Kreppur eru eins konar álagspróf á skipan samfélaga, ekki síst skipan efnahagsmála, fjármála og velferðarmála. Kreppur draga fram veikleika sem fyrir eru og vísa veginn um hvernig byggja má samfélagið betur upp til að taka á ógnum, óvæntum áföllum og tryggja bætt lífskjör þeirra sem verr standa.
Það þarf öfluga pólitík til að ná slíkum markmiðum – öðruvísi pólitík en ríkt hefur víða á síðustu áratugum.
Skipbrot nýfrjálshyggjunnar
Sú pólitík sem hefur verið ríkjandi á Vesturlöndum frá um 1980 í Bretlandi og Bandaríkjunum og í flestum öðrum ríkjum frá um 1990 hefur einkum mótast af hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Hún hefur gjarnan verið á borð borin sem „eina alvöru hagfræðin“ sem hægt sé að hafa að leiðarljósi við mótun samfélaga.
Þar hefur verið boðuð aukin markaðsvæðing, einkavæðing, afreglun og skattalækkanir á hátekju- og stóreignafólk. Í staðinn hafa oft komið skattahækkanir og kjararýrnun fyrir lægri tekjuhópa.
Kjarninn í þessum boðskap hefur falið í sér aukið frelsi fjármálaafla og markaða einkageirans, samhliða veikingu ríkisvaldsins. Þetta hefur almennt leitt til veikara lýðræðis og aukins auðræðis, aukinna áhrifa auðmanna.
Þessi pólitík var sögð farsælust til að auka hagvöxt og bæta hag allra.
Nýfrjálshyggjan er því nátengd auknum ójöfnuði í nútímasamfélögum.
Brauðmolakenningin sem brást
Sem dæmi um fáránleika hugmynda nýfrjálshyggjumanna má benda á „brauðmolakenninguna“, sem átti að sýna að forréttindapólitík gagnvart ríkasta fólkinu myndi gagnast samfélaginu öllu. Ef markmiðið var t.d. að draga úr fátækt þá sögðu nýfrjálshyggjumenn að stjórnvöld ættu að byrja á því að bæta hag þeirra ríkustu (t.d. með skattalækkunum á fjármagn og háar tekjur). Þetta myndi síðan skila sér til þeirra sem neðar væru í tekjustiganum – í formi brauðmola sem hryndu af háborðum yfirstéttarinnar niður tekjustigann.
Þeir ríku myndu kaupa meiri þjónustu af iðnaðarmönnum og verkafólki og þar með skapa fleiri störf, sögðu frjálshyggjumenn. En aukið ríkidæmi þeirra allra ríkustu skilar sér ekki í aukinni eftirspurn innanlands, heldur tengist frekar auknu flæði fjármagns úr landi, meðal annars í erlend skattaskjól. Auðurinn færðist einfaldlega í meiri mæli á æ færri hendur.
Ótvíræð reynsla síðustu áratuga hefur nú vendilega opinberað blekkingarnar sem felast í brauðmolakenningunni (sjá nýlegar rannsóknir um það hér
). Aukið ríkidæmi yfirstéttarinnar hefur hvorki verið gott fyrir hagvöxt né lífskjör alls þorra almennings. Það hefur einnig aukið líkur á óheilbrigðu braski og fjármálakreppum.Brauðmolakenningin hefur því sýnt sig að vera hin versta svikamylla.
Fjármálakreppur sýna bresti markaðanna
Fjármálakreppur, eins og sú sem skall á árið 2008, verða vegna markaðsbresta. Aukna frelsið í fjármálageiranum getur af sér aukið brask með lánsfé, taumlausa græðgi, óhóflegar verðhækkanir á eignum (bóluhagkerfi) og auknar áhættur í fjármála- og efnahagslífi.
Hér á landi gekk slíkt bóluhagkerfi óvenju langt á áratugnum fram að hruni – með óvenju miklum afleiðingum í hruninu. Eftir að frelsi var aukið í fjármálageirum Vesturlanda upp úr 1980 fóru slíkar fjármálakreppur að verða mun algengari en áður hafði verið (sjá hér).
Fjármálakreppur sýna þannig misbresti og ósjálfbærni óheftu markaðanna á óvenju skýran hátt. Eftir að hafa þurft að bjarga bönkum, fyrirtækjum og styðja við heimili í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 standa stjórnvöld víðast nú skuldugri en áður var (það gildir þó ekki um Ísland, sem betur fer). Það hefur veikt viðnámsþrótt stjórnvalda og velferðarríkisins sérstaklega.
Óheftur kapítalismi getur svo af sér sívaxandi ósjálfbæra ágengni á umhverfi og vistkerfi jarðarinnar, sem hefur kallað yfir okkur þá stórbrotnu ógn sem felst í loftslagskreppunni. Hugmyndir nýfrjálshyggjunnar neita þessari ógn annars vegar og vinna síðan beinlínis gegn því að hægt sé að taka á þessum vanda og byggja betur sjálfbæra þróun samfélaga og hagkerfa.
Kóvid-kreppan sýnir mikilvægi velferðarríkisins
Núverandi kreppa er ólík fyrri kreppum kapítalismans, þar eð hún orsakast af nauðsynlegum sóttvarnaraðgerðum vegna veirufaraldurs. Hún er því meira kreppa vegna náttúruógnar en vegna markaðsbresta.
Kóvid kreppan er þó lík fyrri kreppum að því leyti að hún bitnar almennt mest á verkafólki og lágtekjufólki almennt (sjá nánar um það hér https://global.oup.com/academic/product/welfare-and-the-great-recession-9780198830962?cc=is&lang=en&). Raunar eru horfur á að Kóvid-kreppan geti bitnað enn meira á láglaunafólki en algengast er í kreppum (sjá hér). Þannig vara bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD nú við hættu á auknum ójöfnuði vegna Kóvid-kreppunar og brýna stjórnvöld um að fyrirbyggja slíkt.
Í raun má segja að ríki heims búi nú við þríþætta allsherjarkreppu:
- Heilsufarskreppu sem ógnar mannslífum í stórum stíl.
- Hún hefur svo leitt til sóttvarnaraðgerða sem hafa framkallað efnahagskreppu, sem jafnframt eykur líkur á skuldakreppu í framhaldinu.
- Því til viðbótar er svo loftslagskreppan sem hótar að brenna skóglendum í sívaxandi mæli, hækka yfirborð sjávar og setja vistkerfi jarðarinnar úr jafnvægi með ófyrirséðum afleiðingum (sjá nánar um þetta hér).
Við þurfum sterkt ríkisvald í lýðræðissamfélagi til að taka á þessum þríþætta vanda. Ríkjandi sjónarmið síðustu áratuga hafa hins vegar veikt ríkisvaldið.
Veikara ríkisvald – veikari kreppuúrræði
Kóvid-kreppan sýnir svo hversu mikilvægt það er fyrir þjóðir að búa við öflugt velferðarkerfi sem tryggir fólki viðunandi framfærslu þegar harðnar á dalnum (í formi atvinnuleysisbóta sem veita viðunandi tryggingarvernd) og í formi heilbrigðisþjónustu sem veitir öllum þegnum fullt aðgengi að lækningum og lyfjum, óháð fjárhagsstöðu.
Bein afleiðing af pólitík nýfrjálshyggjunnar síðustu áratugina er veikara ríkisvald og aðþrengd velferðarkerfi. Hvoru tveggja þýðir að viðnámsþróttur og geta stjórnvalda til að bregðast við þríþættu kreppunni sem nú herjar á heiminn er minni en þarf. Ríkið er alltaf í lykilhlutverki við að milda kreppur og byggja upp á ný.
Því er þörf á breyttri pólitík til að byggja betur upp til framtíðar og tryggja að framfarir stefni að almannahag en ekki fyrst og fremst að auknum fríðindum þeirra best settu, eins og stjórnmál nýfrjálshyggjunnar gera.
Frá forréttindum yfirstéttar til almannahags
Að mörgu leyti má sækja fyrirmyndir til verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi um áherslur sem framsækin stjórnmál framtíðarinnar þurfa að hafa.
Setja þarf almannahag í fyrirrúm og sérstaklega það markmið að bæta mest hag þeirra verst settu – á mörgum sviðum lífskjara, bæði sem snerta launakjör og ráðningarkjör fyrir launavinnu en einnig á sviði lífskjaratrygginga velferðarríkisins. Lífskjarasamningurinn frá 2019 hefur mörg einkenni slíkrar kjarastefnu. Verkalýðshreyfingin hefur einnig haldið uppi miklum kröfum um öflugra viðnám stjórnvalda gegn afleiðingum kreppunnar, ekki síst hvað snerti afkomutryggingar atvinnulausra og fjölgun starfa í grænna hagkerfi.
Skattastefna þarf að útrýma sérstökum fríðindum hátekju- og stóreignafólks, t.d. á sviði skattlagningar fjármagnstekna og kaupréttar (sem reyndar var verið að auka fyrir skömmu með lækkun fjármagnstekjuskatts – sjá hér). Skattleggja ber fjármagnstekjur á sama hátt og atvinnutekjur og lífeyristekjur. Annað er bæði óréttlátt og ósjálfbært.
Þá þarf að skattleggja mikla auðlegð (fyrir ofan frítekjumark sem rúmar fjölskyldueignir í íbúðarhúsnæði til eigin nota) og notkun auðlinda þarf að skila þjóðinni mun meiri auðlindarentu en nú er. Með því að taka einnig á útbreiddum undanskotum frá skatti og notkun skattaskjóla er hægt bæði að efla innviði landsins, bæði félagslega og í samgöngum, en jafnframt væri hægt að létta skattbyrði af þeim tekjulægri í samfélaginu í skrefum.
Reynsla eftirstríðsáranna (1945 til um 1990) sýnir að þegar hagur alls þorra almennings er bættur hvað mest þá eru forsendur framfara í samfélaginu hvað bestar, hagvöxtur mestur og tækifæri til nýsköpunar og tækifæri fyrir einstaklinga til að komast áfram í lífinu hvað best. Þetta þarf síðan að tengja við auknar kröfur um sjálfbærni og grænan hagvöxt, til að vinna á þeim helstu ógnum sem steðja að vestrænum samfélögum.
Í seinni tíð hefur klassísk Keynesísk hagstjórn og stéttapólitík þokað um of fyrir lífsstílspólitík (identity politics), oft í bland við einfeldningslega markaðshyggju (eins og hjá Tony Blair í Bretlandi og Bill Clinton í Bandaríkjunum). Það hefur ekki dugað til að bæta hag almennings, heldur veikt stöðu vestrænna jafnaðarflokka meðal verkafólks og millistétta, þar sem klassíska fylgið var hvað mest áður fyrr.
Þetta hefur skapað jarðveg fyrir uppgang lýðskrumsflokka sem margir eru á hægri væng stjórnmálanna, en sigla gjarnan undir fölsku flaggi verkalýðsumhyggju, líkt og fráfarandi forseti Bandaríkjanna. Hann sagðist ætla að bæta hag verkafólks en vann einkum að því að bæta eigin hag og annarra auðmanna.
Forréttindapólitík yfirstéttarinnar mun ekki hverfa af sjálfu sér þó hún sé bæði ósanngjörn og ósjálfbær, því henni er viðhaldið með því valdi sem mest vegur – en það er peningavaldið.
Að því leyti er þörf fyrir meiri áherslu á stéttapólitík í nútímanum, líkt og verkalýðshreyfingin rekur hér á landi.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi.