Nú er senn að baki árið 2020. Öll vitum við hvað einkenndi það og mótaði okkar líf.
Samdráttur í þjóðarframleiðslu, aukið atvinnuleysi og veiking krónunnar eru allt afleiðingar ástandsins sem varir og því viðfangsefni sem við okkur öllum blasa. Þar kemur sjávarútvegurinn meðal annars inn eða ætti í það minnsta að gera.
Þessi grunnatvinnugrein okkar og langstærsta einstaka auðlind gæti nefnilega spilað mun stærri rullu en hún gerir í raun. Á árinu jókst útflutningur starfa vegna vinnslu sjávarafurða frá landinu. Að sama skapi hefðu þjóðhagslegar tekjur okkar getað verið mun meiri af auðlindinni, hefðu samkeppnissjónarmið verið tryggð.
Árið 2020 ætti að vekja ráðamenn til umhugsunar um hlutverk sjávarútvegsins í íslenskum veruleika.
Samherji – Namibía
Upphaf ársins mótaðist mjög af umfjöllun og ákærum vegna starfsemi Samherja í Namibíu. Samherji og starfsmenn félagsins hafa síðan hlotið stöðu grunaðra. Namibíumálið fjallar meðal annars um mútur, undirverðlagningu og skattaundanskot Samherja.
Málið í heild sinni er álitshnekkir fyrir íslenskan sjávarútveg, hvort sem sekt verður sönnuð eður ei, enda er Samherji flaggskip Íslendinga þegar að sjávarútveginum kemur. Við Íslendingar höfum jafnframt á undanförnum árum barið okkur á brjóst þegar kemur að sjávarútvegi og talið okkur fyrirmynd annarra. Það sem að mínu viti ætti þó að standa upp úr umræðu þessari, er sú staðreynd að Namibíumálið gerðist ekki óvart. Málið er miklu frekar afleiðing af innrætingu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í íslensku sjávarútvegskerfi, sem er þar af leiðandi ekki til sérlegrar eftirbreytni. Líkindin með því sem Samherjamenn er grunaðir um í Namibíu eru nefnilega mikil með því sem á sér stað hér heima. Namibía er eins konar afleiðing af þróun sjávarútvegskerfis á Íslandi sem byggir á fákeppni, samkeppnisbrotalömum, fámenni landsins og veikri stefnumótun stjórnvalda.
Skýrsla um afleiðingar og aðdraganda bankahruns er liðlega 10 ára gömul. Síðan þá er búið að skrifa skýrslu um skýrsluna. Líkindin með aðdraganda bankahrunsins og þróuninni í íslenskum sjávarútvegi undanfarið eru umtalsverð. Skortur á eftirliti og traust á virkni kerfisins er nánast algjört.
Grásleppukvóti
Þegar þessi orð eru rituð í lok árs 2020 hefur sjávarútvegsráðherra náð að stofna til nokkurrar úlfúðar innan Landssambands smábátaeigenda. Innan LS takast annars vegar á öfl sem vilja kvótaúthlutun á grásleppu og hins vegar þeir sem vilja það ekki. Fyrirkomulag veiðanna hefur verið með þeim hætti að dögum hefur verið jafnt úthlutað milli landshluta og þess gætt að engin beri skarðan hlut frá borði. Þetta árið brást ráðuneytið þó í þessu hlutverki og mikill misbrestur varð á að jafnræðis væri gætt. Hvers vegna er ég hér að velta þessu upp? Jú, grásleppan er ein af örfáum tegundum við Íslandsstrendur sem enn syndir frjáls utan kvótakerfis. Þegar maður nú verður vitni að storminum í kringum þessa tilraun til kvótasetningar, áttar maður sig á því að maður hefur ítrekað á þessum árum sem maður hefur starfað við íslenskan sjávarútveg orðið vitni að svipuðum atburðum.
Kvótasetning byrjar ætíð með einhvers konar skorti, í þessu tilfelli tilbúnum skorti. Hlutaðeigandi sjómenn sjá sér þar af leiðandi tækifæri til verðmætaaukningar til skamms tíma með sölu eigna í kjölfar kvótasetningar og mögulega útleið úr greininni. Það sem á eftir fylgir er svo undantekningarlaust þróun í átt til fákeppni, neikvæð byggðaþróun og minnkandi jákvæð áhrif á þjóðarafkomu sökum markaðsbrestanna. Í ár nýttu um 200 bátar rétt til veiða á grásleppu og aflinn var um 5000 tonn. Ef grásleppan verður kvótasett má gera ráð fyrir því að bátum og störfum fækki um allt að 90% og að veiðar á henni muni ekki ná helmingi þess afla sem náðist í land þetta árið. Þessu til stuðnings þá var meðalafli þorsks við Ísland 30 árin áður en kvótakerfi var tekið upp 409 þúsund tonn per ár. Meðalafli þorsks við Ísland síðustu 30 ár eru 222 þúsund tonn per ár. Um fjölda báta í flota okkar þarf ekki að fjölyrða.
Strandveiðar og viðbótardagar
Strandveiðar eru önnur tegund veiða utan kvótakerfis. Veiðarnar eru stundaðar á sumrin með mjög takmörkuðum hætti. Einungis er veitt fjóra daga vikunnar auk þess sem veiðarnar eru takmarkaðar af hámarks dagsafla og takmörkuðu heildaraflamarki strandveiðiflotans. Um miðjan ágústmánuð lá fyrir að aflamark það sem ætlað var til veiðanna myndi ekki duga til loka mánaðarins. Myndaðist þá þrýstingur á ráðherra að bæta við nálægt 1000 tonnum til þess að forða atvinnuleysi hjá hópnum. Þessi sömu tonn höfðu fallið dauð niður árið áður þar sem afli náðist ekki það árið. Ákvörðun þessi hefði átt að vera auðveld enda góð leið til að minnka atvinnuleysi til skamms tíma og auka tekjur. Sú ákvörðun ráðherra að verða ekki við beiðni þessari kom aftur á móti ekki á óvart.
Útflutningur á óunnum afla
Hvernig hljómar það að sjávarútvegsþjóðin Ísland, tæknivæddasta sjávarútvegsþjóðin með flottasta fiskveiðistjórnunarkerfið og mesta sjálfsálitið, skuli flytja 50-55 þúsund tonn af fiski til vinnslu erlendis á einu ári? Hvernig má það vera að um 8% af verðmætasta stofninum okkar þorskinum sé þannig fyrir komið? Hvernig má það vera að aukning á þess lags útflutningi á þorski hafi aukist um 80% á milli áranna 2019 og 2020? Hvernig má það vera að til þess sé ekki horft á árinu 2020 að auka atvinnu hér heima tengda sjávarútvegi?
Hér verður ekki talað fyrir höftum. Sá sem þessa grein skrifar hefur fulla trú á frelsi í viðskiptum. Það skal þó sagt að til þess að ná markmiðum um aukinn þjóðarhag, byggðan á hagvexti, þarf að skoða kerfið okkar. Kerfið inniheldur hvata til útgerðarmanna sem geta unnið á móti þjóðarhag. Jafnframt skal bent á að fjöldi leiða er til hvata í átt að aukinni vinnslu og aukinni þjóðarframleiðslu. Gríðarlegur þjóðarhagur felst í því að mörkuð verði stefna til aukinnar virðissköpunar hér heima. Vörumerkið Ísland á að vera leiðarljós í þeirri stefnumótun sem einungis stjórnvöld geta leitt.
Samkeppnismál
Landsréttur kvað upp dóm í áfrýjuðu máli Mjólkursamsölunnar í mars á þessu ári, þar sem sekt MS var staðfest. Málið byggir á áliti Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2016 á þá leið að MS hefði með alvarlegum hætti brotið gegn banni í samkeppnislögum við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Málið hlaut ekki sérstaklega mikla umfjöllun í fjölmiðlum en er athyglisvert.
Sérstaklega er það þó athyglisvert í samhengi við sjávarútveginn en Samkeppniseftirlitið gaf árið 2012 út álit sem fjallar um lóðrétt samþætt útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki. Líkindin með þeim fyrirtækjum og samstæðu MS eru mikil og sérstaklega athyglisverð, sérstaklega í því einfalda ljósi sem varpa má á málið með því að SE talar um stærstu íslensku útgerðarfélögin sem lóðrétt samþætt fyrirtæki sem innifela hættu á innri undirverðlagningu. Á sama tíma tala þau sjálf um sig sem virðiskeðju sem sé órjúfanleg og óendanlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag. Fordæmi um slíkar keðjur í mannkynssögunni eru það mörg að fólk ætti að hrökkva við þegar slíkt er nefnt með jákvæðum formerkjum.
Nefnd um ljótu hliðar sjávarútvegsins
Í janúar 2019 skilaði Ríkisendurskoðun úttekt um Fiskistofu. Þar var bent á að Fiskistofa hefði ekki rækt hlutverk sitt við eftirlit með yfirráðum tengdra aðila. Við sem með sjávarútvegi fylgjumst vitum að þetta þýðir það að í íslenskum sjávarútvegi halda nú þrjár stærstu blokkirnar á fast að helmingi veiðiheimilda okkar. Nýjar tölur benda til þess að þessi tala sé allt að 43%. Ráðuneytið setti á stofn sérstaka verkefnastjórn í kjölfar úttektarinnar sem skyldi huga að þremur ljótum hliðum kerfisins; samþjöppun, brottkasti og brotum á reglum um vigtun. Tillögur sem verkefnastjórnin skilaði af sér á árinu eru svo veikar að einn af þremur mönnum í verkefnastjórninni skilaði sératkvæði um álitið. Þingmaðurinn Páll Magnússon hefur síðan komið fram með frumvarp um samþjöppun í sjávarútvegi. Páll lét af því tilefni hafa eftir sér í lok nóvember: „Með öðrum orðum það gengur ekki fyrir stórt fyrirtæki í sjávarútvegi, sem væri kannski komið upp undir þessi mörk, 12 prósent, að kaupa síðan 49 prósent í öðru stóru sjávarútvegsfyrirtæki án þess að sá hlutur teldist með þeim aflaheimildum sem fyrirtækið átti fyrir. Með öðrum orðum að koma í veg fyrir frekari samþjöppun.“
Ljóst er að stefnuleysi ríkir varðandi íslenskan sjávarútveg. Margir þingmenn telja að best sé að treysta útveginum fyrir auðlindinni, meðan aðrir sjá að svo er alls ekki.
Skaðabótamálið
Um páskahelgina birti Kristján Þór Júlíusson svar við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttir um bótakröfu útgerða vegna makrílúthlutunar. Þar kom fram að tilteknar útgerðir hafi sett fram skaðabótakröfu á íslenska ríkið. Skaðabótakrafan hljóðaði upp á rúma 10 milljarða. Síðan þá hafa mál þróast á þann veg að eitthvað hefur hljóðnað yfir kröfunni. Staðreynd málsins er þó sú að Hæstiréttur felldi dóm í málinu sem skaðabótamálið byggir á. Þar kom fram að þáverandi sjávarútvegsráðherra var óheimilt að úthluta makrílkvóta með þeim hætti sem hann gerði. Bótakrafan er því sterk og hlýtur að kalla á endurskoðun laga, sem snúa að grundvallarréttindum fiskveiðistjórnunarkerfisins.
Like
Fésbókin er af mörgum talin helsti vettvangur þjóðfélagsumræðu samtímans. Nú í lok árs bárust þaðan stórtíðindi. Kristján Þór Júlíusson hafði þar líkað við gagnrýna umfjöllun um rannsóknarvinnu og umfjöllun RÚV um Samherjamálið svokallaða. Samkvæmt skilgreiningum dómstóla þykir fullvíst að með því lýsi hann því yfir að hann sé sammála. Gagnrýnin umfjöllun um stærstu fyrirtæki landsins er óþolandi. Þetta minnir mig á lendingu mannsins á tunglinu.
Eitt lítið pikk fyrir mann á lyklaborð, ein risastór uppljóstrun fyrir heila sjávarútvegsþjóð.
Höfundur er formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.