Árið 2020 hefur markast að mestu leyti af áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Það er ljóst að við erum að upplifa áhrifin hér á landi líkt og annars staðar. Þegar við horfum til baka á árinu 2020 hvað varðar stöðu launafólks og þeirrar baráttu sem við höfum háð á árinu þá sjáum við aðgerðir sem gripið hefur verið til að tryggja ráðningarsamband fólksins. Gríðarlega mikilvægt að standa vörð um störfin í landinu. Það verður þó að viðurkennast að það er nokkuð langur vegur frá því að stjórnvöld hafi gert allar þær nauðsynlegu breytingar sem við teljum mikilvægar á þessum tíma. Hvernig bætum við réttarstöðu launafólks þegar brotið er vísvitandi á réttindum þess? Hvernig höfum við sem samfélag stutt við öryrkja og eftirlaunaþega?
Fyrstu viðbrögð við faraldrinum voru að tryggja að launafólk fengi greidd laun á sama tíma ef fólk þurfti að fara í 14 daga sóttkví, sem voru nauðsynleg viðbrögð til að hefta útbreiðslu veirunnar. Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins töldu fyrst um sinn ástæðulaust að fólk ætti að fá slíka fjarveru frá vinnu greidda. Með samtali og aðkomu stjórnvalda, með fjárstuðningi til fyrirtækjanna, tókst hins vegar að koma í veg fyrir að launafólk sæti eftir launalaust hefði það þurft að vera í sóttkví. Við sjáum sem dæmi víða erlendis þar sem réttindi fólksins eru lakari hvað þetta varðar að verulega erfitt getur reynst að hefta útbreiðslu veirunnar.
Tilhneigingin virðist iðulega vera að hugsa fyrst og fremst um hagsmuni fyrirtækjanna í stað þess að horfa til hagsmuna launafólks. Þessu þurfti að vinna gegn í upphafi faraldursins og þarf enn að veita aðhald. Að tryggja launafólki, sem verður fyrir því áfalli að missa atvinnuna, tekjur til að standa undir þeim skuldbindingum sem stofnað hefur verið til er eitt mikilvægasta málið sem blasir við.
Nú þegar er búið að lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Það dugir hins vegar engan veginn til. Í dag eru hámarks tekjutengdar bætur rúmar 456 þúsund krónur og eru greiddar í 6 mánuði, að hámarki 70% af fyrri tekjum. Um áramótin verða lágmarkslaun iðnaðarmanna (sveina) tæpar 455 þúsund krónur fyrir dagvinnu! Það er því augljóst að það þarf að hækka tekjutengdar bætur. Mikil skerðing tekna veldur samdrætti í samfélaginu. Þetta er verkefni sem þarf að ráðast í strax fyrstu mánuðum nýs árs.
Staða efnahagslífsins skipti miklu máli þegar kemur að því hvernig mögulegt hefur verið að takast á við veiruna. Mikil lækkun stýrivaxta í kjölfar þeirra kjarasamninga sem gerðir voru 2019, kjarasamningar iðnaðarmanna og lífskjarasamningarnir, hafa svo sannarlega haft jákvæð áhrif á stöðu þeirra heimila þar sem fólk býr í eigin húsnæði. Lækkun stýrivaxta hafa veruleg áhrif á þau vaxtakjör sem landsmönnum bjóðast almennt og hafa bein áhrif á þau lán sem hafa breytilega vexti. Það verður hins vegar að segjast í þessum málum að lánastofnanir hafa almennt ekki skilað þeirri lækkun allri til lántaka og sýnir okkur og sannar að það verður að grípa til að setja stífari lagaramma sem tryggir réttindi og kjör lántaka.
Verkefnin sem blasa við okkur sem samfélagi er að vinna úr þessari stöðu og standa þétt saman. Við getum náð gríðarlega góðum árangri ef við bregðumst við með réttum hætti, hugsum um hagsmuni fólksins fyrst og fremst. Tryggjum öllum viðunandi afkomu og halda hjólum samfélagsins gangi á réttum forsendum. Nú verðum við að grípa til aðgerða fyrir heimilin í landinu, félagar okkar hjá VR hafa kynnt framsæknar en nauðsynlegar tillögur um stuðningslán til heimilanna. Heimilin má ekki skilja eftir í kjölfar kreppu sem þessarar.
Uppbygging samfélagsins upp úr kófinu þarf að vera á forsendum fólksins, á forsendum fjöldans en ekki örfárra útvalinna einstaklinga. Fyrir skömmu kom fram skýrsla frá OECD þar sem lagt er til þess að draga ætti úr reglum og kröfum í samfélaginu til þess að ná fram meintum sparnaði. Þegar dýpra er rýnt í skýrsluna og með samtölum við fulltrúa OECD blasir við að skortur er á raunverulegum röksemdum við þeim breytingum. Svo virðist sem stefnan sé hreinlega sú að færri reglur og minni kröfur hljóti að draga úr kostnaði, gæðin skipti ekki máli. Fráleit hugsun sem við megum ekki láta verða ráðandi inn í framtíðina hér á landi.
Höfundur er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.