Fyrir nokkrum mánuðum síðan kom einhver úr hljómsveitinni Elínu Helenu færandi hendi og gaf ritstjórn Kjarnans vínylplötu hljómsveitarinnar, Til þeirra er málið varðar. Það er átján laga plata, átta á A hlið en tíu á B hlið. Ég hafði beðið eftir þessari plötu með nokkurri eftivæntingu, en sökum anna gaf ég mér ekki tíma til þess að hlusta á hana vandlega fyrr en nýlega. Hér á eftir fylgir síðbúinn dómur um Til þeirra er málið varðar.
Djöfuls plebbar eru alls staðar
Það er best að draga sleggjuna upp strax og slengja stóra dómnum á borðið. Platan er stórkostleg. Elín Helena er illa falið leyndarmál í íslenskri rokksenu. Hún var tiltölulega vel falið leyndarmál, en með þessari plötu hefur bandið rifið sig úr leyndarhjúpnum og stendur eftir upprétt, eiginlega öskrandi á athygli. En það er ekki þar með sagt að hún muni fá það sem hún á skilið.
Hver ætlar að borga smjörið?
Elín Helena er kraftmikið rokkband, frumlegt og pönkskotið. Því er best lýst þannig. Í það minnsta í mínum huga. Það er einhver villimennska í gangi í lögunum. Samt er það þétt, og hljóðfæraleikurunum er dauðans alvara. Það er verið að nostra við að gera þetta villt. Rauður þráður í lífi Elínar Helenu í gegnum tíðina, hefur verið að gera fáa hluti vel, frekar en marga hluti sæmilega eða illa. Afköstin hafa verið í takt við það. Lítið efni komið út á löngum tíma, og bandið hefur sjaldan spilað á tónleikum, sé litið yfir feril sem spannar á annan áratug.
Lykkjuföll og göt geta ekki að sínu gert
Ég þekki meðlimi Elínar Helenu ekki neitt. Nema Skúla, trommara. Ég kannast við hann eftir að ég hitti hann í Kaupmannahöfn fyrir áratug ásamt öðrum meðlimum Bjórbandsins (Addi, Njörður, Böðvar), þar sem hann lemur húðir. Þá gaf hann mér stuttskífu Elínar Helenu, Skoðanir á útsölu, sælla minninga. Hún er fyrir löngu orðin að goðsagnarkenndri snilld, einna helst á heimasvæði bandsins, Suðurlandsundirlendinu. En verður kannski seint talin vera á fyrnefndum stalli fyrir utan þetta rómaðasta landbúnaðarsvæði landsins.
Til þeirra er málið varðar er fyrsta plata Elínar Helenu í fullri lengd. Eins og áður sagði er hún stórkostleg, og persónulega vona ég að bandið geri ekki þau mistök að koma annarri plötu út strax við fyrsta tækifæri. Það er öruggt, úr því sem komið er, að Elín Helena mun aldrei eignast neinn pening og því væri réttast hjá bandinu að æfa þessi sömu lög, aftur og aftur, og spila þau á vel völdum tónleikum. Og síðan einir í bústað, eða í æfingaaðstöðunni.
Ef eruð að spá í þessum samhengislausu millifyrirsögnum þá eru þær teknar úr villimannslegum textum af plötunni. Sú fyrsta úr Raunsærri rómantík, næsta úr laginu Einu sinni var og þriðja úr hinu frábæra Biluðum rennilás.
Til þeirra sem málið varðar ætti að vera jólagjöfin í ár, þó hún sé fyrir löngu komin út, en verður það aldrei. Hugsanlega selst hún betur fyrir fermingar næsta vors þegar vínyllinn verður búinn að rista sig inn í einhverja fermingarpakka á Suðurlandsundirlendinu.
https://www.youtube.com/watch?v=7Jx43TeLvUQ