Þann 30. júlí síðastliðinn tilkynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi að á hádegi daginn eftir, 31. júlí, myndu hertar aðgerðir til að takast á við útbreiðslu kórónuveiru taka gildi innanlands og á landamærum. Tilkynningin var mörgum Íslendingum, ef ekki flestum, þungbær. Bæði vegna þess að hún var kynnt vegna aukningar í greindum smitum en líka vegna þess að þjóðin hafði notið frelsis og lífgæða í sumar eftir erfitt sameiginlegt áhlaup gegn kórónuveirunni í vor. Nú þyrfti að taka tvö skref aftur á bak.
Á blaðamannafundinum sagði Svandís: „Þar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði tveggja metra reglan viðhöfð á milli einstaklinga. Það er að segja að hún verði ekki lengur valkvæð heldur skyldubundin. Þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga þá er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.“
Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að á meðal aðgerða sem grípa eigi til sé að hvar sem fólk komi saman og í allri starfsemi verði viðhöfð „sú regla að hafa a.m.k. 2 metra milli einstaklinga en að sú ráðstöfun verði ekki lengur valkvæð.“
Í reglugerð heilbrigðisráðherra segir, í 4. grein sem fjallar um nálægðartakmörkun, að á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skuli tryggja að „hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.“
Á vefnum covid.is, þar sem almenningur fær flestar sínar upplýsingar um gildandi takmarkanir, segir: „Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi þarf að hafa hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili. Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli einstaklinga þarf að nota andlitsgrímu sem hylur nef og munn.“
Þegar fjallað var um þessar aðgerðir á blaðamannafundi almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra í aðdraganda þess að þær tóku gildi sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn: „Ekki heilsast með handabandi. Ekki faðmast. Ekki vera að fara í hópa með fólki sem þú þekkir ekki ef þú ert í áhættuhópi. [...] Handþvottur og sprittun gildir núna sem aldrei fyrr.[...]Ég vil beina orðum mínum sérstaklega til unga fólksins sem hefur verið spennt mjög lengi að fara í útilegu og skemmta sér með vinum og kunningjum[...]Búum til öðruvísi minningar, verum heima með fjölskyldunni, látum lífið halda áfram og verum góð hvert við annað.“
„Þetta veltur á okkur“
Rúmri viku eftir að hertar aðgerðir tóku gildi skrifaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, grein í Morgunblaðið með fyrirsögninni: „Þetta veltur á okkur“. Þar fjallaði hún um þann upptakt í smitum sem hafði verið frá lokum júlímánaðar. Í greininni sagði: „Auðvitað vonum við öll að þetta bakslag endurtaki sig ekki og kúrfan fletjist út. Í því skiptir mestu að við, hvert og eitt okkar, gætum að sóttvörnum í daglegu lífi.“
Í stöðuuppfærslu sem Þórdís setti á Facebook síðastliðinn föstudag, í kjölfar þess að stjórnvöld ákváðu að herða verulega takmarkanir á landamærum Íslands, sem í reynd loka landinu að mestu fyrir komu ferðamanna, sagði hún að áfram væru „persónubundnar sóttvarnir langöflugasta tækið til að berja þessa veiru niður og hertari aðgerðir á landamærum koma aldrei í staðinn fyrir það. Við búum í góðu samfélagi. Sterku samfélagi. Og við erum heppin með það teymi sem ráðleggur okkur í gegnum þann þátt þessa risa stóra verkefnis.“
Á laugardag fór ráðherrann út með æskuvinkonum sínum, af þeim voru teknar röð mynda þar sem þær stóðu saman í hnapp og augljóslega ekki með tvo metra á milli sín, heldur í svo mikilli nálægð að þær snertast.
Sjálf brást Þórdís við fréttaflutningi um möguleg brot á sóttvarnareglum, og gagnrýni á hana vegna þessa, með því að skrifa meðal annars i stöðuuppfærslu: „Ég átti langþráðan frídag með æskuvinkonum mínum sem mér þykir vænt um og dagurinn, sem ég hafði hlakkað mikið til, var nærandi. En dagurinn í dag síður og einfaldara hefði verið að ákveða að vera ekki með þeim.“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að hegðun hennar hefði verið óheppileg.
Hvorugt þeirra hefur sagt að hegðunin hafi verið röng.
Eru allir almannavarnir?
Nú er ljóst að fjölmargir landsmenn hafa aðlagað sig að þeim reglum sem tóku gildi um síðustu mánaðamót, með miklum afleiðingum fyrir áform þeirra. Jarðafarir hafa þurft að endurskipuleggjast með þeim hætti að fjölmargir hafa ekki getað kvatt ástvini sína. Foreldrar hafa þurft að útskýra fyrir fermingarbörnum af hverju það sé ekki hægt að halda fermingarveislur, fólk hefur blásið af brúðkaup eða skalað þau verulega niður og afmælisveislur eru annað hvort settar til hliðar eða haldnar í samræmi við þá skyldu að á milli þeirra sem deila ekki heimili eigi að vera tveir metrar á milli manna.
Auðvitað er það þannig að flestir munu lenda í aðstæðum þar sem reglan er brotin. Það getur gerst í matvöruverslun. Inni á vinnustað. Eða þegar vaninn tekur yfir í aðstæðum þar sem viðkomandi er með sínu nánasta mengi vina eða ættingja.
Lykilatriðið hlýtur að vera að allir séu þó með það markmið, eftir bestu getu, að virða nálægðartakmarkanir í þeirri viðleitni að vera öll almannavarnir.
Lögregluríki?
Í kjölfar frétta af hegðun Þórdísar um helgina hefur opinberast að það er sannarlega ekki einungis ráðherrann sem hefur talið að reglurnar væru þannig að valkvætt væri hvaða mengi hver einstaklingur velur sem „sitt“ mengi sem þurfi ekki að viðhalda tveggja metra reglunni.
Fullt af fólki sem annað hvort hefur varið Þórdísi fyrir gagnrýni eða hefur lagt þann skilning í hertar reglur að þær giltu ekki um þá vini sem það langaði mjög til að hitta, hefur stigið fram. Starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins skrifaði meðal annars ummæli við Facebook-færslu ráðherrans þar sem hann sagði: „Síðast þegar ég vissi búum við ekki í lögregluríki. Við fylgjum leiðbeiningum eftir bestu getu og af skynsemi og metum aðstæður hverju sinni. Við erum eftir allt fullorðið fólk. Í vinahópi veit maður betur forsögu hvers og eins og líðan en í hópi ókunnugra. Þið ráðið nándinni sjálfar. Þú ert í fullum rétti Þórdís og hefur ekkert að afsaka.“
Framkvæmdastýra hagsmunasamtaka skrifaði á sama stað: „Ekki afsaka neitt – við megum slaka á með vinum – vona að þið hafið átt góðan dag“.
Hvort er rétt?
Nú er það þannig að bæði getur ekki verið rétt. Þ.e. að tveggja metra nálægðarviðmið séu skyldubundin milli allra þeirra sem deila ekki heimili, líkt og heilbrigðisráðherra sagði og stendur í reglugerðinni sem gefin var út í lok síðasta mánaðar, og að fullorðnu fólki sé í sjálfvald sett að ráða nánd sinni við fólk sem býr ekki með því.
Nú þurfa stjórnvöld að útskýra hvor skilningurinn sé réttur: sá sem Þórdís setur fram og á sér greinilega marga fylgismenn, eða sá sem settur var fram í minnisblaði sóttvarnalæknis, í orðum heilbrigðisráðherra og í reglugerð sem birt var í Stjórnartíðindum.
Áhrifavaldhafar
Í ofanálag er fullkomlega eðlilegt að ítrustu kröfur séu gerðar til ráðherra í ríkisstjórn sem tekur ákvörðun um að setja reglur sem takmarka frelsi fólks verulega, og hvetur til samstöðu í baráttu gegn heimsfaraldri sem er að valda gríðarlegum heilsufarslegum, samfélagslegum og efnahagslegum skaða. Svo ekki sé minnst á dauða.
Megin þorri landsmanna styður þær aðgerðir og skilur ástæðuna fyrir því að gripið sé til þess að skerða mannréttindi þeirra og frelsi. En þá hreinlega verður að gera þá skýlausu kröfu til ráðamannanna sem setja reglurnar að þeir fylgi þeim sjálfir.
Ungir ráðherrar hafa hlotið framgang á undanförnum árum sem þeir áttu fullt tilkall til. En þeim framgangi fylgir líka óhjákvæmilega að ríkari kröfur eru gerðar til þeirra en venjulegra borgara, og þeir geta á móti ekki gert sömu kröfu um að njóta skjóls frá umfjöllun um þeirra persónulegu málefni.
Það á sérstaklega við þá ráðherra sem velja að veita fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum ítrekaða innsýn í daglegt líf. Það er valkvætt að lifa lífi sínu með þeim hætti. Þess vegna er eðlilegt að illa framsettar upplýsingar hafi afleiðingar, á sama hátt og þær vel fram settu þjóna ákveðnum tilgangi sem pólitísk markaðssetning.
Þeir bera líka ríka ábyrgð sem fyrirmyndir og athæfi þeirra sem mynduð eru þurfa að endurspegla það.
Sérstaklega þegar það virðist vera í andstöðu við kröfur sem stjórnvöld eru að gera til almennra borgara.