Það er þekkt taktík í mannkynssögunni að láta sér vaxa skegg þegar maður vill að fólk taki sig alvarlega. Jesús kristur gerði þetta með góðum árangri fyrir rúmum 2000 árum og þetta er enn í góðu gildi. Það er sérstaklega algengt að gamanleikarar geri þetta þegar kemur að því að reyna fyrir sér í dramatík; Jim Carrey, Steve Carrell, Ryan Reynolds, Gói. Robin Williams vann meira að segja Óskar fyrir skeggið sitt í Good Will Hunting. Trúðurinn er ekki jafn mikill trúður ef það er þykkt, ábúðarfullt skegg sem talar við mann. Og ef það er einhvern tímann tími til þess að reyna að sannfæra fólk um að maður sé ekki trúður þá er það núna.
Mér líður alltaf betur þegar ég hugsa um Bjarna Benediktsson sem tragíska fígúru. Erfðaprinsinn sem hafði alla heimsins möguleika en þurfti endalaust að takast á við vonbrigði örlaganna. Einhverskonar torfkofaútgáfa af Georgi fjórða, mínus þvagsýrugigtin. Fæðist með silfurskeið í munninum og gríðarlegum væntingum til framtíðar en hefur í raun ekkert áhuga á því að stjórna, heldur vill bara kaupa dýr málverk og halda geggjuð partí; á svo í sífellt meira krefjandi sambandi við föður sinn og verður að lokum svo mikill brandari að hann fæst varla til að sjást opinberlega. Ef maður býr til svona hlutverkaleik í huga sér vorkennir maður honum næstum, en það er samt hætt við að maður grafi undan raunveruleikanum í slíkum fabúleringum.
Raunveruleikinn er nefnilega sá að til þess að vera vorkunn í jafn mikilli forréttinda- og valdastöðu og Bjarni er í þyrfti hann að sýna einhverja auðmýkt, eða í það minnsta vott af ábyrgð. En eitt stærsta vandamál íslenskra stjórnmála er að hér er engin menning fyrir því að taka ábyrgð. Það er algjört tabú, fullkomin uppgjöf að viðurkenna að eitthvað hafi misfarist. Meira að segja þegar skandallinn verður svo stór að hann er óumflýjanlegur getur stjórnmálafólk ekki einu sinni sagt orðið upphátt; Hanna Birna sagði ekki af sér, hún steig til hliðar. Sigríður Á. Andersen steig bara aðeins til hliðar. Ég geri ráð fyrir því að þær séu bara búnar að vera í löngu sumarfríi og snúi til baka hvað úr hverju.
En Bjarni skilur ekki afhverju hann ætti að biðjast afsökunar, hann veit ekki hverju hann ætti að bera ábyrgð á. Þetta heppnaðist nefnilega allt fullkomlega. Allt þetta moldviðri er bara tilkomið vegna skorts íslensku þjóðarinnar á fjármálalæsi; hún kynnti sér bara útboðið ekki nægilega vel. Við erum bara ekki nógu hagfræðimenntuð til þess að sjá hversu fullkomlega frábær niðurstaða þetta var fyrir íslensku þjóðina. Ef bara ef við hefðum vitsmunina til að skilja og sjá. Það er ákveðin taktík að reyna að snúa umræðunni í rökræðu um form og tæknileg atriði, að vísa til útboðsgagna, að þetta hafi allt legið fyrir. En þetta er ekki rökræða um tæknileg atriði, þetta er samtal um hugmyndafræði. Salan á þessum hlut í Íslandsbanka var hugmyndafræðilegur gjörningur. Þarna var verið að taka gífurlega verðmæta eign þjóðarinnar, hluta hana í sundur og afhenda sérlega útvöldum einstaklingum hana á óþarflega lágu verði til þess eins að þessir einstaklingar gætu hagnast um hundruði milljóna. Hér erum við ekki að tala um jöfn tækifæri, eða frjálsan markað, heldur erum við að tala um að sérlega útvalinn hópur fékk þau forréttindi afhent frá ríkinu að mega hagnast fyrir það eitt að tilheyra réttum hópi, að vera útvalinn til þess að fá símtal. Svo er það narratífurinn að þetta sé sjálfsagt því þessir fjárfestar séu að taka á sig áhættu í viðskiptunum; hlutabréfin gætu jú lækkað jafn líklega og hækkað. En það er ekki eins og þetta sé eitthvað startup fyrirtæki sem er að búa til dating app fyrir hunda eða eitthvað, þetta er risavaxinn banki, ein grunnstoð alls fjármálakerfis landsins. Hver er raunveruleg áhætta hérna?
Það var ekkert verið að verðlauna djarfa áhættufjárfesta fyrir fífldirfsku sína. Það var verið að handvelja tiltekna einstaklinga til þess að fá ókeypis peninga. Það er hugmyndafræðilegur gjörningur, það er stéttagjörningur. Það er framleiðsla á auðstétt að afhenda fólki peninga fyrir það eitt að eiga peninga, eða hafa greiðan aðgang að ódýru lánsféi. Og þá erum við ekki einu sinni byrjuð að tala um að sölumennirnir sjálfir hafi verið að selja sjálfum sér ríkiseignir. Þá erum við heldur ekki einu sinni byrjuð að tala um að faðir fjármálaráðherra hafi fengið að kaupa í bankanum sem sonur hans var að selja; „Var honum bannað að kaupa?“ spurði Bjarni grautfúll á Sprengisandi um helgina þegar það var gengið á hann með þetta. Nei Bjarni, faðir fjármálaráðherra mátti ekki kaupa eigur ríkisins sem sonur hans fer með forráð yfir. Ef það er ekki ólöglegt, þá er það í það minnsta fullkomlega ósiðlegt.
Viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru eins og allir vita að taka Bankasýsluna, sem starfaði í umboði fjármálaráðherra og kasta henni beint undir rútuna. Árinni kennir illur ræðari og niðurstaðan er að draga þessa ár í fjölmiðla, halda langar ræður um hvað henni hafi mistekist að róa þessum báti og setja hana svo í kurlarann án þess að það sé búið að ákveða hvernig þessi bátur eigi að haggast eftir það. Ætli Bjarni ætli ekki að nota þessar risavöxnu hendur sínar sem utanborðsmótor. Það er næstum eins og ríkisstjórnin sé vanhæf til að rannsaka eigin vanhæfi.
Það versta við þetta er vanvirðingin sem allt þetta sýnir íslensku þjóðinni sem er enn trámatíseruð eftir einkavæðingu bankanna fyrir hrun og afleiðingum hennar. Það sýnir svo mikla vanvirðingu að gera þetta ekki almennilega. Ef það á að taka þessa hugmyndafræðilegu ákvörðun að selja mikilvæga innviði eins og ríkisbanka þá á að minnsta kosti að gera það þannig að sami klíkuskapurinn og sama hversdagslega vináttuspillingin sé ekki látin ráða. En það er eins og hugmyndafræði viðskiptalífsins ráði ekki við slíka hugsun. Og í grunninn er það Bjarni Benediktsson. Hann er viðskiptalífið holdi klætt.
Þess vegna er Bjarni Benediktsson vanhæfur. Það er ekki bara vanhæfi hans í framkvæmdinni á þessari sölu, það er vanhæfið sem fylgir því að hann sprettur upp úr viðskiptaheimi fyrirhrunsáranna. Stjórnarformennska í N1, Vafningsmálið, Borgunarmálið, Falson&Co. Sú staðreynd að hann seldi hlut sinn í Glitni á síðustu andartökunum áður en bankinn hrundi. Hann er vanhæfur því hann getur aldrei slitið sig frá þessari sögu sinni. Hann er vanhæfur því við munum aldrei geta treyst honum til þess að fara með eigur ríkisins af heilindum. Traust skiptir máli. Bjarni talar mikið um að við séum bara reið því okkur finnst eitthvað, að þetta sé bara upplifun en ekki raunveruleikinn. Það sem hann skilur ekki að upplifun er raunveruleikinn. Það sem okkur finnst er umboðið sem við veitum honum. Það er hornsteinn lýðræðisins.
En Bjarni ætlar ekki að fara neitt. Þrátt fyrir þessa endalausu röð skandala heldur hann alltaf áfram, nýjar ríkisstjórnir, ný ráðuneyti, nýir skandalar. Hann ætlar sér að vera eins og einhver stjórnmálamannaútgáfa af Sísýfosi; rúllandi sama spillingarsteininum upp sömu hæðina aftur og aftur, til þess eins að horfa á hann rúlla aftur niður til baka.
Franski tilvistarspekingurinn Albert Camus ritaði einu sinni: „Maður verður að ímynda sér Sísýfos hamingjusaman.“ Með því átti hann við að hamingjan sé ekki eitthvað endatakmark, heldur tilvistin sjálf; Sísýfos er ekki að reyna að koma steininum á neinn áfangastað, heldur nýtur hann þess bara að vinna gott dagsverk. Kannski finnur Bjarni einhverja tilvistarlega sælu í því að selja ríkiseignir til ríkra manna, svara fyrir endalausa röð eigin skandala og samflokksfólks síns og mæta grautfúll í sjónvarpsviðtöl. Kannski er það bara nóg fyrir hann.
En það væri samt óskandi að Bjarni myndi fara að gera eitthvað annað. Hann þarf nefnilega ekkert að standa í þessu. Hann gæti snúið aftur í viðskiptalífið sem ól hann, eða bara ekki. Hann er væntanlega löngu orðinn nægilega efnaður til þess að setjast í helgan stein. Hann gæti á morgun vaknað endurnærður og ráfað um gangana í risastóra húsinu sínu, dyttað að garðinum sínum, bakað, bónað bílana sína. Talið alla peningana sína eins og Jóakim Aðalönd.
Það væri óskandi því að við treystum honum ekki. Þetta er ekki tilfinning, þetta er staðreynd. Samkvæmt nýrri könnun Maskínu treystir 70% þjóðarinnar Bjarna illa eða mjög illa. Við munum aldrei treysta honum. Og fjármálaráðherra sem þjóðin treystir ekki en ætlar sér samt að selja enn fleiri eignir þjóðarinnar er ekki sætt. Þess vegna ætti hann að stíga til hliðar og drífa sig í ótímabundið sumarfrí.