Íslendingar hafa að mestu tekið COVID-19 aðgerðum stjórnvalda með stóískri ró. Við höldum okkur heima, virðum flest sóttkvíar-, félags- og einangrunarreglur. Við sættum okkur við það að krísu sem þessari fylgir kostnaður sem fólk greiðir með atvinnumissi og fyrirtæki með gjaldþrotum og tekjutapi. Við skiljum og sættum okkur við það að það kostar að bjarga mannslífum [1].
Stundum heyrast þó raddir sem minna á það að ekki sé gáfulegt kreista allt líf úr hagkerfinu. Rökin eru á þann veg að vosbúðin sem fylgir hömlunum sé í raun verri en veikindin og dauðinn sem fylgir COVID-19. Eins og hinn óþolandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, apaði eftir fréttastöðinni Fox: „Lyfið má ekki gera meiri skaða en vandamálið.“
Annar hópur gagnrýnenda vill meina að hagkerfið skipti ekki svo miklu máli. Það sem skiptir máli er að bjarga mannslífum. Þessi hópur vill lágmarka veikindi og dauða, af völdum COVID. Í þeirra huga má þannig skipta út hagvexti og fá í staðinn betri heilbrigðisútkomur.
Báðir hóparnir eru að sjálfsögðu ýktir – jafnvel öfgafullir – og í öllu falli ekki lýsandi fyrir samfélagið í heild. Og í takt við aðra öfgahópa hafa báðir þessir hópar rangt fyrir sér.
Munið eftir 2009?
Fyrir rúmlega 10 árum lauk einhverju mesta stuði í hagsögu Íslands. Á árunum 2004–2007 óx hagkerfið okkar, ár eftir ár, eins og enginn væri morgundagurinn. Skjár Einn hélt hvert partíið á fætur öðru, Jón Ásgeir keypti allskonar búðir á Oxford Street og Ólafur Ragnar Grímsson útskýrði fyrir útlendingum hvernig fjármálafrumkvöðlasnilld Íslendinga ætti sér beinar rætur að rekja í víkingagen okkar. Þó genið virðist hafa legið dormant í u.þ.b. 1000 ár, þar á undan.
Þvílík stemming.
Á árunum 2004 til 2007 óx vergur landsframleiðslu um 22%. Á sama tímabili uxu tekjur hins opinbera um 31%. Og þar sem ríkið hafði úr miklu að moða eyddi ríkið í allskonar uppbyggingu og félagslega þjónustu, þar á meðal í heilbrigðiskerfið. Útgjöld á tímabilinu til heilbrigðismála uxu um 11% [2].
Á samdráttarárunum miklu, 2008 – 2011, skrapp íslenskt hagkerfi saman sem nemur 9%. Tekjur hins opinbera drógust saman um 15% og útgjöld til heilbrigðismála um 11%. Með öðrum orðum, þegar Ísland varð fátækara, varð heilbrigðiskerfið okkar það líka.
Tafla 1: Valdar hagstærðir á árunum fyrir og eftir hrun
Áfram velmegun – úúú á volæði
Við upphaf 19. aldar létust um 10% íslenskra barna á sínu fyrsta aldursári. Mæður létust reglulega við barnsburð og aðrir máttu lofa sig sæla ef þeir lifðu til fimmtugs. Í dag tökum við flest því sem sjálfsögðum hlut að eignast heilbrigð börn, lifa heilbrigðu lífi og deyja eldgömul.
Sömu sögu má segja frá Evrópu, Ameríku, Ástralíu og Japan. Þar má fólk búast við að lifa til áttræðs, í minnsta lagi. Að sama skapi er dánartíðni ungabarna ljósári frá því sem hún var fyrir 100 árum. Ástæðan er sú að þessar þjóðir skarta allar flottum hagkerfum, sem ríkið hefur tekjur af og notar hluta þeirra til þess að byggja upp heilbrigðiskerfi, beint eða óbeint, þegnum sínum til heilsubótar.
