Fyrir tæplega fimmtíu árum gaf dr. Seuss út barnabókina Lóraxinn sem lýsir einhverju langlífasta og vandmeðfarnasta vandamáli okkar tíma: samgæðaharmleiknum.
Lóraxinn fjallar um ungan athafnamann, Einsler að nafni. Einsler er ósköp venjulegur athafnamaður sem reynir allt sem hann getur til að auðga sjálfan sig. Einn daginn rambar Einsler í leit að viðskiptatækifærum á eitthvað sem hann hafði aldrei séð áður: þéttan skóg, uppfullan af trufflutrjám – eins langt og augað eygði. Trén voru undurfögur. Með langan grannan stofn og þykkan litríkan dúsk á toppnum. Dúskurinn var mjúkur sem silki og ilmaði ómótstæðilega. Trén voru vagga alls lífs í skóginum. Sérstaklega voru litlu loðnu barbalútarnir háðir ávöxtum trésins sem fæðu.
Einsler sá strax að það var hægt að græða á dúski trufflutrjánna. Því kom hann sér upp vinnubúðum og hjó sitt fyrsta trufflutré. Úr dúsknum saumaði hann svo fínasta þníd, hvað sem það nú er. Um leið og hann var búinn að sauma þnídið var viðskiptavinur mættur og borgaði Einsler ríkulega fyrir það.
Með peninga í augunum hringdi Einsler í alla vini sína og vandamenn. Hann sagði þeim að koma, hér væri vinnu að fá. Vinirnir komu, hjuggu tré og saumuðu þníd, nótt sem nýtan dag. En það var sama hversu mikið þeir framleiddu, þnídið seldist jafnharðan upp. Einsler tók því upp á því að búa til vél. Vélin hjó fjögur tré í einu höggi og komst að trjám á afskekktum stöðum. Fyrirtækið blómstraði. Skógurinn þjáðist en enginn sagði neitt. Nema reyndar talsmaður trjánna, Lóraxinn, en á hann var ekki hlustað. Á endanum hjó vélin síðasta tré skógarins. Ekkert stóð eftir nema veraldlegur auður Einslers. Barbalútarnir voru horfnir og í menguðum stöðuvötnum var enga humm-fiska lengur að finna. Græðgi Einslers hafði gert hann ríkan en rústað skóginum og því lífi sem þar þreifst.
Ein leiðin sem Lóraxinn hefði getað farið var að setja á stofn umhverfisráðuneyti. Í gegnum það hefði Lóraxinn svo getað mælt hvaða magn trufflutrjáa mátti höggva, án þess að það kæmi óþarflega mikið niður á öðrum íbúum skógarins. Til þess að það gengi upp þyrfti Lóraxinn auðvitað að koma upp dómstólum, setja á fót lögreglu og byggja fangelsi, í þeim tilgangi að halda Einsler heiðarlegum.
Önnur lausnin hefði einfaldlega falið það í sér að afhenda Einsler eignaréttinn á trjánum í skóginum. Rétt eins og í fyrra dæminu þyrfti Lóraxinn líka að koma á fót stofnunum – eins og dómstóla og lögreglu – sem gætu varið Einsler fyrir þjófnaði og dregið þá sem nýta sér auðlindina án hans leyfis til ábyrgðar. Slík stefna kæmi til með að breyta hvötum Einsler og þegar hvatar breytast breytast athafnir um leið.
Þegar allir höfðu sama rétt til skógarhöggs reyndi Einsler að höggva trén eins fljótt og hann gat til að verða fyrri til ef annar frumkvöðull kynni að finna skóginn og hefði þá getað keppt um trufflutrén. Því meira sem nýi frumkvöðullinn felldi þeim mun minna gæti Einsler fellt. En ef Einsler hefði ekki þurft að óttast samkeppnina væri best fyrir hann að viðhalda skóginum svo hann gæti framleitt og selt þníd og grætt á því til dauðadags. Á endurnýjanlegan, vistvænan máta. Þessi greining kemur reyndar ekki fyrir í bókinni svo skýrt, en ef Einsler var að reyna að hámarka gróða sinn af þnídi er líklegt að tilhugsunin um að einhver annar myndi hefja skógarhögg hafi drifið áfram hegðun hans [2].
Úti um allan heim hefur illa skilgreindur eignaréttur valdið tómum vandræðum. Ef of fáir hafa of litla hagsmuni af því að vernda auðlindir verndum við minna en ákjósanlegt er. Ameríski vísundurinn er gott dæmi. Rétt eins og trufflutrén var vísundur eitt sinn sérstaklega eftirsóttur í Ameríku. Á 19. öld reikuðu milljónir vísunda um sléttur Norður-Ameríku. Eftir stöðugar veiðar næstu hundrað árin stóðu bara nokkur hundruð dýr eftir. Í lok 19. aldar tóku einhverjir bændur sig til og „eignuðu“ sér nokkra vísunda. Eftir að þeir eignuðust réttinn á sínum vísundum, breyttust hvatar bændanna. Nú áttu frumkvöðlar í vísundageiranum ekki lengur í kappi um hver gæti kálað vísundum á undan samkeppninni heldur var betra að rækta vísunda og slátra svo bara hluta dýranna sem fæddust. Vissulega er vísundastofninn aðeins skorpan af sextán tommu Pizza 67-pizzunni sem hann var, en eignarrétturinn gerði samt það að verkum að í dag er þetta stórfenglega dýr ekki lengur í útrýmingarhættu.
Punktar höfundar
[1] Augljóslega er einnig hægt að banna nýtingu trufflutrjáa. Það myndi að sjálfsögðu geta verndað þau frá ofnýtingu. En þar sem það er skýrt í bók dr. Seuss að eftirspurn og greiðsluvilji er fyrir þnídi er þníd greinilega einhvers virði. Því væri það aðeins sanngjarnt að leyfa einhverja nýtingu þess.
[2] Reyndar má líka túlka hegðun Einslers í gegnum skammtímahugsun og breiðbogakósínus-núvirðingu (e. hyperbolic discounting). En við látum það eiga sig í bili.
Þessi pistill birtist upphaflega í nýútkominni bók höfundar, Eikonomics – hagfræði á mannamáli.