Umræða um íslenskt mál, stöðu þess og framtíð er alltaf í gangi og alltaf tímabær. Iðulega litast sú umræða samt af órökstuddum fullyrðingum og sleggjudómum í stað þess að byggjast á þekkingu, hófsemi og umburðarlyndi. Umræða af því tagi er ekki í þágu íslenskunnar.
Í fyrra datt mér í hug að reyna að leggja mitt af mörkum til uppbyggilegrar og málefnalegrar umræðu um íslenskuna og tók saman heilræði eða boðorð um málrækt sem á endanum urðu 20 talsins. Þessi heilræði, sem hefjast öll á „Til að efla íslensku og tryggja framtíð hennar er mikilvægt að …“, setti ég á heimasíðuna mína í haust og dreifði á Facebook og víðar.
Við nánari íhugun fannst mér ástæða til að fylgja þessum heilræðum eftir, og skrifaði 400-500 orða pistil út frá hverju þeirra – útfærslu, útskýringu eða útleggingu. Á næstu vikum mun Kjarninn birta þessa pistla. Ég legg áherslu á að í þeim birtast skoðanir mínar sem ég einn ber ábyrgð á – þetta eru ekki fræðigreinar. Ég lagði kapp á að málflutningur minn væri heiðarlegur, hófsamur og rökfastur, og hvergi er vísvitandi farið rangt með, en vissulega hefði ég stundum þurft að færa sterkari rök fyrir máli mínu og tilgreina fleiri og traustari heimildir ef um fræðitexta væri að ræða.
Í pistlunum er að finna fjölmarga hlekki á efni á netinu. Stundum er þar að finna heimildir fyrir beinum eða óbeinum tilvitnunum eða tilteknum fullyrðingum, en oftast eru þessir hlekkir þó ekki beinar heimildavísanir heldur benda á efni þar sem fjallað er nánar eða á annan hátt um það sem ég er að skrifa um. Ég notaði nær eingöngu heimildir sem eru aðgengilegar á netinu vegna þess að ég vildi að lesendur gætu sannreynt staðhæfingar mínar þegar í stað án þess að þurfa að standa upp frá tölvunni eða leggja frá sér símann.
Samkvæmt þingsályktun frá því í vor um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi á að endurskoða íslenska málstefnu á þessu ári. Ef ég ætti að semja íslenska málstefnu yrði hún í anda þessara pistla.
---
1. Til að efla íslensku og tryggja framtíð hennar er mikilvægt að hafa í huga að í hverju tungumáli felast menningarverðmæti og við berum ábyrgð á framtíð íslenskunnar.
Talið er að um sjö þúsund tungumál séu nú töluð í heiminum. Rúm 40% þeirra, tæp þrjú þúsund, eru talin í útrýmingarhættu og tvö þúsund af þeim eru töluð af færri en þúsund manns. UNESCO áætlar að meira en helmingur þeirra tungumála sem nú eru töluð muni deyja út fyrir lok þessarar aldar og hefur sett fram áætlun um tungumál í hættu (Endangered Language Programme) til að stuðla að varðveislu sem flestra mála vegna þess að í öllum þessum tungumálum felast ómetanleg menningarverðmæti.
Sérhvert tungumál er einstakt – orðaforði þess, setningagerð og hljóðkerfi er frábrugðið öllum öðrum tungumálum, merkingarblæbrigðin sem það getur tjáð geyma reynslu kynslóðanna og eru önnur en í öðrum málum. Tungumál sem deyr er að eilífu glatað – þótt við höfum um það miklar ritheimildir og upptökur, sem sjaldnast er (og slík gögn eru forgengileg eins og sannaðist átakanlega í bruna þjóðminjasafns Brasilíu haustið 2018), verður það aldrei endurvakið í sömu mynd því að tungumál lærist ekki til hlítar nema berast frá manni til manns – frá foreldrum til barna.
Samkvæmt mælikvarða UNESCO um lífvænleik tungumála er íslenska í fimmta og efsta styrkleikaflokki og er örugg (safe). Kvarði UNESCO byggist á sex mælistikum og hingað til hefur verið talið ótvírætt að íslenska sé í efsta þrepi á þeim öllum.
En ef til vill er ekki lengur alveg ljóst að íslenska nái efsta þrepi samkvæmt öllum viðmiðum. Utanaðkomandi áreiti á tungumálið hefur stóraukist á síðasta áratug, bæði af völdum þjóðfélagsbreytinga og tæknibreytinga. Þeim íbúum landsins sem ekki tala íslensku fer t.d. ört fjölgandi, og enskunotkun fer vaxandi á ýmsum sviðum, t.d. í ferðaþjónustu, háskólakennslu, viðskiptalífinu og víðar. Jafnframt hafa komið fram vangaveltur um hugsanlega truflun á máltöku vegna ónógrar íslensku í málumhverfinu. Þá valda þættir eins og snjalltækjanotkun, áhorf á efni á erlendum efnisveitum eins og YouTube og Netflix, alþjóðavæðing o.fl. auknum þrýsting á íslenskuna og langtímaáhrif þessara þátta eru óljós.
Eitt er þó alveg ljóst: Það er okkar að sjá til þess að íslenskan lifi. Ef málnotendur hafa ekki áhuga á því að halda í málið og þar með þau menningarverðmæti sem það geymir er það dauðadæmt. Ábyrgðin er okkar.