17. Til að efla íslensku og tryggja framtíð hennar er mikilvægt að láta aldrei skort á íslenskukunnáttu bitna á fólki eða nota hann til að mismuna því á ómálefnalegan hátt.
Nú hafa verið lögð fram drög að frumvarpi um að bæta í stjórnarskrá ákvæðinu „Íslenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda“, og samsvarandi ákvæði um íslenskt táknmál. Þótt engin ástæða sé til að amast við þessu er rétt að minna á að í tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er svohljóðandi ákvæði: „Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna […] tungumáls […].“ Í skýringum við þetta segir: „Þessu ákvæði er ætlað að útiloka mismunun gagnvart fólki sem talar annað mál en íslensku eða aðra mállýsku en þá sem ráðandi er í samfélaginu hverju sinni.“
Á seinustu árum hafa iðulega birst fréttir um að erlent afgreiðslufólk á hótelum, veitingastöðum og í verslunum verði fyrir aðkasti vegna skorts á íslenskukunnáttu. Það er vitanlega óviðunandi – barátta fyrir íslenskunni má aldrei snúast upp í þjóðrembu og hana má aldrei nota til þess að útiloka fólk á ómálefnalegan hátt eða gera með einhverju móti lítið úr því. Vissulega getur í sumum tilvikum verið málefnalegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu „til að tryggja skilvirk samskipti við viðskiptavini, þar á meðal í störfum í þjónustugeiranum“, en þetta er viðkvæmt og vandmeðfarið mál.
Sú hætta er fyrir hendi að íslenskan verði notuð, meðvitað eða ómeðvitað, til að búa til lagskipt þjóðfélag þar sem annars vegar erum „við“, fólk sem ræður öllu í þjóðfélaginu, m.a. í krafti málfarslegra yfirburða, og situr að bestu bitunum hvað varðar menntun, tekjur o.s.frv. – og svo „hin“, fólk af erlendum uppruna, jafnvel önnur og þriðja kynslóð innflytjenda, sem hefur ekki gott vald á íslensku og kemst þess vegna hvergi áfram en situr eftir ómenntað í láglaunastörfum, áhrifalaust um umhverfi sitt og framtíð. Hugsanlega kæra sumir atvinnurekendur sig ekkert um að erlent starfsfólk þeirra læri íslensku því að þá gæti það farið að gera meiri kröfur og átta sig betur á réttindum sínum.
Ef fólk úr þessum hópi ætlar sér að taka virkan þátt í þjóðfélaginu, t.d. í stjórnmálum, fær það iðulega á sig óvægna gagnrýni vegna ófullkominnar íslenskukunnáttu. Fyrir utan þann skaða sem þetta veldur fólkinu sem í því lendir er þetta stórhættulegt fyrir lýðræðið og býr til jarðveg fyrir lýðskrum og öfgastefnur. Ef innflytjendur verða 15-20% landsmanna innan fárra ára hefur það vitaskuld áhrif á stöðu íslenskunnar sem til skamms tíma var einráð á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þessi breytta staða skapar spennu milli íslensku og ensku – og hugsanlega einnig milli Íslendinga og innflytjenda.
Við þurfum að finna leið sem tekur tillit til útlendinga og gerir þeim kleift að bjarga sér í samfélaginu, án þess að íslenskan verði ævinlega víkjandi. Það er ekki einfalt mál að halda íslenskunni á lofti, halda því til streitu að hún sé nothæf og notuð á öllum sviðum, en jafnframt gæta þess að íslenskukunnátta og -færni sé aldrei notuð til að mismuna fólki. Það er brýnt að stjórnvöld móti stefnu í þessum málum. Fólki sem ekki hefur íslensku að móðurmáli mun fara fjölgandi hér á landi á næstu árum og það er mikilvægt að það vilji læra íslensku – og eigi þess kost.