Samantekt Hagstofunnar á hagvexti síðustu níu mánaða er áhyggjuefni. En tölurnar sýna hagvöxt fyrstu níu mánuði þessa árs rétt yfir núlli sem helgast af því að samdráttur var í efnahagslífinu á fyrsta og þriðja ársfjórðungi. Þessar tölur eru langt undir spám og bætast ofan á ófrið og óvissu sem þessi ríkisstjórn hefur skapað í okkar samfélagi síðastliðna 18 mánuði. Nú er því tímabært að staldra við og fara betur yfir það sem verið er að gera.
Ófriðurinn
Katrín Júlíusdóttir
Lækkun veiðigjalda og aflagning auðlegðarskatts er fjármagnað með hækkun virðisaukaskatts á matvæli, einnig á rafmagn og hita og menningu, hækkun sjúklingagjalda, aukinni greiðsluþátttöku notenda í heilbrigðiskerfinu og styttingu atvinnuleysisbótatímans svo nokkur dæmi séu tekin. Þetta eru dæmigerðar aðgerðir íslenskrar hægristjórnar, eiginlega svo dæmigerðar að það hefði verið hægt að skrifa handritið fyrirfram. Ég held að innst inni höfum við öll verið að vona að í þetta skiptið yrði þetta öðruvísi en því miður þá er ekki svo. Þegar byrðar eru færðar frá þeim sem mest hafa yfir á herðar millitekjuhópa og þeirra sem minnst hafa, þá kallar það á ófrið í samfélaginu. Afleiðingarnar sjáum við í fjölmennum mótmælum á Austurvelli og óróa á vinnumarkaði.
Gagnrýni svarað með hótfyndni
Hvernig datt Sigmundi og Bjarna það í hug að snjallt væri að hækka skatta á mat, hita og rafmagn í aðdraganda kjarasamninga? Hvað þá svona yfirleitt? Og hvað þá til að fjármagna ríkissjóð vegna lækkunar veiðigjalda og aflagningu auðlegðarskatts? Þetta mun leggjast þungt á þá tekjulægstu sem þurfa að nota hverja krónu í það allra nauðsynlegasta. Auk þess mun þessi skattahækkun éta upp ágóðann af skuldaleiðréttingunum hjá þeim sem þær fengu. En í þessum aðgerðum birtist forgangsröðunin og sýn Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna á samfélag sitt. Og reyni einhver að gagnrýna þessa sýn og þessa forgangsröðun mætir viðkomandi hótfyndni forsætisráðherra sem finnst það viðeigandi viðbrögð, sitjandi á aftasta bekk og gerandi grín að þeim sem ekki eru í „liðinu“ í stað þess að svara gagnrýninni með málefnalegum hætti.
Ófjármagnaðar skuldalækkanir úr ríkissjóði, ósamstaða um leiðir til afnáms fjármagnshafta, órói á vinnumarkaði og stefnuskortur í peningamálum eru meðal þeirra þátta sem eru að skapa mjög mikla óvissu í íslensku efnahagslífi.
Óvissan
Ófjármagnaðar skuldalækkanir úr ríkissjóði, ósamstaða um leiðir til afnáms fjármagnshafta, órói á vinnumarkaði og stefnuskortur í peningamálum eru meðal þeirra þátta sem eru að skapa mjög mikla óvissu í íslensku efnahagslífi. Það er orðið nokkuð ljóst að ósamstaða er millum stjórnarflokkanna um leiðir til afnáms fjármagnshafta og aðferðafræði við uppgjör þrotabúa föllnu bankanna. Á einu og hálfu ári hefur ríkisstjórninni ekkert miðað áfram og það eina sem heyrist þaðan er að menn séu nú komnir i hring og farnir að vinna aftur með þær sviðsmyndir sem lágu fyrir undir lok síðasta kjörtímabils. Þetta eitt og sér er nokkuð merkilegt í ljósi þess að Framsóknarmenn fóru mikinn gegn fráfarandi ríkisstjórn í þessu máli og gengu sumir svo langt að kalla þessa vinnu landráð í aðdraganda síðustu kosninga. Staðreyndin er hinsvegar sú að þessar sviðsmyndir hefðu getað skilað talsverðum ávinningi inn í íslenskt samfélag ásamt því að losa um fjármagnshöftin ef haldið hefði verið áfram þá. Þá er mikilvægt að minnast þess að sú samningsstaða sem uppi er varðandi uppgjör þrotabúanna er tilkomin vegna lagabreytingar sem gerð var í mars 2012, studd af þingmönnum Samfylkingar og VG, þar sem erlendu eignir búanna voru teknar inn undir fjármagnshöftin. Þá sátu Framsóknarmenn hjá og Sjálfstæðismenn kusu gegn þeirri breytingu. Gjörðir hafa því ekki með nokkru móti fylgt digurbarkalegum yfirlýsingum um vondu hrægammana.
Ríkisstjórnin og íslenska krónan
Okkur hefur miðað ágætlega frá haustdögunum eftirminnilegu árið 2008 þegar bankakerfið hrundi. En það var fleira sem hrundi; íslenska krónan sem féll með bönkunum. Sú gjaldmiðilskreppa sem þá skapaðist er óleyst og ekki eru uppi neinar hugmyndir hjá ríkisstjórninni hvernig það eigi að gera og hvaða stefnu eigi að reka takist mönnum að afnema höftin. Eina beina tillagan, og þar með eina stefnan, sem lögð hefur verið fram í þessum efnum er að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið í stað þess að halda áfram öllum möguleikum opnum. Það hefði lokað á evruleiðina næstu árin jafnvel áratuginn. Við höfum reynt allar leiðir til að reka okkar eigin mynt og niðurstaðan er sú að sá rekstur gengur ekki án mikils tilkostnaðar fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Er ekki fullreynt? Hversu mikið er hægt að leggja á íslensk heimili og fyrirtæki?
Heilbrigðiskerfið verður að vera í forgangi á komandi ári. Kjaradeilan milli ríkissins og lækna hefur staðið alltof lengi og gengið alltof langt.
Losun fjármagnshafta
Verkefni næsta árs liggja nokkuð ljós fyrir í hugum okkar Samfylkingarfólks. Til að hér geti þrifist þróttmikið atvinnulíf sem skilar sér í fjölbreyttum störfum þurfa fjármagnshöftin að fara. Því er það forgangsmál að afnema þau. Það er þó ekki sama hvernig það er gert því ekki viljum við að heimilin taki höggið. Lykillinn að því er að vitað sé hvað taki við. Hvernig peningastefna verði rekin hér í framhaldinu. Við höfum talað fyrir og unnið að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar. Það er ábyrgt að afnema höft samhliða því að hefja ferlið við upptöku evru. Þá erum við að reka þekkta peningastefnu og á leið inn í gjaldmiðil sem flest okkar viðskiptalönd nota og öll þekkja og treysta.
Heilbrigðiskerfi í forgang
Heilbrigðiskerfið verður að vera í forgangi á komandi ári. Kjaradeilan milli ríkissins og lækna hefur staðið alltof lengi og gengið alltof langt. Þá verðum við að hefja uppbyggingu kerfisins að nýju og þar byrjum við með því að hefja byggingu nýs Landsspítala og endurnýja tækjabúnað. Núverandi byggingar henta ekki nútíma heilbrigðiskerfi og getur hreinlega ekki hýst nýjasta tækjabúnaðinn á mörgum sviðum. Auk þess er gamla byggingin orðin lek og myglusveppur herjar þar á starfsfólk og sjúklinga. Til að halda heilbrigðiskerfi okkar í fremstu röð er það því orðið lykilatriði að bæta aðbúnað heilbrigðisstarfsfólks og tryggja þeim aðgang að bestu fáanlegu tækni.
Framtíðarsýn
Kjör þeirra sem minnst hafa og sífellt er verið að þrengja að eins og ég kom inn á í upphafi þessa pistils, þurfa að vera í sviðsljósinu á næsta ári. Við jafnaðarmenn munum verja næsta ári í það að berjast fyrir bættum kjörum þeirra ásamt því að berjast fyrir bættum kjörum barnafjölskyldna, námsmanna og ekki síst þeirra sem eiga afkomu sína undir hinu opinbera sökum aldurs eða örorku.
Við jafnaðarmenn viljum framtíð þar sem allir hafa í sig og á, geta lifað með reisn. Við viljum framtíð þar sem atvinnutækifærin eru fjölbreytt í frjálsu og opnu samfélagi. Við viljum framtíð þar sem tryggð eru réttindi allra til að vera þeir sem þeir eru. Við viljum framtíð þar sem allir geta menntað sig óháð aldri. Við viljum framtíð sem er laus við að sérhagsmunir sumra séu ráðandi. Við viljum framtíð fulla af réttlæti og náungakærleik.
Kæri lesandi, þér og þínum óska ég gleðilegs nýs árs um leið og ég þakka þér fyrir þitt framlag til þjóðarheimilisins á liðnu ári.
Höfundur er þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar.