Austurland – horft um öxl

Það er „fjarri öllu“ að sár hafi gróið um heilt á milli fólks á Austurlandi sem tókust á í aðdraganda og kjölfar Kárahnjúkavirkjunar, skrifar formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands. Samtökin fögnuðu fimmtíu ára afmæli árið 2020.

Auglýsing

Þegar litið er yfir árið 2020 má segja að það hafi verið óvenju viðburðaríkt í umhverfis- og náttúruverndarmálum á Austurlandi þrátt fyrir alla þá annmarka og hindranir sem að COVID-19 setti þeim sem stóðu að hvers kyns viðburðahaldi. Það sem bar hæst á árinu voru tímamót Náttúruverndarsamtaka Austurlands sem héldu upp á 50 ára afmæli sitt svo eftir var tekið. Þrátt fyrir samkomutakmarkanir og allra handa COVID-vanda tókst að standa fyrir viðamikilli afmælisútgáfu og góðri kynningu með glæsilegri aðkomu tímaritsins Glettings og ritstjóra Unnar Birnu Karlsdóttur.

Þá stóðu Náttúruverndarsamtökin jafnhliða fyrir óvenju glæsilegri ljósmyndasýningu, ásamt kvikmyndum og videoverkum í Menningarmiðstöðinni á Egilsstöðum (Sláturhúsinu). Sýningin var samstarfsverkefni Náttúruverndarsamtaka Austurlands, Landverndar og Ólafs Sveinssonar kvikmyndagerðarmanns og var vel sótt. Segja má að með bæði afmælisriti NAUST ásamt sýningunni hafi tekist að draga fram margt af því fegursta sem austfirsk náttúra hefur upp á bjóða bæði hvað varðar umhverfi og lífríki. 

Auglýsing

Að sama skapi voru helstu áskoranir Náttúruverndarsamtaka Austurlands allt frá stofnun samtakanna dregnar fram í dagsljósið og má segja að sýningin og afmælisritið hafi verið nokkurskonar uppgjör við Kárahnjúkavirkjun og þær deilur sem spruttu þar í kring, þótt margt annað áhugavert efni hafi auðvitað verið á dagskrá. 

Það var hinsvegar töluverð áskorun fyrir fulltrúa Náttúruverndarsamtaka Austurlands að draga jafnt stórt og umdeilt verkefni á ný fram í dagsljósið á Austurlandi með svo áberandi hætti sem gert var, enda fjarri öllu að sár hafi gróið um heilt á milli fólks á svæðinu sem tókust á í aðdraganda og kjölfar Kárahnjúkavirkjunar. Það sem náttúruverndarfólki hefur þó reyndar þótt margt um verra en særindi á milli fólks, eru sárin sem eftir standa í landinu, þau sár eru bæði djúp og breið og halda áfram að stækka t.d. með gríðarlegu rofi kringum Hálslón sem tekst líkast til aldrei að koma böndum á frekar en út með Lagarfljóti öllu til Héraðsflóa. 

Álverið við Reyðarfjörð. Mynd: Bára Huld Beck

Það hefði því verið góð afmælisgjöf ef helstu forkólfar Kárahnjúkavirkjunar hefðu stigið fram á þessu afmælisári Náttúruverndarsamtaka Austurlands og viðurkennt þau hörmulegu og óafturkræfu mistök sem gerð voru. Þá hefði verið örlítill mannsbragur af því einnig ef fulltrúar „AFLS fyrir Austurland“, félags stórvirkjanasinna á Austurlandi, hefðu séð sér það fært á afmælisári NAUST að biðjast velvirðingar á sérstaklega ósvífinni tilraun til yfirtöku á Náttúruverndarsamtökum Austurlands í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar.

En svo mikið er víst að uppgjör þetta var meitlað vel í stein í tengslum við afmæli NAUST á því ári sem nú er liðið. Framlag náttúruverndarsamtakanna með viðburðahaldi á árinu verður komandi kynslóðum vonandi víti til varnaðar um að ráðast aldrei aftur í slíkt hervirki gegn okkar einstöku náttúru.

Sýndarmennskusamkeppni

En þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið í stórvirkjanamálum á Austurlandi virðist því miður koma maður í manns stað sem neita að læra af mistökunum. Þrátt fyrir að stærsti aðdáendaklúbbur stórvirkjanasinna á Austurlandi hafi stórskaðað ímynd Austurlands með framgöngu sinni í aðdraganda og kjölfar Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði eru nýir sendiboðar og nú í nafni einkaframtaksins mættir í hérað þess albúnir að leggja restina af hálendi Austurlands að fótum sér með það að markmiði að sölsa undir sig okkar sameiginlegu auðlindir. Sem áður eru skotmörkin víðfeðm vatnasvið, fallvötnin af þeim og óspillt víðerni og engu skal eira í nafni orkugeirans nýja.

Jú, víst er það svo að einkaframtakið með erlendu ívafi er nú mætt af fullum krafti inn á íslenskan orkumarkað og eru þegar byrjaðir að að taka við keflinu frá þeim sem börðu sér hvað mest á bringu með yfirlýsingum að það þyrfti aldrei framar að virkja neitt á Austurlandi eftir að Hálslón var fyllt. Nú skal virkja undir formerkjum frjálsra viðskipta og ímyndaðrar samkeppni með orkuna og á grunni þess skal nú senda lausbeislaða spilagosa með opið skotleyfi á restina af Austurhálendi Íslands, allt á kostnað almennings og nærsamfélaga. Þær stórmannlegu yfirlýsingar um að aldrei þyrfti framar að virkja á Austurlandi  hafa því ekki staðist tímans tönn betur en svo að nú aðeins 15 árum eftir að Kárahnjúkavirkjun með aðliggjandi Hraunaveitu og langstærsta orkuver Íslandssögunnar telja menn viðeigandi að leggja upp í nýja aðför að hálendi Austurlands og segja að nú sé lokaorustan hafin um vatnsföllin okkar.

Þetta gerist á sama tíma og veruleg umframorka liggur í raforkukerfinu. Ástæðan er ekki síst að stóriðjan bæði hér á landi og víðast um Evrópu standur mjög höllum fæti með gegndarlausum taprekstri á síðustu árum. Þeim er því vart huguð framtíð og hafa dregið saman seglin. Stóriðjan bæði hérlendis sem og erlendis er því nánast komin að fótum fram og ýmsir hagspekingar spá því í nánustu framtíð að hvorki ísland eða aðrar evrópuþjóðir verði samkeppnishæf um vinnuafl í þessum efnum. Tækifæri Íslendinga með sína grænu umframorku sem mun liggja fyrir á næstu árum mun því ekki liggja í að gefa hana til stórmengandi iðnaðar heldur til þess að byggja undir sjálfbæra atvinnuskapandi framleiðslu á innanlandsmarkaði til hagsbóta fyrir þjóðina sjálfa.

Hraunasvæðið. Á kortinu má sjá staðsetningu þeirra virkjanahugmynda sem Orkustofnun hefur gefið út rannsóknarleyfi á sem og virkjanir sem þegar eru á svæðinu. Mynd: Náttúruverndarsamtök Austurlands

Þrátt fyrir yfirskin um frjáls viðskipti og samkeppni á orkumarkaði sér Orkustofnun um að útdeila rannsóknarheimildum til aðeins örfárra útvaldra án þess að orkufyrirtækjum á einkamarkaði séu sett nokkur mörk um hvað mikla hlutdeild þeir megi fá á þessum sýndarmennskumarkaði frjálsrar orkusölu.  Þessum þætti er einfaldlega þannig farið að aðeins örfá orkufyrirtæki á einkamarkaði hamstra nú sem aldrei fyrr rannsóknarleyfi nokkuð augljóslega sem milligönguaðilar fyrir erlend orkufyrirtæki sem hafa verið að fjárfesta í stórauknum mæli auðlindum okkar.  

Þessar orkulindir margar fara síðan beinlínis á færibandi frá Orkustofnun undir fölskum formerkjum smávirkjana beint í gin ljónsins. Farið er með rannsóknarleyfi nánast sem ígildi eignarréttar ef til virkjunar kemur. Að óbreyttu mun þessi þróun gefa íslenskum „smáorkukóngum“ fulla heimild áframsölu erlendra aðila og síðar samþjöppunar á eignarhaldi svona rétt eins og með aðrar auðlindir þjóðarinnar okkar sem við höfum misst úr höndunum. Hér er margt um líkt á ferðinni í orkugeiranum og þegar kemur að útgáfu fiskeldisleyfa þar sem milligönguaðilar hafa verið gerðir út til að hamstra leyfi fyrir hákarlana og svo má setja lagaumgjörðina eftir á þegar útvaldir hafa fengið magafylli.

Auglýsing

Það sem er allra verst í þessum nýja áhlaupi í stórvirkjanamálum er að Orkustofnun sjálf beitir almenning vísvitandi blekkingum undir fölskum formerkjum „smávirkjana“ sem eru virkjanir undir sem ná allt að 9,9 MW að stærð. Virkjanir af þeirri stærðargráðu eru nefnilega engar smávirkjanir eins og sýnt hefur verið fram á.  En nú standa íbúar á Austurlandi engu að síður frammi fyrir því að gera upp hug sinn og hvort þeir ætli enn og aftur að horfa fram hjá blekkingarleik sem allt samfélagið mun tapa á til framtíðar með stórkostlegu afsali á náttúruauðlindum okkar og nú til einkaaðila og erlendra orkufyrirtækja í framhaldinu. Samfélögin geta á móti margfaldað verðmæti þessara náttúruauðlinda í eigin þágu með því að friða restina af hálendi okkar á Austurlandi fyrir frekari ágangi innlendra og erlendra orkufyrirtækja, þessar lendur eru vel að merkja að verulegum hluta í ríkiseigu þ.e. í eigu þjóðarinnar, allra Íslendinga, rétt eins og Þingvellir sem við teljum sjálfsagt að horfa á og upplifa sem sameign þjóðar.  

Ruðst yfir sameiginlegar lendur

Náttúruverndarsamtök Austurlands komu restinni á hálendi Austurlands vel á dagskrá á liðnu ári í tengslum við afmæli samtakanna þar sem gat meðal annars á að líta fagrar fossaraðir, ósnortin víðerni ásamt flóru hraunasvæðisins og aðliggjandi jöklum Þrándar- og Hofsjökli. Allt þetta óraskaða vatnasvið hrauna með fjölbreyttri náttúrusmíð liggur einnig þvert yfir gamlar þjóðleiðir og menningarminjar. Þarna vill nú einkaframtakið í orkugeiranum ryðjast yfir okkar sameiginlegu lendur með stundargræðgina að vopni, allt þetta á silfurfati á kostnað samfélagsins. 

Á sama tíma leggjast málaliðar einkaframtaksins í orkugeiranum í ófyrirleitinn blaðaskrif, dreifandi falsfréttum og áróðri sem beint er gegn hvoru tveggja Hálendisþjóðgarði og upptöku á auðlindaákvæði í stjórnarskrá svo einmitt megi verja betur það sem þjóðin á sannarlega. Þessir hálendisþjófar öskra nú á torgum af því að það er verið að reyna að koma í veg fyrir að enn og aftur verði fáeinum spilagosum færðar auðlindir okkar á silfurfati án þess að þjóðin njóti sannarlegs arðs af þessum auðlindum og eða fá að upplifa þær með öðrum hætti en gernýtingarsinnar. Það er að minnsta kosti von mín að samfélagið á Austurlandi setji sig inn í mál og láti ekki bjóða sér meira af skoðanakúgun og yfirgangi þjófagengis sem veður nú um svæðið á skítugum skónum horfandi ofan í alla árfarvegi og lækjarsprænur með græðgisglampa í augum. 


Ár upplýsingaóreiðu

Á liðnu ári hefur upplýsingaóreiðan aldrei átt jafn mikið upp á pallborðið hér á landi og hefur fólk sem stendur á sama um náttúru landsins ekki farið varhluta af trumpistastílnum. Hvort heldur við ræðum upplýsingaóreiðu eða falsfréttir þá verðum við að horfast í augu við að þetta þjóðarmein er líkast komið til að vera í umræðunni og ekki hafa ákveðin stjórnmálaöfl heldur getað látið hjá líða að nýta þessa óábyrgu leið í þeirri von að koma höggi á andstæðinginn. Eitt er hins vegar að segja hispurslaust skoðun sína og vera ósammála, annað er að bera hreinlega uppspuna á torg fyrir almenning þegar verið er að fjalla um mjög stór þjóðþrifamál sem liggja meðal annars á borði alþingis. 

Auglýsing

Þessari upplýsingaóreiðu í umræðunni má segja að hafi fyrst verið beitt af alvöru í bæði opinberum fjölmiðlum sem og svo auðvitað á samfélagsmiðlum á síðasta vetri þegar óveður gekk yfir landið með tilheyrandi rafmagnstruflunum. Þá risu meðal annars nokkur pólitísk fyrirmenni sveitarfélaga úr sætum ásamt stöku alþingismönnum einnig og úthrópuðu bæði náttúruverndarfólk og áform um Hálendisþjóðgarð og settu málstaðinn fram án þess að hafa einn stafkrók nálægt því sem sannleikanum var samkvæmur. Reynt að nýta ástandið með því að spila á saklaust fólk strax í kjölfar óveðursins meðal annars til að reyna að telja almenningi trú um að það væri raforkuskortur í landinu og það yrði að virkja meira. Gjarnan var þá bætt við að það væri ekki verið hægt að virkja meira vegna þess að náttúruverndarfólk og áformaður hálendisþjóðgarður kæmu í veg fyrir það. 

