Árið 2020 hefur fært okkur öllum nýjar áskoranir, matvælaframleiðsla á Íslandi hefur þar ekki verið undanskilin. Mikil vinna hefur verið unnin til að tryggja megi landsmönnum ferskan mat á diskinn daglega og sérstakur léttir varð í hjörtum margra okkar þegar Matvælaöryggisstofnun Evrópu gaf það út að veiran væri ekki matarborinn sjúkdómur.
Bændasamtök Íslands fóru í það að því að setja á fót viðbragðsteymi sem hafði það hlutverk að samhæfa aðgerðir bænda í samvinnu við sóttvarnaryfirvöld og Matvælastofnun. Einnig var sett á fót afleysingaþjónusta ef veikindi kæmu upp hjá bændum. Samhliða því var fylgst náið með því að engir hnökrar yrðu á afhendingu aðfanga til bænda. Þegar hráefnin fóru frá bændum til vinnslu var líka mikil áskorun að gæta þess að matvælafyrirtækin gætu haldið starfsemi sinni gangandi með öruggum hætti svo framleiðsla og afhending íslenskra matvæla stöðvaðist ekki. Það hafðist með góðu skipulagi og öflugum sóttvörum að lágmarka áhættuna á því að smit kæmi upp hjá starfsfólki sem hefði getað haft í för með sér rof í rekstri og jafnvel framleiðslustöðvun.
Áskoranir voru meðal annars ferðalög starfsmanna frá áhættusvæðum, breyting á vaktaskipulagi vegna sóttvarna, skipulagning keðju staðgengla ef upp kæmi smit og framkvæmd áætlunar um heimsfaraldur og órofin rekstur. Einnig varð að upplýsa starfsfólk á nokkrum tungumálum um hvað væri að gerast og hvernig þau þyrftu að bregðast við aðstæðum. Var þetta allt framkvæmt auk þess sem gríðarlega margar nýjungar í íslenskri matvælaframleiðslu voru settar á markað og fjárfest var í nýsköpun og frumkvöðlum.
En það er fleira sem hefur komið til á þessum COVID tímum sem hefur valdið auknu álagi í matvælaframleiðslu og birgðastýringu. Neyslubreytingar og tilfærsla sölu frá mötuneytum og veitingastöðum til verslana hefur kallað á nýjar áskoranir og breytta vörusamsetningu, jafnvel aðrar umbúðir og breytta framleiðsluferla með tilheyrandi röskunum. Þetta hefur almennt gengið vel og ekki hafa komið til að tafir á flutningi afurða frá bændum til vinnslu né vöruskortur í verslunum af þessum sökum. Þetta var þó ekki sjálfgefið og víða annarstaðar í heiminum hefur árið gengið verr.
Í Evrópu og Bandaríkjunum varð á mörgum stöðum að loka vinnslustöðum þá sérstaklega sláturhúsum og kjötvinnslum vegna hópsmita. Helsta ástæða þess var nánd starfsmanna við vinnu, lélegar sóttvarnir og tungumálaerfiðleikar. Þetta leiddi til þess að víða varð vöruskortur í búðum og gripir söfnuðust upp hjá bændum með tilheyrandi vandamálum og áskorunum. Við getum því hrósað happi yfir hversu vel tókst til hér á landi og að ekki hafi orðið brestir í vinnslu né dreifingu hingað til. Tekist hefur að halda virðiskeðjunni gangandi „Frá haga í maga“. Því ber að þakka öllu því góða starfsfólki sem vinnur við matvælaframleiðslu hér á landi. Útsjónarsemi, sveigjanleiki og staðfesta þeirra við að leysa málin við erfiðar aðstæður eru til fyrirmyndar.
Það verkefni sem upp kom og mun fylgja okkur áfram er það ójafnvægi á alþjóðlegum markaði sem hefur skapast vegna COVID. Mikil tregða er á sölu landbúnaðarafurða í Evrópu vegna faraldursins sem hefur orðið til þess að gríðarlegar alþjóðlegar birgðir hafa safnast upp með tilheyrandi verðfalli til framleiðanda Þetta er hluti af alþjóðlegu vandamáli sem bændur og matvælaframleiðendur hafa víða lent í, meðal annars vegna flutninga yfir landamæri og óseldra vara sem komast ekki í sölu vegna COVID. Viðbrögð Evrópusambandsins við vandanum hafa meðal annars falist í stuðningi vegna kostnaðar vegna birgðahalds í kjölfar tímabundins ójafnvægis á markaði og fjárstyrkjum og lánum til bænda. Einnig voru veittar frekari undanþágur en fyrir voru frá evrópskum samkeppnislögum. Þessi stuðningur ríkja/ríkjasambanda er ekki einsdæmi.
Nú þegar við erum farin að sjá fram úr kófinu er nauðsynlegt að horfa til framtíðar, en jafnframt skoða hvaða lærdóm við getum dregið af síðustu tíu mánuðum. Þessi faraldur hefur sýnt okkur hversu mikilvæg innlend matvælaframleiðsla er og hversu mikilvægt það er hverri þjóð að vera sem mest sjálfbær, sérstaklega þegar kemur að mat. Það má ekki gleymast að þetta er ekki fyrsta farsóttin sem herjað hefur á heiminn og því miður er líklegt að þetta sé ekki sú síðasta.
Höfundur er kúabóndi Káraneskoti og formaður Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði.