sér góða lögfræðinga. Þeir ættu líka að gera sér góða grein fyrir hvötunum Rio Tinto og reyna að skilja vel hversu langt slík fyrirtæki eru tilbúin að ganga, til þess að græða pening. Rio Tinto á eftir að skanna smáa letrið og gera allt sem þeir geta til þess að borga sem minnst.
Slíkur slagur getur tekið ár, ef ekki áratug, að klárast. Hann getur kostað báða aðila tugi, ef ekki hundruð miljóna króna. Rio Tinto er augljóslega líklegri til sigurs, en ómögulegt er að segja hvernig þetta fer.
Það eina sem við vitum er að ef til slagsmála kemur verða þau kostnaðarsöm.
Skýringar
[1] Upprunaábyrgðir eru pappírar sem raforkuframleiðendur geta selt til fyrirtækja. Þetta er flókið og umdeilt kerfi, sem má lesa meira um með því að fara á www.duckduckgo.com (eða Bing eða Google) og setja inn leitarorðin „Guarantee of origin“.
[2] Í greininni notast ég meira og minna við Bandaríkjadal. Annars vegar af því að tölurnar sem um er að ræða eru svo gígantískar, að ef talað er um þær í krónum er erfit að átta sig á þeim og hins vegar af því að persónulega þykir mér ruglandi þegar endalaust er verið að flakka á milli gjaldmiðla, í rituðum texta. Þegar þetta er skrifað kostar einn Bandaríkjadalur um 129 krónur.
[3] Það þarf ekki endilega að vera að Rio Tinto komi til með að kaupa sama magn rafmagns, ef Landsvirkjun hækkar verð. Það fer eflaust fyrst og fremst eftir samningum, en hagfræðin spilar þar líka inn í.
[4] Tekið skal fram að þó svo að fyrirtæki fjárfesti, með það að markmiði að græða, þýðir það alls ekki að Ísland og Íslendingar græði ekki á starfseminni. Álver Rio Tinto hefur skapað mikla velmegun fyrir starfsmenn, byrgja og allskonar Íslendinga í gegnum tíðina. Erlend fjárfesting er almennt jákvæð, jafnvel þó hún komi frá Fosters sötrandi kapítalistum með pípuhatta, vindla og ástralskan hreim.