Sömu sögu er þó ekki að segja frá þjóðum sem ekki skarta eins flottum hagkerfum. Í Nígeríu, Angóla og Chad eru aðeins hinir heppnu á lífi þegar kemur að því að halda upp á fimmtugs afmælið. Ástæðan er, að hluta til sú, að í fátækari hagkerfum verða ekki til næg verðmæti og því eru tekjur hins opinbera litlar og enn minna af þeim fer í að byggja upp heilbrigðiskerfi [4].
Mynd 1: Samband meðalævilengdar og landsframleiðslu á mann
Fram á veginn
Vissulega er það rétt að setja á hömlur á fólk og hægja á útbreiðslu hins ömurlega COVIDs. Það er engin bót í því að leyfa sjúkdómnum að leika lausum hala og smita alla í einu. Ólíkt því sem Trump virðist trúa – engar hömlur, engin kreppa – þá fer hagkerfið líka í hnút ef COVID-19 fær að breiða úr sér eins og ástralskur skógareldur. Ef við liggjum öll með bullandi pest mánuðum saman í bólinu, og heilbrigðiskerfið okkar lamast, þá verður verðmætasköpunin á Íslandi heldur ekki mikil.
Fyrir utan það, þá er það þess virði að fórna einhverri velmegun til þess að bjarga mannslífum – þau eru líka einhvers virði.
En ef við förum ekki einhvern tíma að mæta aftur í vinnu og skapa verðmæti, þá heldur áfram að hægast á landsframleiðsluvélinni og á meðan það hægist á henni, þá hægist á tekjusöfnun ríkisins. Og þegar hægist á tekjusöfnun ríkisins, þá myndast halli og ríkið byrjar að safna skuldum.
Einn daginn mun einhver stjórnmálaflokkur komast til valda með það að loforði að draga úr skuldum ríkisins. Það eru aðeins tvær leiðir til þess: Hækka skatta eða draga úr útgjöldum [5] og líklega verða útgjöldin verði fyrir valinu. Þegar sá dagur gengur í garð verður heilbrigðiskerfið líklega fyrir valinu. Sá niðurskurður mun kosta heilsu, velmegun og líf, þeirra sem þurfa þá á kerfinu að halda.
Punktar höfundar
[1] Að sjálfsögðu er einnig ráðist í aðgerðir til að koma í veg fyrir ófremdarástand á heilbrigðisstofnunum og víðar í þjóðfélaginu (ófremdarástand sem einnig kostar heilsu og mannslíf).
[2] Ég notast við rauntölur í gegnum alla greinina. Það er að segja, ég hef deilt öllum krónutölum með vísitölu neysluverðs þess árs, grunnurinn er 2019.
[3] útgjöld ríkisins aftur á móti tóku stökk, en það er önnur saga og var það vegna björgunar bankanna. Hagfræðingar eru flestir sammála því að á kreppu tímum beri ríkinu að standa í hallarekstri og halda þannig efnahagslífinu á floti. Staðreyndin er þó sú að of mikill hallarekstur er pólitískt óvinsæll og ef ríkisskuldir vaxa of hratt og mikið getur það til lengri tíma sýkt efnahagskerfið af skuldar-COVID. Því er ávallt pressa á stjórnmálamenn að hagræða einhverstaðar. Þar sem heilbrigðiskerfið telur um 20% af útgjöldum hins opinbera, vænlegt til vinnings tekið fyrir.
[4] Það eru vissulega fleiri ástæður fyrir lélegum heilbrigðisútkomum í þriðja heiminum, en það segir sig sjálft að heilbrigðiskerfi þarfnast auðlinda og ef ekki þau eru ekki sköpuð er ekki hægt að byggja upp kerfið.
[5] Reyndar er tæknilega séð þriðja leiðin til. Hún felur í sér að auka enn frekar verðmætasköpun samfélagsins og láta hagvöxtinn sjálfan sjá um að auka tekjur ríkisins sem svo dregur úr skuldum ríkisins, sem hlutfalli af tekjum ríkisins (eða sem hlutfall af landsframleiðslu).