„Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur,“ skrifaði séra Davíð Þór Jónsson á Facebook-síðu sína í vikunni.
Tilefnið var brottvísun tæplega 300 umsækjenda um alþjóðlega vernd sem vísa á úr landi á næstunni og tók presturinn fréttunum, eins og margir landsmenn, ekki vel. Hann kallar ríkisstjórnina „fasistastjórn VG“ í færslunni. Hann segir jafnframt að hún hafi ákveðið að „míga á“ barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og logið að hún hafi „lögfest“ sáttmálann á Íslandi. Davíð Þór áréttar í færslu sinni að í sáttmálanum komi skýrt fram að hann gildi um öll börn í lögsögu hvers ríkis – óháð því með hvaða hætti þau komu þangað.
„Þar er kveðið á um að allar ákvarðanir sem varði heill og hamingju barna beri að taka með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Samt á að senda fjölda barna úr langþráðu öryggi og skjóli hér á Íslandi, þvert á það sem þeim er fyrir bestu, til að hafast við í fullkomnu reiðuleysi á götum úti á Grikklandi, jafnvel þótt Flóttamannahjálp SÞ hafi af mannúðarástæðum lagst eindregið gegn því að fólk sé flutt þangað.
Til að bíta höfuðið af skömminni er málsvörnin fólgin í innihaldslausu froðusnakki um „heildstæða stefnumótun í málaflokknum” og því að væna formann Rauða krossins um lygar þegar hún lýsir ástandinu þar. Þetta er í beinni mótstöðu við það hvernig VG liðar töluðu um þessi mál þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Þinglið og ráðherrar VG eru ekki lengur bara meðsek um glæpi þessarar ríkisstjórnar gegn mannúð og góðu siðferði, þau eru einfaldlega sek eins og syndin. Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur,“ skrifar Davíð Þór, eins og áður segir, að lokum.
Prestar verði að haga málflutningi sínum málefnalega og meiða ekki með orðum
Ummæli prestsins hafa valdið fjaðrafoki í fjölmiðlum sem og í samfélagsumræðunni. Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands veitti meira að segja Davíð Þór formlegt tiltal vegna ummælanna.
Í yfirlýsingu frá Agnesi segir að skrif Davíðs Þórs hafi verið harkaleg og ósmekkleg. Agnes sjálf hefur gagnrýnt áform yfirvalda um fyrirhugaðar fjöldabrottvísanir hælisleitenda sem fest hafa rætur hér á landi en hún segir að prestar verði að haga málflutningi sínum málefnalega og meiða ekki með orðum.
Í yfirlýsingu Agnesar segir að málinu teljist nú lokið af hálfu biskups. „Eftir stendur sem meira máli skiptir ákall biskups Íslands um mannúð og mildi þegar kemur að málefnum hælisleitenda.“
„Verið að ala á hatursorðræðu í samfélaginu“
Orri Páll Jóhannsson þingmaður og þingflokksformaður VG fordæmdi skrif prestsins eftir að fjölmiðlar fjölluðu um þau.
„Með þessum ummælum er verið að ala á hatursorðræðu í samfélaginu sem er eitt stærsta mein okkar samtíma. Það er grafalvarlegt að þjóðkirkjan taki þátt í slíku,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið í vikunni.
Anna Lísa Björnsdóttir framkvæmdastjóri þingflokks VG tjáði sig um málið í stöðuuppfærslu á Facebook í gær en þar segir hún að „afmennskun í orðræðu“ sé hatursorðræða. Hún vísar í upphafsorð Jóhannesarguðspjallsins sem segir: „Í upphafi var orðið“ – en hún telur þau orð segja allt sem segja þarf, því orð séu til alls fyrst.
„Það er mjög mikilvægt í opinberri umræðu að við gerum okkur grein fyrir krafti sem fylgir orðum sem skilgreina aðrar manneskjur sem fasista, meindýr, sníkjudýr, sjúkdóma, óþverra, uppvakninga eða djöfla,“ skrifar hún og bætir því við að hatursorðræða gagnvart stjórnmálum og einstökum stjórnmálamönnum hafi raunverulegar afleiðingar.
„Við sem erum að vinna í stjórnmálum finnum það sjálf, á samfélagsmiðlum þar sem við fáum skilaboð, í kommentakerfum þar sem við lesum reglulega um viðurstyggilega spillta eða hættulega stjórnmálamenn eða sem eru ýmist undirlægjur, fullir af mannhatri og mannvonsku og standa jafnvel fyrir nýjum helförum, eða eru fasistar eins og sóknarprestur þjóðkirkjunnar orðar það í færslu í gær.“ Hún telur að þessar samlíkingar afmennski stjórnmálafólk og séu til þess fallnar að „heimila“ fólki að hugsa um og bregðast við þeim á ómannúðlegan hátt.
„Ef afmennskun og hatursorðræða fær að standa óáreitt getur hún magnast, og að lokum leitt til ofbeldis, hún hefur þegar leitt til árásar á heimili stjórnmálamanns, árás sem var fordæmd af flestum stjórnmálaflokkum,“ segir hún og vitnar í orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þegar hún sagði að orðræða eða athafnir sem ýta undir ógn og ofbeldi gagnvart stjórnmálafólki, flokkum eða stofnunum væri atlaga að dýrmætu frelsi og lýðræði.
Anna Lísa bætir því við að það sé ekki þar með sagt að það eigi ekki að gagnrýna stjórnmálaflokka eða stjórnmálamenn. „Ég er ekki að biðjast undan málefnalegri umræðu þar sem fólk greinir á.
Það á að ræða pólitík, gagnrýna, koma með aðrar tillögur og láta stjórnmálamenn svara fyrir stefnu sína. Það er mikilvægt að gera – en einnig mikilvægt að geta gert án þess að afmennska,“ skrifar hún að lokum.
Sú hætta sem stafar af ákveðinni tjáningu er alþjóðlega viðurkennd
Eftir gagnrýni VG-liða er vert að velta fyrir sér hugtakinu hatursorðræða en á Vísindavefnum segir að „hatursræða“, eða „hate speech“ eins og það er á ensku, sé flókið hugtak og ekki sé til nein ein alþjóðlega viðurkennd skilgreining eða skilningur á því. Eigi að síður hafi þróunin orðið sú, með lögum, í dómaframkvæmd og í fræðiskrifum, að sá skaði og sú hætta, sem stafar af ákveðinni tjáningu, er alþjóðlega viðurkennd. Þannig hafi bæði á alþjóðlegum sem og svæðisbundnum vettvangi verið gerðar allmargar tilraunir til þess að taka á vandamálinu sem og að skilgreina hugtakið sjálft. Þrátt fyrir að flest ríki hafi sett lög sem banna tjáningu sem jafnast á við hatursræðu þá sé oft mikill munur á því sem skilgreint er sem brot á lögunum.
Fram kemur á Vísindavefnum að í tilmælum ráðherraráðs Evrópuráðsins sé að finna skilgreiningu á hatursræðu en þar segir meðal annars að hatursræða sé „öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, þar á meðal umburðarleysi sem er tjáð með herskárri/óvæginni þjóðræknisstefnu/þjóðernishyggju eða þjóðhverfum sjónarmiðum, mismunun og fjandskap gegn minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna“.
Þá er bent á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi einnig fjallað um hatursræðu án þess þó að skilgreina hana sérstaklega en hann hefur vísað til hennar sem „hvers konar tjáningar, munnlegrar eða skriflegrar, sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir hatur sem byggir á umburðarleysi (einnig vegna trúarbragða)“.
Að hvaða hóp beinist tjáningin?
Þegar við veltum fyrir okkur hugtakinu er ekki síst mikilvægt að athuga að hvaða hóp tjáningin beinist. Á Vísindavefnum segir að hatursræða á grundvelli kynþáttar eða trúarbragða ákveðinna hópa sé sá áróður sem almenningur verður mest var við en þetta séu langt í frá einu hóparnir sem verða fyrir aðkasti í orðum eða verki.
Þeir hópar samfélagsins sem hatursræða getur beinst að séu meðal annars fólk frá Afríku eða Asíu eða af afrískum eða asískum uppruna, samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og trans fólk, innflytjendur, ýmsir þjóðernishópar, trúarhópar, konur, börn, fólk með fötlun og aðrir minnihlutahópar samfélagsins. Það sé nokkuð misjafnt innan Evrópu hvaða hópa um ræðir en margir þeirra hafi sætt mismunun óralengi.
Í íslenskum lögum er hugtakið ekki beint notað en í almennum hegningarlögum segir þó: „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“
Forsætisráðherra skipar starfshóp gegn hatursorðræðu
Stjórnvöld virðast vera meðvituð um þróun hatursorðræðu á Íslandi en Kjarninn greindi frá því fyrr í vikunni að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG hefði ákveðið að skipa starfshóp gegn hatursorðræðu til að bregðast við vísbendingum um vaxandi hatursorðræðu í íslensku samfélagi. Meginhlutverk hópsins verður að skoða hvort stjórnvöld skuli setja fram heildstæða áætlun um samhæfðar aðgerðir stjórnvalda gegn hatursorðræðu.
Starfshópnum verður falið að gera tillögur um útfærslu á aðgerðum sem miða að því að vinna gegn hatursorðræðu í íslensku samfélagi, til dæmis í formi vitundavakningarherferðar eða annarra aðgerða. Samráð verður haft við hagsmunasamtök í vinnu starfshópsins.
