Þetta er búið að vera ferlegt ár. En við vitum það öll og það er óþarfi að rifja það upp í heilli áramótagrein. Það er hollara og vænlegra til upplyftingar að horfa fram á veginn, skoða hvað verður, hvað gæti orðið og hvernig taka má höndum saman til að þoka málum réttan veg.
Látum þetta því nægja um árskrípið 2020.
En til hvers standa þá vonirnar fyrir árið 2021? Hver er staðan og hver eru verkefnin?
Ferðaþjónustan hefur árið 2021 í dróma. Nærri 30 þúsund manns fylla atvinnuleysisskrár eftir hátíðirnar, stærstur hlutinn úr ferðaþjónustu eða ferðaþjónustutengdum greinum. Samfélagið situr á botni efnahagskreppu sem á ekki sinn líka síðustu 100 ár, ef ekki lengur. Þetta er staðan.
Það hefur ýmislegt tekist betur en á horfðist, og á því má byggja. Síðastliðið vor horfðum við fram á að það væri raunveruleg hætta á að stór hluti ferðaþjónustufyrirtækja gæti orðið gjaldþrota áður en árinu lyki. Í dag er ljóst að samverkandi áhrif mótvægisaðgerða stjórnvalda, ötullar vinnu fyrirtækjanna við endurskipulagningu og hjálplegrar nálgunar ýmissa fjármálastofnana og kröfuhafa hafa skilað miklum árangri. Fjöldi fyrirtækja hefur því náð að sníða stakk eftir vexti til að þrauka harðindin fram á næsta sumar. Það mun skipta miklu máli til að ná sterkri spyrnu frá botninum – ekki bara fyrir ferðaþjónustuna heldur fyrir samfélagið allt.
En þrátt fyrir að betur hafi tekist en á horfðist að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja enn sem komið er þýðir það ekki að allt sé í sóma. Vandinn er gríðarlegur. Aðgerðir stjórnvalda hingað til hafa fyrst og fremst tekið á rekstrarvanda fyrirtækjanna, aðstoðað við að minnka kostnað og veitt fjármagni inn í þau með lánaleiðum og styrkjum. Það sem gerist hins vegar óhjákvæmilega er að rekstrarvandi breytist í skuldavanda. Það fyrsta sem gerist þegar lausafjárskortur skellur á og fyrirtæki verða tekjulaus mánuðum saman er að allir hætta að borga reikningana. Ofan á það bætast svo frestanir á sköttum og gjöldum, lánafrystingar og aukin lántaka til að brúa hina tekjulausu mánuði og svo framvegis. Afleiðingin af heilu ári í slíkum aðstæðum er stóraukin skuldsetning fyrirtækja sem mun taka nokkur ár að vinna úr. Og ofskuldsett fyrirtæki eru illa stæð til að keyra öfluga viðspyrnu.
Ferðamálastofa birti nýverið niðurstöður úr greiningu KPMG um fjárhagsstöðu ferðaþjónustufyrirtækja í árslok 2019 þar sem fram kemur að mikil fjárfesting í aukinni afkastagetu til að mæta vexti áranna á undan, harðnandi samkeppni og samdráttur í afkomu í kjölfar fækkunar ferðamanna hafi gert mörgum fyrirtækjum erfiðara um vik að standa undir skuldsetningu. Í greiningunni segir að í kjölfar tekjuhruns ársins 2020 sé ljóst að jafnvel tveir þriðju fyrirtækja í ferðaþjónustu hafi ósjálfbæra skuldastöðu.
Það er því ljóst að ef þessi staða er látin reka á reiðanum er mjög harkaleg aðlögun fram undan sem mun hafa mjög neikvæðar afleiðingar fyrir efnahagslega viðspyrnu þjóðarbúsins. Með öðrum orðum: Þó að gjaldþrot ferðaþjónustufyrirtækja á árinu 2020 séu færri en óttast var hefur vandinn ekki horfið eins og fyrir galdra, heldur flust yfir á næsta ár.
Hvernig komumst við aftur á beinu brautina?
Til að koma til móts við þá stöðu og tryggja efnahagslega viðspyrnu verða eigendur, lánveitendur og opinberir aðilar að koma að þeirri skuldaleiðréttingu sem er fram undan. Eftir efnahagsáfallið 2008 var unnið úr skuldastöðu fyrirtækja með skýrum leiðum þar sem opinberir aðilar, lánveitendur, eigendur og kröfuhafar unnu saman eftir ákveðnum leikreglum. Það er alger nauðsyn á því að allir þessir aðilar nálgist skuldaúrvinnslu ferðaþjónustufyrirtækja á sams konar hátt nú. En til þess þarf vilja og góða samvinnu aðila til að leggja upp skýrar leiðir sem leysa vandann.
Það er ekki skref í þá átt að sveitarfélög sem eiga lögvarðar fasteignaskattakröfur sem íþyngja nú fjölda tekjulausra ferðaþjónustufyrirtækja feli sig undir pilsfaldi lagagreina þegar leitað er eftir lausnum og greiðslufrestum til að hjálpa fyrirtækjum á þeirra svæðum að lifa af. Ég eggja því sveitarfélög til að vinna með okkur að lausnum sem geta frestað greiðslu fasteignaskatta án þess að sveitarfélög verði fyrir tekjutapi. Slíkar lausnir eru til og ráðuneyti sveitarstjórnarmála vinnur nú þegar að fyrsta skrefinu sem getur gert þær mögulegar.
Hér þurfa allir aðilar að koma að málum því að á endanum snýst þetta allt um að koma atvinnulausu fólki aftur í vinnu, koma fyrirtækjunum aftur í gang, búa aftur til verðmæti til að greiða laun, kaupa vörur, lækka skuldir, koma virðisaukakeðju samfélagsins aftur í eðlilegan gang. Ýmsir greiningaraðilar hafa bent á það undanfarna mánuði að sú viðspyrna byggir á því að ferðaþjónustan taki hressilega og hratt við sér. Án þess verði efnahagsbatinn hægur og samfélagslegu vandamálin sem fylgja viðvarandi kreppuástandi og langvarandi atvinnuleysi fleiri og dýrari fyrir samfélagið. Á því tapa allir.
Eina leiðin er að vaxa út úr vandanum
Á komandi mánuðum mun öll stjórnmálaumræða litast verulega af kosningaskjálfta. Í aðdraganda kosninga er enda eðlilegt að mismunandi stjórnmálaöfl setji fram stefnu sína til að aðgreina sig frá hinum. Það er jú nauðsynlegt til að við kjósendur getum valið hvaða stefnu við teljum vænlega til stýringar landinu næstu fjögur ár.
Í þeirri umræðu er nauðsynlegt að það sé á kristaltæru að eina leið samfélagsins út úr heimskreppunni er að vaxa út úr vandanum. Vöxtur og aukin verðmætasköpun er eina leiðin til að koma fólki aftur í vinnu. Það er aukin verðmætasköpun í atvinnulífinu sem skilar hærri fjárhæðum til samneyslunnar og byggir grunn að aukinni velferð í samfélaginu.
Stóru spurningar stjórnmálaumræðunnar í aðdraganda kosninga snúast því um það hvernig – ekki hvort, heldur hvernig – stjórnmálin ætla að ýta undir aukna verðmætasköpun í samfélaginu? Hvernig ætla stjórnmálin að sjá til þess að fyrirtæki geti ráðið starfsfólk í vinnu, sem flesta sem fyrst?
Staðreyndin er sú að rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi mun að óbreyttu vinna gegn hröðum og nauðsynlegum vexti á árinu 2021. Óbreytt rekstrarumhverfi fyrirtækja mun gera það að verkum að færri fyrirtæki munu geta ráðið fólk aftur í vinnu eins hratt og samfélagið þarf á að halda. Hvernig ætla stjórnmálamenn að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja og bæta samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar til að atvinnugreinin geti endurráðið fólk hraðar og aukið enn frekar streymi verðmæta inn í þjóðarbúið á ný? Það er stóra spurningin.
Nærri tvö þúsund fyrirtæki í ferðaþjónustu um allt land og þúsundir starfsfólks þeirra sem bíða þess að komast af atvinnuleysisbótum og íbúar sveitarfélaga um allt land sem bíða örlaga mikilvægustu atvinnuuppbyggingar síðustu áratuga þurfa skýr svör við þessari spurningu. Svör sem geta haft töluverð áhrif á það hvar krossinn lendir á kjörseðlinum í september. Viðspyrnan er nefnilega ekki bara orð. Hún er aðgerðir.
Engin staða er svo vond að ekki felist í henni tækifæri
Þrátt fyrir að óvissubreyturnar séu margar fram undan getum við leyft okkur svolitla bjartsýni. Stjórnvöld munu gefa út tilkynningu um nauðsynlegan fyrirsjáanleika varðandi sóttvarnir á landamærum inn í árið þann 15. janúar, sem er lykilatriði varðandi sölu- og markaðsstarf ferðaþjónustunnar fyrir næsta vor og sumar. Þróun og dreifing bóluefna hefur verið mun hraðari en á horfðist og líklega voru fáir sem trúðu því að byrjað yrði að bólusetja fólk fyrir áramótin. Það gefur aukna trú á framtíðina og það að hægt verði að ferðast um heiminn í sumar þó með einhverjum takmörkunum verði. Tækifæri okkar felast þess vegna í því að við tryggum að allt sé til reiðu. Að við tökum ákvarðanir sem ýta undir aukna samkeppnishæfni og tryggjum að ekkert hamli viðspyrnunni og efnahagslegum bata okkar megin. Takist það vel getur ýmislegt fallið með þeim sem eru vel undirbúin á árinu 2021.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.