Mælskuklækir eru alls konar. Ein aðferð, sem jafnan er kennd við strámenn, er að afflytja málflutning andstæðings og tæta svo niður hinn afbakaða málstað. Önnur aðferð er að rugla saman aukaatriðum og aðalatriðum, láta minniháttar atriði sem styðja málstað málsflytjanda fá mikið vægi og mikla umfjöllun, fjalla um önnur og mikilvægari í aukasetningu eða bara alls ekki. Þriðja aðferðin er að vísa með almennum hætti til þess að málflutningur andstæðingsins stríði gegn alþekktum sannindum. Fjórða aðferðin er svo að endurtaka þvæluna nógu oft í þeirri von að hún verði að viðteknum sannindum.
Fyrrverandi kollegi minn beitir öllum þessum aðferðum óspart í deilu við mig og framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda þar sem m.a. er fjallað um hvort verndarstefna sé vond hugmynd sem kreppulausn. Kollegi minn segir framkvæmdastjórann m.a. tala fyrir tollfrjálsum og óheftum innflutningi á landbúnaðarafurðum. Framkvæmdastjórinn segir á hinn bóginn eftir að hafa lesið grein kollega míns: „Nú hef ég lesið mín eigin skrif aftur til að ganga úr skugga um hvort þar hafi verið um einhverja ósjálfráða skrift að ræða, en finn þessum fullyrðingum prófessorsins engan stað.“ Hér er flett ofan af þeirri aðferð kollega míns að afflytja og tæta svo niður hinn afflutta málstað.
Kollegi minn gerir sér mikinn mat úr því að flestar þjóðir leggi tolla eða aðrar innflutningshömlur á afurðir landbúnaðar. Hann lætur undir höfuð leggjast að nefna að frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafa þjóðir heims lagt ómælda vinnu í að lækka tolla og draga úr viðskiptahindrunum. Helsta fyrirstaða í þeirri vinnu hefur komið frá framleiðendum innanlands sem hafa átt misgóðan aðgang að ríkisstjórnum og þjóðþingum. Tollar sem falla undir samninga sem kenndir eru við GATT 1947 hafa fallið úr 25-40% í 2-3% að meðaltali á árabilinu frá 1947 til aldamótanna 2000. Enda er nú svo komið að tollatekjur eru aðeins um 0,4% af tekjum ríkissjóðs en voru 38% árið 1945.
Ætli þjóðir heims hefðu haldið þessum samningaapparötum gangandi ef það væri almennt hagfræðilega viðurkennt að tollar væru hagfræðileg nauðsyn? Gæti verið að sú staðreynd að tollum og innflutningstakmörkunum er enn beitt í landbúnaði eigi sér frekar skýringu í uppbyggingu kosningakerfa og vægi atkvæða eftir landshlutum í einstökum ríkjum? Getur verið að hér sé ekki um hagfræðilegt vandamál að ræða heldur stjórnmálalegt? Slít ég svo þessum ritþræði þó kollega mínum fyrrverandi sé vissulega frjálst að halda áfram að kynna færni sína í beitingu mælskuklækja.
Höfundur er prófessor í hagfræði.