Jafnframt verður unnið að því að ná fram samhæfðum aðgerðum gegn hatursorðræðu, meðal annars vegna kynþáttar, litarháttar, þjóðernis, kynhneigðar og kynvitundar, með heildstæðri nálgun. Slíkt er talið mikilvægt til að stuðla að virkri þátttöku allra í íslensku samfélagi, og að allir geti notið eigin atorku, þroskað hæfileika sína og notið sama athafna- og tjáningarfrelsis og frelsis til heilbrigðs lífs og aðrir.
„Rétt skal vera rétt“
Fólkið sem verður fyrir hatursorðræðu vegna kynþáttar, litarháttar, þjóðernis, kynhneigðar og kynvitundar er best til þess fallið að útskýra hvernig hún virkar. Lenya Rún Taha Karim varaþingmaður Pírata hefur til að mynda sagt frá því opinberlega að hún hafi orðið fyrir hatursorðræðu á netinu vegna uppruna síns og útskýrt hvaða afleiðingar það hefur haft á hana. Hún lýsti þessu vel í samtali við Kjarnann um miðjan apríl síðastliðinn.
„Þetta hrúgast inn alltaf þegar ég er í fréttum. Fyrst um sinn þá leiddi ég þetta hjá mér. Ég opnaði umræðuna og allt það en þetta skar mig ekki of djúpt. En svo varð þetta svo ótrúlega mikið. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa tilfinningunni, ég fann sjálfa mig vera að leka niður, ég gat ekki meir,“ sagði hún meðal annars við Kjarnann.
Hún tjáði sig um viðbrögð Orra Páls við orðum Davíðs Þórs í vikunni á Twitter en þar segir hún: „Ja núna er þetta hatursorðræða sem fólk vill taka alvarlega“ og bætir því við í annarri færslu að hún túlki fyrrnefnd hegningarlög þannig að ummæli Davíðs Þórs falli ekki þar undir. „Hins vegar eru fullt af ummælum sem hafa verið beind að fólki sem eru múslimar, brúnir, svartir o.s.frv. sem hafa ekki verið túlkuð þeim brotaþolum í hag. Þetta er kalt lagalegt mat, ekki pólitískt. Rétt skal vera rétt,“ skrifar hún.
Fruntalega fram sett skoðun er ekki hatursorðræða
Já, hatursorðræðu ber að taka alvarlega enda hefur hún hræðilegar afleiðingar fyrir fólkið eða hópana sem hún beinist að. Þannig ber að fagna skipun starfshóps forsætisráðherra gegn hatursorðræðu og það verður áhugavert að sjá hver útkoman verður hjá honum.
Hins vegar ber einnig að misnota ekki hugtakið og níðast á því eins og sumir VG-liðar hafa gert í vikunni vegna orða Davíðs Þórs. Auðvitað er hægt að vera ósammála prestinum og líta á orð hans sem dónaleg eða ósanngjörn – svívirðilega ruddaleg jafnvel. Allir hafa þann rétt að vera ósammála honum, enda búum við í samfélagi sem tekur tjáningarfrelsi alvarlega og reyndar svo alvarlega að það er í raun grundvöllur lýðræðis okkar.
Að því sögðu er mikilvægt þegar stjórnmálamenn tjá sig að nota hugtök rétt. Að kalla stjórnvöld fasísk er ekki hatursorðræða. Það er gildismat prestsins og hans skoðun – hvað sem okkur hinum þykir um sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar.
Það að þinglið og ráðherrar VG séu ekki lengur „bara meðsek um glæpi þessarar ríkisstjórnar gegn mannúð og góðu siðferði“ heldur séu þau „einfaldlega sek eins og syndin“ er heldur ekki hatursorðræða. Skoðun hans á stjórnmálaflokknum byggir á hans gildismati og það væri langt seilst að kalla Vinstri græn minnihlutahóp – og auðvitað ótækt.
Að segja að það sé „sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur“ er að endingu ekki hatursorðræða. Kannski kann einhverjum að þykja orð Davíðs Þórs um helvíti vega þyngra embættis hans vegna – hann hefur jú meiri þekkingu en gengur og gerist á staðarháttum í helvíti vegna þess. Líklegra er þó að presturinn sé að nota líkingamál til þess að gefa skoðun sinni vigt í ljósi alvarleika málsins sem um ræðir – þ.e. þá staðreynd að til stendur að vísa stærsta hóp umsækjenda um alþjóðlega vernd í Íslandssögunni úr landi á einu bretti. Þessi líking er mat hans og skoðun á stjórnmálaflokki sem er í ríkisstjórn og með formanninn í valdamesta embættinu þar innan borðs.
Við þurfum ekki að meta sannleiksgildi orða Davíðs Þórs til að taka afstöðu með réttri hugtakanotkun. Við getum verið á sama máli og hann eða fullkomlega ósammála – og jafnvel hneykslast á honum fyrir ruddaskapinn. En það sem við getum ekki gert er að láta gengisfella hugtakið hatursorðræða með þeim hætti sem hefur verið gert. Það er engum til heilla – og sérstaklega ekki þeim sem raunverulega verða fyrir slíkri orðræðu.