Það er komin kreppa. Hún verður sú dýpsta frá hruni og allt annars eðlis en það sem við höfum undirbúið okkur fyrir. Þannig er það vanalega. Orsakir kreppu eru sjaldnast þær sömu og síðast og oftast einhverjar sem koma flestum í opna skjöldu.
Allar fyrri áætlanir og spár eru á nokkrum vikum orðnar úr sér gengnar. Fyrir örskömmu síðan stóðum við sem þjóð frammi fyrir því að samdrátturinn vegna gjaldþrots WOW air, loðnubrests og kyrrsetningu 737 Max-véla Icelandair var í raun ekki samdráttur, heldur hafði einungis hægst á hagvextinum. Nýjustu bráðabirgðatölur sýndu að hann hefði verið 1,9 prósent.
Samt var tilefni til að bregðast við og hið opinbera hafði boðað miklar innviðafjárfestingar, helst eftir að það tækist að selja banka. Nú, á rúmum tveimur vikum, er allt breytt. Það er enginn lengur að tala um að selja banka, enda hlutabréfamarkaðir í frjálsu falli og flestir fjárfestar sem geta að flýja með peninganna sína í gull eða ríkisskuldabréf ýmis konar.
Ástæðan er útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum og áhrif þess á efnahagsmál heimsins.
Framúrskarandi frammistaða fagaðila
Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, sóttvarnarlæknir, landlæknir hafa staðið sig frammúrskarandi vel í sínum viðbrögðum við því að smit greindist í fólki á Íslandi. Heilbrigðiskerfið er sömuleiðis að virka eins og það gerir best og sýnir svart á hvítu hversu mikilvægur grunnur undir samfélagi okkar sterkt velferðarkerfi er.
Sömuleiðis mun það reynast okkur farsælt að hafa hratt og örugglega kveðið niður umræður um að fólk í sóttkví ætti ekki að fá borgað laun. Sú staða er til að mynda talin vera ein helsta ástæða frekari útbreiðslu í Bandaríkjunum þar sem fjöldi fólks í láglaunastörfum í miklum tengslum við aðra, til dæmis á matsölustöðum eða við akstur á fólki, mun margt hvert ekki telja sig geta tekið veikindaleyfi ef það finnur fyrir einkennum af kórónaveirunni.
Sniðgöngum pólitíska tækifærismennsku
Það er sérstaklega mikilvægt við aðstæður sem þessar að sniðganga múgæsingartilburði tækifærissinnaðra stjórnmálamanna sem eru að reyna að nýta sér ástandið til að slá pólitískar keilur, meðal annars með því að kalla eftir að landinu verði lokað án nokkurra skynsamlegra raka eða að neyðarlög verði sett til að „verja íslenskan landbúnað og innlenda framleiðslu matvæla.“
Öllum verður samt sem áður að vera ljóst að heilsa og velferð landsmanna nýtur forgangs yfir efnahagslegar afleiðingar.
Fyrir liggur að þær afleiðingar verða miklar, sérstaklega á fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustu. Sviðsmyndir sem teiknaðar hafa verið upp af Alþjóðasamtökum flugfélaga (IATA) gera ráð fyrir því að fjöldi þeirra ferðamanna sem heimsækja Íslands gæti farið niður í 1,6-1,8 milljónir í ár. Svartari sviðsmyndin myndi þýða að ferðamenn hefðu ekki verið færri hérlendis frá árinu 2015.
Til að setja þessar tölur í samhengi þá heimsóttu 2,3 milljónir ferðamanna Ísland heim á árinu 2018. Því gæti sú staða verið uppi að á tveggja ára tímabili muni ferðamönnum fækka um nánast tvær íslenskar þjóðir, en í byrjun árs bjuggu hérlendis 364 þúsund manns.
Það mun bíta marga fast, sérstaklega þá sem selja gistingu í ódýrari kantinum, matsölustaði og þjónustufyrirtæki sem hafa skuldsett sig út frá óraunhæfum væntingum um áframhaldandi vöxt í fjölda ferðamanna um ókomin ár. Mörg fyrirtæki innan þessa mengis höktu í gegnum síðasta ár með þá einu von fyrir augum að árið 2020 myndi bjarga málunum. Nú er fyrirliggjandi að sú von er úti. Þau munu fara á hliðina.
Krónunni leyft að veikjast
Í uppgangi síðustu ára hefur íslenska krónan orðið ansi sterk. Því hefur fylgt aukinn kaupmáttur fyrir launafólk í landinu sem hefur getað keypt sér ódýrari vörur og þjónustu og upplifað að krónurnar þeirra hafa verið meira virði í útlöndum.
Frá því að höft voru afnumin að mestu snemma árs 2017 hefur Seðlabanki Íslands notað gjaldeyrisvaraforða sinn, sem var orðinn 822 milljarðar króna í lok síðasta árs, til að kaupa eða selja gjaldeyri þegar mikið flökt var á krónunni. Það var gert til að viðhalda stöðugleika. Á síðasta ári lækkaði gengi krónunnar um 3,1 prósent, aðallega vegna þess að Seðlabankinn greip alls tólf sinnum inn í gjaldeyrismarkaðinn til að stilla af kúrs hennar.
Nú er hún hins vegar að veikjast, og veikjast hratt. Alls hefur hún gengi hennar lækkað um tæp sjö prósent frá áramótum og er um 14 prósent veikari en hún var að jafnaði á árinu 2018. Nokkrar ástæður geta verið fyrir þessu. Nokkuð ljóst er að einhverjir fjármagnseigendur, meðal annars erlendis skammtímasjóðir, hafa verið að selja sig niður hérlendis og flytja fé út úr íslenska hagkerfinu. Auk þess hafa útflutningstekjur vegna ferðaþjónustu dregist saman frá því sem áætlað var.
Viðbúið er að krónunni verði „leyft“ að veikjast meira til að fjölga krónunum sem útflutningsgreinarnar fá þegar þær skipta evrum og dölum. Þetta er hinn venjubundni sveigjanleiki krónunnar sem margir vonuðust til að heyrði sögunni til.
Afleiðingin verður sú að viðskiptajöfnuður verður hagfelldari, aðstæður sumra fyrirtækja til að halda fólki í vinnu betri en kaupmáttur almennings minnkar samhliða. Aðlögunin er tekin út í gegnum vasann á launafólki.
Veikar aðgerðir
Í gær kynnti ríkisstjórnin áætlun sína um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum af útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19. Þær eru sjö talsins. Almennt eru aðgerðirnar frekar veikar.
Í jafn einsleitu efnahagskerfi og okkar er líka augljóst að áhrifin verða ekki bara á ferðaþjónustu, heldur allt atvinnulífið. Það er skammsýnt að einblína á sértækar aðgerðir fyrir eina atvinnugrein.
Færa á 30 milljarða króna sem Íbúðalánasjóður á í Seðlabankanum inn á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm þeirra til að lána viðskiptavinum sínum sem lenda í erfiðleikum. Þetta er ekki ný aðgerð enda var greint frá því í nóvember í fyrra að fækka ætti þeim sem gætu geymt peninga á innlánsreikningum í Seðlabankanum fyrir 1. apríl 2020. Eftir þá dagsetningu, sem er eftir tæpar þrjár vikur, má Íbúðalánasjóður ekki geyma peninga í Seðlabankanum hvort eð er. Þegar hafa verið færðar umtalsverðar innstæður hans inn í bankanna, en Íbúðalánasjóður geymdi um 80 milljarða króna í Seðlabankanum um mitt á í fyrra.
Grípa á til ráðstafana sem örvað geta einkaneyslu og eftirspurn, til dæmis með skatta- eða stuðningskerfum, en það er hvorki útfært né metið í krónum í tillögum ríkisstjórnarinnar. Þá á að setja aukinn kraft „í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu,“ en það stóð hvort eð er til og er heldur ekki útfært sérstaklega né metið í krónum.
Til viðbótar kalla helstu talsmenn samtaka atvinnulífsins og banka eftir því að eiginfjáraukar sem lagðir eru á banka verði afnumdir, að bankaskattur verði látin heyra sögunni til, að ríkið kaupi sértryggð skuldabréf af fasteignafélögum og taki hluta af áhættunni sem fylgir því að lána meira.
Í morgun lækkaði svo Seðlabanki Íslands vexti sína niður í 2,25 prósent. Þeir hafa nú helmingast á tíu mánuðum og hafa aldrei í sögunni verið lægri. Samhliða ákvað peningastefnunefnd hans að lækka meðaltalsbindiskyldu innlánsstofnana niður í núll prósent.
Tilfærsla og samþjöppun eigna
Við aðstæður eins og þær sem nú eru uppi á Íslandi er líklegt að misskipting eigna og tekna geti aukist. Líkt og Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, skrifaði í Vísbendingu 14. febrúar síðastliðinn þá er vert fyrir þá sem fagna öllum vaxtalækkunum að minna á að vaxtalækkun felur í sér tilfærslu á tekjum frá fjármagnseigendum til skuldara. Og stærstu fjármagnseigendurnir hérlendis eru lífeyrissjóðir landsmanna með eigir upp á rúmlega fimm þúsund milljarða króna.
Gylfi benti líka á aðrar óæskilegar afleiðingar. „Lágt vaxtastig verður til þess að verð hlutabréfa hækkar og dýrar fasteignir hækka meira en þær sem minni eru sem eykur misskiptingu eigna og tekna. Skuldsetning heimila og fyrirtækja eykst sem gerir þau viðkvæm fyrir vaxtahækkunum í framtíðinni – efnahagsreikningar verða brothættir. Fyrirtæki taka lán til þess að fjármagna óarðbærar fjárfestingar og fjárfestar taka meiri áhættu í fjárfestingum sínum. Eftir að hafa haft mjög lága vexti árum saman þá er arðsemi nýfjárfestinga orðin lítil og erfitt að hækka vaxtastigið aftur eins og Evrópulöndin, Bretland og Bandaríkin eru að reyna um þessar mundir.“
Hvað er lífvænlegt fyrirtæki?
Á fundi forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar í gær, þar sem aðgerðir vegna aðstæðna voru kynntar, sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að ríkisstjórnin hefði þegar hafið samstarf við Samtök fjármálafyrirtækja til að tryggja greiðar boðleiðir á milli. „Eins líka til þess að gera kröfu um að samhliða mögulegum slíkum aðgerðum stjórnvalda að þá séu menn skipulagðir í því að veita lífvænlegum fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum lausafjárskorti súrefni.“
Við þessar aðstæður skapast líka freistnivandi til að velja og hafna út frá öðrum forsendum en sanngirni. Fyrir þeim freistnivanda stóðum við líka frammi fyrir eftir bankahrunið og það er óhætt að fullyrða að skiptar skoðanir eru uppi um hversu vel hafi verið haldið á endurútdeilingu gæðanna þá.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á blaðamannafundinum að viðnámsþróttur íslenska kerfisins til að takast á við þær aðstæður sem væru uppi væri mikill. Auk þess byggjum við yfir reynslu úr hruninu til að takast á við svona hluti „eins og við munum öll.“
Það er rétt hjá forsætisráðherra. Geta okkar til að takast á við áfall er ein sú besta í heimi. Skuldastaðan þjóðarbúsins hefur kúvenst á örfáum árum. Svigrúm er til staðar til að auka opinberar fjárfestingar hratt ef með þarf, meðal annars með lántöku sem býðst nú á neikvæðum vöxtum. Óskuldsettur gjaldeyrisvaraforði þjóðarbúsins er risastór, eða á níunda hundrað milljarðar króna. Bankakerfið er nánast einungis íslenskt og var þrifið eftir endurreisn með handafli fyrir rúmum áratug síðan. Sömu sögu er að segja um stóran hluta atvinnulífsins.
Talið til allra
En lykilatriðið er að gæta að heildrænum áhrifum þeirra aðgerða sem gripið verður til. Líkt og Drífa Snædal, forseti ASÍ, benti réttilega á í stöðuuppfærslu á Facebook í gær þá skorti tilfinnanlega uppá skilaboð ríkisstjórnarinnar til launafólks og almennings í landinu á blaðamannafundinum um aðgerðir vegna COVID-19. „Hvergi var minnst á samráð við samtök vinnandi fólks, aðeins samráð við samtök fjármálafyrirtækja. Ekki var minnst á viðbrögð við stórauknu atvinnuleysi sem nú þegar er orðið að veruleika og fyrirsjáanlegum samdrætti næstu vikur og mánuði. Hvergi var minnst á að efla hin félagslegu stuðningskerfi sem sannanlega er þörf á þegar gefur á bátinn. Því miður var farið í gamalkunn viðbrögð þar sem einblínt er á efnahagskerfið án þess að ræða félagsleg úrræði og aðgerðir til stuðnings við launafólk og allan almenning.“
Þetta er réttmæt athugasemd, sérstaklega í ljósi þess að við erum enn að glíma við margar neikvæðu afleiðingar þeirra aðgerða sem gripið var til í hruninu, og styrktu stöðu margra fjármagnseigenda en gerðu ekkert til að bæta stöðu margra lægri settra hópa. Þvert á móti má færa rök fyrir því að þeim sé kerfislega haldið niðri með aðgerðum sem leiða til þess að stærri hluti af ráðstöfunartekjum þeirra fara í að borga fyrir húsnæðiskostnað.
Síðan þá hefur verið ráðist í ýmis konar „leiðréttingar“ sem nær allar hafa beinst af öðrum en þeim sem þurfa mest á þeim að halda. Fyrir vikið hefur myndast vísir að stéttastríði á Íslandi þar sem fátækt og fáskipt fólk sem hefur verið skilið eftir hefur risið upp og krafist úrbóta.
Við erum í dauðafæri til þess að takast vel á við þær krefjandi aðstæður sem íslenskt samfélag stendur efnahagslega frammi fyrir. Til þess þurfa ráðamenn að stiga upp, ráðast í ákveðnar aðgerðir sem beinast að sem flestum sviðum samfélagsins og tala til allra.
Ekki bara valinna „lífvænlegra“ fyrirtækja eða fjármagnseigenda.