Reynt var að siga almenningi með algjörlega innistæðulausu ásökunum gegn umhverfis- og náttúruverndarfólki í landinu og er ekki ofsagt að þarna hafi farið fram afar ósmekkleg aðför svo ekki sé meira sagt og falsfréttirnar höfðu sannarlega tímabundin áhrif. Það tók því nokkrar vikur að ná réttum upplýsingum í gegn þar til almenningur hafði áttað sig, þá drógu þeir sem komu falsfréttunum í loftið sig auðvitað í hlé. En þessar óreiðuupplýsingar sem spilað var miskunnarlaust með voru auðvitað einvörðungu settar í loftið til að koma höggi á ákveðna hópa í samfélaginu sem stendur ekki á sama um stöðu náttúruverndar í landinu. Þegar loksins skapaðist svigrúm fyrir staðreyndir og sannleika á móti öllum falsfréttunum þá eðli máls var hægt að upplýsa almenning um að það var auðvitað flutningskerfi raforku sem að hrundi í óveðrinu sem að sjálfsögðu engir hópar í samfélaginu höfðu við að athuga að yrði endurnýjað. Náttúruverndarfólk fagnar því einmitt að endurnýjun á raflínum í dreifikerfi sé bætt þar sem stór hluti línulagna fer nú í jörðu. 

Fossar á Hraunasvæðinu. Mynd: Aðsend

Allt falsfréttaliðið sem ekki hafði nennt að leggja það á sig að lesa sér til gagns komst sem sagt að því að það var ekki orkuskortur í landinu heldur einmitt hið gagnstæða, þar sem veruleg umframorka liggur nú á orkukerfinu sem er svo allt eins útlit fyrir að fari vaxandi m.a. ef stóriðjan gefur eftir hér eins og víðast út um Evrópu sem ekki er lengur samkeppnishæf meðal annars vegna dýrara vinnuafls. 


Hálendisþjóðgarður

Stærsta samfellda falsfréttahrinan sem staðið hefur yfir á árinu með tilheyrandi upplýsingaóreiðu á nær því öllum fréttaveitum sem smærri sérhagsmunahópar og einstakir pólitíkusar hafa náð til er hins vegar umræðan um Hálendisþjóðgarðinn og þar hafa Náttúruverndarsamtök Austurlands komið að borði eins og margir aðrir og ólíkir hagsmunaaðilar. Segja má að upplýsingaóreiðan og óráðshjalið út á fjölmiðlaflórunni hafi náð nýjum hæðum í þessum málum og allt ber þar að sama brunni en þar er markmiðið í stóru myndinni er sem áður fyrst og síðast af óreiðuöflunum að reyna að koma eins mikið af röngum upplýsingum til almennings og framast hefur verið kostur, fyrst og síðast með ásetningi að æsa upp í ýmsum hagsmunahópum og almenningi gegn sitjandi umhverfisráðherra. 

Allt frá upphafi máls hefur umhverfisráðherra hins vegar leitt málið áfram af yfirvegun og í upplýstu samtali við þjóðina og margvíslega hagsmunahópa og hann er enn að í þeim efnum. Ráðherra hefur brugðist við margvíslegum ábendingum og athugasemdum sem sést nú staður í frumvarpinu sem er enn til meðferðar í þinginu þar sem það er opið ennþá fyrir breytingum í sátt við meginmarkmið frumvarpsins. Það er algjört grundvallaratriði fyrir þessa þjóð að standa í lappirnar núna þegar hún á í fyrsta skipti kost á því að afmarka og tryggja auðlind þar sem eru dregin mörk öllum til hagsbóta og upplifunar til komandi framtíðar. Látum því ekki sérhagsmunina enn og aftur ná yfirráðum á því sem sannarlega þjóðin á sameiginlega.  

Að lokum

Náttúruvernd er þess eðlis að hún á sér engin landamæri, hún á sér sjálfstæðan rétt þar sem hún á að fá að lifa á sínum forsendum sem hægt er að koma við. Við sem byggjum þetta land eigum sameiginlega töluverðar friðlýstar lendur og gegnir þá engu hvaða landshluta þær tilheyra, þjóðareign er þjóðareign og við eigum því alltaf að láta okkur varða náttúruverndarmál hvar á landi sem þau bera niður. Þrátt fyrir að nú sé vegið sérstaklega að Austurlandi með áframhaldandi virkjanaáformum þá hyllir undir að svæði verði friðlýst á Austurlandi á næsta ári á vakt núverandi umhverfisráðherra en verkefnin eru til komin vegna átaksverkefnis sem ráðherra ákvað að ráðast í fyrir tveimur árum eða svo. 

Auglýsing

Þá stendur til að friðlýsa Stórurð undir Dyrfjöllum og Unaós samhliða. Þá er unnið að áformum um friðlýsingu Gerpissvæðisins. Segja má að í báðum þessum áformum liggi ekki einvörðungu mikilvægir þættir undir er varðar náttúruvernd heldur eru þessi svæði hvort um sig mjög ríkt af menningarminjum og líkast til er Gerpissvæðið enn ríkari af merkum menningarminjum heldur en náttúruminjum. Einn stærsti ávinningur margra friðlýstra svæða er einmitt þar sem hægt er að flétta saman náttúru- og menningarminjum en þannig hámörkum við upplifunarmöguleika þeirra sem vilja fræðast og kynnast þeim verðmætum sem við eigum í þessum efnum og styrkjum innviðina í leiðinni og aðdráttarafl inn á viðkomandi svæði.

Austurland í heild sinni býr ennþá yfir miklum möguleikum í umhverfis- náttúruverndarmálum og þá ekki síst gríðarlega merkum menningararfi sem svæðið hefur á að byggja.

Það er trú okkar og von að fleiri og fleiri sjái tækifærin sem felast í verndarsjónarmiðum og friðlýsingum á einstökum svæðum, en aðeins þannig tryggjum við okkar helstu og náttúruperlur okkar með ábyrgum hætti fyrir komandi kynslóðir til langrar framtíðar og þess vegna þurfum við að leggjast á eitt um að tryggja nýjum hálendisþjóðgarði gott og farsælt brautargengi fyrir okkur öll sem þjóð. Látum ekki stundargræðgi- eða skammtímasjónarmið blinda för okkar að markinu.

Verjum dýrmætt umhverfi náttúruauðlindir okkar fyrir frekari ágangi sérhagsmunaafla.

 Með jóla- og áramótakveðjum.

Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands og fyrrverandi oddviti í Djúpavogshreppi.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Sigurlaugsson og Sigmar Vilhjálmsson sitja báðir í undirbúningsnefnd hins nýja félags.
Unnið að stofnun nýrra hagsmunasamtaka lítilla og meðalstórra fyrirtækja
Atvinnufjélaginu er ætlað að vera málsvari fyrir hagsmuni einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Þörfin á slíkum samtökum atvinnurekenda er sögð mikil af hálfu stofnenda.
Kjarninn 16. september 2021
Tryggvi Rúnar Brynjarsson
Í Dal hinna föllnu
Kjarninn 16. september 2021
Sif Sigmarsdóttir
Hvernig viljum við lifa?
Kjarninn 16. september 2021
Arnhildur Hálfdánardóttir fékk fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í fyrra fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían. Hún er þar með síðasti handhafi þeirra verðlauna.
Hætta að veita fjölmiðlaverðlaun á degi íslenskrar náttúru
Algjör sprenging hefur orðið í umfjöllun fjölmiðla um loftslags- og umhverfismál og því telur umhverfis- og auðlindaráðuneytið ekki lengur þörf á að verðlauna miðla sérstaklega fyrir slíkan fréttaflutning.
Kjarninn 16. september 2021
Sif Konráðsdóttir
Áratugur Árósasamnings
Kjarninn 16. september 2021
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Framlög til barnabótakerfisins aukin og fleiri fá þær, en raunvirði bóta hefur lítið hækkað
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Katrínar Jakobsdóttur um að ríkisstjórn hennar hafi aukið við barnabótakerfið og tryggt að það nái til fleiri en það gerði fyrir fjórum árum síðan.
Kjarninn 15. september 2021
Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir.
Rúm 40 prósent vilja að Katrín verði áfram forsætisráðherra
Í niðurstöðum könnunar á vegum ÍSKOS kemur í ljós að langflestir vilja að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra. Athygli vekur að Bjarni Benediktsson nýtur minni stuðnings í embættið en Sjálfstæðisflokkurinn nýtur í könnunum.
Kjarninn 15. september 2021
Eyþór Eðvarðsson
Rétturinn til að deyja
Kjarninn 15. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit