Hluti af viðbragðsáætlun ríkisstjórnarinnar við COVID-19 faraldrinum er 750 milljóna króna sjóður sem á að bregðast við þeim áföllum sem menningarstarfsemi, listgreinar og íþrótta-og æskulýðsmál verða fyrir. Að auki eru 400 miljónir ætlaðar til rannsóknatengdra verkefna.
Það er ánægjulegt hversu stjórnvöld hafa brugðist snarlega við því ástandi sem skapaðist í umhverfi menningar og listsköpunar á landinu með setningu samkomubanns. Samkomubann þýðir í raun fjöldauppsögn á hinu víðfeðma atvinnusvæði list- og menningargreina, atvinnusvæði sem teygir sig út í alla kima samfélagsins. Í dag starfar 7,7% vinnuafls í landinu við menningu og listsköpun og meðvitað eða ómeðvitað hreyfir starf þess fólks við okkur í hverju skrefi okkar daglega lífs. Það er nánast ekki til sá málaflokkur í nútímasamfélagi sem listsköpun “klukkar” ekki með beinum eða óbeinum hætti. Listin er grundvallarverkfæri í mótun hugmyndaheimsins og á grunni auðugs hugmyndaheims vaxa tækifæri til fjölbreyttara atvinnulífs, fyrir utan þá mannlegu þræði sem listin vefur um samfélagið okkur til gleði og yndisauka.
Það er óvenjuhljótt þessa dagana á vinnustofunni minni hér niður við gömlu höfnina. Bíll keyrir vestur Geirsgötuna og maður staldrar ósjálfrátt við, svo hljóðnar allt á ný. Enginn á ferli. Það er ein og maður sé skyndilega lentur í sögusviði undarlegrar blöndu af vísindaskáldsögu og Palli var einn í heiminum.
Óttinn er raunveruleg ógn einn og sér. Í gegnum söguna hafa listamenn mildað höggin og borið ljós og von inn í þungbærar og erfiðar kringumstæður. Og þó að afleiðingar veirunnar hafi að þessu sinni hitt listamenn lóðbeint í hausinn og svipt þá afkomu og vinnu, leið ekki langur tími þar til margir þeirra voru farnir að leita allra leiða til að finna listinni farveg í nýjum, breyttum heimi. Það er ekki sjálfgefið en köllunin verður ekki tamin, það bara gerist með jafnsjálfsögðum hætti og lóan mætir að vori.
Vinnustofur listamanna eru tómar, tónleikasalir og leikhús. Tónleikaferðum og hátíðum er aflýst, kennsla og námskeið falla niður. Allt er þetta unnið af listamönnum, oftast einyrkjum með veik kjör og skert réttindi á vinnumarkaði. Að veita fjármagni inn í listgreinarnar núna er ekki bara ráðstöfun til að koma að einhverju leiti til móts við tekjutap listamanna, heldur er ekki síður mikilvægt að þegar við förum að sjá til lands, handan þessa draumkennda ástands, náum við vopnum okkar fyrr, ef við höldum áfram að sá og yrkja jarðveginn, rækta hugmyndaheiminn. Þannig tryggjum við áframhaldandi grósku og nýsköpun og getum hlakkað til uppskerunnar með hækkandi sól og vonbetri tíð.
Höfundur er forseti Bandalags íslenskra listamanna.