Ekki var hann Mikki refur ánægður með það þegar nýr samfélagssáttmáli var skrifaður í Hálsaskógi með reglunni „öll dýrin í skóginum eiga að vinir“. Þvert á móti þá raskaði þetta gjörsamlega mataræði hans enda hafði hann étið smádýrin með góðri lyst fram að þessari dramatísku lagabreytingu. Hann mótmælti önugur, en áttaði sig þó á því að lokum að hann gæti ekki staðið í vegi fyrir þessum samfélagslegu breytingum og haldið áfram sínum slóttugu háttum gagnvart hinum dýrunum. Þetta reyndist ekki bara vendipunktur í Hálsaskógi, heldur líka í lífi Mikka því hann nýtti að lokum slægð sína og snarræði með friðsamlegum hætti til að bjarga Bangsa litla – og fékk þar með uppreist æru.
Þetta ævintýri þekkja flestir Íslendingar vel. Í því býr sá sannleikur að þegar samfélög sammælast um tiltekin grunnlög geti valdamiklir einstaklingar ekki varnað því að þau lög taki gildi, þrátt fyrir að þau samræmist ekki fyllilega einkahagsmunum þeirra sjálfra.
Í tilteknu ástandi eru sögur og myndlíkingar stundum það eina sem getur fyllilega varpað ljósi á sannleikann. Við finnum fyrir einhvers konar sameiginlegum skilningi en náum ekki að orða hann með nógu afdráttarlausum hætti fyrr en við heyrum myndlíkingu, brandara eða annars konar tjáningu sem afhjúpar þennan sannleika.
Slíkur myndrænn vendipunktur átti sér stað þann 12. október 2020 þegar yfirvöld sendu út hreinsisveit til að háþrýstiþvo myndlistarverk af vegg við sjávarútvegsráðuneytið. Á veggnum stóð „HVAR ER NÝJA STJÓRNARSKRÁIN?“. Veggurinn hafði verið útkrotaður árum saman en þessa tilteknu spurningu þoldi valdið ekki. Viðbrögð borgara landsins við þessari aðgerð stjórnvalda voru í senn merkileg og falleg, því þúsundir notuðu tækifærið og skrifuðu undir kröfuna um nýju stjórnarskrána í kjölfar þessa atviks. Skilaboð fólksins mátti ef til vill túlka með eftirfarandi hætti: Þrátt fyrir almennt langlundargeð Íslendinga gagnvart fúski og spillingu í stjórnkerfum landsins þá skal það ekki líðast að hér sé beitt þöggunartilburðum í skjóli opinbers valds.
Þann 20. nóvember síðastliðinn var enn stærri vendipunktur í stjórnarskrármálinu. Á átta ára afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána voru Katrínu Jakobsdóttur afhentar 43.423 staðfestar undirskriftir kjósenda sem kröfðust þess að Alþingi myndi virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá stóðu fyrir undirskriftasöfnuninni og í textanum sem allar þessar þúsundir skrifuðu undir stóð meðal annars:
„Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og setur valdhöfum mörk en ekki öfugt. Við ætlum ekki að bíða í heilan áratug eftir að nýja stjórnarskráin taki gildi og því krefjumst við aðgerða strax!“
Fram að þessari stund höfðu sumir haldið því fram að stjórnarskrármálið væri hreinlega búið. Hið göfuga markmið um að setja þessu landi nýja og réttlátari stjórnarskrá í kjölfar efnahagshrunsins hefði hreinlega misheppnast. Nú er flestum sem betur fer ljóst að svo er ekki. Skoðanakönnun eftir skoðanakönnun sýnir að meirihluti landsmanna vill nýju stjórnarskrána. Og áfram heldur baráttan.
Það að Alþingi hafi ekki getu til þess að bera nýju stjórnarskrána upp til atkvæðis í þinginu er því miður til marks um að þingið okkar er vanhæft til þess að fjalla um málið. Enda er það skýr meginregla í opinberri stjórnsýslu að sá aðili eigi ekki að fjalla um mál, sem tengjast völdum og takmörkunum á völdum, hans sjálfs. Í slíku máli telst viðkomandi aðili einfaldlega vanhæfur. Þannig er málinu einmitt háttað varðandi Alþingi og nýju stjórnarskrána.
Það er flókið að krefja stjórnmálaflokka sem fá mikla styrki frá útgerðarfélögum um það að standa með auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem kveður á um það að þjóðin fái fullt verð fyrir hagnýtingu af auðlindum sínum. Það er líka erfitt fyrir stjórnmálaflokka sem hafa aukinn þingstyrk vegna misvægis atkvæða að setja inn reglu í stjórnarskrá um að öll atkvæði á landinu gildi jafnt. Það er þungbært fyrir stjórnmálafólk sem vill halda sínum sætum að samþykkja reglur um persónukjör sem gætu gjörbreytt landslaginu á þinginu. Og það er snúið fyrir ráðherra sem sitja líka á þingi og fara þannig bæði með lagasetningar- og framkvæmdavald að samþykkja reglu sem segir að ráðherrar hafi ekki atkvæðisrétt á þinginu. Það er svo óþægilegt fyrir Alþingi í heild sinni, sem fer nánast alfarið með lagasetningarvaldið í landinu, að setja inn reglu í stjórnarskrá um að 10 prósent kjósenda geti kallað umdeild lagafrumvörp í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enn óþægilegra er það fyrir þessa mikilvægu grundvallarstofnun okkar að setja inn reglu um að sami hluti kjósenda geti lagt fram frumvörp á þinginu. Umboðsmaður Alþingis hefur sagt að stjórnsýsla á Íslandi sé gegnsýrð af leyndarhyggju og auðvitað er það þungbært fyrir forsvarsmenn þessarar sömu stjórnsýslu að lögfesta reglu í stjórnarskrá sem kveður á um að stjórnsýsla landsins skuli vera opin og gegnsæ, með tilheyrandi breytingum á verklagi.
En á lokadögum þessa árs sem fer í sögubækur okkar sem „Mesta ömurð allra tíma“ langar mig ekki að þrasa. Mig langar frekar að tala um það hversu ótrúlega merkilegt og fallegt samfélag við eigum hér á þessari eyju í Norður-Atlantshafi. Við eigum enn djúp og sterk tengsl við hvort annað og við kunnum að standa saman þegar á reynir. Ég efast aldrei um það í eitt andartak að okkur muni að lokum takast að fá lögfesta nýju stjórnarskrána, einmitt vegna þessarar staðreyndar. Þeir eru nokkrir „Mikkarnir“ sem þurfa að átta sig á því að það borgar sig fyrir þá að lifa í sátt og samlyndi við samfélagið sitt og hætta þar með að standa í vegi fyrir því að þjóðarviljinn nái fram að ganga í þessu stóra máli. En þeim fer fækkandi trúi ég. Sú staðreynd að baráttan við þessa aðila taki tíma og þurfi að eiga sér nokkra vendipunkta er einfaldlega til marks um það hvað málið er mikilvægt fyrir heildarhagsmuni samfélagsins okkar.
Mikilvægasti vendipunktur ársins 2020 hvað varðar stjórnarskrármál þjóðarinnar er sá að á þessu ári þá opnuðust augu afar stórra hópa í samfélaginu okkar fyrir þeirri staðreynd að „þjóðin er stjórnarskrárgjafinn“. Vitundarvakning ungs fólks hvað þetta mál varðar mun hafa afgerandi áhrif á framvindu þess næstu árin. Framtíðin er björt.
Höfundur er formaður Stjórnarskrárfélagsins.