Veganismi: Svona tapaði ég rifrildinu

Eydís Blöndal gefur þeim réttlætingum sem hún notaði til að borða dýraafurðir stjörnur. Góðar og gildar ástæður fá 5 stjörnur en þær sem eru það ekki fá enga. Svo má líka gefa réttlætingum mínus stjörnur.

Auglýsing

Það er alltaf snúið að tala um veganisma. Umræður eiga það til að verða hlaðnar og stór orð gjarnan látin falla þangað til þau sem eru viðstödd ganga öll ósátt frá borði. Þess konar samskipti eru samfélagslegri umræðu ekki til framdráttar. 


Ég neytti dýraafurða fyrstu 24 ár ævi minnar. Ég veit af hverju ég gerði það og ég man hversu djúpt trú mín risti. Svo djúpt að mér var nær ómögulegt að gagnrýna hana. Og ég tel mig geta skilið af hverju flest fólk neytir dýraafurða og geri mér grein fyrir að þeim finnist ekkert sérlega skemmtilegt að það sé gagnrýnt. Sem er allt í góðu, því ég nenni ekkert að standa í yfirborðskenndum rifrildum við fólk, svo það sé á hreinu – þið eruð hólpin. Ég hef fyrir löngu misst áhugann á að skipta mér af því sem aðrir gera, borða eða kaupa. Það sem mér er hins vegar annt um eru saklaus dýr og náttúran sem þarf að gjalda þessara ákvarðana. Og enn frekar, þá snýr þessi umræða hvorki að mat né fötum, hún snýst ekki um kolefnisfótspor og ekki um heilsu. Veganismi gagnrýnir það hvaða augum við lítum heiminn og þær lífverur sem deila honum með okkur.

Auglýsing


Sumt fólk segir þetta hreint út: „Dýrin eru hérna fyrir okkur“. Ég kann að meta þess konar hreinskilni. Og þessi hugsunarháttur er víðar en bara þegar kemur að meðferð okkar á dýrum. Hann birtist í sambandi okkar við náttúruna, þar sem við komum fram við hana eins og ótæmandi auðlind sem er hér til að þjónusta okkur. Og enn verr, þá blasir þetta við í framkomu okkar gagnvart manneskjum sem við sjálf höfum ákveðið að eigi skilið verri kjör og kosti en við. Þetta er auðvitað algjört bull, heimsmynd þar sem við tökum eigin venjum sem ófrávíkjanlegum náttúrulögmálum. 

Auðvitað eru dýrin ekki hér fyrir okkur, ekki frekar en að fossarnir séu hér fyrir okkur til að virkja, eða börnin í Bangladesh séu hér til þess að sauma á okkur joggingföt. Þarna að baki býr einn og sami hugsunarhátturinn sem er svo langt genginn að við notum hann til að réttlæta allt ofbeldið sem hefur orðið vegna hans og á ennþá eftir að verða vegna hans. Það er í þessari hugsunarvillu – sem gegnsýrir sögu vestrænnar menningar – sem við sannfærum okkur um að neysla á líkömum dýra sé venjuleg hegðun, náttúruleg og nauðsynleg. 

Við eigum nefnilega ekki tilkall til líkama dýra. Við eigum í raun ekki tilkall til neins nema okkar sjálfra. Við erum frjáls. Og ábyrgðin sem fylgir frelsinu skyldar okkur til að endurskoða siðferðisgildin okkar í sífellu og lifa í samræmi við þau. Mynd: Brett Sayles/Pexels


Þegar látið er reyna á þessi gildi, sem okkur eru innrætt frá barnæsku, förum við eðlilega í vörn. Það tók á hjá mér að skoða stoðirnar sem ég byggði heimsmynd mína á, sérstaklega þegar ég sá að þær voru holar að innan.


Í þessari grein langaði mig að fara yfir þær réttlætingar sem ég studdi mig við til að réttlæta hagnýtingu á dýrum. Þær voru misgóðar eins og vill vera, og mun ég gefa þeim stjörnur; 5 stjörnur ef ástæðan er góð og gild, 1 stjarna ef hún er það ekki.


Líkaminn minn þarf dýraafurðir til að vera heilbrigður - 1 stjarna

Þetta var lengi framan af mín helsta ástæða fyrir því að hlusta ekki á fólk sem predikaði um veganisma en ég get ekki gefið því haldreipi meira en 1 stjörnu. Ég þarf nefnilega ekki að borða dýraafurðir.

Öll næringarefni sem líkaminn þarfnast má finna í plönturíkinu. Prótein birtist ekki í kjöti fyrir tilstilli galdra – nei, þar að baki býr grundvallar-eðlisfræðilögmál: Ekkert hverfur, og ekkert verður til úr engu. Dýrið byggir vöðva, framleiðir mjólk, býr til egg o.s.frv., úr næringunni sem það fær úr fæðunni sinni. Og hvað borða kýrnar, lömbin, svínin, hænurnar? Ekki dýraafurðir að minnsta kosti. Þau borða plöntur. Plöntur eru það sem kallast frumframleiðendur í fæðukeðjunni og binda orku sólarinnar í vistkerfin með ljóstillífun. Plöntur eru þannig uppspretta allrar orku sem síðan ferðast niður fæðukeðjuna. Stórkostlegt! 

Öll þurfum við að gæta að því að fá nauðsynleg næringarefni. Það er ekkert annað eða meira sem þarf að hafa í huga þegar þú borðar grænkerafæði. Vissulega þarf að fara í smávegis rannsóknarvinnu, einfaldlega af því að þegar við lærum að borða rétt er gert ráð fyrir því að við borðum dýraafurðir. Þetta opnar hins vegar upp nýja veröld! Ég fór fyrst að njóta þess að elda og borða þegar ég kynntist heimi grænkerafæðis. 


Persónulegar ástæður: Ég er járnlítil, ég hef tilhneigingu til að þróa þráhyggju gagnvart mat, ég er í námi, ég er nýorðin ólétt o.s.frv. – 4 stjörnur

Auðvitað eru aðstæður okkar allra ólíkar. Sumar af þessum persónulegu ástæðum sem ég notaði voru augljóslega notaðar til að friða samviskuna mína, en aðrar voru þess eðlis að ég þurfti að taka tillit til þeirra. Þessi röksemdafærsla fær 4 stjörnur því hún tekur á ákveðnum núönsum sem eru nauðsynlegir og gífurlega mikilvægir þegar veganismi er ræddur; félagslegum og efnahagslegum aðstæðum fólks, heilsufari og andlegri líðan. Ef einhver á ekki fyrir salti í grautinn fer enginn að bögga viðkomandi með því spurja hvort það sé ekki pottþétt haframjólk í téðum graut. Það er munur á því að búa til afsökun til að fría sig ábyrgð og svo að finna sig í aðstæðum þar sem kröfur um þetta og hitt eru andstyggilegar og ómerkilegar. 


Það er erfitt/flókið að vera vegan – 1,5 stjarna

Þetta var vissulega rétt hjá mér og olli mér vandræðum fyrstu vikurnar og mánuðina í þessari vegferð minni. En ég læknaðist á augabragði þegar ég fékk ákveðna uppljómun. Um leið og ég hætti að horfa á sjálfa mig sem fórnarlambið í þessu öllu saman og fór að sjá dýrin sem bókstafleg fórnarlömb þess að ég borðaði þau, þá hvarf vandamálið með tíð og tíma. Nú flækist þetta ekkert fyrir mér. 


Forfeður okkar hefðu ekki komist af án dýraafurða – 0 stjörnur

Rétt staðhæfing. Hér áður fyrr var nauðsynlegt fyrir fólk að neyta dýraafurða til þess að komast af. Nú er öldin önnur, og dýraafurðir ónauðsynlegar. Þrátt fyrir það hefur aðbúnaður dýra versnað til muna um allan heim, framleiðslan aukist og ágangur iðnaðarins orðinn þvílíkur á náttúruna að hann spilar stóra rullu í loftlagsbreytingum. Við erum ekki forfeður okkar – heimurinn er breyttur, og við getum tekið ákvörðun um að breytast í takt við hann. Þannig að, þótt að þessi staðhæfing sé rétt þá á hún ekki við, og fær þess vegna enga stjörnu. Ég þarf ekki að borða dýraafurðir.


Hætt þú að yfirfæra þína siðferðiskennd yfir á mig – mínus 5 stjörnur

Þarna var ég komin á botninn í þessu rifrildi sem ég var í við sjálfa mig. Ég var farin að upplifa tilfinningar á borð við reiði, heift og pirring, en sé nú að þessar tilfinningar áttu sér rætur í sorg. Mér fannst mjög sárt að ég hefði rangt fyrir mér; að mér hefði verið talin trú um að það að drepa dýr væri eðlilegur hlutur, jafnvel til marks um að ég væri alvöru manneskja. Ég státaði mig af því að vinna í kjötborði með námi, skiljiði? Ég upplifði sorg því ég var sammála því að eitthvað sem ég tók þátt í á hverjum degi olli gífurlegri þjáningu. Og sorg vellur oft upp á yfirborðið í formi annarar tilfinningar, til að forðast það að upplifa sorgina. Eftir á að hyggja vildi ég að ég hefði haft þroskann til að horfast í augu við það að ég væri í afneitun. Fullkominni afneitun, bananar í eyrunum. Ekki týpan sem ég vil vera. Mínus fimm stjörnur.


Ég vil ekki vera leiðinleg – 2 stjörnur

Þegar ég var farin að sætta mig við það að ég væri að ljúga að sjálfri mér fór ég að benda á annað fólk. Ég vil ekki búa til auka vesen fyrir aðra, vil ekki draga að mér athygli, hvað á ég að segja ömmu minni? Þetta er vissulega góður punktur, og innsæi mitt rétt að því leyti að fólk er víst til að vera neikvætt í garð veganisma. Reynslan hefur síðan sýnt mér að þessar áhyggjur voru tilefnislausar að mestu. Nú vita allir sem ég þekki að ef þau ætla að bjóða mér í mat þá muni ég ekki borða dýraafurðir. Ef viðkomandi er ekki reiðubúinn til að koma til móts við þær óskir þá borða ég kartöflur og salat, hef gaman í matarboðinu og kem svo við í sjoppu á leiðinni heim. Velti því svo kannski fyrir mér af hverju í ósköpunum gestgjafinn hafi verið að bjóða mér í mat sem ég væri ekki að fara að borða, en staldra ekki lengi við þá hugsun og held áfram með lífið. 2 stjörnur, af því að það er rétt að fólk getur verið andstyggilegt við mann þegar maður er vegan, og það er erfitt.


Mér er sama um dýrin – 0 stjörnur

Skeytingarleysi er ómögulegt að rökræða. Þess vegna fá þessi rök 0 stjörnur, því allar rökræður þurfa að hætta þegar þau eru sett fram. Ég taldi sjálfri mér trú um að mér stæði á sama. Það var búið að sannfæra mig um að mér væri sama, með markaðssetningu og innrætingu frá barnsaldri. Dreitill hafði sungið fyrir mig að mjólk væri góð og Skoppa og Skrítla sögðu mér að kýrnar gæfu mér mjólkina. Og ég dró þessar heimildir ekki í efa fyrr en nýlega.

Ég hef aldrei verið neinn sérstakur dýravinur, ekkert frekar en hver annar, en það þýðir ekki að ég þekki ekki muninn á réttu og röngu. Tómlætið var bara hentugra, svo ég greip í það. Auðvitað vissi ég alltaf betur. Ég vissi að það er rangt að drepa. Að það er rangt að búa til líf til þess eins að taka það aftur, rangt að taka ákvarðanir um örlög milljarða vitiborinna einstaklinga. 


Við eigum nefnilega ekki tilkall til líkama dýra. Við eigum í raun ekki tilkall til neins nema okkar sjálfra. Við erum frjáls. Og ábyrgðin sem fylgir frelsinu skyldar okkur til að endurskoða siðferðisgildin okkar í sífellu og lifa í samræmi við þau. Það væri að minnsta kosti ágætis áramótaheit. 

Höfundur er ljóðskáld.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit