Það var mikið talað um andlegt heilsufar landans í COVID. Í beinu samhengi var mikið rætt um hvenær foreldrar fengu að senda krakkana sína í skóla aftur. Umræða um hvenær menntaskólanemar fóru aftur í skóla kom líka, þó snerist umræða um okkur mestmegnis um aukið brottfall vegna fjarnáms og hríðversnandi samskipta foreldra og ungmenna. Ég vil ekki vera of gagnrýnin á þær ákvarðanir sem teknar voru vegna COVID, en ég vil benda á að notkun 5-7 mismunandi samskiptaforrita til þess að miðla námsgögnum hafi verið góð lífslexía ef framtíðarstarf mitt verður hjá Martröð Kafka ehf.
Voru menntaskólanemar svívirtir af hinu opinbera í COVID? Líklegast ekki meira en á venjulegu skólaári. Menntaskólaneminn og staða hans fellur í Sérkennisdal samfélagsins (e. Uncanny Valley), þar sem við erum ekki nógu mikil börn né nógu fullorðin til þess að stjórnmálamenn ræði um hve annt þeim er um hagsmuni okkar. Umræður um menntaskólanema snýst þar af leiðandi oft um hve mikið áhyggjuefni ungdómurinn er, hvort sem það er vegna aukins brottfalls stráka í skólum, skortur á konum í iðngreinum eða orkudrykkjaþambs, og áhrif þess á samkeppnishæfni Íslands í framtíðinni, ríkiskostnað og álag á heilbrigðiskerfið þar sem unglingar eru allir að verða latir dópistar sem enginn botnar neitt í.
Það kemur fyrir að ég gleymi skilaverkefnum heima og segi að hundurinn hafi snætt á þeim. Rétt eins og ritgerðaskil gleymast getur komið fyrir að við gleymum einhverjum reglum eða lögum og lendum í veseni. Þá er rétt að benda á að viðmót valdhafa gagnvart menntaskólanemum hefur étið virðingu okkar gagnvart þeim upp til agna, þar sem þau pæla eiginlega ekkert í okkur nema til þess að gera okkur eitthvert ógagn.
Höfundur er nemi við Menntaskólann á Akureyri.